mánudagur, janúar 31, 2005

fór í það sem mér skilst að hafi verið fyrsta algjörlega spænskumælandi brúðkaupið á landinu um helgina. presturinn frá argentínu gifti gumann frá kólumbíu og gumuna frá venezuela. nunnurnar frá mexíkó og argentínu sungu og spiluðu á gítar og gestirnir frá chile, hondúras, kúbu, mexíkó, venezuela, kólombíu, argentínu og breiðholti skemmtu sér vel. engin ræðuhöld eða formlegheit. hvítar blöðrur bundnar á bogna stöng yfir brúðkaupstertunni, svolítið prom-legt lúkk, diskar og kampavínsglös úr plasti, ekkert prjál. það sem skipti máli var að gleðjast saman, borða saman, dansa saman og njóta dagsins. kakan etin fyrst ásamt kampavíni og svo kom kjötið. get ekki sagt annað en að bragðlaukarnir mínir eru vanari sætindunum síðast svo að mér leið eins og mér hefði verið spólað afturábak. en eigi kvarta ég þó, enda ekki yfir neinu að kvarta. góður matur góður bjór gott fólk. mér þykir ekki leiðinlegt að tilkynna mig sem sjálfkrýnda salsadrottningu íslands. vilji einhver skora mig á hólm getur sú hin sama byrjað að svitna í lófunum og skjálfa í hnjánum því ég er ekkert annað en snillingur. þó ég segi sjálf frá. að minnsta kosti gat ég ekki séð betur eftir eina 5 bjóra. hmmm...kannski spurning um að prófa aftur edrú áður en ég kem mér í vandræði...
nema hvað, stórskemmtilegt brúðkaup og þarna rifjaðist upp fyrir mér eina ferðina enn hversu margt og mikið við landarnir getum lært af hreinræktaðri gleði og mannvænlegum glaumi erlendinga á íslandi.
áhugasömum vil ég svo benda á argentísku nunnurnar tvær en þær má sjálfsagt nálgast í gegnum kaþólsku kirkjuna við landakot. þær eru nefnilega alveg brilljant góðar og skemmtilegar við söng og gítarspil og auk spænsku laganna sem börn og fullorðnir geta skemmt sér yfir geta þær sungið frost á fróni svaða-vel og það eftir aðeins 4 mánuði á landinu. og já, þær syngja semsagt ekki bara trúartónlist.þær eru sko trúboðar og vilja ólmar fá að umgangast allt mögulegt fólk í þeim tilgangi að kristna. ég er svosem ekkert ógur-hrifin af því að láta fólk kristna mig, en þær eru bara svo assgoti skemmtilegar að ég mátti til með að leyfa þeim að skjóta.
og já, það er eitthvað krúttílega súrrealískt að djamma með nunnu í fossvoginum.
en hvað um það.... gaman gaman.

föstudagur, janúar 28, 2005

í morgun var blátt hús í beinu sjónfæri út um baðherbergisgluggann minn. eiginlega beint á ská til hægri hinumegin við bílastæðið við hliðina á.
núna er þar ekkert hús.
ég bý nefnilega á reitnum sem fjallað hefur verið um lauslega í blöðum undanfarið. þessum sem byggingaframkvæmdamafían er búin að ráðstafa undir verslanamiðstöðvar og fjölbýlishús og lúxusíbúðir fyrir framtíðar uppaíbúa miðbæjarins.
ég er skít grút hund fúl yfir þessum bölvuðu skúrkum sem rífa niður gömlu bárujárnshúsin með þríhyrningsþökunum og byggja ferhyrnd ferlíki í staðin. sjarmi 0%
en ég er líka blönk og þegar miðaldra mafíósar með fulla vasa fjár bjóða í litlu köldu og skökku íbúðina þína meiri pening en þú getur nokkurntíman vonast til að fá fyrir hana, þá er ekki á allra færi að segja nei af prinsíppástæðum. sérstaklega ekki þegar um er að ræða íbúð með of fáum barnaherbergjum, einföldu gleri, ónýtum ofnum, ónýtu þaki, ómálaðri bakhlið og tveggjafermetra eldhúsi undir súð.
það er hægara sagt en gert að vernda gamla bárujárnstimbrið og hægara gert að finna endalausar samviskuróandi réttlætingar á því að hafa leyft þeim að kaupa sig. og hér er ég.
mér til málsbóta minni ég sjálfa mig á að í staðin keypti ég lítið bárujárnshús með þríhyrningsþaki sem ég þarf að vernda gegn nýbyggjandi brjálæðingnum sem er búinn að skella upp einn einu helvítis lúxusboxhúsnæðinu við hliðina á. honum tókst ekki að kaupa mig út. enda þyrfti miklu miklu miklu miklu meira til vegna þess að nýja húsinu fylgir óryðgað þak, tvöfalt gler, virkir ofnar, rifsberjarunnar, róla, sandkassi og meira að segja forláta fánastöng.
en ég seldi samt þessa íbúð sem ég er í núna og í hvert sinn sem ég lít út um baðherbergisgluggann og horfi á vinnuvélarnar tæta í sig ruslið sem var bláa húsið, hugsa ég til þess að næst muni þeir taka gula húsið og svo framvegis þangað til þeir rusla niður húsinu mínu. svo fæ ég pínulítinn hroll.
gömlu hjónin við hliðina á mér eru þau einu sem neita enn að selja. þau eru bundin húsinu tilfinningaböndum og vilja ábyggilega fá að deyja þar. þau hafa ábyggilega ekki heldur lán og yfirdráttarheimildir sem þeim liggur á að losna við. þau eru á öðrum stað í lífinu en ég. þau standa fast á sínu á meðan svikarar eins og ég seljum allt í kringum þau og hundskumst úr húsunum með misfeitar ávísanir í vasanum. ég vona bara að þau þurfi ekki að lifa það að sjá hús lífs síns rifið.

