þriðjudagur, júlí 29, 2008

best að kvarta aðeins meira yfir veðrinu. fjandinn hafiða þetta er alltof heitt. það er í ökkla eða eyra þessi andskoti. og af hverju kvarta ég? jú af því að ég er prinsípp manneskja og ég læt ekki bjóða mér þessa vitleysu. af því tilefni hef ég ákveðið að boða til mótmæla. vér mótmælum þessu útlandaveðri. ekki nóg með að hér séu útlendingar skríðandi uppúr öllum holum heldur þurfti þetta lið að koma með veðrið með sér. það er ekki eins og maður geti ekki farið bara til spánar hafi maður áhuga á þessu rugli. ha! en semsagt, í dag verður mótmælaseta á austurvelli þar sem múgur og margmenni mun hópast saman og setjast í grasið til þess að mótmæla veðrinu. það mæta pottþétt margir því ég veit til þess að góður hluti landsmanna er sammála mér um þetta málefni. getur alþingi ekki sett einhverja fjárans tolla eða sólargjöld á þennan skratta svo að maður losni við hitann? ís-land. ha. ís. hvaða rugl er þetta?

föstudagur, júlí 25, 2008

í dag fór ég að hugsa um að haustið nálgast. sem er eiginlega skítt því að mér er farið að finnast ansi langt síðan ég sá sólina og þar af leiðandi líður mér varla eins og ég sé stödd í sumri. er þér sama þótt ég stumri yfir humri að sumri?
bíddu ha? er ekki að fara að koma verslunarmannahelgi? er þetta þá ekki bara búið spil? á ég ekki bara að fara að grafa kuldagallana upp? þeir eru varla orðnir rykfallnir eftir þetta litla prumpusýnishorn af sumri. humri.
nei nú er ég bara að vera neikvæð. einhverstaðar verður maður að vera neikvæð.
tókstu eftir þessu? maður - neikvæð? kynjablöndun hér á ferð. jafnrétti í skrifum. það er ég. öll í jafnréttinu. en ég er sko enginn femínisti. neeei. femínistar eru bara órakaðar jussur sem fá aldrei að r... . nei djók. ég er alveg femínisti. víst. hata karlmenn og svona. og þú ættir bara að sjá á mér lappirnar. minnstu svo ekki á handarkrikana ógrátandi. herra hallormsstaðaskógur góðan daginn.
eða ekki. kannski ekki. sennilega. og þó.
ætli þetta með að sofa á óeðlilegum tímum sé farið að hafa áhrif á andlegt heilbrigði mitt? gæti verið. kannski er mitt raunverulega sjálf bara á leið uppá yfirborðið eftir að hafa legið grafið undir lögum af fölskum eðlilegheitum. gæti verið að ég sé alveg ga ga og allir séu löngu búnir að fatta það nema ég? kannski er það þessvegna sem allir eru svona vinalegir. vorkenna þessari þarna klikkuðu.
nei nú er ég bara að bulla. ha. algjör djókari stelpan í dag. ha.
jedúddamía. ég ætti frekar að vera sofandi en skrifandi. ég er varla skrifandi. hvað þá læs. varla vakandi líka ef útí það er farið. af hverju hætti ég þessu þá ekki? hvað á fólk eftir að halda? með valda?
kannski tek ég bara bakpokann minn og læt mig hverfa til timbúktú eða kuala lumpur. ég er svoddan klumpur. (fyndið hvernig lumpur í kuala lumpur rímar samt ekki við klumpur þó að það virðist ríma þegar það er skrifað. það finnst mér fyndið)
mér finnst líka sumir brandarar fyndir. eins og þessi:
a dyslexic walked into a bra...

þriðjudagur, júlí 22, 2008

í dag er ég með einhverskonar ofnæmi. ofnæmi fyrir heimilishaldi og börnum. og svo fæ ég samviskubit yfir því að nenna engu og engum. ætli það sé veðrið?

