miðvikudagur, desember 31, 2008

þá eru endalok ársins að renna upp. af því tilefni hef ég ákveðið að rita hér lista yfir mitt eigið val á mínum eigin hápunktum míns eigins árs. þá get ég líka rifjað þetta upp seinna þegar ég man ekkert hvað gerðist eða hvenær.....en semsagt:

merkilegt ársins - við fluttum ekkert
afmæli ársins - ég og afmælissöngurinn með 4000 manns í beinni á rás tvö
ferð ársins - berlín og bjórdrykkjan
bar ársins - die kleine filharmonie
afrek ársins - santa maría
gleði ársins - að hafa byrjað á nýjum vinnustað sem er góður
stuð ársins - að hljóta þann heiður að fá að glamra á hristur með fm belfast
svekkelsi ársins - að tuskudúkkan addi er að missa andlitið
leiðindi ársins - fréttirnar síðan í september/október
lag ársins - fm belfast allt
bíómynd ársins - uuuu.... tja, það situr engin eftir
stuðbolti ársins - gunna
vandræðalegt ársins - þegar ég skallaði gluggakistu í miðri kennslustund og fékk kúlu
ánægja ársins - að safna kjólum
óþægilegt ársins - hálsinn á mér eftir áreksturinn í apríl
stolt ársins - útnefningin flottasti rassinn á kennarastofunni
uppgjöf ársins - að hafa hætt að nenna að synda eftir vinnu

og svo eru það óskir og vonir fyrir næsta ár: (sjáum til eftir ár hvað rætist úr þeim)
-að verða ráðin áfram á sama stað
-að eiga áfram góða vini
-að flytja ekki
-að eiga heilsu og hamingju
-að kafna ekki í verðbólgu og fjármálarugli
-að santa maría lifi kreppuna af og verði stór
-að fá áfram að nota hristuna mína

og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki í augnablikinu...
en nú er ég að fara að hafa mig til. á eftir ætlum við að snæða með foreldrunum og sprengja svo peninga við hallgrímskirkju á miðnætti. þaðan verður þrammað á söntu máríá þar sem verður stöðð langt framundir morgun. ég verð dyravörður og er alveg komin í gír fyrir hlutverkið. gott ef ég er ekki komin með massa upphandleggi í tilefni dagsins.
það er nú svo og svo er nú það. og nú kemur ávarpið:
þér lesandi góður, þakka ég samfylgdina á árinu sem er að líða. vonandi megum við fylgjast að í gegnum sætt og súrt á komandi ári líka. ég óska þér gleði og heilsu jafnt í kvöld sem ætíð og megir þú vera full af lífi í iðrum þínum um ókomin ár.
bless á meðan.

þriðjudagur, desember 30, 2008

viltu sjá mig pirraða? ha? viltu það? já var það ekki... djöfullinn hafi það...
þetta er ég pirruð, svo pirruð að ég gæti slitið nefhár úr einhverjum. af hverju? jú af því að það er mið nótt, eina ferðina enn og ég get ekki sofið. af hverju get ég ekki sofið? af því að draslið á efri hæðinni fékk þá snilldarhugmynd að halda partý. núna. á mánudagskvöldi. það er ekki gamlárskvöld og ekki nýárskvöld. það er bara andskotans mánudagskvöld og við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að það eru fokking timburgólf á milli hæða í þessu helvítis húsi svo það er ekki fræðilegur möguleiki að sofna. fjölskyldunni minni tókst á einhvern ótrúlegan hátt að festa svefn áður en fílahjörðin byrjaði að blasta fjöllin hafa vakað og bites the dust þarna draslið með queen en ekki ég. neeeeiiii auðvitað ekki ég.
ekki nóg með að skítablesarnir syngi hástöfum heldur mætti halda að þau hafi sérstaklega boðið sjötíu offitusjúkum sóprandruslum á pinnahælum til að dansa og væla. núna. um miðja nótt. djöfulsins andskotans og nú góla helvítin nine to five með dolly parton...pakk. leyfist mér að nefna að vegna timburgólfanna er svo hljóðbært að ég heyri í alvörunni þegar einhver pissar standandi þarna fyrir ofan mig. er hissa að hafa aldrei fengið dropa í augað í gegnum þessi andskotans pappagólf. já, á svo ekki bara að dansa konga í eyrunum á manni.... fávitar.
í þokkabót er ég svo mikil endemis aumingjans bleyða og ræfilstuska að ég drullast ekki upp til að kvarta. vil aldrei vera leiðinlegi gaurinn... tek það bara út á blogginu.... andskotans helvítis djöfull.... væri ekki bara best að nauðga hjaltalínlaginu mínu svo aðeins...nei nú er nóg komið, ég er farin upp að berja einhvern.

sunnudagur, desember 28, 2008

sumir dagar eru meira svona og svona en aðrir dagar. ojæja. ekki verður svosem um það að fást.
í árslokaendurskoðun minni og sjálfsrýni tók ég persónuleikapróf á netinu. það er svona það sem rugludallar gera þegar þeir eru ruglaðir. í því stóð ýimslegt gott og fínt. það þýðir ekki að deila við hávísindaleg netpróf svo að ég er að hugsa um að hvíla í friði með efasemdir mínar um mig frá mér til mín.

eftir að hafa haft hreina vinstrihönd yfir jólin er ég aftur komin með to-do lista á handarbakið. ég er að spá í að láta tattúvera á mig línur og spássíur á höndina svo að ég geti haft minniskrotið mitt skipulegt og hreinlegt á að líta. kannski góð hugmynd. kannski ekki...
á morgun er bara mánudagur. frumburðurinn á körfuboltanámskeiði allan daginn og makinn að vinna þannig að það erum bara við mæðgur sem þurfum að hafa ofanaf fyrir okkur. næstum því eðlilegur mánudagur fyrir utan okkur tvær. en það er svosem ýmislegt sem þarf að stússast, oseisei, hringja í hina og þessa, panta tíma hingað og þangað og ganga frá hinu og þessu. kannski skreppa í sund. kannski breyta framtíðinni. hver veit.
svo þegar tunglið verður fullt og ég breytist í skrímsli ætla ég að taka persónuleikaprófið uppá nýtt.

laugardagur, desember 27, 2008

mikið er ég svakalega leiðinleg þegar ég sef of lengi, borða of mikið og hef ekkert fyrir stafni.... úff...
best að hætta því þá. þetta er ekki hægt.
og kyrja möntru hinna óöruggu: það þurfa ekki allir í heiminum að vera ánægðir með mig.
hehe... en nú skal ég hætta að vera niðurdrepandi og þreytt.
á morgun er tuttugasti og áttundi. dagur hinna saklausu í mexíkó. það er svipað og okkar fyrsti apríl og þá má plata fólk.
einu sinni var ég skotin í söngvaranum paul young. það var árið 2002.
djók. ætli ég hafi ekki verið um tólf ára. hann söng ,,every time you go away, you take a piece of me with you... ú ú..." og þar sem ég er með væmin lög í æðum mér þessa dagana ætla ég að bæta því við lagalistann í heila vorum.
skoh, ég er strax að hressast. þetta er allt annað líf.....
jamm og jæja... þetta er hún ég, litla vangavelta... vagg og velta. ársvelta. bílvelta.
þetta var rólegur dagur. ég svaf allt allt of lengi og fór svo með liðinu í sund. eitthvað þurfti ég að skipta peysu sem ég fékk í jólagjöf og gerði það en síðan hef ég fátt fleira gert nema að skreppa með síðburðinum á róló. silalegur dagur.
hvað er annars sili?
á þessum silalega degi hef ég svolítið verið að velta fyrir mér fólki. hvernig fólk virkar og sér lífið. ég hef líka verið að spá í sjálfa mig, hvernig ég virka og er. það er hægara sagt en gert að komast að niðurstöðu í þessháttar vangaveltum. það sem ég þykist þó vita eftir alltsamant er að ég er eitthvað hálf ringluð. ég dett úr jafnvægi þegar/ef einhver heldur því fram að ég sé öðruvísi og flóknari en ég er samkvæmt sjálfri mér. ég tel mig nefnilega vera mjög einfalda og auðvelda í umgengni þó ég segi sjálf frá. þess vegna höndla ég líka mjög illa þegar ósjálfráð viðbrögð mín við einhverju verða til þess að ég sé sökuð um að vera útsmogin, köld eða óheiðarleg. ég verð alltaf svo hissa. svo yfirgengilega hissa því þær hugsanir og tilætlanir sem mér eru eignaðar eru svo fjarstæðukenndar að ég get ekki annað en gapað. ekki batnar það svo þegar ekki er hægt að ræða og afgreiða málið sem þann misskilning sem það er, vegna þess að hinn aðilinn heldur að það sé bara hluti af plottinu mínu til að fá mínu fram.
ókey, þetta er leiðinlegt og óáhugavert. bara ég eitthvað að ræpast yfir síðuna til að losa mig við innvortis hnúta. biðst afsökunar á ónæðinu.
ég vona að þið gefist ekki upp á mér þó ég sé með jólablúsinn. ég verð ábyggilega betri strax á morgun...
sagðirðu gubb?
hér er ég eina ferðina enn að blogga um miðja nótt. og nei, ég var ekki að drekka...
í kvöld var ég eitthvað hálf blá. mér leiddist og ég var einmana inní mér. ég var að hugsa um að skella mér bara í háttinn en svo lét ég slag standa og hypjaði mig heim til systur minnar sem var að gera sig klára fyrir jólaball á nasa. makinn hafði farið með vinum sínum að bjórast og svo komu þeir með okkur á jólaballið. þegar ég kom þangað var hjaltalín að spila og síðasta lagið sem þau spiluðu var þú komst við hjartað í mér. það er flott lag og ég söng með hástöfum. þetta lag lætur mér líða vel.
svo spilaði retro stefson sem var líka gaman og að lokum fórum við á svið. ég vígði hristuna sem ég fékk í jólagjöf og spilaði á hana af lífi og sál. svo mikið spilaði ég að ég er núna aum í lúkunni og verð ábyggilega marin og blá á morgun. en það var gaman. svo gaman að ég fór beint í sturtu þegar ég kom heim rétt áðan.
og ég drakk vatn. mikið af því.
en núna er ýmislegt að velkjast um í höfðinu á mér. hugsanir sem laumuðu sér þangað vegna hluta sem ég heyrði í kvöld. sumt var sagt við mig. sumt ekki beint. og nú langar mig að fá fleiri sjónarhorn, skoðanir og hugmyndir svo að ég upplifi mig ekki svona mikinn palla einn í heiminum.
ég þarf að vita hvernig það er að vera par fyrir aðra. hvað felst í því og hvað á að felast í því. eru til pör sem eftir tíu til tuttugu ár og börn eru eins og í upphafi? hvað þarf að vera til staðar svo að fólk sé par? vinátta? traust? ástríða? kynferðisleg aðlöðun? skoðanaskipti? samvinna? virðing? stolt? hrifning?
hvað af þessu er absolútt nauðsynlegt og hvað má missa sín? hvað er eðlilegt að breytist með tímanum? gæti verið að hið fullkomna samband sé rétt handan við hornið þar sem allt þetta verður alltaf til staðar eða þróast þau öll í sömu átt með tímanum og hversdagslífinu? hvenær veit maður að eitthvað sé þess virði að berjast fyrir því og vinna í því eða hvenær er mál að sleppa, því allt gæti verið svo miklu betra alltaf en það er núna? hvenær veit maður að eitthvað sé í alvörunni að?
og nei, ég er ekki drukkin. bara full af vangaveltum....
en nú ætla ég að reyna að sofna. vinsamlegast tjáið ykkur kæra fólk. hjálp.

föstudagur, desember 26, 2008

hananú, var þá ekki bara ákveðið að loka veitingastaðnum vegna fámennis. ætli þetta sé þá ekki orðinn fjölskyldudagur eftir alltsamant.
jólin eru rólegur tími. ég er komin í tímabundna tímaleysu, farin að vaka lengi frameftir og fara seint á fætur. núna er klukkan til dæmis að verða þrjú um nótt og ég á leið í rúmið eftir að hafa klárað að horfa á mjög svo skemmtilega þáttaseríu með frumburðinum og systurinni. og ég veit varla hvaða dagur er. ef ég hefði ekki haft rænu á því að fara í miðvikudagsnærbuxurnar mínar í gær gæti einhver logið því að mér að í dag væri sunnudagur.
á morgun ætla ég aftur að fara seint á fætur og dóla mér frameftir með afkvæmunum. svo er hið árlega jólakaffiboð fjölskyldunnar heima hjá ömmu og þar verður sko etið eina ferðina enn. ég er búin að borða svo mikið undanfarna daga að ég yrði ekki hissa ef einhver spyrði mig hvort ég ætti von á tvíburum. en sem betur fer koma þessir tvíburar bara útúr mér í formi síendurtekinna prumpa. eins gott að ég er ekki síamstvíburi því þá væri ég sennilega komin langleiðina með að drepa hinn helminginn af mér.
en nóg um það. á morgun er ég semsagt að fara með afkvæmin til hennar ömmu minnar sem mun gera sitt besta til að framlengja prumpuástandið á mér með mat. æi, úps, ég ætlaði að hætta að skrifa um prump... afsakið.
til þess að láta mér líða aðeins betur með allt átið er ég að hugsa um að notfæra mér þá staðreynd að sú gamla býr á hraunteig og skella mér með krakkana í sund. þá þykir mér við hæfi ef kaffiboðið byrjar klukkan þrjú að áætla eins og klukkara í vatninu. það virkar líka svo helvíti vel til að fá síðburðinn fyrr í rúmið á kveldin. já, svei mér ef þetta er ekki bara ákvörðun tekin hér og nú, í beinni á netinu.
aumingjans makinn missir af kökuflóðinu því hann þarf að sinna veitingahúsabarninu sínu og vakna snemma í þokkabót, en honum finnst það í lagi því hann er hvort eð er ekki mikill fjölskyldumótamaður. annað en hún ég. seisei.
en nú er semsagt kominn tími til að skella sér úr fimmtudagsnærbuxunum og undir sæng. á morgun fer ég svo í föstudagsnærbuxurnar og þannig veit ég að það er að koma helgi og ég get haldið áfram að fara seint að sofa og seint á fætur.