ég sá síðasta vegg bláa hússins detta niður.
í fallinu kramdi hann fatasnúru gömlu konunnar og heila runu af runnunum hennar. hún er of gömul til að rjúka út og rífast. ég er of mikill ræfill.
væri ég hetja ef ég hefði ekki selt? eða selja allir þegar nógu hátt er boðið?

fimmtudagur, janúar 27, 2005

hið ótrúlega hefur gerst. ég sofnaði í vinnunni.
sem betur fer gerðist það í frímínútum og inni á kennarastofunni þannig að það er ekki eins og bekkurinn hafi séð mig, en ég lagðist aðeins í sófann og lagði aftur augun eitt augnablik. vissi ég svo ekki af mér fyrr en skrifstofukonan pikkaði vinsamlegast í mig og spurði mig hvort ég ætlaði ekki í tíma. allir kennararnir sem höfðu verið þarna í kaffi þegar ég lagði mig höfðu þá greinilega læðst út á meðan ég svaf og höfðu ekkert fyrir því að vekja mig og láta mig vita að frímínúturnar væru liðnar.
sem betur fer voru ekki fleiri en 10 mínútur búnar af tímanum og sem betur fer er ég með óskaplega þroskaðan bekk í dag og sem betur fer er ég bara að sitja yfir þeim en ekki að kenna þeim og sem betur fer er ég ekki ennþá sofandi.
á leið minni út í stofu kom ég við í gosdrykkjasjálfsalanum og keypti mér koffín.
nú vona ég bara að ég sé ekki með rauða svefn-krumpu einhverstaðar á andlitinu.
mikið assgoti var nú samt gott að fá smá blund...

ég skelli þreytu-sökinni alfarið á agötu kristí. the crime novelist did it

miðvikudagur, janúar 26, 2005

hin íslenska oprah. lenti óvart í endanum á þættinum hennar. get ekki sagt að ég sé að upplifa sjarmann. ætli það sé ekki að einhverju leyti sökum þess að við virðumst vera á sitthvorum endanum á áhugasviðs- og húmorsskalanum. þekki blessaða konuna svosem ekki neitt og get þar af leiðandi ekki fullyrt nokkurn skapaðan hlut um hana eða hennar tilveru, en þetta er svona kryppa sem ég er með. eða ætti ég kannski frekar að segja tilfinning...
nóg um það.
djöfull er til mikið af hræðilega ógurlega ógeðslega viðbjóðslega lélegum íslenskum auglýsingum. margar góðar líka en aðrar margar hreint út sagt ömurlegar.
útlensku hreinsiefna og dömubindaauglýsingarnar með íslensku tali eru ekki mikið skárri. það er ein always með vængjum karnival í ríó dömubindaauglýsing sem er í gangi núna. vill einhver vinsamlegast segja mér hver réði dansgaurinn í bleiku skyrtunni í þetta hlutverk?

