þriðjudagur, nóvember 30, 2004

ég vona svo sannarlega að allir heimilismeðlimir komist heilir á húfi í gegnum daginn og enginn þurfi á læknishjálp að halda, enda er makinn þrítugur í dag. ég vona að þetta með óheppilegu stórafmælisdagana sé frekar undantekning en regla, en því munum við ekki komast að fyrr en þessi dagur er á enda runninn.
á næsta ári munum við svo halda uppá einstugsafmæli. er það stórafmæli eða smáafmæli?

í morgun sungum við mæðgin þrjú með kerti í fanginu fyrir ammlisbarnið bæði á spænsku og íslensku og við gáfum honum pakka.
aulabárðurinn ég keypti á hann skó sem reyndust of litlir. alveg gæti ég barið sjálfa mig í andlitið fyrir að vera svona mikill afmælispúper en þar sem mér þykir ósköp vænt um andlitið mitt mun ég samt sem áður sleppa barningnum. samt svekkt.

á spænsku er hægt að syngja þetta venjulega afmælislag sem allir virðast syngja amk í vestræna heiminum og flestir virðast syngja falskt. en á spænsku er líka hægt að syngja annað afmælislag sem mér finnst miklu fallegra og skemmtilegra og þar sem ég er í svo miklum hátíðarsköpum í dag ætla ég að láta það fylgja með í beinni þýðingu míns sjálfs. (hátíðarsköpin koma líka til af því að ég hef eytt morgninum í að jólaofskreyta þennan risastóra geymi sem starfsstaðurinn minn er og það er búið að vera voða gaman.
lag:
þetta eru litlu morgnarnir sem davíð kóngur söng
fyrir sætu stelpurnar/strákana (fer eftir afmælisbarni) syngjum við svona
vaknaðu mín kæra/kæri vaknaðu sjáðu það er kominn dagur
og litlu fuglarnir syngja, tunglið hefur falið sig

eða eitthvað svoleiðis...

mánudagur, nóvember 29, 2004

tók saumana úr sjálf í gær. það var ekkert vont en mér líður samt einhvernvegin eins og puttinn á mér sé á of stuttu skinni. mætti td nemanda á ganginum í morgun sem tilkynnti mér að hann væri búinn með ritgerðina og ég ætlaði að svara honum með svona ,,thumbs up" merki en þumalfingurinn minn stíflaðist á miðri leið og þetta varð eitt það fáránlegasta og aumasta merki sem ég hef á ævinni séð.
best að reyna að nota bara hægri þumalinn héreftir. fuss.

ég kemst bráðum í frí. þessi vika eftir, próf í næstu, allt að róast og þá einset ég mér að blogga betur

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

í gærkvöldi bauð sú einhenta gömlu grunnskólavinkonunum heim í síðbúið afmæliskaffi. notaði að sjálfsögðu fingurinn sem afsökun fyrir að vera ekki búin að skera niður voða lekkerar parmaskinku-pestó-miðjarðarhafssnittur einhverjar, baka stórkökur og smákökur og blanda exótískan sólardrykk með asísku ívafi (það er nefnilega ákveðin pressa að falla ekki í skuggann með veitingar eftir allar gestgjafa-meistaraverkaveislurnar sem herjað hafa á allt þetta merka þrítugs-ár). ég rölti semsagt í búðina með gula rangeygða svíninu og keypti brownies, rjóma, jarðarber, súkkulaðirúsínur, hraunbita, æðibita, gosdrykki og snakk. þessu hrúgaði ég svo á borðið óskaplega pent (fatta reyndar núna að ég gleymdi servíettum) og dömurnar sýndust mér alveg sáttar þrátt fyrir skort á fágun, hollustu og listrænum metnaði í veitingavali.
nema hvað, umræður kvöldsins voru á léttu nótunum, börn, slys á börnum (mig grunar að ég hafi átt þátt í að koma þeim þræði af stað), vinnustaðir og heimilisstörf. algeng umræðuefni og allskostar ópólitísk.
ekki get ég munað skýrt hvernig talið barst að skoðanaskiptum fólks á netinu, spjallþráðum og öllum þessum litlu og ekki eins litlu samfélögum sem hafa myndast innan þessa ó-raunveruleika sem internetið er.
vinkvennahópurinn var greinilega mestallur ókunnugur þessum skika tilverunnar og áhugalaus í ofanálag. gott ef ég skynjaði ekki vott af fordómum gagnvart þeim sem eyða tíma sínum, orku og vitsmunum í að taka þátt í og taka mark á öllum þeim samskiptum sem fram fara hérnamegin veruleikans.
(ég hélt mig inni í bloggaraskápnum eins og ég geri yfirleitt þegar átt er við jarðbundna).
svo fór ég að spegúlera... sú eina innan hópsins sem ráfar hér um víðan völl, kíkir á bloggsíður, veltir fyrir sér umræðuþráðum og skiptir sér af er einmitt sú eina sem ég umgengst umfram skyldumætingu í saumaklúbba, enda er hún sú eina sem ég get á ýmsan hátt samsamað mig við (gáfuð, smekkleg, vel lesin, góðhjörtuð, fríð, hugmyndarík, þroskuð og uppfull af manngæsku). og svo hefur hún líka heilbrigt sjálfstraust eins og ég.
nema hvað, hinar dömurnar eru á öðrum skala hvað hugmyndafræði tilverunnar varðar og nú velti ég því fyrir mér hvort það séu bara/aðallega ákveðnar týpur fólks sem taka þátt í internetmenningunni...eða telur sér trú um að það sé til fyrirbæri sem mætti kalla internetmenning... eða hefur þörf fyrir að tilheyra einhverskonar internetmenningu... eða eitthvað...