fimmtudagur, desember 25, 2008

heildeilis fínt aðfangadagskveld að baki. það var svona:
uppúr klukkan fjögur kom makinn heim með matinn og frumburðinn sem var aðstoðarkokkur. þá var heimilið orðið svaka fínt og við slökuðum aðeins á áður en allt fór í gang aftur. um klukkan sex komu systirin og mágurinn, foreldrarnir, frænksnið og kólumbíski eiginmaðurinn auk samlanda hans sem er nemi í háskólanum og var eitthvað jólalega munaðarlaus. allt í allt vorum við ellefu talsins.
við borðuðum hrikalega góðan allskonar mat og svo voru það pakkarnir auðvitað og eftirrétturinn...mmmmmm..... ég fékk tvö borðspil, tvö viskustykki, lampa, kjól, peysu, bók, hristu, tvö kerti og tequilaflösku. já og listaverk eftir síðburðinn og annað eftir systurina. alltsaman hrikalega fínt og flott.
eftir át og opnun dönsuðum við svolítið og fórum svo að spila. það var svo gaman að við spiluðum og spiluðum og þá var klukkan allt í einu orðin þrjú eða meira.
í dag erum við öll á náttfötunum og hyggjumst ekkert fara í neitt annað. hér er nóg til af mat og afþreyingarefni til að endast okkur í allan dag og rúmlega það.
á morgun er svo kaffi hjá ömmu, makinn fer aftur í vinnuna og við neyðumst til að klæða okkur í föt.

miðvikudagur, desember 24, 2008

hana, er þá ekki aðfangadagurinn sjálfur runninn upp. litla fjölskyldan fór seint á fætur, sérstaklega ég þar sem ég var langt frameftir nóttu með kók, súkkulaði og kertaljós að pakka inn gjöfum frá öllum til allra.
en nú erum við komin á fætur. makinn ákvað að nota eldhús atvinnumannsins undir jólamatinn þannig að hann verður víst eitthvað frameftir degi á veitingahúsinu að subba það út. fegin er ég, þá þarf ég ekki að þrífa eftir hann og sprenginguna sem hann er við eldamennskuna. en í staðin fæ ég að ryksuga og flikka uppá úberhreingerninguna mína frá því um daginn. ef ég á að vera alveg hreinskilin er ég komin í drullugallann, búin að reyta á mér hárið og jólalegi geðveikisglampinn er þarna einhverstaðar í augum mínum. nú er ég að fara í gang. allir frá, fúsa liggur á...

þriðjudagur, desember 23, 2008

jæja, þá er slatti liðinn af þessum degi. seisei.
við mæðgur erum búnar að taka ikea og bónus í nefið og nú á ég rúmlega nógu marga diska fyrir alla sem koma til okkar á morgun. ég á líka rúmlega nógan mat. og ég notaði tækifærið og afsökunina og keypti mér nammi. fullt.
til að þreyta síðburðinn skrapp ég með henni í sund. svo eignaðist hún fullt af nýjum vinum og ég hitti fullt af skemmtilegu fólki og allt í einu var klukkan orðin þremur klukkutímum meira en hún var þegar ég kom oní. ég hef aldrei verið svona lengi í sundi í einu. gott ef ég hef ekki þyngst um 4 kíló frá því að ég klæddi mig úr þangað til ég klæddi mig í aftur, bara af vatni.
núna vill frumburðurinn athygli og ég ætla að rölta með honum niður í bæ. barninu sem aldrei þagnar líka til að þreyta hana enn meira. henni og vinkonu hennar sundlauginni tókst aldeilis að þreyta mig. en makinn á einkarétt á þreytu núna eftir langan og strangan vinnudag svo að ég er við það að reima á mig skóna, hneppa upp kápunni og fara út að labba - á átópælot. ég er búin að skella límbandi á mig til að halda augnalokunum uppi og svo tróð ég herðatrjám upp buxnaskálmarnar til að halda fótleggjunum uppréttum. ætli það sé ekki best að skella kústskafti upp eftir bakinu svo að ég líti ekki út fyrir að vera lömuð fyrir ofan mitti vegna þreytu.
og svo eru að koma jól. ég mun amk sofa vel í nótt í hreinu rúmi.
en það var gaman í sundi. gaman í sundi. gott í sundi.
sjáumst kannski á morgun. annars óska ég þér gleðilegra og góðra jóla.
í gærkvöldi vakti ég aðeins of lengi því ég var að klára að lesa bókina konur eftir steinar braga. mér fannst hún óþægileg og átakanleg, sagan sko. stundum skildi ég hana ekki alveg og þá upplifði ég að ég væri ekki nógu heimspekilega og bókmenntalega þenkjandi til að fatta. ég sjálf er hrifnari af því þegar hlutirnir eru sagðir þannig að ég skilji án þess að þurfa að túlka. ég er lélegur túlkur. kann lítið að lesa á milli línanna og þegar fólk reynir að senda mér skilaboð með svipbrigðum, líkamstjáningu eða óræðu tali getur það verið nokkuð öruggt um að ég er úti á þekju. samt þykir mér tvíræðni og orðaleikir skemmtileg en það er ekki það sama finnst mér.
nema hvað, það sem átti hér að koma fram var að í bókinni, sem inniheldur fullt af góðum hlutum þrátt fyrir átakanlegheit heildarinnar, fann ég nokkra kafla sem gripu mig og fengu mig til að hugsa. sá helsti er svona:
,,þegar kom að kröfum sem þurfti að svara, íþyngjandi kröfum sem þurfti að vakna til á hverjum morgni og sinna, voru flestir jarðarbúar líklega verr staddir, að minnsta kosti ekki mikið betur (en hún). hverri manneskju var skammtaður svolítill flötur eða sneið af lífinu - ,,leikvöllur", sem viðkomandi varð að gera á einhvern hátt að ,,sínum", tileinka sér reglurnar, beina þrám sínum og draumum eftir réttum farvegum innan þess skika og uppskera eða sá til samræmis við það hvernig til tókst. (...)(hún þurfti) að ná aftur þeim stærðum, því mikilvægi, sem fólkinu þarna úti - takmarkað hvert í sinni íbúðinni, vinnunni, ástarsambandinu, borginni sem það byggði - hafði tekist að gera að vettvangi hugmynda sinna um líf, tilgang, frelsi. sérhver manneskja spannaði jú aldrei í raun, nema þá um það bil tvo fermetra sem var mannslíkaminn í rýminu. hið eina sem skipti máli var hugurinn, og að hafa völd yfir huganum, sjálfri sér."
æi mér fannst þetta einhverra hluta vegna svolítið gott. það er alltaf gagnlegt að vera minnt á hvað maður takmarkar sig og lifir mikið inni í ,,kassanum". og þar sem ég er háfleyg og djúp í dag ætla ég í þokkabót að skella hingað inn texta við lag sem var mikið sungið í kringum mig sem krakki en það er svona:

dragðu ekki það að dansa þar til þú eldist
því að þá kannski uppaf hrekkurðu heldur skjótt
og hefur hreint aldrei dansað neitt.
taktu heldur því sem þér að höndum ber
það þýðir ekkert um að fást
þú skalt aldrei láta mæðu sækja sinnið á
né súta yfir von sem brást.

og svo er þetta sungið aftur og aftur og orðinu dansa skipt út t.d. fyrir að elska, drekka, ferðast, ríða.... eftir smekk.

en nú er semsagt kominn þorlákur. makinn eina ferðina enn stunginn af á veitingastaðinn hvar hann mun dúsa við þjónustustörf og uppvask langt frameftir degi. ég sjálf þarf að stinga rúmfötum í þvottavél því maður á alltaf að fara að sofa í hreinum rúmum á þorláksmessu. það kenndi hún móðir mín mér. svo þarf ég að ryksuga og til að kóróna skemmtilegheitin neyðist ég til að fara í bónus og ikea. þá er ég búin á einni viku að heimsækja öll helstu svarthol höfuðborgarsvæðisins. fór nefnilega í húsasmiðjuna um daginn líka.
ég lifi þetta vonandi af.
lofa að blogga í kveld til að sannfæra sjálfa mig um að ég lifði af.
þá hef ég líka loforð til að standa við...

mánudagur, desember 22, 2008

þetta verða skráðustu jól sögu minnar. eins og sjá má blogga ég eins og það verði enginn morgundagur en mikið assgoti er þetta góð þerapía. þerapía er hasarpía.
eftir nokkur ár mun ég geta lesið sögu kreppujólanna tvöþúsundogátta fyrir barnabörnin mín og við munum glotta saman.
nema hvað. þessi dagur var barasta skrambi fínn þrátt fyrir erfiða fæðingu. ég ráfaði fyrst tímunum saman ásamt síðburðinum um smáralind hvar við keyptum slatta af skrani. þaðan neyddumst við til að færa okkur yfir í kringluna og satt best að segja var ég eftir nokkurn tíma orðin ansi hreint þunglynd og lúin á sönsum. þegar ég var aðframkomin og við það að sparka í punginn á hverjum þeim sem fyrir mér varð náði ég á einhvern hátt athygli eins jólasveinsins sem gaf sér tíma til að spjalla við mig. það að spjalla við jólasveina er alveg hreint jafn skemmtilegt og gott og að blogga út í loftið. á örskotsstundu hætti ég við allt pungaspark og fylltist barnslegri jólagleði. með hamingjubatteríin hlaðin og risavaxið bros á fésinu sprangaði ég inn og út um kringluna, fór svo niður í bæ, valhoppaði upp og niður laugaveginn og kláraði að kaupa allt sem mig vantaði. það er góð tilfinning að vera búin.
nú ætla ég að hvíla lúin bein in the faðm of the family.
á morgun kemur svo þorlákur og þá verður þorláksbloggað.
hasta la vista baby.
jólafrí - dagur þrjú.
eitthvað er ég að gefa mig því þegar ég vaknaði leið mér eins og lest hafi ekið yfir axlirnar á mér. ætli ég neyðist þá ekki bara til að skakklappast í apótek, setja upp hvolpaaugun mín og gráta þangað til einhver vill vera svo vænn að selja mér pillur. kannski verður nóg að ganga inn og biðja um lyfið, gæti verið.
nema hvað, þar sem makinn fékk hér um árið þá snilldarhugmynd að opna veitingahús hefur hann fátt annað að gera þessa dagana en að súpa seyðið af því. hann er fastur þar frá morgni til klukkan fjögur og fimm og jafnvel lengur alla daga vegna jólaanna. (jólaanna og jólahjálmtýr eru sko foreldrar mínir). en semsagt er blessunarlega svo mikið að gera að drengurinn fær ekkert frí eins og ég og börnin. svo er aftur spurning hvort orðið frí eigi við þegar ég er ein með börnin.... mætti kannski frekar kalla þetta jólasamveru, jólalæti, jóla.....álag?
dagurinn í dag verður að minnsta kosti á þennan veg ef allt gengur eftir: makinn vinnur frameftir degi, frumburðurinn fer í kringluna með félögum sínum að kaupa gjöf fyrir körfuboltaþjálfarann og við mæðgur förum á stjá í lind smáranna til að kaupa þær gjafir sem ekki hafa fundist í miðbænum góða. ég vona að ég lifi það af.
ég er eiginlega strax orðin þreytt af tilhugsuninni....
loforð dagsins: klára að kaupa jólagjafir handa fjölskyldu og starfsfólki og lifa af ferð í smáralind með barninu sem aldrei þagnar. sé til á eftir hvort tókst að standa við alltsamant.

sunnudagur, desember 21, 2008

þegar ég vaknaði í morgun fann ég hversu mikið úberhreingerningin hefur fengið á líkamann minn. ef ég vissi ekki betur gæti ég trúað að ég hefði vakað í alla nótt við drykkju, dans, armbeygjur og fjallgöngu. en þar sem ég er að eðlisfari jákvæð ákvað ég að láta líkamlega kvilla ekki á mig fá heldur láta eins og ekkert hefði í skorist. sem ég og gerði.
ég var líka svo dugleg í gær við að standa við loforðið mitt að ég er eiginlega búin að ákveða að láta þetta verða svona loforðadaga. á hverjum degi ætla ég að standa við loforð og þá verð ég líka svo stolt af mér þó að stundum sé erfitt að hafa sig í að gera hlutina.
í dag lofaði ég til dæmis að ég ætlaði að kaupa jólagjafir og hanga með fjölskyldunni. það tókst. makinn keypti gjöf frá mér til hans sem telst þannig með sem ég að kaupa jólagjafir og við fórum með síðburðinum á snjóþotu niður arnarhól oft og mörgum sinnum. það telst með sem ég að hanga með fjölskyldunni.
nú er makinn dottin út í sófanum, frumburðurinn farinn með systur minni á einhverja tónleika, síðburðurinn á fullu að föndra við eldhúsborðið og moi, eða ég sjálf, með lappirnar upp í loft að reyna að vera róleg þó svo að ég fái sting í hjartað í hvert sinn sem ég sé föndurdrasl detta af eldhúsborðinu á glampandi fallega hreina gólfið mitt sem ég lagði svo mikið á mig að gera fínt í gær. (þetta var löng setning í boði kaupþings)
dagur tvö: staðið við loforð. dugleg stelpa.

