sunnudagur, mars 30, 2008

loksins er mín orðin fræg. komin í fréttablaðið og allt. mér sýnist margir lesa það blað vegna þess að það hefur varla verið auður stóll á veitingastaðnum síðan greinin birtist. sem er gott og gaman. við urðum reyndar örlítið ringluð við að fá allt þetta fólk og misstum aðeins tökin en mér sýndust þó flestir fara sáttir út. við hættum allavega ekki að brosa og reyna.
á morgun verður lokað. vegna matarskorts og úrvindu.
svo brettum við upp ermarnar og hananú...
sem minnir mig á það. gekk upp laugaveginn í dag og þar sáum við tengdamóðirin forsetahjónin á leið inná sólon. rauk þá ekki tengdamóðirin á eftir þeim og bað um að fá að taka mynd af sér með þeim. á spænsku. þau spurðu hvaðan hún væri og hún sagðist vera frá mexíkó, sem hún er, og það þótti þeim greinilega gleðitíðindi. greip þá frú forsetafrú myndavélina mína og smellti af mynd af tengdamóðurinni og forsetanum. það hefði nú ekki verið verra að hafa hana með á myndinni. síðast þegar hún kom fékk hún klinton til að skrifa nafnið sitt á peysuna hennar. hún er öll í forsetunum.
en jæja, núna er klukkan að verða þrjú um nótt, kókkoffínið á leið úr blóðrásinni og ég er orðin stjörf af þreytu. vona bara að fæturnir beri mig alla leið í rúmið...

miðvikudagur, mars 26, 2008

ég hef verið útlendingur, ég bý með útlendingi, ég hef fætt útlendinga og í fjölskyldunni minni er hellingur af útlendingum. og þegar ég segi útlendingar miða ég við að fólk sé ekki af íslenskum ættum og hvorki fætt né uppalið hér á landi. nú og þegar ég segist hafa verið útlendingur á ég við að hafa verið þar sem ég var hvorki fædd né uppalin. segir sig sjálft...
allt þetta útlendingafjas stefnir að einu marki. því að segja að það að vera fáviti tengist ekki uppruna fólks. fávitar og brjálæðingar eru til allstaðar í sennilega svipað miklu magni. sumir þeirra eru kannski bestu skinn sem einstaklingar en verða snar klikk þegar þeir breytast í hóp. gerist líka á íslandi.
hér á landi er nú lítill hópur sem er snar klikk. hann hefur meðal annars ráðist á lögregluþjóna sem voru við skyldustörf og lamið þá í spað. ég veit ekki í hvaða klikkhausaflokk þeir falla en þeir eru hluti af þessum minnihlutahópi meðal útlendinga sem er alveg snar og ólíklega eitthvað frekar í húsum hæfir í heimalandi sínu en hér.
nema hvað...þeir segjast vera mafía. þeir hringdu í saklausan samlanda sinn til að stæra sig af því að hafa lamið löggur. svo sögðust þeir fyrir dómi ekki hafa gert neitt af sér. og voru sýknaðir. einn þeirra fór svo heim til fyrrverandi kærustu sinnar og lamdi hana og móður hennar áður en hann braut og bramlaði allt sem hönd á festi í íbúðinni. svo sendir hann henni af og til dauðahótanir í sms. sérstaklega þegar hún neitar að gefa honum þrjúhundruðþúsundkall uppúr þurru. hann var víst indæll þessi gaur. þangað til hann breyttist í hóp.
nema hvað... hann veit hvar frændi fyrrverandi kærustunnar býr. í gærkveld datt honum og sam-ákærðum vinum hans frá löggubardaganum í hug að rukka frændann um þrjúhundruðþúsundkallinn. hann sagði nei og þá tóku þeir veskið hans, debet- og kreditkort og sjónvarpið. svo rifbeinsbrutu þeir hann svona rétt áður en þeir kvöddu. frændinn hefur líka fengið dauðahótanir.
mér skilst að löggan hafi sagt fyrrverandi kærustunni að hafa samband ef hann er með eitthvað vesen þessi tappi.
hann sagði henni að hann myndi drepa hana ef hún hringir í lögregluna. og hún er hrædd.
þetta voru fréttir dagsins.....

fimmtudagur, mars 20, 2008

jahérnajæja. mér er farið að líða eins og ég vinni í alþjóðahúsinu. sem er bara gott og gaman. ég er minnihlutahópur í vinnunni minni, enda eini íslendingurinn. ég er með mexíkanann minn, að sjálfsögðu, og tengdamömmuna. svo er hér stúlka frá litháen, önnur frá bandaríkjunum, tvær frá brasilíu, strákur frá kólumbíu (sem leikur by the way þjóninn manolo í leikritinu sumarferðir þessa dagana), og svo eru tvær að fara að koma til reynslu, önnur frá líbanon og hin frá tyrklandi. þannig að ég verð bráðum sirka bát búin að ná yfir allan heiminn. nú og svo erum við auðvitað á hóteli þannig að alþjóðlegi litli hópurinn minn er að þjóna norðmönnum, dönum, svíum, þjóðverjum, hollendingum og allra þjóða liði. sem er líka bara gaman.

núna er til dæmis drukkin bandarísk kona hér að reyna við mann frá hollandi hér við barinn. hún er búin að segja okkur oftar en fimm sinnum að hún sé 49 ára, um það bil að fara að giftast 60 ára manni sem hún hefur búið með í 8 ár, hún á engin börn en maðurinn hennar tilvonandi á tvo stráka. hún á samt risastóran snáser hund sem hún elskar mikið. núna er hún að segja hollenska manninum frá því í þriðja sinn. já og hún býr á rhode island.
semsagt, gaman í litla alþjóðahúsinu.

miðvikudagur, mars 19, 2008

arg farg og helv&#&%$/&#( .... nú var ég búin að skrifa um hvað allt gengi vel, börnin frísk og veitingahúsið gengur vel og þakka fyrir alla sem hafa komið og láta vita að við lokum á föstudaginn og sunnudaginn til að anda og borða súkkulaði og svo ýtti ég á publish og þá hvarf allt. andsk#&($/&(/$##YT%#.....
gleðilega páska samt.