mánudagur, nóvember 22, 2004

maría paría katívatívaría katívatí vingin tingin taría.
í gær var fjölskylduvænn sunnudagur. mín vaknaði í svaka stuði, pakkaði liðinu inn, náði í græjur í kjallarann til mor og far og brunaði svo með all liðið í ártúnsbrekkuna. þar lærði frumburðurinn að komast standandi niður smá halla á skíðum og ég þrusaðist upp og niður með síðburðinn á snjóþotu. fínt fjör og gott átak fyrir rassvöðvana allt þetta brekkuklifur.
svo fórum við í bónus (fjölskylduvænt mjög) og keyptum rjóma og allar græjur þar sem ég hafði í huga að baka pönnsur (aldrei þessu vant) og gera svaka kósí kaffitíma fyrir allt útitekna útivistarfólkið.
þegar við komum heim og pönnsudeigið var að verða tilbúið ákvað ég að skella nokkrum svona "pan au chocolat" í ofninn þar sem ég átti þau í frysti. nema hvað, þar sem ég er að hamast við að losa þessi frosnu brauð í sundur (með hníf) rann ég eitthvað til og bjó til vasa á þumalfingurinn minn, alveg neðst við rótina.
svo sá ég stjörnur í smá stund, greip dömubindi í lófann og brunaði upp á slysó. þar saumaði friðrik 5 spor í fingurinn og ég fékk öðruvísi umbúðir en dömubindið góða sem þó hafði sinnt sínu hlutverki af kostgæfni.
pönnukökurnar urðu engar í þetta skiptið en deigið er ennþá til heima.
mér er bara of illt í puttanum til að klára í bili.

ætli óhappavikan sé að verða búin?

föstudagur, nóvember 19, 2004

ég er nefnilega að kenna félagsfræði þessa dagana skal ég segja ykkur. það er vandþræddur stígur á þessum síðustu og verstu tímum. ég er nottla hlutlaus vísindakona sem reynir að halda skoðunum míns eigins í skefjum og ræða hluti á málefnalegan hátt. það gengur sosum fínt. ég er tel mig vera búin að sigta út helstu áhættuhópana og nú er ég farin að vara mig á flest öllu sem gæti mögulega tæknilega komið illa við einhvern. án þess þó að hætta að tala. það sem gæti líka komið illa við einhvern tala ég alveg um samt en þá á þann hátt að áhættuhópameðlimir geti jafnvel brosað og gagnrýnt á uppbyggjandi hátt eigin aðstæður og hegðun.
fólk er vandmeðfarið.
ég er farin að hallast að því að eitt sterkasta vopn mitt við allflestar aðstæður og ekki síst í kennslunni sé húmor. lengi lifi hann.

eins og sjá má er skáldagyðjan á lágu plani í dag enda enda endalok á tilfinningaþrunginni langri og þreytandi viku. (sjá eldri afmælisvonbrigða og slysafærslu)

ég er samt að skríða og skreppa saman og allt fram streymir endalaust, ár og dagar líða. nú er horfið norðurland nú á ég hvergi heima.
eða ?

