fimmtudagur, mars 31, 2005

jæja þá er ég flutt í lítið gult hús. það var í stíl við páskana en er frá og með deginum í dag hætt að vera í réttum lit. en litir eru sosum ekki aðalmálið...eða?
bráðum kemst lífið aftur í skorður. vinnan er á leiðinni í skorður, börnin á leið í sínar skorður og internetið er komið í skorður. voða mikið af skorðum að fyllast. þegar allt verður komið í sínar skorður neyðist ég sennilega til að skreppa og verða mér úti um fleiri. aldrei nóg af skorðum.
og svo þykir mér gaman frá því að segja að sjónvarpstenging heimilisins er ekki í réttum skorðum enda rifu bandítarnir alla hausa af öllum snúrum útúr öllum veggjum og öll loftnetsmál í ólestri. ég hef þar af leiðandi ekki horft á sjónvarp í heila viku (sjónvarpsleysisafmæli í dag) og satt best að segja líður mér ágætlega. engin fráhvarfseinkenni hafa gert vart við sig og enginn söknuður eftir að vita nákvæma framgöngu survivorliða, amazing racegengisins, hinna örvæntingarfullu húseiginkvenna eða þátttakenda í americas next top model. sakna þeirra ekki neitt.
ég er ekkert að flýta mér að fá einhvern til að laga loftnetstenginguna enda búin að raða bókasafninu mínu pent og fínt í stássskápinn í sjónvarpslausu stofunni minni. og leslampinn á sínum stað. ég er til í tuskið og mun héðan í frá verða kenglesin og menningarleg.
eða ekki...
en þetta er amk í frásögur færandi miðað við aldur og fyrri störf.

sunnudagur, mars 20, 2005

hafði ekki hugsað útí að ég væri með holu í kinninni fyrr en mér varð illt íenni. það er sosum svo með svo margt sem er ósýnilegt þangað til það truflar. skyndilega leið mér eins og andlitið á mér væri um það bil að springa af mér og þá varða nú svo að ósköp elskulegur læknagaur skrifaði uppá pensilín við þessum skratta.
andlitið er ennþá á sínum stað til allrar hamingju.
mikið þykir mér óhugnalegt þegar ég sé mig knúna til að ímynda mér hvernig ég lít út að innan...

miðvikudagur, mars 16, 2005

erum með málningu út um allt en húsið er að verða fínt. jájá. enginn tími fyrir blogg og þessháttar dótarí. nema hvað, pé-a-ká-ká-i-eð sem leigði húsið áður en við fengum það afhent hélt eftir einum lykli til að ná í sófa sem þau höfðu fengið leyfi okkar til að skilja eftir í tvo daga á meðan þau redduðu geymslu fyrir hann. það var fyrir rúmri viku síðan. sófinn er enn á sínum stað og þau með lykilinn. í morgun þegar ég kom á staðinn og fór á klósettið sá ég að þau hafa komið í heimsókn í fyrrinótt. það sá ég ekki á því að sófinn væri farinn, sem hann er ekki, heldur á því að þau hafa dundað sér við að hirða sturtuhausinn, skrúfa klósettpappírshaldarann af veggnum, handklæðahengið, spegilskápinn sem hékk yfir vaskinum og síðast en ekki síst hafa þau ákveðið að taka með sér ljósaperuna og ljósaperustæðið sem voru í loftinu. já og svo vantaði fleira dót sem ég man ekki einu sinni hvað var, ég er svo pirruð.
ég pissaði næstum því útfyrir af geðshræringu þegar ég gerði mér grein fyrir bíræfni þessara kvikinda. að sjálfsögðu rauk ég beinustu leið niður í brynju þar sem ég keypti nýjan lás í hurðina sem ég svo skrúfaði blýfastann á sinn stað.
ef þau hefðu haft meiri tíma þyrfti ég sennilega að fara og kaupa nýtt baðkar, klósett og vask hið snarasta.
það hættir ekki að koma mér á óvart hvað sumt fólk er mikið fífl.
hugmyndir um hefndir eru vel þegnar, en þær verða að vera lúmskar því mannfjandinn er dópsali, aumingi og vinur allra góðkunningja lögreglunnar, og hann veit hvar ég á heima....

föstudagur, mars 11, 2005

ef doktor love hjálpar fólki í ástarvandræðum, hverjum hjálpar þá doktor pepper?

í laginu sem hljómar: doctor, doctor, can´t you see I´m burning, burning... væri ekki nær að syngja: fireman, fireman, can´t you see I´m burning, burning ?

ef ég er að fara að mála um helgina, kemst ég þá á mála? eða er mikið mál að vera mál að komast á mála sem málamiðlun eða til málamynda. er hægt að mála mynd til málamynda? flytja málflutningsmenn málverk og fá málverk þegar þeir tala of lengi? byrja málaferli á því að grunna? eru mállausir aldrei með vesen? og eru þá vandræðagemlingar málfastir? á málhaltur maður í erfiðleikum með að mæla fjarlægðir, er hann slakur málari eða er hann með bolla á fætinum?
spyr sú sem ekki veit feit eins og geit sem úti skeit en leit út fyrir að vera saklaus.

best að hætta að þefa af terpentínunni...

miðvikudagur, mars 09, 2005

vinsamlegast athugið að ég er hér með að peista inn upplýsingar sem ég hef alltaf vitað innst inni en hef samt ósköp gaman af að fá staðfestar af vísindalega sannreyndum persónuleikaprófum á veraldarvefnum. og hér eru niðurstöður dagsins:




Your Dominant Intelligence is Linguistic Intelligence



You are excellent with words and language. You explain yourself well.
An elegant speaker, you can converse well with anyone on the fly.
You are also good at remembering information and convicing someone of your point of view.
A master of creative phrasing and unique words, you enjoy expanding your vocabulary.