laugardagur, desember 20, 2008

í dag er ég búin að vera hrikalega dugleg. en hann var ansi langur.
ég stóð við loforðin sem ég var búin að gefa mér, meðal annars um að þrífa heimilið. og eins og áður sagði var dagurinn langur. sérstaklega af því að ég var ein heima í allan dag. ég endurtek, ein heima í allan dag að þrífa. fjölskyldan stakk af þegar þau sáu mig í druslugallanum með tusku á lofti og geðveikisglampa í augunum.
eða sko. fyrst fór ég með pólska kokkinn til tannlæknis því hann er með óþekkan endajaxl og bólgna kinn. þá lærði ég nýja setningu á pólsku, ég kann ekki að skrifa hana rétt en hún er svona ya iema naúchecheki eða eitthvað svoleiðis. það þýðir ég er kennari. ég er samt svolítið búin að gleyma henni og hún hefur strokast úr lófanum á mér við öll þrifin en þetta er amk næstum því rétt.
nema hvað. ein heima með gamla tónlist í botni þreif ég skúffur og skápa, sturtu og klósett, svefnherbergi, eldhús, stofu og forstofu. ég er fyrst að setjast niður núna með bjór í hönd og tölvu í fangi eftir um það bil 8 tíma törn sem ég fæ ekkert borgað fyrir nema hausverk og ánægjuna af því að eiga hreint og fínt heimili fyrir jólin. (þetta var löng setning í boði vífilfells)
í gær var ég með hassperur í rassinum. núna er ég líka með þær í lærunum. hvusslags eiginlega líkamsástand erðetta? það hefur amk greinilega verið hamagangur í öskjunni. eða var hamagangurinn í öskunni? nei.... bull.
þegar fjölskyldan kom heim södd, sæl og lyktandi af klór eftir útlegð frá klukkan eitt til hálf níu urðu þau hálf smeyk við að sjá mig. þarna stóð ég á miðju gólfi með hárið út í loftið, bauga undir augunum, blóðtauma í munnvikunum, kinnfiskasogin og sveitt eftir hamaganginn í öskunni. svei mér ef ég gleymdi ekki bara að borða.
svona er ég stundum. slæ framkvæmdum á frest út í hið óendanlega og þegar deddlænið skellur á andlitinu á mér tek ég mig til og tek til. og þá er það ekkert slor, allt sett í botn og botninn er suður í borgarfirði.
í dag stóð ég sko aldeilis við loforðin. ó já.
núna er tæknilega séð kominn laugardagur. samt er ég ekki enn farin að sofa. klukkan er rúmlega þrjú. ég var sko á veitingastað nokkrum við laugaveg þar sem ég neyddist til að sitja og bíða eftir eþíópíska krúttinu mínu á meðan hann kláraði að vaska upp og þrífa. á meðan hafði ég ekkert annað að gera en að sötra bjór. og svo sötraði ég og sötraði á meðan um þrír tímar liðu. hálf kjánaleg daman að sitja svona ein og vera alltaf að fylla rétt botnfylli í glasið svona rétt á meðan ég beið, en botnfylli í þrjá tíma er góður slatti skal ég segja ykkur. ó já.
og nú er svo komið að minn er fullur. einn.
og þar sem ég er ein á kojufylleríi er ég komin á einkatrúnó. trúnóið mitt er svona:
vissir þú að þegar ég var krakki og unglingur skammaðist ég mín svo mikið fyrir tærnar á mér að alltaf þegar ég fór í leikfimi eða sund í skólanum beyglaði ég þær undir mig þannig að það sást ekki í þær? nei, það vissir þú varla því ég hef ekkert talað um það.
vissir þú að uppáhalds bíómyndin mín var princess bride? nei, tæplega.
ókey ég er hætt. betra að hætta en að koma sér í vandræði þegar maður vaknar á morgun, á eftir.
það er erfitt að vera fullur einn og langa til að tala en geta ekkert talað um það sem maður vill tala. úff púff.
kannski væri bara best að ég tjái mig frekar eftir að bjórinn hverfur úr kerfinu.
jú ætli það ekki.....

föstudagur, desember 19, 2008

mín kona aldeilis í blogggírnum núna. ætli það sé einhverskonar staðgengill jólaskapsins? ég spyr mig...
orð með þremur eins stöfum í röð eru skemmtileg. þátttaka. blogggír. stresssamloka.
mikið svakalega er annars mikið af fólki hér á laugaveginum. nú sit ég inni á söntu maríu og góni til skiptis á tölvuna og út um gluggann. glugggann. glugggannn.
margt fólk í miðbænum getur verið sumarlegt eða jólalegt.
svo rýk ég upp og afgreiði á barnum og sest niður aftur. og svo rýk ég upp og þríf borð og sest niður aftur.
nú er ég sest niður aftur á minn stóra rass.
eitthvað upplifi ég þessa blessaða bloggfærslu sundurlausa. gæti verið af því ég er alltaf að rjúka upp og setjast niður aftur. sennilega. sennnilega.
í morgun fór ég og horfði á síðburðinn syngja á sviði. ég fæ alltaf tár í augun á svoleiðis viðburðum. frekar lúðaleg mamma að því leyti. eftir sönginn var dansað í kringum jólatré og við sungum meðal annars göngum við í kringum einiberjarunn sem er tiltölulega langdregið og einhæft lag. oseisei.
nú og eftir jólahátíðleikann skrapp ég í vinnuna og var alveg hrikalega dugleg. hamaðist og hamaðist alveg þangað til svitinn lak niður bakið á mér. nú er ég aðeins að ýkja en það má samt með sanni segja að ég hafi hamast. var svo alveg gasalega ánægð með afraksturinn. það er merki um að vinnan sé góð þegar maður fer ánægður heim. verkefnunum fullnægt og allir kátir. skrýtin tilfinning samt að vera komin í frí.
einu sinni fannst mér alltaf svo spennandi að fara í frí. núna finnst mér veturinn svo ný skollinn á að ég er eiginlega hálf hissa að vera komin í frí. nú riðlast rútínan aftur og svefntíminn fer í steik. svo verður kósí yfir jólin en eftir nokkra daga mun ég þrá rútínuna mína aftur. ég endist nefnilega aldrei nema bara svo og svo lengi í fríum í einu. fer hreinlega að sakna vinnunnar.
en það er nú svosem ekki skemmtilegt umfjöllunarefni. skiptum þá um.
ég er búin að hlaupa svo oft upp og niður stigann hér á söntu að ég er komin með hassperur í rassinn. er það skemmtilegra umfjöllunarefni? nei? ekki það? nú jæja, þá hætti ég bara í bili...

fimmtudagur, desember 18, 2008

jæja essgan... mikið er nú gaman hvað það snjóar úti. verst að ég er ekki með flösu, þá gæti ég haft snjókomu inni líka...
ég hef gaman af snjó. áðan þegar ég var að skafa bílinn minn til að komast heim úr vinnunni skemmti ég mér konunglega við að hlaupa hringinn í kringum hann og skafa eins og vindurinn. það snjóaði nefnilega svo hratt að jafnóðum og ég kláraði eina hlið voru hinar þrjár komnar aftur á kaf. það eru sko fjórar hliðar á bíl. allavega mínum.
svo gafst ég upp, stakk andlitinu ofaná skottið og át snjó þaðan. hann var góður.
og núna er ég með hiksta. það finnst mér líka gaman.
gaman að því hvað mér þykir allt gaman núna. ef ég gæti séð árur ef þær eru til, myndi ég ábyggilega geta sagt þér að mín væri hamingjusamlega björt og bleik þessa stundina.
heimilið mitt er í drasli og mér tekst ekki fyrir mitt litla líf að koma jólaseríunum upp í glugga án þess að þær líti út eins og rangeygð og skjálfhent fyllibytta hafi klunnast með þær þangað. ég er haldin frestunaráráttu gagnvart þrifum og tiltekt og jólin læðast aftanaðmér á hraða ljóssins. það er kúl að geta læðst á hraða ljóssins.
en ég er samt glöð og með heilann fullan af hrikalega væminni tónlist sem gæti fengið fjöldamorðingja til að tárast. væmin tónlist er falleg. snjór er fallegur. skakkar jólaseríur eru fallegar og það er fallegt að vera glaður.

mánudagur, desember 15, 2008

sagðirðu blogga? nú jæja þá....
ætli það hafi ekki verið almennt þjóðfélagsástand sem hefur dregið úr mér andagiftarlíftóruna undanfarið. mætti segja mér það.
en hvað hefur annars á daga mína drifið undanfarið spyrð þú þig væntanlega núna.
jú jú, það hefur ýmislegt gengið á. eyrað var bitið af mér á fylleríi um daginn, ég greindist með holdsveiki fyrir tveimur vikum síðan, húsið var tekið af okkur á nauðungaruppboði vegna vanskila og dekkjunum var stolið undan bílnum. núnú, svo missti ég heyrnina á hægra eftir sprenginguna sem varð þegar þvottavélin mín sprakk í tætlur en hún þoldi víst ekki kuldann úti. ég var sko að þvo þvott úti eftir að húsið var tekið á uppboðinu. stakk vélinni bara í samband við ljósastaur.
börnin mín eru farin að heiman, enda ekkert heimili til staðar, og síðast frétti ég af þeim í hjálpræðishernum. makinn flutti í eitt af rónabælum bæjarins en þar var rafmagnslaust og ég fer ekki fet án sléttujárnsins míns þannig að ég hef ákveðið að búa frekar hjá ljósastaurnum mínum. hann virkaði reyndar ekki í nokkra daga eftir þvottavélasprenginguna en núna er hann orðinn fínn og ég þar af leiðandi með slétt og fínt hár.
annars er svosem fátt að frétta. jól og svona bara.

mánudagur, nóvember 24, 2008

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

ég þoli ekki keðjubréf. verst þoli ég þessi væmnu vina-keðjubréf sem eru full af broskörlum og hjörtum og blikkandi drasli. þessi sem segja þér að þú eigir svona og svona marga vini ef pósthólfið þitt fyllist af sama helvítis bréfinu aftur og aftur. annars muntu deyja ein og yfirgefin. týnd og tröllum gefin.
fékk svoleiðis bréf í gær. blótaði sendandanum í ösku og sand. skrollaði samt af gömlum vana yfir bréfið á meðan ég jós skammaryrðum yfir tölvuna mína. svo kom ég að enda bréfsins sem reyndist alveg jafn drulluvæminn og afgangurinn af bréfinu. samt var eitthvað sem fékk mig til að lesa þennan stutta texta aftur. ég hef ábyggilega lesið þetta áður en í þetta skiptið fannst mér þetta bara eiga eitthvað svo vel við. sendi þetta að sjálfsögðu ekki áfram á neitt póstfang en get samt ekki á mér setið... þetta er klisja en ætli ég þurfi bara ekki á klisjum að halda þessa dagana: Life is short, Break the rules, Forgive quickly, Kiss slowly, Love truly, Laugh uncontrollably, and never regret anything that made you smile.

sunnudagur, nóvember 16, 2008

sjihihitt hvað það var gaman í gær. ég átti stórasta afmælisdaginn minn í heimi.
fyrst borðaði ég köku og gott brauð ásamt litlu fjölskyldunni minni og systurinni og pabbanum og ég blés á kerti og svona fínt. fékk kjól frá fjölskyldunni í gjöf og er hann fallegur mjög. að hádegismat loknum safnaðist múgur og margmenni saman á austurvelli til að halda uppá mig. einhverjir voru reyndar svo æstir að þeir fóru að kasta mat í alþingishúsið en það voru hvort eð er boðflennur sem ég kannaðist ekki við svo að ég firri mig algerlega ábyrgð.
að þeirri samkomu lokinni fórum við systur og mæðgur á hasar-basar á smiðjustíg þar sem viðstaddir sungu fyrir mig afmælissönginn undir styrkri stjórn effemm belfast. það var gaman. já og við fengum kakó og piparkökur.
nú eftir góðan blund heima snæddi ég ljúfar veitingar ásamt minni nánustu fjölskyldu (mínus frumburðurinn sem var í sveit að keppa og móðurmyndinni sem var í sveit að kenna). það var indælt. þaðan héldum við svo í laugardalshöllina þar sem ég barði höndina á mér til óbóta með hristu og aftur var afmælissöngurinn sunginn fyrir mig. í þetta sinn af um fimmþúsund manns plús þeim sem sungu með útvarpinu þar sem herlegheitin voru spiluð í beinni á rás tvö. mér leið eins og ég héti ólöf ragna grímsdóttir eða eitthvað svoleiðis. djöfull var þetta hrikalega eftirminnileg stund. já og svo hafði ég fengið fullt af skemmtilegum essemessum þegar ég kom af sviðinu sveitt og másandi frá fallegu fólki sem vildi óska mér til hamingju.
núnú, ekki var þó öllu lokið þó að hápunktinum hefði verið náð. úr höllinni brunuðum við niður á söntu maríu þar sem ég saup öl ásamt kærum vinum og kærum vandamönnum langt framundir morgun. starfsfólkið mitt yndislega hafði gert fyrir mig köku (nánar tiltekið var það hún joana frá póllandi sem bakaði) og ég blés aftur á kerti og enn eina ferðina var afmælissöngurinn sunginn.
í dag er ég í gleði-þreytu-kóma með marbletti í lófanum og pikkfast sólheimaglott á fésinu.
það verður erfitt að toppa þennan afmælisdag.

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

svei mér þá ef ég er ekki bara alveg pass.
en ég á bráðum afmæli. ó já. og þá ætla ég að sötra. og dansa. og syngja. og gleðjast.
skólaönnin er farin að styttast í annan endann og er það vel. nemendur mínar eru orðnar langþreyttar og heilabú mitt hefur sennilega rýrnað um ein 25% eins og peningarnir mínir. eitthvað er jólaspenningur farinn að láta kræla á sér og ég stóð mig að því í gær að velta fyrir mér komandi aðfangadegi og hátíðisdögum öðrum þar í kring. það er eitthvað við afmælistíðina sem hristir upp í uppáhaldarann í mér og mig fer að langa til að halda uppá allan fjandann. ætli ég haldi ekki bara uppá þrítugsafmælið mitt og þrjátíuogfjögurra saman þar sem þrítugsafmælið mitt fór eitthvað fyrir ofan garð og neðan sökum glóðurauga og heilahristings dótturinnar þarna um árið. hún er alveg búin að jafna sig blessunin þannig að ég sé mér fært að sletta úr klaufunum þetta árið svo lengi sem enginn fær þá flugu í höfuðið að láta sig detta á höfuðið á næstu dögum.