þriðjudagur, janúar 25, 2005

hundskaðist í líkamsræktarsalinn í gær. ég hef ákveðið að láta viðmið sem vind um eyru þjóta og vera bara á sokkunum. mér verður annars svo heitt á tánum að ég missi alla einbeitingu og fer bara að rugla með óráði. nema hvað, ég stóð nokkra meðræktendur að því að horfa á sokkana mína. er þó ekki alveg viss hvort þeir voru að horfa af því að ég var ekki í skóm eða af því að ég var í sitthvorum sokknum. einum bláum og einum svörtum.
nema hvað.
allan daginn í gær var ég haldin óhemjandi syfju og það var alveg sama hvað ég sprautaði mig með koffíni í vökvaformi, ég var þreytt. þetta með að fara í líkamsrækt á öðrum eins þreytudegi var ekkert nema pjúra níska og nirfilsháttur af minni hálfu, en samviska mín var búin að naga á mig gat sökum þess að ég hafði aðeins mætt einu sinni síðan á jólunum. samviskan hafði semsagt mun meiri áhyggjur af peningalegu hliðinni á málinu heldur en því líkamlega, en eins og þeir vita sem vita er ég hreint ekkert í svo slæmu formi. vantar bara aðeins að tappa af vífilfellsafurðinni sem velkist um á milli hnjáa og rasskinna. eða svoleiðis... lóa fattar þennan væntanlega... heh
nema hvað, syfjan mikla gerði það að verkum að ég gat ekki hætt að geispa allan daginn. ég hafði þó ekki tekið eftir því fyrr en ég sat á tóli sem á að þjálfa undirupphandleggsspikið. þegar ég leit upp og sá svipinn á einkaþjálfaranum á næstu græju gerði ég mér grein fyrir að ég sæti þarna eins og slytti, í sitthvorum alltofstórum sokknum, götóttum risastórum joggingbuxum og geispaði í takt við handabeygjurnar.
ég er með hassperur í höfðinu. blogga frekar á morgun...

mánudagur, janúar 24, 2005

í dag hef ég af útskýranlegum orsökum borðað tvær samlokur úr svonefndri flugteríu á reykjavíkurflugvelli. hef þó hvorki flogið innanlands né til grænlands. þannig vill semsagt til að ég þekki mann sem þekkir mann sem mann þekkir mann sem vinnur í áðurnefndri teríu og einhverra hluta vegna þegar ég vaknaði í morgun voru nokkrar samlokur nefndar eftir áðurnefndri teríu í ísskápnum mínum. kippti einni með mér í nesti í vinnuna og hóf átið í hádeginu. í lokunni reyndist vera mestmegnis soðinn kjúklingur....bðeeeee ... ég er ekki hrifin af soðnum kjúklingi. eftir að hafa pínt ofaní mig slatta af jukkinu ákvað ég að skafa fjandans kjúllann af. lauk svo hádegisverðinum með eintómu brauði með smá sinnepssósu og einni og einni ræfilslegri tómatsneið.
leið svo dagurinn.
er heim kom var ég að farast úr hungri og eins og hungraðir eiga til að gera rauk ég beinustu leið í ísskápinn þar sem við mér blöstu systur kjúklingasamlokunnar sem hafði reyndar verið langloka.
í hungurvímu hóf ég að lesa á merkimiða pakkninganna og ekki leist mér mikið á innihaldið. af ýmsu slæmu ákvað hungrið í mér að kippa út samloku með rækjusalati. henni tróð ég síðan í mig ásamt glasi af léttmjólk og losnaði samstundis við ónotatilfinninguna sem fylgir hungri. ég hefði þó betur gert það sem ég geri venjulega, en það er að fá mér eina venjulega brauðsneið með osti og gúrku. ég hef þó mér til málsvarnar að það gerist ekki nema einstaka sinnum á áratugi að ég á smurðar sjoppusamlokur í ísskápnum og gamla freistingartröllið í félagsskap hungursins eru ekki klókir kauðar. nema hvað.... síðan ég át rækjusalatssamlokuna eru nú liðnar uþb 4 klukkustundir og mér er enn hálf bumbult. reyni að hugsa sem minnst um mat. er eitthvað ómótt. reyni að dreifa huganum með því að blogga... kannski ekki besta ráðið að blogga um rækjusalatið. get ekki hætt að hugsa um það. gæsahúð, hrollur og kaldur sviti. ég var búin að gleyma hvað majónes er ógeðslegt. og rækjur syndandi í því með harðsoðnum eggjum. majónes. ég hef ekki einu sinni lyst á kvöldmat. agh
best að fara að hugsa um eitthvað annað...
mæli amk ekki með samlokum af reykjavíkurflugvelli, jafnvel þó þær birtist ókeypis í ísskápnum ykkar.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

ponta kallast stundum púlt
mikið ræðast roggnir
gjarnan þykir frekar fúlt
er hálsar eru hoggnir

fornaldanna fríska fljóð
maría mun semja
lágkúrulegt lítið ljóð
er örvitarnir emja

