laugardagur, júlí 30, 2005

hana... svo virðist sem ég hafi loksins fattað reglurnar.

nema hvað, ég er semsagt að horfa á sápuóperu frá venezuela sem heitir örlög konu eða destino de mujer á frummálinu. hún er sýnd á tve frá klukkan 0:30 til klukkan 2:00 að nóttu til alla sjö daga vikunnar. og já ég er geðveik og illa farin í heilanum.
þetta er bara svo yndislega hræðilega brjálæðislega fallega hallærislegt að ég get hreinlega ekki slitið mig í burtu. er þar af leiðandi svolítið lúin á morgnanna en læt mig hafa það. ýmislegt lagt á sig fyrir listina...
nema hvað, ég veit ekkert hvenær hún byrjaði og ég sé ekkert fram á að hún endi. þetta verður sennilega flóknara þegar ég þarf að mæta aftur til vinnu... bleh.
fyrir þau ykkar sem skiljið ekki spænsku eða nennið af öðrum ástæðum ekki að hefja áhorf fyrrnefndrar óperu, ætla ég aðeins að skýra frá aðal söguhetjunum og aðstæðum þeirra.
victor manuel er aðal karlinn, ungur, ljós á hörund, hávaxinn og sætur og þar af leiðandi góður gaur. (já sko karakterar í suður ameríku eru yfirleitt betri eftir því sem þeir eru ljósari). victor manuel missti föður sinn í barnæsku þegar hann var skotinn til bana af alfredo oropeza. maríana er ljóshærð og bláeygð og hún er dóttir fyrrnefnds alfredos, heldur hún semsagt, en hún og victor eru ástfangin og eiga lítinn son. en victor situr á þeim upplýsingum að hún sé í raun dóttir estefans föður síns sem alfredo drap og þau séu þar af leiðandi systkini. en maríana veit það ekki. maríana er dóttir auroru en þær halda báðar að lucrecia systir auroru sé móðir maríönu þar sem lucrecia lét hana halda að dóttir hennar hefði látist í fæðingu og svo lokaði hún systur sína inni á geðveikrahæli í tuttugu ár. alfredo oropeza er eiginmaður lucreciu en svo virðist sem hann hafi nauðgað auroru fyrir þessum tuttugu árum sem þar af leiðandi fær mig til að telja að maríana sé í raun dóttir hans og þar af leiðandi ekki systir victors manuels sem þar af leiðandi gerir ást þeirra mögulega og hef ég komist að þeirri niðurstöðu að allt muni enda vel áður en langt um líður. eða eftir að langt um líður.
það sem flækir hinsvegar málin er að victor manuel er búinn að biðja um hönd vanessu, sem er afbrýðisöm og fölsk og victor manuel notar hana bara til að reyna að komast yfir maríönu, en alberto fósturbróðir victors er ástfanginn af vanessu og frekar pirraður á bróður sínum fyrir að vera með henni. og svo er maríana búin að játa bónorði enriques, læknis sem er voða ástfanginn af henni, en hún samþykkti bara bónorðið til að reyna að gleyma victori manueli sem hún elskar heitt og skilur ekki af hverju hann forðast hana, enda veit hún ekki að hann heldur að þau séu systkini. en enrique á litla dóttur sem trúir ekki að móðir hennar sé látin og er þar af leiðandi ekki ánægð með kærustu föður síns og virkar þar af leiðandi sem hindrun fyrir brúðkaupi þeirra.
svo eru fullt fullt af fleiri persónum sem tengjast inní þetta hægri vinstri, þar á meðal luis miguel sem var alinn upp af barnapíunni frá kólumbíu en komst að því rétt áður en alfredo oropeza drap hann að hann var í raun sonur estefans og bróðir victors manuels sem hann hataði því hann sjálfur var líka ástfanginn af maríönu. en þeir voru einmitt orðnir vinir og voru að ræða hvernig þeir ætluðu að hjálpast að við að hefna föður síns þegar luis miguel var skotinn til bana eftir að hann henti sér í veg fyrir victor manuel sem var sá sem alfredo vildi drepa útaf einhverri gamalli skuld og ýmiskonar gamalgrónum hatri.
nema hvað, hafi einhver áhuga á að fylgjast nánar með framvindu mála skal ég með glöðu geði láta ykkur vita hvernig allt gengur.
ég hef hvort sem er ekkert gáfulegra efni á milli eyrnanna þessa dagana og er hreint út sagt heiladauð.
spurning hvort óperan sé orsök eða afleiðing....