hér með auglýsi ég eftir upplífgandi hressilegum degi sem kemur á óvart.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

það er eitthvað svo fáránlega fáránlegt hvað dagarnir eru fljótir að líða á þessum síðustu og verstu tímum. sérstaklega eftir að ég komst í svona vinnu þar sem varla er tími til að hangsa á netinu og dútla. alveg magnað hvað vinnudagurinn flýgur og svo þegar ég er á leið heim man ég allt í einu eftir því að ég náði ekkert að blogga. heima er ég svo ekki með tengingu þannig að ég bora blogginu inn í lengstu frímínúturnar bara svona til að stirðna ekki alveg. spurning um að koma tengingunni heim aftur áður en jólafríið byrjar. við sem kennum fáum nefnilega jólafrí sko... muahaha...

nema hvað, ég átti semsagt þrítugsafmæli á mánudaginn. fékk kökur og kórónu í vinnunni í hádeginu og var alveg að upplifa daginn minn. (ég er afmælissjúklingur og fæ gífurlegt kikk útúr þessum eina degi ársins sem er minn, minn, minn...) nema hvað, eftir vinnu fór ég aðeins í bæinn og labbaði um með andlegt afmælisskilti og vonaðist til þess að fólk myndi biðja mig um kennitöluna mína, sem reyndar enginn gerði og þó svo að einhver hefði gert það hefði sú manneskja að öllum líkindum ekki kveikt á perunni og fattað að óska mér til hamingju. hlutur sem ég geri alltaf enda er ég að hugsa og hlusta þegar fólk segir mér kennitölurnar, ég veiti jafnvel hamingjuóskir nokkra daga fram eða aftur í tímann... en nema hvað... mér semsagt tókst ekki að kreista hamingjuóskir útúr grunlausum samlöndum mínum en ég var samt voða ánægð með mig. eftir smá rúnt fór ég og sótti síðburðinn í leikskólann og ætlaði að hvíla okkur heima í smá tíma áður en allt liðið yrði pússað upp og farið með fríðu föruneyti út að borða.
á leiðinni inn um dyrnar heima hjá okkur gleymdi ég hlutverki mínu sem grípari eitt augnablik, barnið rann í tröppunni og datt á andlitið á gangstéttina þar sem hún náði sér í vænan heilahristing.
afgangurinn af afmælisdeginum fór í sneiðmyndatöku, bið, lækna, hjúkrunarfræðinga og hræðslu.
kom heim í ískalt hús rétt um klukkan 23, en þá höfðu ofnar verið kaldir allan daginn sökum lagnaframkvæmda í götunni og ég hefði allt eins getað tjaldað úti í garði, slíkur var kuldinn.

í gær fékk ég svo spennufall þar sem stressið vegna barnsins með heilahristinginn og glóðuraugað kom fram auk vonbrigðanna yfir ónýta afmælisdeginum sem ég hafði beðið svo lengi.

og ég grét

mánudagur, nóvember 15, 2004

hún á afmælí dag
hún á afmælí dag
hún á afmælún maja
hún á afmælí dag
húrra fyrir mér

nú kemur í ljós hvort krísan hafði eitthvað uppá sig.

föstudagur, nóvember 12, 2004

frumburðurinn minn var einu sinni uþb 4 ára. eitthvert skiptið sat hann lengi hugsi. að lokum hóf hann upp raust sína.
,,mamma"
,,já"
,,pabbi er frá mexíkó og þar er heitt"
,,já"
,,þá er hann heitur"
,,jamm"
,,þú ert frá íslandi"
,,passar"
,,þar er kalt"
,,yfirleitt já"
,,þá ert þú köld"
,,peh"
,,ég er frá íslandi og mexíkó á sama tíma"
,,já einmitt"
...,,ég held að ég sé volgur"...