æfi ég hér höfuðstaf
stuðla rím og ræðu
játa að mitt jakkalaf
veldur mörgum mæðu

heyrnatólin höfðum á
gólið úr þeim glymur
tattalattar* til og frá
foringinn er fimur

(*tattalattar eru kakkalakkar eins og siggi vinur sonar míns kallaði þá þegar hann var 4 ára og gat ekki sagt k)

(lokaerindi version 1)
hér með lýkur ljóðastund
þar og með ég þagna
spurning um að skreppí sund
því munu margir fagna

(lokaerindi version 2)
hér með lýkur ljóðastund
úr bloggheimum ég bregð mér
nú kannski hefur lést þín lund
og skríllinn jafnvel skemmt sér

(lokaerindi version 3)
hér með lýkur ljóðastund
eigi alltof fyndin
góða mamma útá grund
ég pissa uppí vindinn

nei hættu nú alveg....

miðvikudagur, janúar 19, 2005

arg skruff tsjúk fraff brepp prass pruuump (þetta er ég að halda í mér blóti)
að öllum líkindum hefur færslan sem ég var að enda við að skrifa um fjárans leikjardrusluna sem ég bjó til og mistókst í vinnunni, ekki birst sökum stæla í nettengingu minni.
í stuttu máli hélt ég að ég væri með góða hugmynd og sú hin sama kúkaði í andlitið á mér þegar ég reyndi að framkvæma hana með nemum mínum í morgun.

helvítis internet
ó mæ god hvað ég ætlaði að slá í gegn og vera sniðug í dag. og ó mæ god hvað það misfórst hrikalega.
ég lá, eins og endranær, andvaka í gærkvöldi með vinnuna á heilanum og reyndi að láta mér detta í hug leiðir til að festa tungumálið í höfðum minna ástkæru nema. seint um síðir kviknaði á nokkrum perum og mér datt í hug að vera nú skemmtileg og sniðug og klár, allt í einum pakka, og útbúa spurningakeppni. þemað var að sjálfsögðu kennsluefnið og bekknum yrði skipt í lið og hvert lið yrði að svara spurningum um málfræði, þýðingu orða og beygingar sagna og að launum fyrir rétt svör fengjust stig. restin af bekknum átti að æfa tölustafina með því að telja tímann sem svarliðið fengi hverju sinni á meðan það lið kepptist við að finna lausnina. allt átti þetta að þjálfa fólk í efninu, rifja upp, létta lund og kæta ungar sálir.
í dag fékk ég svo enn eina ferðina að reyna að raunveruleikinn er yfirleitt ekki jafn skemmtilegur og einfaldur og það sem gerist þegar ég er að ímynda mér hlutina. í fyrsta lagi fékkst enginn til að telja tímann upphátt, í öðru lagi voru allir með vesen yfir því hvort tíminn væri of mikill eða of lítill, í þriðja lagi voru allir á fullu að finna leiðir til að snúa á þessar litlu einföldu reglur sem ég hélt að myndu nægja og í fjórða lagi voru allir æpandi og öskrandi yfir allt í einhverjum endemis æsingi og stressi og spennu og látum við að reyna að rakka hina niður.
þar sem ég er ekki átorítetskarakter og ekki týpan í að slá hnefa í borð og fá alla til að þagna samstundis, leið mér eiginlega eins og bjánalegasta bjána norðan alpafjalla með blessaðan leikinn minn. í hita leiksins var mér meira að segja tjáð af einum þeim stressaðasta að þetta væri leiðinlegasti leikur sem hann hefði lent í.

mental note: aldrei að vera með keppni í kennslustund.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

ég sit hér við afgreiðsluborðið með kertastjaka á brjóstunum fyrir framan mig. þá á ég við að fyrir framan mig er kertastjaki með ber brjóst. ekki perraleg svona maxim´s brjóst heldur svona leirlistakonustílsbrjóst. skrýtin þriggja hæða brjóst. með holu. skil ekki alveg þennan blessaða leirlistaverkskertastjaka. skiptir svosem ekki máli. ég er líka með bláa svona þunna læknishanska á höndunum. fann fullan kassa af þeim oní skúffu og þar sem ég gat ekki fundið í heila mér rökrétta útskýringu á tilkomu þessara vettlinga, ákvað ég að þeir væru ætlaðir til skrifstofustarfa. og þar með er ég nú að vélrita (á græju sem er samt engin vél) með bláum einnota latex-hönskum.
einhverra hluta vegna horfði klappstýran sem kom hingað inn áðan undarlega á mig. ætli brjóstin á kertastjakanum fari fyrir brjóstið á henni?