fimmtudagur, júlí 28, 2005

það eru veggjatítlur í húsinu á móti.

vér erum ekki í rónni.

fljúga þessir andskotar yfir götur?

mánudagur, júlí 25, 2005

úff, ég veit ekki alveg hvernig þetta er að gera sig, en ég er amk búin að breyta. nú er ég ekki viss hvort linkarnir hafi haldið sér eða kommentakerfið en ef kommentakerfið vantar veit ég ekki alveg hvernig ég á að laga það því ég man ekkert hvernig ég setti það inn til að byrja með. vinsamlegast kommentið á hvernig ég get sett það inn ef það vantar...hehehe...

nema hvað, á daga mína hefur hitt og þetta drifið undanfarið. ég fór með fjölskylduna í okkar fyrstu tjaldútilegu út í bláinn. hún entist í uþb einn og hálfan sólarhring enda komumst við að því þar sem við tjölduðum undir vatnajökli að við vorum með eina nothæfa dýnu (við erum sko fjögur), ekkert teppi var með í ferðinni, almennileg fæða var af skornum skammti og við höfðum ekki tekið neitt með til að sitja á. við létum okkur hafa eina nótt sem við eyddum reyndar á óskaplega fögrum bletti aðeins innar en skaftafellstjaldstæðið, en við vorum ekki alveg í stuði fyrir gorítex sportklæðnaðarútihátíðina sem virtist hafa safnast saman þar. svo við keyrðum lengra eins og góðir antísósíalistar. á fimmtudagsmorguninn pökkuðum við risatjaldinu hans pabba saman og gengum upp að jökli. á leiðinni fundum við fallega steina og sáum leifar af fugli sem hafði greinilega verið étinn af einhverskonar óargadýri, eða kannski svöngum túrista í gönguskóm.
nú svo fórum við uppað svínafellsjökli, skoðuðum skógarfoss, fórum í sund í vík sem er stödd í mýrdal og keyptum okkur skinkusalat og rauðan lakkrís í kjarvali á kirkjubæjarklaustri. þeir sem eru góðir í landafræði geta svo raðað atburðarásinni í rétta röð.
á föstudaginn fór ég svo í sjúkranudd til að reyna að ná úr mér vöðvabólgunni eftir tjalddýnuandskotann.

mikið er annars gott að fara í svona nudd. ég vissi ekki að ég væri með sogæðar fyrr en ég varð aum í upphandleggjunum og fékk útskýringar á því.

en jæja, best að fara upp að horfa á venesólönsku sápuóperuna mína.
ef einhver hefur áhuga skal ég segja ykkur betur frá henni síðar en hún er gífurlega spennandi og svo yndislega illa leikin að ég er dáleidd.

adiós amigos

mánudagur, júlí 18, 2005

ég er með risastóran marblett á handleggnum. bæði fyrir ofan og neðan olnboga.
það er sko frekar lágt til lofts í kjallaranum hjá mér og ég var stödd af einhverjum orsökum inni á baði (sem er í kjallaranum), ásamt makanum. nema hvað, ég fékk þessa góðu hugdettu að hefja meting um hvort okkar gæti sparkað hærra upp í loft, enda fullviss um að ég sjálf hefði ekkert stirðnað síðan ég horfði á karate kid hérna um árið og æfði karatespörk í allar áttir. nema hvað, makinn, sem er um 7 sentimetrum hærri en ég byrjaði leikinn og sparkaði ansi hátt. innra með mér glotti karate krakkinn gamli góði þar sem ég hysjaði upp um mig gallabuxnaskálmarnar og gerði mig tilbúna fyrir hið svakalegasta spark sem nokkurntíman hefði sést norðan alpafjalla. gott ef ég var ekki farin að hafa nettar áhyggjur af því að gera gat í loftið... nema hvað, þegar ég vippaði hægri fótlegg af öllu afli í átt að halógenljósinu átti sá vinstri við ofurefli að etja og ákvað að vera ekkert að hafa of langt bil á milli þeirra bræðra þannig að hann fylgdi á eftir. það segir sig svo sjálft að tveir fótleggir á sömu manneskju á leið upp í loft gera fátt annað en að kippa öllum stuðningi og jarðtengingu undan öðrum hlutum líkamans. og ég skelltist ásamt öllum mínum kílóum í gólfflísarnar en lappirnar stóðu eftir upp í loft.
á svona augnablikum er erfitt að ákveða hvort skuli gráta eða pissa í sig úr hlátri. ég gerði svona nokkurnvegin bæði. í einu.
og nú er ég með marblett stóran og feitan og fjólubláan.
alveg magnað hvað hægt er að upplifa svona móment hægt.