You would make a fantastic poet, journalist, writer, teacher, lawyer, politician, or translator.


þriðjudagur, mars 08, 2005

og nú erum við að fara að flytja aftur. og nú erum við að rífa gamalt veggfóður aftur. og nú erum við að fara að mála panel aftur. og nú erum við að fara að pússa gólf aftur. einhverra hluta vegna er sama spennutilfinningin ekki til staðar og síðast þegar allt var fyrst. einhverntíman er ekki allt fyrst eins og núna. núna er allt annað í annað sinn, annað væri fyrst...og fremst rangfærsla. fyrst ég er ekki þyrst en annað uppi á teningnum.
ég er með rispaða hnúa og handarbök eftir hraunaðan vegg sem þarfnaðist niðurskafs. skóf hraunið með hnúum berum eins og bubbi hinn umdeildi sálnasölumaður. er sá sem selur sálir guð? eða teljast sálir til eigna? hefur einhver selt sálina hans jóns míns? er jón minn þá hjá lúsífer eða belsebúb eða myrkrahöfðingjanum eða andskotanum eða skrattanum eða djöflinum eða fjandanum sjálfum? af hverju heitir hann myrkrahöfðinginn ef hann er umkringdur eldi? eldur veitir birtu og yl. eða var helvíti kalt? nú verður víst helvíti kalt um helgina, eða svo segjaðeir á veðurstofunni. en nema hvað, hraunveggurinn varð panell og handabökin urðu hraun. ef handarbakið er hérna, hvar er þá handarmaginn? og hvar er fótarbakið og höfuðbakið? eða kannski magabakið? væri ekki nær að kalla það sem snýr baki í lófa, þófa, eða sófa, eða rófa, eða hófa? væri það ekki nær eða fer því fjarri? nær eða fjær? ég bara spyr og spyr sú sem ekki veit enda fátt um svör og svarafátt. ef svarið er fátt hver er þá spurningin? þeir sem fá réttu spurninguna svara fátt og verður því eigi svarafátt.
oseisei.

fimmtudagur, mars 03, 2005

hlaupabólan búin. gubbupestin byrjuð. hversu mikið er hægt að leggja á tveggja ára dverga og foreldra þeirra?
mér er spurn.

þetta var svokallað örblogg í tilefni heiladoða sökum svefnleysis sökum vanlíðunar sökum kúgunarstarfsemi sökum gubbupestar sökum leikskólasóknar sökum útivinnu sökum peningaþarfar sökum gerfiþarfa sökum neysluhyggju sökum kapítalisma sökum marshall aðstoðarinnar sökum bandaríkjanna.
það er alveg sama um hvað er rætt ef það er neikvætt. böndin beinast alltaf að bush.

þriðjudagur, mars 01, 2005

það sem mér þykir fyndið:
prump, alltaf klassísk og skemmtileg. geta þó verið hvimleið þegar fýlan er viðvarandi og ókunnug. eins og til dæmis um daginn þegar mér var boðið uppá aðra hæð í landsbankanum niðri í miðbæ, en um leið og ég lagði af stað upp tröppurnar skokkaði uþb 200 kílóa maður niður á móti mér og mannhelvítið skildi eftir sig slæðu af súrri skítafýlu sem ég þurfti að brjótast í gegnum til að komast upp á efri hæðina. það var ekki fyndið prump. samt gerir prumpið aðstæðurnar kómískar.
hiksti. Það er mjög fyndið að fylgjast með fólki með hiksta eða fá sjálfur hiksta. reyndar verð ég leið á honum eftir 5 mínútur og vil fara að losna við hann, en mér þykir alltaf gaman og fyndið að fá hiksta. pabbi minn fær líka eina fyndnustu hiksta í heimi en hann hljómar eins og froskur með tourette.
illa þýddar bíómyndir eða sjónvarpsþættir. einhverntíman skrifaði ég smáræði um það fyrirbæri hér á mínum grænu síðum, en ég get velt mér lengi vel uppúr misskilningi þýðenda og hlegið dátt.
börnin mín að dansa. þau eru kostuleg bæði tvö hvort á sinn hátt sitt á hvorum palli. frumburðurinn er meistaralega hannað vélmenni þegar hann setur sig í breik-gírinn og síðburðurinn dillar pínulitlum mjöðmum eins og vasaútgáfa af hawaii-dansara. en það er svona "þið verðið að sjá það til að fatta það" fyndið.
orðaleikir og illa skrifaður texti. endalaus uppspretta hláturtára og gleðihasspera í andliti voru.
makinn að klippa á sér hárið eða í öðrum fegurðaraðgerðum. alltaf tekst honum að raka á sig skallablett eða gera einhverja aðgerð sem hann sér eftir í nokkrar vikur á eftir. og ég skemmti mér konunglega við að fylgjast með.
pétur vinur hans sveppa.

það sem mér þykir ekki fyndið:
spaugstofan.
bjössi bolla.
laddi.
grettur. (þykja þær eiginlega meira athyglisverðar en fyndnar)
brandarar.