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

blessuð skítablíðan. í dag velur kaninn sér kóng og íslendingar halda áfram að kreppa. það er dásamlegt að fylgjast með 6 ára parinu, dótturinni og tengdasyninum, leika sér hér á stofugólfinu alsendis áhyggjulaus.
stundum finnst mér eins og ég hafi ekkert breyst síðan ég var unglamb. stundum finnst mér eins og ég sé eitthvað svakalega að þroskast með aldrinum. samt er ég einhvernvegin alveg sami imbinn og áðurfyrr. bara aðeins dýpri. eða ekki.
einu sinni þegar ég var á milli 13 og 19 samdi ég ljóð. á þeim sama aldri tók ég þátt í allri þeirri leiklist og öllum þeim félagsstörfum sem boðið var uppá. ætli ég hafi ekki verið dýpri þá eftir alltsamant. með aldrinum hefur heili minn og líf fyllst svo svakalega af hversdagslegum og helgidagslegum áhyggjum og umhugsunarefnum að plássið sem ég hafði fyrir sköpunina og frumlegheitin er uppurið. sem er eiginlega hálf dapurt þegar ég hugsa útí það.... af hverju var ég þá að hugsa útí það? tjah...góð spurning.
ætli þetta sé vandamál sem fylgir árunum á milli 20 og 40? börn og bura og sá pakki? ætli ég dýpki aftur uppúr fertugu? mikið væri það notalegt.
þangað til verður hægt að finna mig slefandi með blóðhlaupin augu í kóma fyrir framan sjónvarpið.

laugardagur, nóvember 01, 2008

í gær drakk ég bjór. í kvöld þarf ég aftur að drekka bjór.
tókstu eftir því að ég sagði þarf? ég þarf. ekki af innri þörf heldur ytri þörf. samfélagsleg þörf. æi skiptir ekki máli. heilinn minn er þreyttur.
nema hvað. í gær tókst mér að rústa á mér litlafingri vinstri handar og núna þegar ég skrifa stafinn a, meiði ég mig. a (ái). veistu hvernig ég fór að því? nei það veistu ekki. ég sló kaktus utanundir. svakalegur rokna kinnhestur. með handarbakinu og fingrunum. ég mæli ekki með því að fólk prófi að löðrunga kaktusana sína hvorki heima hjá sér né annarstaðar. í dag er ég svo með skrýtna kúlu á fingrinum sem er mjög sár (mig grunar að eitthvað sé fast í henni), og svo er nöglin aum og heit, eða þú veist, ekki nöglin sjálf því hún er ekki ...bla bla.... en ég held sko að ég sé með kaktusnál undir henni, hvernig svo sem mér tókst það.
þetta er í grófum dráttum allt sem heilasellur mínar ná utanum í dag. engin gagnrýnin hugsun í gangi. ekkert nema aumur putti og hausverkur.
aaaaa... ái

mánudagur, október 27, 2008

djöfull er ég ánægð með að fólk sé farið að dunda sér við að mótmæla. við litla familían höfum rölt til að mótmæla síðustu laugardaga, bara svona til að sýna lit og vera ekki alveg sama um ástandið. dóttirin er mjög spennt. spyr á leiðinni niður í bæ hvort við séum núna að mótmæla og þegar fólk heldur ræður vill hún að það fari nú að þagna svo við getum tekið til við mótmælin. í gær sönglaði hún ,,davíð burt" þar sem hún sat í aftursæti bílsins á leiðinni í bónus. hún var fyrst ekki viss hvort hún ætti að segja davíð urt eða hvað, en svo var það bara leiðrétt og hún sönglaði áfram. hún veit svosem ekkert hver þessi davíð er eða hvert hann eigi að fara en finnst samt gaman að mótmæla. það er ekki eins og hún hafi ekki reynslu í því. hún mótmælir öllu allan daginn heima hjá sér svo að opinber mótmæli eru í raun bara áherslubreyting hjá þeirri litlu.
frumburðinum finnst þetta samt hálf hallærislegt. eins og svo margt annað. þar sem hann er mikil tilfinningavera á hann í raun hálf erfitt með að gútera að fólk geti fengið af sér að úthrópa einhvern, vorkennir aumingja davíð sem hlýtur að líða illa heima hjá sér yfir eineltinu. það er gott að hann sé svona góð sál blessaður. frumburðurinn sko, ekki davíð.
annars gengur lífið sinn vanagang þrátt fyrir hærra verð á öllu og færri viðskiptavini á litlu söntu maríu. þetta með færri viðskiptavinina veldur þó reyndar smá kvíðahnút í maga, en það er fátt annað að gera en að bretta upp ermar, kyngja kögglinum og reyna að halda ótrauð áfram.
hvernig hefur þú það annars?

fimmtudagur, október 23, 2008

það eina góða við vekjaraklukkuna er að stundum tekst henni að rjúfa drauma sem annars hefðu gleymst áður en maður vaknar. ég lenti í því í morgun. var voða ánægð að muna drauminn minn, enda svaðalega kósí draumur. reyndar hefði ég ekkert munað hefði ég sofið út og þar af leiðandi væri ég ekki svekkt yfir að hafa gleymt því sem ég man ekki eftir.... eða þú skilur. en mér þótti vænt um að fá að muna hann þennan.
hver þarf upplífgandi auglýsingar á skjá einum þegar hann hefur vekjaraklukku og drauma?

þriðjudagur, október 21, 2008

undanfarið hef ég reynt að hljóma gáfuleg í samræðum við fólk á förnum vegi en nú get ég varla meir. ég verð barasta að koma útúr skápnum með þetta. ég skil ekki alveg hvað er að gerast. ég skil ekki hvernig bankakerfið virkar, ég skil ekki hvernig ríkisstjórnin virkar, ég skil ekki hvernig fjármálaeftirlitið virkar, ég skil ekki hvernig alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virkar, ég skil ekki hvernig seðlabankinn virkar og ég skil ekki hvernig hlutabréfamarkaðurinn virkar eða peningamarkaðssjóðir. við skulum ekki einusinni fara útí kvótakerfið ógrátandi... ég held ég viti hvernig lífeyrissjóðir virka eftir að hafa unnið í slíkum og mér var sagt í æsku að ég ætti að geyma peningana mína í banka því þar væru þeir öruggari en heima eða í sparibauknum. þeir áttu líka að stækka í bankanum. þetta var innprentað svo vel og örugglega í mig frá blautu barnsbeini að ég á erfitt með að slíta mig útúr innbyggðu bankatraustinu.
með aldrinum hef ég þó lært að það að vera fullorðinn sé engan veginn ávísun á að vera klár, skynsamur, vel meinandi, sanngjarn og heiðarlegur. það er til fullt af fullorðnum bjánum. því miður. með enn auknum aldri er mér að lærast að það að vera stjórnmálamanneskja sé engan vegin ávísun á að vera klár, skynsamur, vel meinandi, sanngjarn og heiðarlegur. sem er skítt.
og talandi um traust. eftir hinn skamma en lærdómsríka tíma minn sem blaðakona á dv lærðist mér að fjölmiðlar eru fullir af allskonar liði sem alls ekki allt er klárt, skynsamt, vel meinandi, sanngjarnt eða heiðarlegt. sem er synd.

hverjum á ég að treysta? hvað er að gerast? hvar er ég?

sunnudagur, október 19, 2008

jehe dúhúdda míhía hvað það var gaman í gær hjá mér. ég var svo heppin að hljóta bleikt armband og svo blátt og opnuðu þau mér dyr himnaríkis... nei djók. ég var bara á nasa á erveivs og endaði í sæluvímu með kúabjöllu uppi á sviði sem ein af óteljandi aukahlutum effemm belfast. ég tróð mér eiginlega þangað sjálf og fannst ég svo vera óttaleg frekja. en mæ ó mæ hvað það var samt gaman. nennir einhver að stofna með mér hljómsveitina...eeee....hmmm... am dublin eða hm hólmavík? þetta virkar eitthvað svo skemmtó starf, sérstaklega þegar allir eru glaðir. en kannski myndi mér ekkert takast að gera alla svona glaða.... arg. ég er hætt við. syng hvort eð er ekkert vel. mér fannst ég samt góð á kúabjölluna. en kannski var það bara bjórinn að tala. æi ætli ég haldi mig þá ekki bara við kennsluna áfram... (svona er ég góð í að tala sjálfa mig í hringi, enda svo alltaf á því að sannfærast)
nema hvað, þrátt fyrir allt skemmti ég mér svo vel að þegar ég kom út lá mér við yfirliði. ofþreyta? súrefnisskortur? drykkja? veit ekki en ég klöngraðist allaveganna heim á einum og hálfum hæl og sofnaði eins og engill.
dagurinn í dag hefur svo liðið í þoku undir þungum augnlokum.
hve glöð er vor æska.

miðvikudagur, október 15, 2008

jæjaþá. ætti maður að vera duglegri í blorginu? svo spyrja sig krosstré sem önnur tré.
hvað er annars að frétta fyrir utan hið augljósa? tja, ég hef það fínt inni í bómullarhnoðranum mínum þar sem bros er helsti gjaldmiðillinn.... obbosí, þarna glitti í væmna rúsínuhundinn í mér. þennan sem ég er alltaf að reyna að bæla niður þar sem ég er helber töffari útávið og harðnagli mikill. skrattinn. þetta læt ég ekki koma fyrir aftur. biðst afsökunar.
nú er ég fegin að vera ekki fjármálagúru á stórum bíl. ég er aldeilis óvart komin með fordóma fyrir fólkum á stórum og dýrum býlum og bílum. ætli það sé tíðarandinn? giska á það.
ég var áðan að horfa á fimmstjörnuhljómsveitina effemm belfast. það var gaman líkt og áður. í dag horfði ég líka á sérdeildarsveitina syngja lukku láka eftir hallbjörn hjartarson. það er svo fallegt að horfa á einhverft fólk syngja og tralla að í hvert sinn sem þeir hefja upp raust sína drengirnir mínir, fæ ég tár í augun og kökk í hjartað. þeir eru sko að æfa sig fyrir söngvakeppni sérdeilda en ég er hin svekktasta að komast ekki með til höfuðborgar norðursins að horfa á. það verður sennilega ekki á allt kosið.
nú er líf í tuskunum í smáralind. fjörið heldur áfram í singing bee. ný ristuð snilld frá kfc. við kynnum harpic max, hvað segir klósettið þitt um þig?
er að horfá sjómpartið. miðvikudagar eru skjár einn kvöld hjá mér. nú sekk ég mér í andlegan ólifnað. bless á meðan.

mánudagur, október 06, 2008

vill einhver koma memm inní litlu bómullarkúluna mína þar sem allt er fallegt og gott?

þriðjudagur, september 30, 2008

æ æ æ... nú er komið að skoðanakönnun lítilli og óformlegri. hún hljómar svona:
telur þú að litli veitingastaðurinn santa maría skjóti sig í fótinn með því að hækka verðin um 200 kall á rétt? á fólk eftir að blóta okkur og finnast við vera svikarar? mun doktor gunni aldrei tala við okkur aftur?
við erum nebbla að verða svolítið stressuð á verðhækkunum allra þeirra sem selja okkur vörur og langar helst ekki að fara á hausinn. svona hækkanir koma einhvernvegin ansi illa við lið sem rekur bisness nálægt núllinu og þó svo að það hafi verið oft mikið að gera þá hefur það hingað til bara rétt náð yfir það sem reksturinn kostar. ég sjálf hef t.d. ekki borgað mér krónu fyrir vinnuna og er hún þó mikil. ekki það að mig vanti laun, ég hef það fínt kennarinn sjálfur. en mér finnst bara eitthvað svo sorglegt að missa þetta úr höndunum, böndunum og öndunum. raddböndum þöndunum. er eitthvað að röndunum? fólk frá ýmsu löndunum hélt á blóm-vöndunum á ströndum og söndunum. er eitthvað að frétta af pöndunum?
svo er bara að stoppa í sokkana og halda kúlinu.

mánudagur, september 29, 2008

santa-maria.is takið eftir strikinu. við ætluðum að fá santamaria.is en þá hafði ákveðinn innflytjandi vara hrifsað nafnið til sín og vill ekki sleppa. helvískur.
en þá er bara að auglýsa strikið. strikið.

fimmtudagur, september 25, 2008

merkilegt hvað það þarf stundum lítið til að skemma mikið.
í nótt átti einhver greinilega leið framhjá húsinu mínu. einhver sem sá sig knúinn/knúna til að ýta örstutt á dyrabjölluna hjá okkur.
með þessari einu litlu hreyfingu handarinnar tókst þessum skítarassakúkalúsablesa að eyðileggja fyrir mér alla nóttina. mér bregður við dyrabjöllur um miðja nótt. þegar mér bregður fæ ég hjartslátt. þegar ég fæ hjartslátt á ég erfitt með að sofna aftur. þegar ég veit að ég á erfitt með að sofna aftur fer ég að hugsa. þegar ég fer að hugsa verður enn erfiðara að sofna. þegar ég á erfitt með að sofna á ég erfitt með að vakna. þegar ég á erfitt með að vakna er ég þreytt allan daginn. þegar ég er þreytt allan daginn er ég leiðinleg.
þannig að það er semsagt þessum drulludela að þakka að ég er leiðinleg í dag.
takk fyrir það.

mánudagur, september 22, 2008

ó je beibe nú erum við góðu gæjarnir
hér sit ég í skólastofunni, hrikalega meðvituð og samfélagslega ábyrg. ó já.
að gefnu og lánuðu tilefni tek ég fram að herra doktor gunna þekki ég ekki nokkurn skapaðan hlut. mér finnst samt prumpulagið alltaf jafn skemmtilegt.

miðvikudagur, september 17, 2008

hvernig er hin fullkomna manneskja? er hún alltaf í stuði? er hún alltaf með svör á reiðum höndum? kemur hún aldrei neinum í vont skap eða gerir hún alla óréttláta brjálaða með réttlætiskennd sinni? er hún laus við appelsínuhúð og bólur? gerir hún allt sem hún gerir vel? kann hún að hlusta á fólk og ráðleggja því þannig að öllum líði vel? er hún alltaf skipulögð og veit hvað hún er að gera? er hún aldrei með mat í tönnunum? hefur hún alltaf gaman af börnum og gamalmennum? segir hún alltaf satt og talar alltaf vel um alla? fara öll föt henni vel? heldur hún heimili sínu hreinu og bakar sitt eigið brauð? eldar hún næringarríkan mat fyrir fólkið sitt sem hún svo borðar með fjölskyldunni stundvíslega klukkan sjö? nennir hún endalaust að leika við börnin sín sem borða ekki sykur og horfa hvorki á sjónvarp né leika sér í tölvuleikjum? stundar hún gefandi kynlíf með myndarlega makanum sínum sem hún er alltaf jafn ástfangin af? er hún dugleg við að gera rómantíska hluti með honum og er alltaf frumleg og sniðug í gjöfum og uppákomum? er hún jafn góð í íþróttum og trivial pursuit?
er hún gersamlega óþolandi í fullkomnun sinni?

mánudagur, september 15, 2008


ætli þetta hafi heppnast hjá mér? vonum það.
annars er þetta litla uppáhalds hljómsveitin mín. seisei já.