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

þar sem arafat var hvort eð er að deyja þessa dagana get ég ekki sagt annað en að ég er honum óendanlega þakklát fyrir að velja ákkúrat þá tímasetningu sem hann valdi. dauðdagi hans bjargaði heilum degi í mínu lífi og því mun ég seint gleyma. hver sá sem bjargar degi í mínu lífi á ást mína og vináttu að launum um ókomna framtíð. þar af leiðandi mun ég nú setja ljósmyndina af arafat og manninum mínum á meira áberandi stað í íbúðinni. (já þeir hittust nefnilega og já namedropping er gegnsætt en kúl).
semsagt hækkaði karlinn í tign hjá mér í dag, án þess að ég hafi svosem úthlutað honum einhverri meðvitaðri tign áður... hvað er annars tign? mikið er þetta asnalegt orð..tign..tign..tign...tignin í pontunni...tignarponta...tignin hrygnir þegar rignir eins og vignir og þá erum við illa svignir... hehe...
nema hvað, ég er líka þakklát föður mínum fyrir að hafa fundið hjá sér þörf fyrir að hringja í mig klukkan hálf níu í morgun til að láta mig vita að arafat væri allur. allur hvað? allur dauður? hehe... sniff... mikið er ég hnyttin í dag. hnyttin tign. hnyttin hátign með hatt og svepp. láttu útlending bera þetta rétt fram og verði þér að góðu.
nema hvað, pabbi karlinn hringdi semsagt í mig klukkan hálf níu í morgun til að segja frá dauða palestínuleiðtogans. og ég er svo óskaplega fegin því að hann hafi dáið á réttum tíma þannig að hann náði morgunfréttum útvarpsins sem pabbi hlustar á yfir kaffibolla og brauðsneið með kæfu eða osti, vegna þess að ef hann hefði dáið síðar og ekki hefði verið sagt frá því fyrr en í hádegisfréttum hefði pabbi aldrei hringt í mig svona snemma og þá hefði ég sofið enn lengur yfir mig og þá væri skal ég segja þér engan veginn uppi á mér tippið í dag.
semsagt, arafat og pabbi, takk fyrir að vekja mig.
shukran og aleikum asalam.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

sumt fólk...ha...jesús minn...alveg hreint...haa... hvers vegna tala sumir við útlendinga, börn og aðra furðufugla eins og þeir séu heimskir? (þetta með furðufuglana var sko vísvitandi)
fólk hægir á talandanum, segir öll orð ó-s-k-a-p-l-e-g-a skýrt og talar helst líka með höndunum svo að setningarnar komist örugglega til skila. svo er munnurinn hreyfður örlítið meira en venjulega í þeim tilgangi að málfatlaðir geti kannski mögulega líka lesið varir, svona in keis ef táknmálið og skýrleikinn eru ekki að virka ein og sér. tóntegundin er oftar en ekki svolítið ,,stundarinnar okkar" - kennd sem er aðeins meira retarded í ofanálag. þetta tungumál er oft talað við útlendinga, sama hversu vel þeir svara fyrir sig á íslensku, lítil börn, blinda, lamaða og fatlaða. og örugglega fleiri sem ég kann ekki að nefna.
ég er svosem haldin mínum eigins fordómum gagnvart ákveðnum hópum (lesist öfga-hægrisinnuðum-trúarofstækis-bandaríkjamönnum-og-þeim-sem-halda-álíka-skoðunum-á-lofti). en ég tala ekki við neinn eins og hann sé fáviti. vonandi.
svo að ég sé algerlega hreinskilin tók ég eftir votti af eigin fordómum og almennri heimsku hér fyrir svosem eins og korteri síðan. þá kom hingað inn lágvaxin kona af asískum uppruna. konan sú talaði alveg íslensku en þó með mjög sterkum hreim sem gerði íslenskuna örlítið óskýra í framburði.
nema hvað, ég var alveg á nippinu með að hrökkva í hægtalandi og s-k-ý-r-a gírinn en stóð mig að verki áður en ég opnaði munnin og tók þá frekar þann pólinn í hæðina að tala við hana eins og ef væri hún frá tálknafirði. það gekk hreint út sagt eins og í smurðri sögu og ég tel mig nokkuð vissa um að engins einskis misskilnings hafi gætt.
fordómarnir sem ég stóð mig þarna að fólust í því að ég var næstum því farin að tala við hana eins og hún kynni ekki almennilega íslensku án þess að þekkja hvorki haus né sporð á henni og hafa í raun ekki hugmynd um hvort það væri fótur fyrir þeim dómi mínum. þarna for-dæmdi ég konu sem gerði ekkert annað en að hafa asískt andlit.
ég tók samt eftir því og kveikti á meðvitundinni. af því er ég stoltari en hinu.

mánudagur, nóvember 08, 2004

holleratsihíaholleratsihí holleratsihíahú
hvað er upp með gaurinn sem gengur um í rauðum kappakstursmannajakka sem stendur á ferrari og er rauður og stuttur í mittið með rosalegum axlarpúðum? hann gengur um eins og hann sé rosa svalt karlmenni. ég er einhvernvegin ekki alveg að kaupa þennan jakka. ætli það séu axlarpúðarnir?

eitt sem mig langar að vita.... hvað er fegurð?