laugardagur, júlí 19, 2008

í dag átti ég mjög sérstaka stund. þegar sólin var að setjast fór ég að fyllast einhverri einkennilegri tilfinningu. núna er klukkan orðin margt og ég er hreinlega að springa.
ég er ekki alveg viss hversvegna.
áðan sat ég ein og horfði í kringum mig. heyrði fallegt lag í fjarska. svo horfði ég á fólk sem var upptekið af því að vera með vinum sínum, fjölskyldu eða mökum. sumir voru að kynnast. aðrir voru á ferðalagi. þau voru öll gestir á litla sæta veitingastaðnum mínum og það gerði mig stolta móður.
og ég fékk kökk í magann. skrýtinn fiðring í brjóstið og langaði mest til að gráta. ég var samt ekki beint döpur. mér fannst allt vera svo fallegt. ég var svo glöð að búa í svona lítill sveitaborg þar sem fólk treystir hvert öðru. mér fannst fólk vera svo falleg fyrirbæri. og þar sem ég sat þarna var ég algerlega að springa úr.... ást.
það er langt síðan mér hefur liðið svona. þegar tilfinningarnar komast varla fyrir í líkamanum og mér líður eins og ég komist ekki fyrir í sjálfri mér.
það sem framkallaði þó tárin var að ég var ein. alein. mig langaði svo mikið að vera elskuð. að einhver kæmi aftanað mér að ástæðulausu og kyssti mig á hálsinn. snéri mér svo við og leyfði mér að kyssa sig og faðma. fá að týnast í einhverjum.
en enginn kom.
og núna er ég með fullan maga af ást sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við.

ætli mér líði kannski eins og manninum sem kom að mér á miðjum gatnamótum í gær og bað mig um að búa með sér? ég stóð á eyju á miðri snorrabraut þegar hann stöðvaði mig og sagðist vera stoltur af mér. hann var 65 ára, faðir þriggja dætra og nýbúinn að missa konuna sína. var líka aðeins búinn að fá sér í glas.
hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann væri líftryggður fyrir 34 milljónir og ég gæti fengið allan peninginn, hann hefði verið á breiðuvík og að mér væri frjálst að slá mér upp með hverjum sem væri svo lengi sem ég væri bara góð við hann þegar ég kæmi heim. og svo faðmaði hann mig. algerlega ókunnugur maðurinn. ég veit ekki einu sinni hvað hann heitir.
kannski var þetta atvik bara til þess að bæta í tilfinningahnykilinn sem er búinn að vera að safnast í maganum á mér undanfarið.
í hnyklinum leynist samúð, væntumþykja, höfnunartilfinning, ást, þrá, von, þreyta, gleði, dapurleiki, söknuður, reiði, leiði, hamingja og stolt.
en einmitt núna langar mig bara í ást. að gefa hana í sinni hreinustu mynd og fá það sama til baka. algerlega laust við allt hitt. engar flækjur. ekkert vesen.
er von að mig langi til að gráta?

fimmtudagur, júlí 17, 2008

aldeilis hvað tíminn líður. þessi vika flaug beinlínis hjá.
í gær hélt ég frændsystkinapartý á veitingastaðnum mínum og það var aldeilis gaman skal ég segja þér. við átum, drukkum, drukkum og dönsuðum. fór að sofa þegar sólin kom upp. og sönglaði here comes the sun, little darling...
í dag hafa heilasellurnar mínar bara verið í fríi. ég hef tæplegast getað komið heilli setningu óbrenglaðri frá mér og það eina sem ég gat gert í vinnunni var að rúlla hnífapör inní servíettur. ætli það væri ekki bara best og gáfulegast fyrir mig að slaka á næstu dagana og reyna að losna við allt áfengið úr blóðrásinni. og fá svefn.
en semsagt. almennur heiladauði. í sjónvarpinu er verið að sauma klofið á einhverri konu í kaliforníu af því að hún pissar alltaf á sig þegar hún hnerrar. vaginal rejuvenation heitir það víst. magnaður skítur. ekta sjónvarpsefni fyrir fólk eins og mig á degi sem þessum.