í dag er þjóðhátíðardagur le mexique. á laugardagskveldið síðasta var því fagnað á litla veitingastaðnum sem kenndur er við heilaga nöfnu mína. þar brilleraði tengdamóðirin í happdrættinu, gaf viðstöddum gjafir og lét liðið spila bingó. þeir einu sem skildu hana voru meðlimir mexíkanaskarans sem var á staðnum í hátíðarskapi. mér sýndust allir vera glaðir.
það besta voru þó yfirvaraskeggin sem flæddu um allt. ég og litli bróðir minn stóðum saman og þurftum ekki annað en horfa hvor á aðra með yfirvaraskegg til þess að bresta í grátlegan hlátur. boj hvað það var gaman. ætli ég skelli ekki myndum af uppátækinu inn loksins þegar staðurinn eignast heimasíðuna sína sem verður vonandi hvað úr hverju.
hvað úr hverju.

laugardagur, september 13, 2008

ég kannast alls ekki við að eiga við drykkjuvandamál að stríða. reyndar fékk ég mér slatta af bjór í sumar. stundum meiri slatta en stundum, en aldrei þó þannig að ég hafi misst stjórn á mér, gleymt stað og stund, nú eða gubbað. það mætti eiginlega segja að ég hafi tekið örfáar góðar rispur á meðan á sumrinu stóð en bara þegar tilefni var til. sumra á milli fer áfengi ansi sjaldan inn fyrir mínar varir. bara svona ef það er eitthvað sérstakt. eða einstaka sinnum einn og einn bjór í kósíheitum á föstudagskveldi og með vinkonunum á kaffihúsi. þegar fólk fer sérstaklega út á svokallað djamm eða fer í skemmtiferðir yfir helgi til útlanda mætti segja mér að það þætti tiltölulega eðlilegt að hafa áfengi um hönd á meðan fólk hegðar sér innan velsæmismarka.
við slík tækifær hef ég endrum og eins torgað ansi miklu magni af þeim gula en hef, eins og ég segi, talið mig innan markanna. hef bara haft gaman og hlegið mikið.
það er þó til manneskja á höfuðborgarsvæðinu sem virðist greinilega hafa sóað tíma sínum í að velta mér og minni drykkju fyrir sér og haft af henni áhyggjur. það þykir mér að vissu leyti heiður, en tími annarra sem fer í að hugsa um mig er það. en mér þykir það líka undarlegt, skrýtið og stórfurðulegt. hefur þessi elska virkilega ekki annað við tíma sinn að gera?
skál í botn.

þriðjudagur, september 09, 2008

sumt fólk sýýýgur úr mér alla orku og allan mátt. Því tekst að taka mig úr stuði og koma mér í vont skap þó að ég reyni svosem að láta ekki á neinu bera. sérstaklega þegar ég stend fyrir framan 30 manna hóp þar sem 3 einstaklingar ætla mig lifandi að drepa en hinir eiga ekkert skilið annað en mitt besta. ég reyni að horfa annað, hugsa annað og tala annað. en það er bara þessi viðvera. þetta orkusvarthol sem sogar mig inní myrkviði sín sama hvað ég streitist á móti. ég brosi og horfi annað en sé samt alltaf útundan mér þetta fólk. stundum eru þær ekki að horfa á mig og ég ekki að horfa á þær. samt þreyta þær mig. þreyta mig með þessu ,,mér er skít sama hvað þú segir ég ranghvolfi bara augunum yfir öllu og á rétt á því að mér séu gefnir sénsar því annars ert þú bara ósanngjörn jussa" viðhorfi sem skín útúr augum þeirra stanslaust. alltaf. endalaust.
búin áðí.
pant vera kennari.

fimmtudagur, september 04, 2008

gaman að því hvað fólk er mismunandi. mér finnst mjög fínt að vera mismunandi. ég er svo hrikalega mismunandi að ég hef sjaldan séð annað eins.
og nú er síðburðurinn orðin 6 ára. fyrir sléttum 6 árum síðan var ég reytt og ringluð með þrútin brjóst í rauðum flauelssófa. tæpum sólarhring eftir burð. fyrir 6 árum og degi síðan sat ég og horfði á gamanmynd og át pizzu frá eldsmiðjunni. setti svo af og til á pásu á meðan hríðirnar liðu hjá.
í dag er ég ekki að fara að eiga fleiri börn. nó vei hósei. ekki séns. ekki að ræðaða. ekki fræðilegur. glætan. þokka fokkinglega ekki. ég er orðin of sjálfselsk með aldrinum. eða kannski var ég alltaf svona sjálfselsk. fattaði það bara ekki. sjálfselska er genetísk. held ég.
þörf fyrir athygli er það líka.
er kuala lumpur höfuðborg malasíu? ha?
heyrðu maður, ég var að láta 10. bekkinga horfa á spænska bíómynd í dag. guð minn góður hvað ég hefði átt að horfa á hana fyrst, ég var alveg búin að gleyma henni. fór örlítið mikið hjá mér þegar drullusokkurinn í myndinni fór að tala um rassaríðingar og annarskonar ansi myndrænar ríðingar.
börnin flissuðu. sennilega ýmsu vön. ég bíð svo bara eftir símtalinu frá brjálaða foreldrinu...

mánudagur, september 01, 2008

nei sko. þú hérna ennþá?
ég er líka hérna ennþá. bara eitthvað slöpp í blogginu.

það er alveg sama hver er hver og hvernig hann er. aukamanneskja á heimilinu er slítandi fyrirbæri, sérstaklega þegar tíminn er langur. nú hefur heimilið mitt innihaldið auka eintak alveg síðan í júní og nýlega er ég farin að finna fyrir því að það hangir yfir mér aukaeintaksþreyta. hún hefur verið að gerjast í einhvern tíma en ég hef lifað, eins og svo oft áður, í afneitun. stundum er ég bara eitthvað svo lítið í tengslum við sjálfa mig. hugurinn lengst í burtu frá líkamanum og engin meðvitund um tengslin á milli vöðvabólgunnar, syfjunnar, hausverkjarins og skortsins á ég-sjálf-tíma eða bara ró og friði.
það ættu að vera gefin nóbelsverðlaun fyrir að lifa af heimili sem inniheldur hormónahlaðinn ný-ungling sem liggur svo svakalega á að verða stór en er samt svo lítill að hann veit ekkert hvernig hann á að vera, frekt og síkjaftandi 6 ára eintak, ofvirkan athafnamann með athyglisbrest og sennilega heyrnarvandamál (miðað við raddstyrkinn) og tiltektarsjúka mjög heimakomna tengdamóður sem vill öllum vel en tekst samt að lauma inn athugasemdum sem skilja eftir súrt bragð. sbr. um daginn þegar hún var að skoða mynd af mér. ,,mikið ertu nú sæt elskan. þetta er rosa fín mynd af þér. nú er það eina sem þú þyrftir að gera að losna við appelsínuhúðina af lærunum og rassinum. ég heyrði í útvarpinu úti í mexíkó hjá manni sem er svaaakalega klár að besta ráðið sé að setja gúrku og vatn í blandara og nugga því svo á appelsínuhúðina..." eða þegar ég var eitthvað að tala um að mér fyndist ég hafa fitnað... ,,nei nei elskan, þú ert bara næstum því feit..."
stundum langar mig bara að setja tannburstann minn í bakpoka og rölta til timbúktú.

mánudagur, ágúst 25, 2008

hvaða blábjána datt eiginlega í hug að dagurinn þyrfti að byrja helst ekki mikið seinna en klukkan 8? ég hreinlega skil ekki svona hugsanagang. ég t.d. myndi afkasta mun meiru ef ég fengi í friði að sofa amk. til klukkan 9 eða 10. þá þyrfti ég heldur ekkert að vera svo lengi í vinnunni því ég væri svo hress. vel útsofin og í stuði. í staðin vakna ég klukkan 7 úfin og fúl og slefa svo stjörf langt framundir hádegi. þá loksins fer ég að hjakka í gang og eftir það er ég fín. svo eru kvöldin öll í steik af því að ég er svo syfjuð eftir að hafa vaknað snemma.
assgotans vitleysa.
búðir opna hvort eð er ekki fyrr en 10 eða 11. af hverju þurfa börnin að vera komin í skólann heilum 2-3 tímum fyrr? skil ekki þessa áráttu.

nema hvað. ég er syfjuð. verð að fara í rúmið. þarf að vakna á morgun.

garg.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

um daginn sá ég berbrjósta þykkvaxnar aflitaðar miðaldra konur, tvær, spænskar, slást með handklæðum. það var sniðugt.
núna er skólinn að byrja. það er ekki alveg eins sniðugt. en samt fínt.
ég nenni ekki að blogga.
sniðugt.

þriðjudagur, ágúst 12, 2008

hana. er nú ekki ég og rassinn á mér á leiðinni í helgarferð til úklands. skyndiákvörðun eins og svo margt sem á sér stað í mínu lífi. ætli þær séu nú ekki bara skít fínar þessar skyndiákvarðanir stundum. án þeirra gerði ég að minnsta kosti mun minna af klikkuðum hlutum og lífið væri síður spennandi.
nema hvað. síðasti séns í langar helgar þar til um jólin, enda er skólaárið í startholunum. skólinn byrjar og málið er dautt. rykið verður dustað af vekjaraklukkunni (sem ég hef sælla minninga ekki notað síðan í lok apríl), og regla kemst vonandi á matmálstíma, svefntíma og annan tíma fjölskyldunnar.
reyndar sér hún nafna mín santa um að viðhalda kaos-elementinu í hinu daglega lífi og það er allt í lagi. það má alveg blanda rútínuna og þynna hana örlítið.
eina þunna rútínu með klaka og sítrónu takk.

nema hvað. sjáumst eftir helgi. góða ferð maja. já takk kærlega.

föstudagur, ágúst 08, 2008

töff kennitöludagur í dag. töff ólimpíudagur í dag. töff geipræd á morgun. við ætlum að skipta um kyn á starfsfólkinu okkar í tilefni dagsins. engin alvarleg aðgerð. bara yfirborðs. litlu latínóunum mínum varð um og ó þegar hugmyndin kom upp en nú eru allir orðnir voða spenntir og kátir. það getur stundum verið erfitt að snappa útúr kynhlutverkunum.
bráðum byrja svo fundir í vinnunni og hjólin fara að rúlla. mig grunar að þau séu orðin örlítið ryðguð en ég ætti að geta hjakkað af stað.
nema hvað... tengdamóðirin komin. nú er heimili mitt fullt af mexíkönum og þessa dagana er ég eini al-íslendingurinn á svæðinu. nema þegar frumburðurinn smalar heim tugum hálf-unglinga sem skilja skóna sína eftir uppum alla veggi og liggja sjálfir eins og hráviði uppum alla sófa og á gólfinu.
jæja, síðburðurinn búinn í sturtu. best að sinna því...

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

hæ. afsakaðu að ég hef ekki sinnt þér sem skyldi. það er sko enginn hægðarleikur að vera með börn í sumarfríi, veitingastað á gargandi róli, risavaxið samviskubit yfir undirbúningstrassi fyrir haustið, óvænta afmælisveislu móður í framkvæmd, undirbúning vegna endurkomu tengdamóðurinnar, skemmtanalíf, bókhald, skylduútiveru vegna veðurs og ábyggilega eitthvað fleira á herðunum. þess vegna hefur þú lítið sem ekkert heyrt frá mér.
en nú er svo komið að herðar mínar geta ekki meir. í gær sagði kerfið stopp, búið og bless og í dag er ég lasin. ég er með hor í nefinu, mér er illt í augunum og eyrunum og eiginlega mætti segja að ég væri lítil og aum klessa. og mér líður bölvanlega að geta ekki verið úti í þessu líka fína veðri. (veður-skylduræknistilfinning okkar íslendinga sko).
í staðin fyrir að barma mér yfir öllu því sem ég get ekki gert ætti ég eiginlega að njóta þess að þurfa ekki að gera neitt og geta ekki gert neitt. það er samt erfitt. og ennþá leiðinlegra þegar manni líður eins og risavaxinni hornös.
ekki gefast samt upp á mér....

laugardagur, ágúst 02, 2008

móðir mín á afmæli í dag. við afkomendurnir skelltum upp óvæntu pikknikki í hallargarðinum með köku, blöðrum, freyðivíni og tilheyrandi. svo komu foreldrarnir og við hlupum útúr runnunum og óskuðum kerlu til hamingju. það var fínt. eftir veisluna löbbuðum við heim, mamma með undarlega kórónu á höfðinu og hópurinn skreyttur blómaregnhlífum með blöðrum. við vorum önnustínu-pride. mjög töff.
í kveld er stefnan sett á innipúkann ásamt starfsfólkinu okkar þar sem við munum berja bestu hljómsveit norðan alpafjalla augum, en hún heitir fm belfast. júhú. annaðkveld er svo garðpartý hjá önnu vinkonu. í öllu þessu sumarstuði er nema von að það sé erfitt að koma sér að verki við að láta eins og kennari? ég bara spyr mig. maja... er það von? og ég svara að vörmu spori. nei, það er ekki von.
ég hef séð svörtu spice girl stelpuna, juliu styles, elvis costello, harvey keitel, gael garcia og einn gaur sem ég man ekki hvað heitir. bara svona meðan ég man...
hvaða útlenska fræga fólk hefur þú séð á förnum vegi?