pappírssulta sagði raungreinakennarinn. paper jam. svo varð hann skrýtinn á svipinn. ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en eftirá að ég sýndi nákvæmlega engin viðbrögð við brandaranum. hann hefði sennilega fengið meiri viðbrögð frá mér hefði hann sagt klukkan er að verða tvö. eftir að hafa ígrundað viðbragðaleysi mitt komst ég að þeirri niðurstöðu að mér hefði orðið óglatt af að þykjast hlægja einn eina ferðina að þessu djóki. það er ekki lengur fyndið að segja pappírssulta. pappírssulta er ekki fyndin. það er bréfasulta sem er fyndin. bréfasulta... tíhí

brjóst á kertastjaka. fruff...

mánudagur, janúar 17, 2005

systir mín nefndi á vinsælli bloggsíðu sinni að hún hefði verið í heimsókn hjá mér þar sem hún horfði uppá mig klippa vörtu af syni mínum og dóttur mína tyggja ostsneiðar og hrækja þeim í sófann.
leyfist mér að útskýra.
já, ég er með drenginn í vörtuplástrameðferð eftir að hafa borgað fyrir heimsókn til heimilislæknis í þeim tilgangi að láta sprengja draslið af ilinni á barninu. einhvernveginn tókst læknunni að sannfæra mig um að það væri miklu gáfulegra að ég færi í apótekið og keypti vörtuplástra og væri svo með barnið í 12-14 daga meðferð sem í felast fótaböð, húðrasp, kropp, klipp og almenn eituráhrif. í raun og veru var mér aldrei boðið að láta djúpfrysta vörtuskrattann eins og ég hafði hugsað mér að gera í læknisferðinni. um leið og ég settist inn og sagðist vilja láta hana skræla burtu vörtuna á frumburðinum leit hún á hann og sagði ,,nú ætla ég að kenna mömmu þinni að taka sjálf af þér vörtuna", svona eins og til þess að ég hætti að eyða dýrmætum tíma hennar í smámuni og rugl. svo teiknaði hún vörtu á post-it miða með nafni á lyfjafyrirtæki, hripaði niður stikkorð eins og fótabað, skrapa, blaðra, 12-14 dagar. ég stakk miðanum í vasann. búið. næsti.
það rifjaðist upp fyrir mér þarna hvers vegna ég fer yfirleitt ekki til heimilislæknisins míns. ég sem ég hélt að ég yrði betur sett eftir að ég skipti um lækni. ætli ég haldi ekki bara áfram að notast við læknavaktina þegar eitthvað er að í alvöru og apótekakonurnar þegar eitthvað er að sem ég get mögulega læknað sjálf...eins og vörtur.
nema hvað,
síðburðurinn er hrifinn af osti í sneiðum og hún er búin að komast að því nýlega að það getur verið sniðugt að skyrpa, annað hvort til að sjá hvað kemur út eða til að fá viðbrögð frá foreldrum sínum, sem hún svo skemmtir sér konunglega yfir.
hún er nefnilega frekar spes karakter blessunin. svona sambland af hmmm... tjaa... nú veit ég ekki...en hún er allavega rosalega fyndin. frumburðurinn hefur líka sinn húmor en hann er dottinn inní einhverskonar simpson-látbragðsleikara-jim carrey-enskuslettu-ofurhetju-brjálæðishúmor sem er hreint ekki á allra færi að skilja. en hann sjálfur skemmtir sér vel og það er fyrir öllu.
um helgina voru bæði afkvæmin eitthvað slöpp og vorum við því öll heima saman í marga marga marga klukkutíma. í herbergi frumburðarins hljómuðu til skiptis eminem diskurinn og quarashi diskurinn sem hann fékk í jólagjöf frá ömmu minni og lóu frænku. (og já, það var ég sem sagði að hann langaði í þessa diska... skjótið mig). ofaní rappið hljómaði monsters inc. á spænsku sem síðburðurinn var að horfa á með öðru auganum (og já, ég losa mig við börnin mín með sjónvarpi og öðru afþreyingarefni).
nema hvað, ofaní semsagt rappið og spænska disney-döbbið hljómuðu börnin mín um það bil svona: mammamammamamma har ertu? mamma farta pissa? mamma sjáðu... disco stu is on a mission...mamma mamma sjáðu, dúkkan fara lúlla. fattaru þetta... disco stu mission failed... mamma borða melónu... mamma, má ég borða egg? má ég fara í tölvuna?...mamma ég langarí nammi... búna kúka... mamma, veistu að það er búið að finna upp nýtt orð til að segja mother fucker?... núna segja þeir mófó!... mamma ekki taka bleyjuna... meiri melónu.... my name is slim shady...
og hausinn á mér sprakk.
mér er svosem nær að skíra börnin mín eftir yfirlýstum prakkara og íbúa á skarkalagötu.
mikið hlakka ég til að senda alla í stofnanavædda pössun á morgun.... hehehe