sunnudagur, júlí 13, 2008

í gær keyrði ég semsagt til hólmó og í dag til baka. ég er ennþá svolítið aum í le derrier eftir allt bílstjórastarfið.
hólmavík var kúl. ég sá reyndar mjög lítið annað en tjaldstæðið, sundlaugina og íþróttahúsið en náði þó smá pínu nostalgíugöngutúr uppundir morgun.
á hólmó tjaldaði ég risastóru tjaldi (ein) á blautu tjaldstæði. svo fór ég í sund og eftir það hófst ættarmótið formlega. semsagt afkomendur litlu langömmu minnar og afa en honum kynntist ég reyndar aldrei. langamma mín var voða lítil og trúuð. lítið kjarnakvendi. en semsagt, við fengum mjög fínan mat og hlustuðum á misfínar ræður. við systkinabörnin lékum leikrit sem var nett súrrealískt en mér skilst að lóa frænka og gunna hafi næstum pissað í sig úr hlátri. og við sungum allir krakkar og við göngum svo léttir í lundu.
eftir það var dansað og að lokum enduðum við nokkur frændsystkinin úti í tjaldi að syngja og spila á gítar og drekka aðeins meira. ég á ógeðslega skemmtileg frændsystkini maður. maður lifandi. maður minn. sum þeirra eru svo mikil krútt að mann langar að borða þau. ég var aðeins farin að narta í handleggina á einum sem er óheilsusamlega mikil dúlla. þegar fór að sjást í beinin og hann var eitthvað farið að svíða í sárið varð ég að hætta. ómögulegt að fólk sé að koma allt lemstrað og plástrað heim af ættarmóti. svo var annar sem mig langaði til að bíta í rassinn en hann var á svo miklum hlaupum allan tímann að ég náði honum ekki. bleyjan hefði hvort eð er sennilega þvælst fyrir mér. svo hann slapp.
já og svo er alveg magnað hvað margir eru fríðir og föngulegir í þessum ættlegg. og alþjóðlegir og klárir og sniðugir. ekki það að ég sé eitthvað að monta mig en hjónin á skriðinsenni hafa greinilega haft góð gen til að bera.
nema hvað. bekk tú læf.

laugardagur, júlí 12, 2008

ég er ekki vön að blogga undir áhrifum. geri það samt núna. ég er illilega furlur.
það er ógeðslega fyndið að vera svona einn í heiminum. snappa útúr karakter. vera bara ég. það er gaman. sleppa öllum umhverfisáhrifum. allri rútínunni. öllu vjeseninu. í dag vann ég eins og moððer og svo drakk ég bjór. og svo fór ég á tónleika og svo fór ég á bari og svo söng ég í karókí og svo fór ég á fleiri bari og það var rosalega gaman. ég hitti sigga breik sem ég var skotin í þegar ég var 9 ára og ég sagði honum það. svo sagði ég honum líka að ég hefði kysst hann á arnarhóli þegar ég var 17 ára. ég mundi ekkert eftir því og hann ekki heldur, en ég las það í dagbókinni minni sem lýgur aldrei. hann spurði hvar ég hefði haldið mig og sagðist hafa fettish fyrir skökkum tönnum. það er sko ég. og svo fékk ég koss á kinnina frá gamla átrúnaðargoðinu mínu. það var næs. og ég söng la bamba í karokí. það var líka gaman. systir mín er skemmtilegur fugl. það er stærðfræðikennarinn líka. þó að hann fáist ekki til að lesa draumalandið. og nú er klukkan margt og ég þarf að vakna til að fara í ród trippið mitt til hólmavíkur. mig grunar að sá fjandi endi í fylleríi líka. bölvað endemis fyllerí erðetta.
en það er amk rosalega gaman og gott og indælt að vita að maður veki áhuga fólks þrátt fyrir allt og allt. bætir hressir kætir.
og ég er full núna. einmitt núna. jibbilí dúdæ........

föstudagur, júlí 11, 2008

úff púff og pelamál. gleymdi mér alveg þarna í smá stund. það er eitthvað við sumarið.
annars er það að frétta að í dag er ég ein í bænum. afkvæmin farin á ættarmót á hólmavík, þangað sem ég skrepp á morgun, og makinn farinn til síns heimalands að éta. og hanga með vinum sínum. og ná í mömmu sína. og kaupa drasl. og hvíla sig á mér. og mig á honum. slíkt er hverju pari hollt og nauðsynlegt í lífsins ólgusjó. ójá.
það er samt hálf undarleg tilfinning að vera svona ein og sjálfri mér nóg. ég veit varla hvað ég á að gera. ætli ég neyðist ekki bara til að drekka bjór og smakka eitthvað af þessum margarítum sem ég er alltaf að blanda og sjá svo til hvað gerist. jú svei mér. það hljómar ekki illa. og svo ætla ég að horfa á fm belfast í nakta apanum á eftir. það verður gaman. ú je.
einhver sem vill hanga? áhugasamir hringið núna. hehe...