sunnudagur, júlí 17, 2005

getur einhver kennt mér að vista tenglana mína og kommentakerfið inn í nýtt templeit? ég er í tómu tjóni og þori ekki að breyta neinu því þá dettur allt út og ég peista þetta greinilega allt á vitlausan stað... arg
charms
Flitwick - Charms


Harry Potter: Which Hogwarts professor would you be?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, júlí 13, 2005

gamla fastheldna ég neyddist til að skipta um lúkk. valdi brúnt því það fer mér svo vel. ég fann ekkert sem heitir tequila en það er nú sennilega bara vegna þess að ég kann ekki að leita.

annars hef ég það barasta fínt hér í fríinu, sérstaklega þegar ég er ekki úti að hræra steypu, saga spýtur eða negla húsið mitt saman. óttalega mikið að gera hjá fólki sem kaupir sér húsnæði frá 1910. hreint út sagt snilldarlega vanhugsað hjá mér þó ekki sé tekið harkalegar til orða.

ég veit ekki hvaða ástand er á mér undanfarið en ég hreinlega nenni ekki að blogga neitt af viti. ætli það sé ekki af því að ég hef ekkert nennt að hugsa síðustu vikur.

hjálp!

föstudagur, júlí 08, 2005

getur einhver sagt mér af hverju síðan mín er orðin svona asnaleg? hvaðan kemur þetta bil alltsamant?
hananú. síðasti kennsludagur er í gangi hérmeð og ég á leið í frí. síðburðurinn minn er líka á leið í frí eftir daginn í dag, en hún stendur í þeirri meiningu að frí sé einhver staður og hún er að verða ansi pirruð á því að ég skuli aldrei fara með hana í frí, hvar svo sem það er.
á morgun ætla afi og amma að fara með hana í frí. frí er á hólmavík.

nema hvað... annars er það af mínu sálarástandi að frétta að ég er enn að reyna að átta mig á því hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. þetta er ákveðin dílemma sem ég er að kljást við þessa dagana, vikurnar og mánuðina. ég veit ekki hvort ég á að reyna að fara útí bisness og nota fjármálanefið mitt sem foreldrarnir eru svo ánægðir með, hvort ég á að vera hagsýn og læra að vera betri kennari og halda þannig áfram á þeirri braut sem ég rann óvart inná, eða hvort ég á að hlaupa útá hugsjónabrautina og læra kvikmyndagerð og taka þannig sénsinn á að vera sífellt blönk. eða kannski ætti ég bara að gera eitthvað allt annað... ég er hreinlega komin í kleinu.

mig vantar að eignast ástríðu. á einhver ástríðu til að lána mér?

mánudagur, júlí 04, 2005

ó já ég fór á duran. keypti miða á síðustu stundu. er enn að jafna mig eftir hálsríginn, svitakastið, súrefnisleysið og ofþreytu axlarliðanna sökum klapps. ég hef svosem ýmislegt útá fyrirkomulagið að setja en ætla ekki að eyða orku í það hér og nú.
annars er ég bara á leið með rúma 50 unglinga og ungmenni í þórsmörk á morgun. við erum tvær þrítugar að fara að passa liðið. gangi okkur bara vel... já já.
ætli ég muni ekki segja betur frá þeirri reynslu hér síðarmeir þegar og ef ég hef náð sönsum eftir heimkomu.

það er ýmislegt á sig lagt þegar fólk kann ekki að segja nei.....