þriðjudagur, júlí 29, 2008

best að kvarta aðeins meira yfir veðrinu. fjandinn hafiða þetta er alltof heitt. það er í ökkla eða eyra þessi andskoti. og af hverju kvarta ég? jú af því að ég er prinsípp manneskja og ég læt ekki bjóða mér þessa vitleysu. af því tilefni hef ég ákveðið að boða til mótmæla. vér mótmælum þessu útlandaveðri. ekki nóg með að hér séu útlendingar skríðandi uppúr öllum holum heldur þurfti þetta lið að koma með veðrið með sér. það er ekki eins og maður geti ekki farið bara til spánar hafi maður áhuga á þessu rugli. ha! en semsagt, í dag verður mótmælaseta á austurvelli þar sem múgur og margmenni mun hópast saman og setjast í grasið til þess að mótmæla veðrinu. það mæta pottþétt margir því ég veit til þess að góður hluti landsmanna er sammála mér um þetta málefni. getur alþingi ekki sett einhverja fjárans tolla eða sólargjöld á þennan skratta svo að maður losni við hitann? ís-land. ha. ís. hvaða rugl er þetta?

föstudagur, júlí 25, 2008

í dag fór ég að hugsa um að haustið nálgast. sem er eiginlega skítt því að mér er farið að finnast ansi langt síðan ég sá sólina og þar af leiðandi líður mér varla eins og ég sé stödd í sumri. er þér sama þótt ég stumri yfir humri að sumri?
bíddu ha? er ekki að fara að koma verslunarmannahelgi? er þetta þá ekki bara búið spil? á ég ekki bara að fara að grafa kuldagallana upp? þeir eru varla orðnir rykfallnir eftir þetta litla prumpusýnishorn af sumri. humri.
nei nú er ég bara að vera neikvæð. einhverstaðar verður maður að vera neikvæð.
tókstu eftir þessu? maður - neikvæð? kynjablöndun hér á ferð. jafnrétti í skrifum. það er ég. öll í jafnréttinu. en ég er sko enginn femínisti. neeei. femínistar eru bara órakaðar jussur sem fá aldrei að r... . nei djók. ég er alveg femínisti. víst. hata karlmenn og svona. og þú ættir bara að sjá á mér lappirnar. minnstu svo ekki á handarkrikana ógrátandi. herra hallormsstaðaskógur góðan daginn.
eða ekki. kannski ekki. sennilega. og þó.
ætli þetta með að sofa á óeðlilegum tímum sé farið að hafa áhrif á andlegt heilbrigði mitt? gæti verið. kannski er mitt raunverulega sjálf bara á leið uppá yfirborðið eftir að hafa legið grafið undir lögum af fölskum eðlilegheitum. gæti verið að ég sé alveg ga ga og allir séu löngu búnir að fatta það nema ég? kannski er það þessvegna sem allir eru svona vinalegir. vorkenna þessari þarna klikkuðu.
nei nú er ég bara að bulla. ha. algjör djókari stelpan í dag. ha.
jedúddamía. ég ætti frekar að vera sofandi en skrifandi. ég er varla skrifandi. hvað þá læs. varla vakandi líka ef útí það er farið. af hverju hætti ég þessu þá ekki? hvað á fólk eftir að halda? með valda?
kannski tek ég bara bakpokann minn og læt mig hverfa til timbúktú eða kuala lumpur. ég er svoddan klumpur. (fyndið hvernig lumpur í kuala lumpur rímar samt ekki við klumpur þó að það virðist ríma þegar það er skrifað. það finnst mér fyndið)
mér finnst líka sumir brandarar fyndir. eins og þessi:
a dyslexic walked into a bra...

þriðjudagur, júlí 22, 2008

í dag er ég með einhverskonar ofnæmi. ofnæmi fyrir heimilishaldi og börnum. og svo fæ ég samviskubit yfir því að nenna engu og engum. ætli það sé veðrið?

laugardagur, júlí 19, 2008

í dag átti ég mjög sérstaka stund. þegar sólin var að setjast fór ég að fyllast einhverri einkennilegri tilfinningu. núna er klukkan orðin margt og ég er hreinlega að springa.
ég er ekki alveg viss hversvegna.
áðan sat ég ein og horfði í kringum mig. heyrði fallegt lag í fjarska. svo horfði ég á fólk sem var upptekið af því að vera með vinum sínum, fjölskyldu eða mökum. sumir voru að kynnast. aðrir voru á ferðalagi. þau voru öll gestir á litla sæta veitingastaðnum mínum og það gerði mig stolta móður.
og ég fékk kökk í magann. skrýtinn fiðring í brjóstið og langaði mest til að gráta. ég var samt ekki beint döpur. mér fannst allt vera svo fallegt. ég var svo glöð að búa í svona lítill sveitaborg þar sem fólk treystir hvert öðru. mér fannst fólk vera svo falleg fyrirbæri. og þar sem ég sat þarna var ég algerlega að springa úr.... ást.
það er langt síðan mér hefur liðið svona. þegar tilfinningarnar komast varla fyrir í líkamanum og mér líður eins og ég komist ekki fyrir í sjálfri mér.
það sem framkallaði þó tárin var að ég var ein. alein. mig langaði svo mikið að vera elskuð. að einhver kæmi aftanað mér að ástæðulausu og kyssti mig á hálsinn. snéri mér svo við og leyfði mér að kyssa sig og faðma. fá að týnast í einhverjum.
en enginn kom.
og núna er ég með fullan maga af ást sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við.

ætli mér líði kannski eins og manninum sem kom að mér á miðjum gatnamótum í gær og bað mig um að búa með sér? ég stóð á eyju á miðri snorrabraut þegar hann stöðvaði mig og sagðist vera stoltur af mér. hann var 65 ára, faðir þriggja dætra og nýbúinn að missa konuna sína. var líka aðeins búinn að fá sér í glas.
hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann væri líftryggður fyrir 34 milljónir og ég gæti fengið allan peninginn, hann hefði verið á breiðuvík og að mér væri frjálst að slá mér upp með hverjum sem væri svo lengi sem ég væri bara góð við hann þegar ég kæmi heim. og svo faðmaði hann mig. algerlega ókunnugur maðurinn. ég veit ekki einu sinni hvað hann heitir.
kannski var þetta atvik bara til þess að bæta í tilfinningahnykilinn sem er búinn að vera að safnast í maganum á mér undanfarið.
í hnyklinum leynist samúð, væntumþykja, höfnunartilfinning, ást, þrá, von, þreyta, gleði, dapurleiki, söknuður, reiði, leiði, hamingja og stolt.
en einmitt núna langar mig bara í ást. að gefa hana í sinni hreinustu mynd og fá það sama til baka. algerlega laust við allt hitt. engar flækjur. ekkert vesen.
er von að mig langi til að gráta?

fimmtudagur, júlí 17, 2008

aldeilis hvað tíminn líður. þessi vika flaug beinlínis hjá.
í gær hélt ég frændsystkinapartý á veitingastaðnum mínum og það var aldeilis gaman skal ég segja þér. við átum, drukkum, drukkum og dönsuðum. fór að sofa þegar sólin kom upp. og sönglaði here comes the sun, little darling...
í dag hafa heilasellurnar mínar bara verið í fríi. ég hef tæplegast getað komið heilli setningu óbrenglaðri frá mér og það eina sem ég gat gert í vinnunni var að rúlla hnífapör inní servíettur. ætli það væri ekki bara best og gáfulegast fyrir mig að slaka á næstu dagana og reyna að losna við allt áfengið úr blóðrásinni. og fá svefn.
en semsagt. almennur heiladauði. í sjónvarpinu er verið að sauma klofið á einhverri konu í kaliforníu af því að hún pissar alltaf á sig þegar hún hnerrar. vaginal rejuvenation heitir það víst. magnaður skítur. ekta sjónvarpsefni fyrir fólk eins og mig á degi sem þessum.

sunnudagur, júlí 13, 2008

í gær keyrði ég semsagt til hólmó og í dag til baka. ég er ennþá svolítið aum í le derrier eftir allt bílstjórastarfið.
hólmavík var kúl. ég sá reyndar mjög lítið annað en tjaldstæðið, sundlaugina og íþróttahúsið en náði þó smá pínu nostalgíugöngutúr uppundir morgun.
á hólmó tjaldaði ég risastóru tjaldi (ein) á blautu tjaldstæði. svo fór ég í sund og eftir það hófst ættarmótið formlega. semsagt afkomendur litlu langömmu minnar og afa en honum kynntist ég reyndar aldrei. langamma mín var voða lítil og trúuð. lítið kjarnakvendi. en semsagt, við fengum mjög fínan mat og hlustuðum á misfínar ræður. við systkinabörnin lékum leikrit sem var nett súrrealískt en mér skilst að lóa frænka og gunna hafi næstum pissað í sig úr hlátri. og við sungum allir krakkar og við göngum svo léttir í lundu.
eftir það var dansað og að lokum enduðum við nokkur frændsystkinin úti í tjaldi að syngja og spila á gítar og drekka aðeins meira. ég á ógeðslega skemmtileg frændsystkini maður. maður lifandi. maður minn. sum þeirra eru svo mikil krútt að mann langar að borða þau. ég var aðeins farin að narta í handleggina á einum sem er óheilsusamlega mikil dúlla. þegar fór að sjást í beinin og hann var eitthvað farið að svíða í sárið varð ég að hætta. ómögulegt að fólk sé að koma allt lemstrað og plástrað heim af ættarmóti. svo var annar sem mig langaði til að bíta í rassinn en hann var á svo miklum hlaupum allan tímann að ég náði honum ekki. bleyjan hefði hvort eð er sennilega þvælst fyrir mér. svo hann slapp.
já og svo er alveg magnað hvað margir eru fríðir og föngulegir í þessum ættlegg. og alþjóðlegir og klárir og sniðugir. ekki það að ég sé eitthvað að monta mig en hjónin á skriðinsenni hafa greinilega haft góð gen til að bera.
nema hvað. bekk tú læf.

laugardagur, júlí 12, 2008

ég er ekki vön að blogga undir áhrifum. geri það samt núna. ég er illilega furlur.
það er ógeðslega fyndið að vera svona einn í heiminum. snappa útúr karakter. vera bara ég. það er gaman. sleppa öllum umhverfisáhrifum. allri rútínunni. öllu vjeseninu. í dag vann ég eins og moððer og svo drakk ég bjór. og svo fór ég á tónleika og svo fór ég á bari og svo söng ég í karókí og svo fór ég á fleiri bari og það var rosalega gaman. ég hitti sigga breik sem ég var skotin í þegar ég var 9 ára og ég sagði honum það. svo sagði ég honum líka að ég hefði kysst hann á arnarhóli þegar ég var 17 ára. ég mundi ekkert eftir því og hann ekki heldur, en ég las það í dagbókinni minni sem lýgur aldrei. hann spurði hvar ég hefði haldið mig og sagðist hafa fettish fyrir skökkum tönnum. það er sko ég. og svo fékk ég koss á kinnina frá gamla átrúnaðargoðinu mínu. það var næs. og ég söng la bamba í karokí. það var líka gaman. systir mín er skemmtilegur fugl. það er stærðfræðikennarinn líka. þó að hann fáist ekki til að lesa draumalandið. og nú er klukkan margt og ég þarf að vakna til að fara í ród trippið mitt til hólmavíkur. mig grunar að sá fjandi endi í fylleríi líka. bölvað endemis fyllerí erðetta.
en það er amk rosalega gaman og gott og indælt að vita að maður veki áhuga fólks þrátt fyrir allt og allt. bætir hressir kætir.
og ég er full núna. einmitt núna. jibbilí dúdæ........

föstudagur, júlí 11, 2008

úff púff og pelamál. gleymdi mér alveg þarna í smá stund. það er eitthvað við sumarið.
annars er það að frétta að í dag er ég ein í bænum. afkvæmin farin á ættarmót á hólmavík, þangað sem ég skrepp á morgun, og makinn farinn til síns heimalands að éta. og hanga með vinum sínum. og ná í mömmu sína. og kaupa drasl. og hvíla sig á mér. og mig á honum. slíkt er hverju pari hollt og nauðsynlegt í lífsins ólgusjó. ójá.
það er samt hálf undarleg tilfinning að vera svona ein og sjálfri mér nóg. ég veit varla hvað ég á að gera. ætli ég neyðist ekki bara til að drekka bjór og smakka eitthvað af þessum margarítum sem ég er alltaf að blanda og sjá svo til hvað gerist. jú svei mér. það hljómar ekki illa. og svo ætla ég að horfa á fm belfast í nakta apanum á eftir. það verður gaman. ú je.
einhver sem vill hanga? áhugasamir hringið núna. hehe...

mánudagur, júlí 07, 2008

heyrðu hahahahaha..... allt í einu rifjaðist upp fyrir mér hvað mig dreymdi í nótt... hahahahahahaha..... ég var með axlapúða sem ég hafði gleymt að taka af mér þegar þeir hættu að vera í tísku....hahaaaha.... og svo var ég að dansa við hann guðna sem vinnur með mér og ég prumpaði óvart framaní hann hahahaha.... og svo hlógum við ógeðslega mikið og ég með axlapúða eins og fáviti í stuttermabol. ..hahaha...... ja hérna hér... gaman að muna svona nætur. það hlaut eitthvað að vera, ég er búin að vera í svo góðu skapi í dag.