mánudagur, júlí 07, 2008

heyrðu hahahahaha..... allt í einu rifjaðist upp fyrir mér hvað mig dreymdi í nótt... hahahahahahaha..... ég var með axlapúða sem ég hafði gleymt að taka af mér þegar þeir hættu að vera í tísku....hahaaaha.... og svo var ég að dansa við hann guðna sem vinnur með mér og ég prumpaði óvart framaní hann hahahaha.... og svo hlógum við ógeðslega mikið og ég með axlapúða eins og fáviti í stuttermabol. ..hahaha...... ja hérna hér... gaman að muna svona nætur. það hlaut eitthvað að vera, ég er búin að vera í svo góðu skapi í dag.

sunnudagur, júlí 06, 2008

skruppum að heimsækja foreldrana og afkvæmin í sumarbústað í gær. komum aftur áðan. sumarbústaður var kósí. grilluðum sykurpúða og okkur sjálf. í dag keyrðum við í sundlaugina í reykholti. þegar við mæðgur vorum að baða okkur og fara í sundfötin kom lítil stúlka inn ásamt móður sinni. eitthvað fór ég að sniffa út í loftið því að lyktin í sturtuklefanum var skyndilega skrýtin. svo horfði ég á sundbol stúlkunnar og velti litasamsetningunni fyrir mér en hún var hálf hippaleg eitthvað. svona bleikur með dökkum ósamræmdum röndum. svo sá ég kúkabita á gólfinu og það var ekki fyrr en þá sem ég kveikti á perunni. skrýtin lykt. skrýtinn brúnn sundbolur. kúkur á gólfinu.... hmmm.... og svo fórum við út og pössuðum okkur á að fara ekki í litla grugguga heitapottinn (ég var sko enn með kveikt á perunni). svo fórum við mæðgur bara að svamla og leika okkur. það var ekki fyrr en eftir svolitla stund að ég fór að svipast um eftir makanum sem er yfirleitt langt á undan okkur í svona málum. ekkert bólaði þó á honum fyrr en eftir dúk og disk.
hann var á undan okkur. var bara aðeins of snöggur að skella sér í pottinn. það var ekki fyrr en of seint að einhver viðstaddra lét hann vita að hann væri að baða sig í niðurgangi. og litli herra hreinlátur fór þrisvar sinnum í sturtu áður en hann kom aftur út. og hann er ennþá með hroll....tíhíhí....

nema hvað. við ákváðum að fara seint af stað í bæinn. hanga með familíunni áður en við lögðum af stað. svo fórum við úr brekkuskógi og keyrðum í átt að höfuðborginni. þegar við komum niður að beygjunni þar sem þú velur selfoss til vinstri og reykjavík til hægri sáum við að við vorum lent í miðri bílaröð þúsunda hestamótsgesta og annarra vitleysinga sem ætluðu greinilega allir í bæinn á sama tíma. í staðin fyrir að hanga í 6 klukkutíma í röð snérum við við og skutumst tilbaka og í gegnum þingvelli. sem betur fer voru greinilega fáir sem höfðu fengið þá sömu snilldarhugmynd og við vorum komin heim á mettíma. brennd, hrein og þreytt.
og svo verð ég semsagt grasekkja frá því á fimmtudaginn næsta og út mánuðinn. hvusslagseiginlega....

fimmtudagur, júlí 03, 2008

ég er alveg pass þessa dagana. opna síðuna og loka henni svo bara aftur.
enginn friður hér á söntu. ég veit ekki hvaðan allt þetta fólk kom. það er ekki einu sinni friður til að blogga hvað þá meira.
arg.

heyrðu já, ég er semsagt hjá sjúkraþjálfara sem lætur eins og ég sé kúluplast. hann togar hálsinn á mér í kjánalegustu stellingar og kippir svo þannig að ég bí bí og braka. svo ýtir hann hryggnum mínum ofaní magann á mér og ég braka. hann ýtir líka stundum höfðinu á mér ofaní bringu þannig að ennið og hakan mætast. þá langar mig alltaf að hlæja en ég get það ekki því að andlitið á mér er allt krumpað saman. svona svolítið eins og tannlaus gamall karl.
mér myndi þykja þetta hrikalega óþægileg staða ef ég hefði í huga að tæla þjálfarann. en þar sem ég er ekki að því er þetta bara fyndið og skemmtilegt.
nema hvað. ég þarf að fara að blanda í margarítuvélina.
hasta la pasta