(stórt spurt...ég veit)

föstudagur, nóvember 05, 2004

ég er með stöð tvö og fjölvarpið. ekki vegna þess að ég er svo rík heldur vegna þess að ég þarf ekki að borga það sjálf... löng saga... nema hvað, í fyrradag þótti mér ansi margar stöðvar vera dottnar út og þar sem ég er góðu vön vil ég að sjálfsögðu hafa allar stöðvarnar inni, þó svo að ég horfi svosem aldrei á neitt af þessu. það er bara svo pirrandi að hafa ekki eitthvað sem maður tekur sem gefnum hlut sem svo bara hverfur án þess að spyrja kóng eða prest. nema hvað, ég hringdi í þjónustuver stöðvar tvö og spurðist fyrir um afdrif stöðvanna sem ég semsagt hef aldrei horft á en vil samt hafa áfram af prinsíp-ástæðum. (annars er sko verið að svindla á aðilanum sem borgar brúsann þó svo að hann hefði hvort eð er aldrei horft á þetta sjálfur heldur). nú er ég sko í prinsípp-buxunum.
nema hvað... símsvarastúlkan tjáði mér að nú þyrfti ég að drífa mig uppeftir að skila gamla afruglaranum og fá nýju digital-ísland-græjuna. bölvað tæknifuður alltafhreint. svo eyddi hún einhverjum smá tíma í að útskýra örlítið fyrir mér hvernig þetta virkaði alltsaman. að lokum spurði hún mig hvort ég ætti nú ekki eiginmann eða einhvern karlmann í kringum mig sem gæti séð um að tengja og stilla græjuna.
- say no more -

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

það eru aldeilis blessuð heimsmálin í dag maður... vúha! fór í góða hirðinn áðan og var að dandalast eitthvað á milli heillegra og hálf-ónýtra húsgagna, keypti meðal annars þríhjól á 500 kall fyrir síðburðinn (til að angra nýju nágrannana) og 4 nýjar gamlar bækur í agötu kristí safnið mitt.
nema hvað, ungur maður með bólu á kinn í neon grænni flíspeysu merktri hirðinum vatt sér upp að mér og spurði hvernig mér litist á niðurstöður kosninganna í vestra. honum lá þetta greinilega svo þungt á hjarta að hann hreinlega varð að fá að ræða málið, og þar sem ég er þessi týpa sem fólk af einhverjum ástæðum hefur samræður við uppúr þurru, varð ég fyrir valinu. sem er svosem gott og blessað. ekkert nema gaman að fá að ræða við fólk á förnum vegi, enda er ég mjög fylgjandi slíkum samskiptum.

nema hvað, verð víst að sleppa tölvunni í bili.
sjáumst vonandi á morgun

mánudagur, nóvember 01, 2004

hananú. hlutabréfin sem ég var svo mikill snilli að láta pranga inn á mig í þeirri von að verða skyndi-rík hafa fallið í verði. nú þarf ég á peningunum að halda á föstudaginn en er tæpum 400 þúsund krónum fátækari. geri aðrir betur. er semsagt með hnút í maganum og kökk í hálsinum yfir viðskiptafréttunum og skoða nýjustu tölur frá kauphöll íslands frekar en að lesa blogg... fyrr má nú rota en dauðrota. ég veit ekki hvurn andskotann ég var að láta draga mig inní þessa heima þar sem ég tilheyri hvort eð er ekki í mínu gula og brúna röndótta prjónavesti og gallabuxum, as opposed to grá buxnadragt.
sem litla gunna og litli jón má ég að sjálfsögðu ekki við slíku tapi og sef því illa og er almennt óróleg þar sem ég hengi mig í hina veiku von um að karlarnir þarna uppi drífi sig í að gefa út frétt um að þeir séu að kaupa banka í bretlandi. helst ekki seinna en á miðvikudaginn.
svo ætla ég aldrei aldrei aldrei aftur að kaupa hlutabréf.

en mig vantar semsagt peninginn því ég er að fara að kaupa mér hús. já hús. ekki íbúð heldur hús. og garð. og rólu. og rifsberjarunna.
en ég er 400.000 krónum stutt (bein þýðing úr ensku).
hvað gera bændur þá?