fimmtudagur, janúar 13, 2005

ég er yfirhöfuð almennt alltaf í góðu skapi. svo sest ég niður og ætla að blogga.
er ég haldin bloggleiða? og ef svo er, hvað er hægt að gera við því?
ég minni mig svolítið núna á þegar hún systir mín tók sér pásu hér um árið eftir að henni þótti bloggið opinbera hið endalausa tilgangsleysi tilverunnar og hversu ótrúlega ómerkilegir og litlausir dagarnir eru í raun og veru. er skammdegið farið að skríða inn í beinin á mér? er kominn tími á róttækar breytingar? eða kemur kannski málinu við sú staðreynd að ég er á túr...?

veit ekki en mig er alveg að hætta að langa til að skrifa. finn hvergi þennan náttúrulega talent og þessar ósjálfráðu sögur og persónur sem rithöfundar virðast vera úttroðnir af...algerlega ósjálfrátt og endalaust.
neibb...finn það ekki.
hmmm.... meðalmennskukrísa? raunveruleikasjokk?

miðvikudagur, janúar 12, 2005

þetta með líkamsræktarkortið er einhverra hluta vegna ekki alveg að virka. merkilegt nokk en ég þarf alltaf að gera eitthvað annað frekar í staðin á undan og úps komið kvöld og brrr það er svo kalt úti og klukkan er hvort eð er orðin svo margt ég fer bara frekar á morgun. best að byrja af krafti í næstu viku. komin næsta vika, arg, túr, ekki gaman að svitna svoleiðis best að bíða þangað til ég verð búin. og svo framvegis.
hausinn á mér er sjálfkrafa búinn að finna tímasetningu fyrir það þegar ég byrja alveg pottþétt að fara af krafti og jafnframt því er hann búinn að finna afsökun fyrir því að fresta þeirri dagsetningu aðeins.
ég er svo ógeðslega klár að mér tekst alltaf að plata sjálfa mig og ég geri það svo vel að ég trúi mér, sé svo í gegnum mig, verð svekkt á mér og plata mig svo aftur. ég er líka svo ótrúlega vitlaus að ég trúi mér alltaf. svipað gerist þegar ég ætla að hætta að borða alltaf nammi og drekka alltaf gos og borða feitar sósur.
það er ekkert auðvelt við að vera snillingur og bjáni á sama tíma. hvað er til ráða fyrir fólk eins og mig sem hefur ekki þetta drifkraftsgen í sér? okkur sem leyfum huganum að sigra líkamann?
það fer að verða frekar þreytandi að hlusta á sjálfa sig kvöld eftir kvöld hafa áhyggjur af því að styrkja líkamann og halda honum í góðu ásigkomulagi til þess að losna við erfiðleika þegar árin færast yfir og skipta svo beint yfir í réttlætingar á því að gera óholla hluti frekar því ég er ennþá svo ung og ég á þetta og hitt skilið og ég byrja seinna á þessu holla.
úff hvað ég er þreytandi