sunnudagur, júlí 06, 2008

skruppum að heimsækja foreldrana og afkvæmin í sumarbústað í gær. komum aftur áðan. sumarbústaður var kósí. grilluðum sykurpúða og okkur sjálf. í dag keyrðum við í sundlaugina í reykholti. þegar við mæðgur vorum að baða okkur og fara í sundfötin kom lítil stúlka inn ásamt móður sinni. eitthvað fór ég að sniffa út í loftið því að lyktin í sturtuklefanum var skyndilega skrýtin. svo horfði ég á sundbol stúlkunnar og velti litasamsetningunni fyrir mér en hún var hálf hippaleg eitthvað. svona bleikur með dökkum ósamræmdum röndum. svo sá ég kúkabita á gólfinu og það var ekki fyrr en þá sem ég kveikti á perunni. skrýtin lykt. skrýtinn brúnn sundbolur. kúkur á gólfinu.... hmmm.... og svo fórum við út og pössuðum okkur á að fara ekki í litla grugguga heitapottinn (ég var sko enn með kveikt á perunni). svo fórum við mæðgur bara að svamla og leika okkur. það var ekki fyrr en eftir svolitla stund að ég fór að svipast um eftir makanum sem er yfirleitt langt á undan okkur í svona málum. ekkert bólaði þó á honum fyrr en eftir dúk og disk.
hann var á undan okkur. var bara aðeins of snöggur að skella sér í pottinn. það var ekki fyrr en of seint að einhver viðstaddra lét hann vita að hann væri að baða sig í niðurgangi. og litli herra hreinlátur fór þrisvar sinnum í sturtu áður en hann kom aftur út. og hann er ennþá með hroll....tíhíhí....

nema hvað. við ákváðum að fara seint af stað í bæinn. hanga með familíunni áður en við lögðum af stað. svo fórum við úr brekkuskógi og keyrðum í átt að höfuðborginni. þegar við komum niður að beygjunni þar sem þú velur selfoss til vinstri og reykjavík til hægri sáum við að við vorum lent í miðri bílaröð þúsunda hestamótsgesta og annarra vitleysinga sem ætluðu greinilega allir í bæinn á sama tíma. í staðin fyrir að hanga í 6 klukkutíma í röð snérum við við og skutumst tilbaka og í gegnum þingvelli. sem betur fer voru greinilega fáir sem höfðu fengið þá sömu snilldarhugmynd og við vorum komin heim á mettíma. brennd, hrein og þreytt.
og svo verð ég semsagt grasekkja frá því á fimmtudaginn næsta og út mánuðinn. hvusslagseiginlega....

fimmtudagur, júlí 03, 2008

ég er alveg pass þessa dagana. opna síðuna og loka henni svo bara aftur.
enginn friður hér á söntu. ég veit ekki hvaðan allt þetta fólk kom. það er ekki einu sinni friður til að blogga hvað þá meira.
arg.

heyrðu já, ég er semsagt hjá sjúkraþjálfara sem lætur eins og ég sé kúluplast. hann togar hálsinn á mér í kjánalegustu stellingar og kippir svo þannig að ég bí bí og braka. svo ýtir hann hryggnum mínum ofaní magann á mér og ég braka. hann ýtir líka stundum höfðinu á mér ofaní bringu þannig að ennið og hakan mætast. þá langar mig alltaf að hlæja en ég get það ekki því að andlitið á mér er allt krumpað saman. svona svolítið eins og tannlaus gamall karl.
mér myndi þykja þetta hrikalega óþægileg staða ef ég hefði í huga að tæla þjálfarann. en þar sem ég er ekki að því er þetta bara fyndið og skemmtilegt.
nema hvað. ég þarf að fara að blanda í margarítuvélina.
hasta la pasta

laugardagur, júní 28, 2008

hana. þar dró fyrir sólu.
ég var að horfa á dálítið áhugaverða heimildamynd. zeitgeist heitir hún. vantrúaður stærðfræðikennari nokkur sem ég þekkti var búinn að segja mér að horfa á hana fyrir löngu. ég hlýddi ekki fyrr en í gær. ég er hlýðin þó ég sé stundum seinhlýðin. hann lofaði mér í staðin að lesa draumalandið. ég vona að hann hlýði því einhverntíman.
ég horfði á aðra áhugaverða heimildamynd um daginn. 11th hour heitir hún. um náttúruna og svona. í henni kom margt áhugavert fram en það var þó ein lítil smá staðreynd sem settist í mig og situr enn í mér. þetta var eiginlega bara áminning frekar en nýjar upplýsingar. ég vissi þetta allan tímann. hafði bara ekki alveg hugsað málið almennilega. ekkert velt mér uppúr því. en þar sem ég lá og glápti á imbann kviknaði á einhverjum löngu sprungnum perum og ég hef varla getað hætt að hugsa síðan.
það sem rifjaðist svona eftirminnilega upp fyrir mér yfir bíómyndinni var staðreyndin að ég er dýr. þú ert líka dýr. en við erum sennilega ónáttúrulegasta dýrategundin af því að við erum svo mörg búin að múra okkur útúr náttúrunni, eða eiginlega frekar múra yfir hana og við erum búin að telja okkur trú um að við séum eitthvað annað. sumum finnst meira að segja ógnvænleg eða ógeðsleg tilhugsunin um að sofa úti í náttúrunni.
ekki myndi ég lifa af ein í skógi með ekkert annað en sjálfa mig berrassaða eins og dýrið sem ég er. ég er háð fylgihlutum og ó-náttúru. annars dey ég bara.
það mætti eiginlega segja að við værum dýr sem væru svo vitlaus að hafa lokað sig sjálf inni í dýragörðum og búið svo hnútana um að við getum ekkert lifað utan hans.
svo má ekki gleyma siðareglunum. það er ekkert lítið af þeim í gangi. og við hlýðum stillt og góð. þeir sem hætta að hlýða reglunum, skráðu og óskráðu, eru skrýtnir, hættulegir eða varla í húsum hæfir. restin af okkur er rosalega vel tamin.
ekkert dýrslegt í gangi. ekkert villt. ekkert verið að stelast út fyrir dýragarðinn. stelast til að brjóta reglurnar, vera dýr eins og dýr eiga að vera. þeir sem stelast út fyrir reglurnar lenda bara í vandræðum, eru jafnvel lokaðir inni af okkur hinum.
auðvitað er margt gott samt en ef ég ætla að fara lengra með það sem er að velkjast um í skallakorninu á mér myndi ég halda áfram aaaallt of lengi.
þannig að....
búið.

mánudagur, júní 23, 2008

komst að því í dag að ég er víst eitthvað slæm í c-5-inu og þar í kring. komst líka að því að c-5 er eitthvað í sambandi við hálsliðina. ég fór nefnilega til sjúkraþjálfara til að reyna að losna við króníska hálsríginn sem ég hef verið haldin síðan ég fékk yarisinn í rassinn. indæli sjúkraþjálfaradrengurinn lofaði að gera sitt besta til að hjálpa mér og sagði mér svo að ég væri langt frá því versta tilfellið sem hann hefði séð. sem er gott. það væri sennilega ekki gott ef ég væri týpan sem fær kikk útúr því að eiga bágt og safna sem lengstri sjúkrasögu.

sem minnir mig á það. einu sinni þegar ég var um 7 ára plataði ég augnlækni til þess að skrifa uppá gleraugu fyrir mig. greta vinkona mín var nefnilega með gleraugu og mér þótti það ansi svalt svo að mig langaði líka í svoleiðis. ég man nú ekki alveg hvernig ég fór að því að kría út ferð til læknisins en gleraugun fékk ég. gott ef það voru ekki gömlu glerin hennar gretu í nýjum umgjörðum. ætli ég hafi nokkuð notað þau, man amk ekki eftir því.
ég fékk svo aftur gleraugu þegar ég var í háskólanum og var alltaf að fá hausverk. gleraugun atarna liggja ansi lítið notuð inni í skáp og mig er farið að gruna að hausverkurinn hafi frekar stafað af þreytu og lestri þunglamalegra texta. og jafnvel stressi. ég sé nefnilega alveg skítvel.

sunnudagur, júní 22, 2008

meiri helgin sem þetta hefur nú verið. meiri helgin. svei mér þá.
byrjum á byrjuninni...
á föstudaginn gerði ég ekki neitt sérstakt. hann er þar með úr leik.
en í gær hinsvegar. í gær já. förum nánar útí það.
ég var semsagt vakin snemma af síðburði sem heimtaði að fara til vinkonu sinnar, vegna þess að vinkonur eru í dag algerlega málið. nú nú svo ég rölti auðvitað með barnið, því hver vill ekki fá frí frá börnunum sínum? frumburðurinn svaf vel framundir hádegi og bróðursyni makans, þessum 19 ára, var ruslað af stað í vinnu. bretti mín þá upp ermar og skálmar og hófst handa við að ráðast á ruslahaug þann sem heimilið var orðið sökum vanrækslu og almenns aulaskapar.
og svo þreif ég mig til blóðs. ég endurinnréttaði eldhúsið mitt, færði húsgögn fram og tilbaka og breytti hlutverkum þeirra. nú og svo henti ég drasli og rusli í tonnatali og setti svo punktinn yfir i-ið með því að skúra. í fyrsta sinn síðan við fluttum hingað. ekki segja nokkrum manni frá þessu.
þar sem við eigum engar skúringagræjur fóru skúringarnar þannig fram að ég skellti sápubleyttu handklæði á gólfið (ónýtu handklæði semsagt), og svo skellti ég mér úr sokkunum og skautaði á handklæðinu um öll skúmaskot heimilisins. ljúfur ilmur hefur leikið um vit mín alla tíð síðan.
þegar ég var búin að gera alveg skúffufínt heima hjá mér var ég komin með illa svíðandi sár á löngutöng hægri. og úr henni vætlaði blóð. og mig svíður ennþá. svo að það má semsagt segja að ég hafi þrifið mig til blóðs.
nema hvað. líður nú og bíður og ekkert kemst yfir mig nema fuglinn fljúgandi.
svo kom kveld og ég og bergur vinkona mín ákváðum í tilefni dagsins að fara á fyllerí. ekki út að djamma eða út á lífið eða á pöbbarölt eða í bæinn. nei. á fyllerí. gamalt og gott orð sem má ekki detta úr notkun.
við skulum alveg sleppa hlutanum um hvað við penu húsmæðurnar köllum fyllerí, en sá skratti er varla uppí nös á hamstri. en við þóttumst samt vera voðalegar töffurur.
nema hvað. við semsagt fórum í mannfræði-vettvangsrannsókn á dubliners á meðan við vorum að bíða eftir að uppáhalds hljómsveitin mín, fm belfast, stigi á svið á organ. þegar tónleikastundin loksins rann upp var fyllerísfélagi minn sprunginn á limminu og tiplaði heim. þar sem ég er harðnagli hélt ég áfram og fór og hoppaði og dansaði og skrækti á meðan systir vor kær söng og slammaði sem væri hún vitfirrt. mikið assgoti var gaman.
núnú... eftir tónleikana röltum við systur heim til mín þar sem ég helti rúmlega hálfri hvítvínsflösku í eitt glas (galdraglas), fyrir þá litlu og fékk mér sjálf öl. svo sátum við bara og spjölluðum eins og systrum einum er lagið og er það ekki í frásögur færandi svosem. kemur þá ekki makinn heim eftir skemmtistaðaferð með félögum sínum, rýkur inn á bað og heyrist svo ekki sagan meir. mig grunaði að hann væri að gubba. sagðirðu gubb?.....
en við nánari athugun kom í ljós að kauði hafði á einhvern óskiljanlegan hátt endað í miðjum hópslagsmálum og svo veit hann ekki neitt meir nema það að vinir hans segja að þar sem hann var að reyna að aðskilja einhverja tvo gaura hafi sá þriðji komið aftanað honum og kýlt hann niður og svo hafi einhver dundað við að sparka í hann.
hann er með brotið bein í höndinni, krambúleraðan olnboga, sár á skallanum og nefinu, og svo fáum við að vita eftir 10 daga þegar bólgan er hjöðnuð hvort hann sé með brotið nef.
ég er rosalega fegin að hann var ekki að gubba. hann hefði alveg rústað hreingerningarsítrónuilminum!

fimmtudagur, júní 19, 2008

við lalli jóns erum orðin mestu mátar. ég er alltaf að rekast á kauða út um allan bæ og alltaf heilsumst við. enda næstum nágrannar.
í dag sagði hann mér að lesa stjörnuspána sína. hann er meyja. börnin mín líka.

annars er ég búin að vera óvenjulega lítið klaufaleg undanfarið. hef alveg farið í fötin á réttunni og fátt misst útúr höndunum. svo hef ég lítið sem ekkert rekið mig í. sem er óvenjulegt. ætli ég sé eitthvað að þroskast?
vonandi ekki.

kannski er ég með athyglisbrest.
ég rek veitingastað, vinn á honum, er að undirbúa kennslu fyrir haustið, er með 5 manna heimili þessa dagana og var að fá tilboð um aukakennslu næsta vetur.
samt langar mig í smá krydd í tilveruna...

miðvikudagur, júní 18, 2008

þessa dagana dreymir mig og dreymir. mig dreymir bæði á daginn og á næturnar. það er langt síðan mig hefur dreymt eitthvað að ráði, en núna er eins og það hafi verið kveikt á einhverjum draumafrumum sem voru steinsofandi (afsakið pönnið).
þetta er svosem allt í fínu, þetta eru engar martraðir, ósköp ljúfir og fínir draumar. en mig er alltaf að dreyma það sama. sama fólkið.
eini gallinn er að ég virðist enga stjórn hafa á þessu.

sunnudagur, júní 15, 2008

tók mig til og las hverja einu og einustu færslu sem ég hef ritað í bloggið mitt frá fyrsta degi. hef aldrei gert það áður. það var svolítið eins og að lesa skrif eftir einhvern annan þar sem ég mundi fátt eftir flestu.en mér fannst eiginlega 22. júní2004 vera bestur.
skrýtið samt að mér fannst voða gaman að lesa þetta og ýmislegt rifjaðist upp en þegar nær dró deginum í dag, þeas því sem ég man eftir að hafa skrifað, því minna spennandi þótti mér lesturinn. sennilega lógískt.
eitthvað hef ég nú verið að endurtaka mig í gegnum tíðina. það er á hreinu. og mikið hef ég kvartað yfir því að vita ekki hvað ég á að skrifa um, hvað líf mitt er óspennandi eða öðrum asnalegum hlutum. samt hef ég einhvernvegin alltaf haldið áfram. mér sýnist ég þó hafa verið duglegri þegar ég var að vinna á skrifstofunni. sem segir kannski eitthvað um mig og skrifstofustörf.
en ef ég tek þessi ár saman eru þau í grófum dráttum svona:
ég hef keypt slatta af húsnæði.
ég hef skipt slatta um vinnu.
börnin mín hafa verið slatta oft veik.
mér hefur verið slatta oft illt í bakinu.
jaxlinn minn hefur slatta mikið verið að stríða mér.
mér hefur leiðst slatta oft.
ég hef samt gert slatta margt skemmtilegt líka.