þriðjudagur, mars 18, 2008

nú er hitinn loksins á undanhaldi meðal afkvæma minna og svo virðist sem þau geti snúið til eðlilegs lífernis hvað úr hverju. frumburðinum liggur meira á en síðburðinum að hitta vinina, enda hjörðin mikilvæg á þessum aldri. hann er sko 12 en alveg næstum því 13 að eigin sögn.
núna sit ég með slæðu á höfðinu, bleika kórónu yfir slæðunni, silfurlitaðar tátiljur danglandi framanaf fótunum og röndótta hanska, sem gera mér erfitt fyrir að skrifa. þetta allt til þess að hafa ofanaf fyrir þeirri litlu sem er að verða leið á heimilinu sínu.
og nú er ég líka með pínulítil bleik sólgleraugu.
ætli ég verði ekki að fara að sinna þessari elsku....

miðvikudagur, mars 12, 2008

lífið gengur sinn vanagang. sem minnir mig á það... í dag þar sem ég keyrði í ikea til að kaupa kerti (miklu ódýrari en allstaðar sem ég hef leitað), var ég að hlusta á útvarpið. nema hvað, einhver var að flytja íþróttafréttir og var að tala um kvennalandsliðið í fótbolta. þær unnu víst einhvern leik og svona gaman. nema hvað, daman sem flutti fréttirnar sagði glöð frá því að einhver stúlka í liðinu hefði skorað mörg mörk og væri þar með markakóngur mótsins. um leið hugsaði ég, ókey, það er víst hægt að færa rök fyrir því að herra þýði sá sem ræður og þar af leiðandi sé hægt að láta það eiga við um bæði konur og karla. en ég hef aldrei vitað af konu sem er kóngur. eru þær ekki drottningar? er asnalegt að vera markadrottning? ef kóngur er fyrir bæði kyn er elísabet þá ekki englandskóngur?
nú bara spyr ég...

föstudagur, mars 07, 2008

hana. þá kom fyrsti óánægði viðskiptavinurinn. ungur maður sem pantaði enchiladas verdes en þegar til kastanna kom leist honum bara ekkert á matinn og eftir einn bita ákvað hann að þetta væri vont. svona er nú smekkur fólks misjafn. en jæja, svosem ekkert við því að gera.
mér finnst hann samt skrýtinn...hehe

fimmtudagur, mars 06, 2008

nú er mín bara í 200% vinnu. kennsla á morgnanna og santa á kveldin. ef tengdamóðirin myndi ekki vippa fötum í þvottavélina og leirtaui í uppþvottavélina á morgnanna áður en hún hlekkjar sig við eldavélina, væri heimili mitt í algjörri upplausn. en það hefur haldist ótrúlega frambærilegt þrátt fyrir daglegt brjálæði.
afkvæmin örlítið útundan hjá foreldrunum um þessar mundir, en þau fá því meiri athygli ammnanna og afans. ammanna. ömmanna. ömmnanna.
ég hef þó litlar áhyggjur af því að vera að skadda þau með nokkra vikna hamagangi. fólk hefur lifað af annað eins.

en mikið assgoti er orðið erfitt að vakna á morgnanna...

mánudagur, mars 03, 2008

alveg er ég hissa en nafna mín hún santa hefur varla staðið auð síðan við opnuðum dyrnar. í gær urðum við meira að segja að loka fyrr en áætlað var af því að maturinn kláraðist. auðvitað hefðum við mátt panta meira en við vildum byrja á öruggu nótunum og það fór nú svo.
posakerfið komið í lag og næsti kafli í ævintýrum ís-mex fjölskyldunnar rétt að hefjast. alltaf gaman að ævintýrum.
svo er bara að fá systurina heim að vinna...

sunnudagur, mars 02, 2008

hæ hæ hæ og takk fyrir kveðjur og góðar óskir. þetta var svaka gaman, margt fólk og mikil gleði. mér sýndist fólk fara kátt heim nema leðurhanskinn sem einhver gleymdi.
allir nema nokkrir sem komu of seint fengu að smakka mat (fyrirgefið jessen-systur) og almennt sull í bjór og vínum átti sér stað. meiraðsegja var spilað á gítar og sungið áður en yfir lauk. við fengum rosalega mikið af fallegum blómum og nú lítur bæði santa maría og heimilið okkar út einsog blómabúðir. ef við lendum í vandræðum seljum við bara blómin og verðum rík.
þetta hefur annars gengið stórslysalaust fyrir sig. við opnuðum óvart á föstudaginn og um leið byrjaði að koma fólk. litlir hnökrar urðu á starfseminni, t.d. erum við ekki enn komin með adsl tengingu á posatækið þannig að það er allt í seðlum þangað til á morgun. eins gott að það er hraðbanki í skífunni. svo þarf ég að muna á morgun að kaupa rjóma, banana, jarðarber, súkkulaði og köku fyrir sykurháða.
nema hvað...ætli við verðum ekki í séðu og heyrðu á næstunni.... hehehe....loksins náði ég toppnum!