þriðjudagur, janúar 11, 2005

einhver sagði einhverntíman einhverstaðar eitthvað svona að allt byggðist á eldri hugmyndum...eða svoleiðis. þið grípið um skaftið á mér.
nema hvað, þórdís og fleiri bloggfræðingar hafa tjáð sig undanfarið um nýjasta úrskurð mannanafnanefndar þar sem bambi komst á kortið...muahaha, bambi... þeir banna sataníu en leyfa bamba. hvað næst?
mannanöfn, alveg minn tebolli. eitt af þessum umræðuefnum sem valda mér gæsahúð og fleiri líkamlegum einkennum af spenningi. samstarfsfólk mitt af skrifstofunni getur verið til vitnis um það.
ég væri alveg vís til þess að lesa þjóðskránna eins og hún leggur sig en ég er eiginlega að bíða eftir útgáfu af henni þar sem hægt verður að fá hvert nafn aðeins upp einu sinni. þá á ég við að allar önnurnar og guðrúnarnar og jónarnir og guðmundarnir og það lið birtist ekki hvert eitt og einasta heldur yrði valinn ein forsvarsmanneskja nafnahópsins. í þessari útgáfu þjóðskrár yrði líka hægt að sigta út fólk sem heitir algerlega útlendum nöfnum, enda ekkert fyndið við að heita kim ding dong ef það er í réttu samhengi. hinsvegar væri fyndið að heita guðmundur dong jónsson.
ég viðurkenni að hafa lagt af stað í lestur þjóðskrár. ég hef lesið slatta í henni. sumt fólk hefur bara önnur áhugamál en annað fólk. ég er sum.
eins og ég les yfirleitt kennitölur og finn mynstur (þegar unnið er með mikið magn kennitalna byrja mynstur að koma í ljós), þá þykir mér einnig gaman að finna mynstur í nafnagjöfum landsmanna og kvenna. nafngiftatískustraumar eru tímabilatengdir. svo mikið er víst. nefnum samt engin nöfn... tíhí
ég fann það sjálf þegar ég var með börn í maganum (eitt í einu bara), að mér var mikið í mun að finna rétta nafnið. ég var haldin valkvíða, ég var vansvefta og hálf vangefin á þessu tímabili sökum þess hversu bágt ég átti með að taka ákvörðun um nafn. í bæði skiptin endaði ég svo með nöfn sem flestum finnast fín, að ég held, en þó fékk ég skrýtna svipi frá einstaka þröngsýnu og gamaldags fólki í upphafi, samt nöfn sem allir þekkja og hafa heyrt skrilljón sinnum.
minn höfuðverkur var sá að ég þurfti að finna nöfn sem hægt er að bera fram bæði á íslensku og spænsku. þar með var td. nafn föður míns dottið út þó svo að það hefði að öllum líkindum verið auðveldasti kosturinn, ætti ég íslenskan maka. svo er þó ekki.
en það er ekki það sem ég ætlaði að fjalla um hér og nú heldur störf mannanafnanefndar. hvar sækir maður um að komast í þessa blessaða nefnd? pant ég vera með! mikið væri ég svakalega til í að fá að taka þátt í vali á nýjum og stílfærðum íslenskum nöfnum. algerlega brilljant. ég væri jafnvel til í að fresta forsetaembættinu ef mér byðist sæti í mannanafnanefnd. nema auðvitað ef hægt er að stunda bæði.
Í algerlega óspurðum fréttum er eitt af mínum uppáhalds nafnið kapitola. ég myndi ekki skíra barnið mitt þessu nafni en mér þykir gaman að sjá að það er í notkun. bókin var ansi skemmtileg.
en semsagt... mæli með lestri þjóðskráar.

mánudagur, janúar 10, 2005

hananú.
komin ný vika.
komið nýtt ár.
komin vinna.
hananú.
þar fór tíminn
líður eins og óð fluga
þetta er eiginlega óvart orðið ljóð.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

við systur vorum eða erum í hugmyndaleysi gagnvart blogginu. þannig hljómum við allaveganna þegar við tölum saman. þó er tæpast að finna hugmyndaleysi þegar kemur að bloggsíðu dömunnar atarna enda rúllast teljarinn hennar upp og stendur á mörgum þúsundum á meðan minn er í tæpt ár að rúllast upp um hundraðið, og þá er meðtalið allt sem ég geri sjálf. (þessi skrif voru í boði innbyrgðrar afbrýðisemi)
nema hvað, daman atarna er líka stundum kölluð lóa. hún vill þó helst láta kalla sig hlín. hér með er því komið á framfæri.
hlín er semsagt litla systir mín og er þar mjög merkileg vera á ferð. hún fékk ekki þessi stóísku róargen sem ég erfði frá föður okkar og þar af leiðandi á hún auðveldara en ég með að valsa upp og niður tilfinningaskalann. ég hef hana þó reyndar grunaða um að hafa gaman af klikkinu í sjálfri sér og líka af því að kvarta yfir ástandinu í lífi sínu. mikið kvart gerir reyndar það að verkum að hún er alltaf yfir sig ánægð og upptjúnnuð þegar allt gengur vel og góðir hlutir gerast. að sama skapi tekur kvartið við aftur þegar ekkert hefur gerst spennandi í uþb 2 daga. sem leiðir okkur að öðru þema en það er tími og tímaskyn. hlín býr ein. hún á samt svo marga vini og kunningja að ég fæ stundum á tilfinninguna að hún sé mun uppteknari en ég, tveggjabarnamóðirin. ætli það að vera upptekinn sé ekki afstætt hugtak...
nema hvað, hún gerir eitthvað á hverri helgi og yfirleitt lendir hún í mun fleiri en einni uppákomu. hún lendir í allskonar mis-furðulegum samkomum og á samneyti við mis-furðulegt fólk. hún vinnur á frekar líflegum vinnustað og á frekar lífleg systrabörn sem henni er velkomið að passa hvenær sem hún vill. sérstaklega ef hún vaskar alltaf upp þegar hún fær að passa...hehehe...
en semsagt ef það líða margir dagar þannig að allt sé á fullu hjá hlín verður hún þreytt og vill helst liggja heima í náttfötum og lesa og teikna. fái hún hinsvegar meira en tvo daga til þess að njóta sjálfrar sín og einverunnar leggst hún í þunglyndi yfir því að ekkert sé að gerast í lífinu, hún komin á þennan aldur og allir í kringum hana með börn og maka. fyrir hönd okkar sem eigum börn og maka vil ég að komi fram að við værum stundum alveg til í að skipta um hlutverk og vera ein.
nema hvað, þetta eru semsagt hugrenningar mínar um systur mína. hún sagði mér sjálf að blogga um sig þannig að ég er ekki hér í óþökk neins.
niðurstaðan er sú að hún er sæt og fín (með nett brenglaða sjálfsmynd), fyndin og skemmtileg (nema þegar hún er í fýlu) og það er alltaf spennandi að fylgjast með því hvað verður krísa au´jour.
muahahaha

þriðjudagur, janúar 04, 2005

kæru matvöruverslunareigendur.
hér með óska ég eftir því að ljósmynd af sjálfri mér verði hengd upp við öll afgreiðsluborð allra verslana ykkar og starfsfólkið verði látið vita að ef það lendir í að afgreiða mig megi það undir engum kringumstæðum samþykkja að selja mér kexpakka, súkkulaðirúsínur, hraunbita eða súkkulaði í neinni mynd. að auki yrði þeim bannað að selja mér gosdrykki sem innihalda sykur, smákökur, stórkökur eða vörur með miklum rjóma eða háu fituinnihaldi.
ég er vopnuð debetkorti og stórhættuleg sjálfri mér.

með fyrirfram þakklæti fyrir hjálpina,
hryssa hjálmtýs

mánudagur, janúar 03, 2005

ha, hvað? var einhver að tala við mig? ó, já, gleðilegt ár og allt það. ég er með hausinn fullan af stýrum eða stírum (ætli það séu ekki stírur) eftir fríið sem lauk semsagt í dag. fattaði mér til mikillar furðu að fullt af fólki var greinilega að vinna á milli jóla og nýárs (tíhí) og þar af leiðandi var inboxið mitt stútfullt af allskonar dótaríi, aðallega þó einhverjum plönum um samkomur, saumaklúbba og hádegisverði. sennilega er óþarft að nefna að ég er búin að missa af öllu draslinu sökum veraldarvefsleysis. sosum í lagi enda er ég búin að vera ansi upptekin við að lesa, horfa, vaka frameftir og sofa úteftir. frekar kósí. svo er ég líka komin á fjórðu bók í fimmtán bóka tungumálasjálfsnámi en ég er semsagt einhverra hluta vegna að rembast við að læra mexíkanskt indíánamál sem nefnist nahuatl. ekki spyrja mig hvers vegna en það er samt rosa gaman að geta lesið setningar sem líta einhvernvegin svona út: tlachaskjtlkjr efje jflskjfoeijrljlsjf og geta fattað að þær þýða td. þú ert ekki ormur, afarnir eru dádýr. fallegu konurnar sofa.
ansi skemmtilegt hreint. þá er bara eftir að finna einhvern til að æfa mig í samræðum. anyone?
svei mér þá ef mér finnst ekki skemmtilegast í heimi að stútfylla höfuðleðrið af upplýsingum og vitneskju sem ég hef lítið sem ekkert við að gera. það hefur amk hingað til reynst auðveldara og skemmtilegra en að læra allt draslið sem ég verð og þarf að læra. merkilegt nokk.
nema hvað. fékk lífið aftur í andlitið í dag. neyddist til að stilla vekjaraklukku í fyrsta sinn í rúmar 2 vikur, rífa mig undan heitu jólasænginni fyrir allar aldir (og fyrir hádegi!), og fara út í skítakulda, rok og skafl að skafa snjó af gaddfreðnum bílnum. fussumsvei.
eyddi deginum í að halda mér við efnið fyrir framan hóp af þunnum og svefndrukknum ungmennum sem mér sýnast varla hafa snefil af áhuga á að læra spænsku.
er ekki farið að styttast í páska?