en á morgun kemur semsagt bróðursonur makans sem er 19 ára til þess að vera hjá okkur í rúma tvo mánuði. ég drakk áfengi í gærkveld og er þar af leiðandi löt og þreytt en samviska mín leyfir mér ekki að sitja lengur aðgerðarlaus. ég hreinlega verð að taka til. verð. djöfuls rugl. eins og 19 ára strákum sé ekki sama hvort það er drasl í kringum þá eða ekki. en samt. ég var alin upp við að taka aldrei á móti fólki í annað en tandurhrein hús. og að fara í bað á þorláksmessu.

sem minnir mig á það. frumburðurinn er þessa dagana yfir sig hissa, undrandi og smeykur. hann var nefnilega að komast að því að allir, og þá meina ég allir, fá á endanum hár í rassinn. ekki á rassinn heldur í rassinn. þetta þykir kauða hrikalega óhugnaleg tilfinning og hann á bágt með að trúa að fallegar konur fái í alvörunni hár á milli rasskinnanna.
hah! segi ég nú bara. rassahár verða mjög líklega það síðasta sem þú hefur áhyggjur af þegar þú verður kominn með þau.

hvað segið þið annars gott?

föstudagur, júní 13, 2008

þetta var nú aldeilis fín vika. hún var svona:

dagur 1 - keyrt að laugarvatni og farið í sund. keyrt að geysi og tjaldað. grillað og bjór. skordýr veidd í glös og sleppt aftur nokkru síðar. flest lifðu af.
dagur 2 - tjaldið tekið saman og lítill kofi leigður af hótel geysi. siglt niður hvítá í fyndnum göllum. hoppað í ána sem var köld. etið og slappað af. leikið við bull dog nágranna okkar með krumpuð andlit.
dagur 3 - hestaferð inn í haukadalinn. er enn sár í rassi og þreytt í baki. keyrt í reykholt og legið í sundi. labbað í kringum hveri og inní skóg. álfar heimsóttir. grillað og bjór. leikið við hundana.
nótt 3 - lítið sofið vegna fluguskratta sem vildi endilega suða nálægt eyranu á mér. var of þreytt til að standa upp og buffa hana. hún lifði af. ég varla.
dagur 4 - morgunmatur etinn í sól og blíðu, pakkað niður, leikið við hundana og keyrt heim.

og nú lítur mín út eins og leðurjakki í framan vegna ofnotkunar á sól. þannig að ég er eiginlega rasssár leðurjakki í dag. en þetta var rosa gaman. útlönd hvað?
já og svo er ég víst að fara að útskrifast á morgun. var eiginlega búin að gleyma því þar sem skólanum lauk í desember. en jæja, alltaf gaman að útskrifast.

þriðjudagur, júní 10, 2008

mér sýnist við vera að fara í litla óundirbúna útilegu á morgun. stundum er allt eitthvað svo óundirbúið heima hjá mér. það er annað en hún litla ég. alltaf svo undirbúin.
en þá er bara að hafa það gaman. pakka niður einnota grillinu sem ég er búin að eiga...hmmm... í 4 ár og skella sundfötum og snjógalla í skottið á bláa bílnum sem var búinn til í mexíkó. honum er ennþá kalt enda vanur um 30 gráðum blessaður.

einhver sagði að suðurland væri málið þessa vikuna. en ef ég keyri í suður enda ég í sjónum. haaa... nú er ég áttavillt. er ég þá ekki að fara að keyra í austur? eða til hægri? miðað við landakortið er ég að fara til hægri.

sjáumst þá þegar ég kem aftur til vinstri.

laugardagur, júní 07, 2008

djöfull lenti ég í ógeðslegum árekstri áðan....
nei djók.

djöfull var ég næstum því drukknuð í sundi áðan....
nei djók.

djöfull flaug fugl innum gluggann hjá mér áðan og ætlaði aldrei að rata út....
nei djók.

djöfull missti ég heilan bakka af kaffi yfir kerlingu í pels áðan og núna er hún skaðbrennd á slysó....
nei djók.

mikið er dagurinn í dag viðburðalítill...

miðvikudagur, júní 04, 2008

heima hjá mér er parkett. svosem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir það að parkettið er einhverra hluta vegna orðið að skautasvelli.
þá á ég ekki við að það sé frosið eða að við séum á skautum heima. ekki aldeilis. ó nei. held nú síður.
af óskiljanlegum ástæðum gerðist eitthvað í fyrradag og nú er gólfið heima hjá mér orðið svo sleipt að ég er oftar en ekki við það að renna á rassinn þegar ég til dæmis á leið á klósettið eða hvert sem er annað.
við vorum ekki að skúra með nýju bónefni. við vorum ekki að olíubera viðinn eða neitt. þetta varð bara svona. ég er alveg bit og pass.
góðu hliðarnar eru þær að ég er svakalega fljót til dyra og svo er ég að verða ansi góð í þrefaldri skrúfu með hælkrók og axlabeygju. ég er að hugsa um að fara að splæsa í glimmerbryddaðan spandexbúning með litlu pilsi.

mánudagur, júní 02, 2008

það er til fólk sem er með ljótar hárgreiðslur.
það er til fólk sem er með of stóra eyrnasnepla.
það er til fólk sem þyrfti að nota hárnæringu.
það er til fólk sem talar of mikið.
það er til fólk sem drepur mann úr leiðindum.
en það er fólk þrátt fyrir það.

sunnudagur, júní 01, 2008

sjitt hvað það var gaman.

ég er of þreytt fyrir löngu útgáfuna núna. tek bara þá stuttu:
bjór, hlátur, bjór, rútuferðir, bjór, hommabarir, bjór, sendiráð, bjór, lítill svefn, bjór og gaman. já og smá bjór.
ekki minnti mig að ég hefði þetta svakalega úthald í svona mikla vöku og bjórdrykkju.
en sjitt hvað það var gaman.
ef einhver slysast hingað inn af þeim sem voru memm þá þakka ég bara kærlega fyrir samveruna og sendi stórt knús.

fimmtudagur, maí 29, 2008

einhver sumarbloggleti komin í mína.
nema hvað... í dag sendi makinn mig í kínverskt nudd á skólavörðustíg. þangað mætti ég galvösk og klæddi mig úr að ofan. þegar ég var lögst kom inn ungur kínverskur maður sem ég þekki nú svosem ekki meiri deili á. nema hvað... vippar kauði sér ekki uppá bekkinn og byrjar að nudda á mér bakið með fótunum. mikill fjári hvað ég var nálægt því að fá hláturskast. ég glotti allavega svakalega ofaní gatið á bekknum þar sem ég lá sem skata.
þetta var semsagt skemmtilegt nudd. ég er nú svosem ekki mikið betri, enda stíf eftir kerlu atarna sem krumpaði jarisinn á stuðaranum mínum. en það hlýtur að lagast einhverntíman einhvernvegin.
nema hvað.... eftir nokkra klukkutíma flýgur mín til berlínar. það verður fyrsta helgarferðin mín, fyrsta vinnuferðin mín og fyrsta ferðin mín til berlínar.
ekkert smá fyrst ferð. og ég er að hlakka til. spurning hvort ég nái að sofa eitthvað.
nema hvað... bless á meðan. er skroppin til útlands.

föstudagur, maí 23, 2008

nú er ég aldeilis lifandi bit. ég var að fá bréf frá intrum justitia þar sem stendur ,,nú er málið orðið alvarlegt. lokaaðvörun!" meira að segja er upphrópunarmerki. í bréfinu er mér hótað lögfræðiinnheimtu og leiðindum frá og með tuttugasta og áttunda þessa mánaðar. forsagan er sú að sonur minn æfði fótbolta fyrir langa löngu en ákvað að hætta og fara að æfa körfubolta. við létum bara vita af því og allt í góðu. svo fórum við til útlands eins og glöggir muna. eftir að við komum heim fékk ég rukkunarbréf fyrir æfingagjöldum í knattspyrnudeildinni. ég lét vita að þetta væri misskilningur vegna þess að rúmt ár var liðið síðan drengurinn hætti að æfa.
líður nú og bíður og fyrir nokkru fékk ég aftur harðort bréf frá rukkunarfyrirtækinu. ég hringdi enn og aftur og bað um að losna við skrattann atarna. og svo andaði ég rólega. þangað til í dag. nú er ég alveg að verða komin með intrum uppí kok. ég hringdi aftur í knattspyrnudeildarfjandann og bölsótaðist á afar kurteislegan hátt, enda ekki vön því að ráðast munnlega á fólk. ekki líkamlega heldur ef útí það er farið...
og svo skrifaði ég tölvupóst. mikið vona ég innilega að þeir troði blessaðri skuldinni þangað sem sólin eigi skín enda þykja mér svona hlutir með endemum ergjandi og viðurstyggilegir.
svo er það bara júrópartí á morgun.

þriðjudagur, maí 20, 2008

það er svo gaman að vera best í einhverju. það er líka svo gott að fá að vita að eitthvað sé gert vel og rétt. kvikindið í mér fær gasalegt kikk útúr því að vera borin saman við einhvern annan sem kemur verr út úr samanburðinum.
mér finnst gasalegt vera gasalega skemmtilegt orð. þegar ég nota það fæ ég einhverra hluta vegna einhverskonar miðaldratilfinningu. gasalegt lætur mér finnast ég vera kerling í augnablik. lekkert virkar eins. gasalega lekkert er algjör bomba. kerlingabomba.

nema hvað... ég er greinilega að fara að kenna áfram í emmká. ðett is kúl men.
og ég er góð í sumu.

þriðjudagur, maí 13, 2008

sem minnir mig á það... ég biðst afsökunar á því hversu langan tíma tekur að laga skólavörðustíginn. ég er búin að fatta af hverju þetta gengur svona hægt. karlarnir eru að reyna að vera þarna lengur að vinna eftir að þeir föttuðu að ég þvælist alltaf um íbúðina á nærbuxunum á morgnanna.
smekk-menn.
hana. komin vika síðan síðast. gírinn er eitthvað að stríða mér. nú þætti mér líklegt að margir hefðu spurt sig hvað hún hefur verið að gera svona merkilegt síðustu viku sem gæti útskýrt blorgþögnina. en væri ég spurð gæti ég fáu svarað. sæi ég mér mögulegt að skrifa eitthvað hefði ég gert það. hefðu hugmyndir komið upp í kolli mínum eða atburðir átt sér stað sæti ég ekki á honum stóra mínum. þætti mér hinsvegar dagar mínir drifnir óspennandi mætti ég þá heldur halda tranti mínum á mottu stórri. dytti ykkur í hug að mér væri unnt að skrifa heila færslu í uuu...viðtengingarhætti eða skildagatíð eða hvur fjárinn þetta heitir, stæði mér ekki á sama um málið. reyndist ritstíllinn mér þungur í vöfum hætti ég eins og skot.
skot.

og þú þarna guðni.... hvað ert þú að gera hér?

þriðjudagur, maí 06, 2008

nú var að fara héðan af söntu maríu einstaklingur sem lyktaði svo illa að við urðum því miður vinsamlegast að biðja hann um að fara. ég hef sjaldan eða aldrei fundið svona mikla og sterka lykt af manneskju.
ég fann einu sinni lykt af dauðum hundi sem hafði legið í sólinni í viku, hann var uppblásinn og lyktaði hrottalega illa. þessi manneskja sem var hérna áðan lyktaði ekki svo illa. hún lyktaði heldur ekki jafn illa og svínið sem líffræðikennarinn fyrrverandi samstarfsmaður minn lét nemendur sína kryfja og var svo stungið í geymslu yfir helgina.
en illa lyktaði hún samt.
svakalegt þegar fólk endar svona.

laugardagur, maí 03, 2008

ætli frumburðinum hafi ekki tekist að leiga eina lélegustu kvikmynd allra tíma í dag. hún er es ví spík í gangi fyrir framan rauðhlaupin augu mín og mér er hreint ekki farið að standa á sama. meistaraverkið heitir bottoms up og skartar fröken parís hilton á kápunni. ég man varla eftir að hafa liðið svona illa yfir kvikmynd síðan við systur leigðum amy´s orgasm.
mig grunar einhvernvegin að mér myndi líða svipað yfir police academy í dag. get ekki ímyndað mér að þær hafi elst vel.
þegar ég var lítil var ég mikill aðdáandi áfram-myndanna sem hétu carry on hitt og þetta á frummálinu. einhverntíman mörgum árum síðar sá ég atriði úr einni þeirra og gerði mér þá grein fyrir karlrembu-rassa-brjósta-klípa-ríða húmornum sem gegnsýrði þær allar. svakalega ekki fyndið. má ég þá frekar biðja um peter sellers myndirnar.

nema hvað. er annars eitthvað að frétta af menningarnæturhugmyndunum mínum?

þriðjudagur, apríl 29, 2008

eitthvað var ég óvenju fersk í morgun þar sem ég vippaði mér í sokkabuxur og kjól. vappaði svo létt í spori úr húsi og í bíl og úr bíl í hús. vipp, vapp og vupp.
hér á vinnustaðnum flaksaðist kjólfaldurinn þar sem ég spígsporaði um langa ganga og mér þótti ég svaka sumarleg og fín.
það var samt alltaf eitthvað að naga mig. ég gat engan veginn áttað mig á hvað það var en það var eitthvað.... einhver óskýranlegur ferskleiki. frelsi. ég var eitthvað svo náttúruleg.
þangað til ég fattaði hvað það var. ég gleymdi brjóstahaldaranum á rúminu heima. það hlaut eitthvað að vera. og nú er ég svo hrikalega meðvituð að ég þori varla að hreyfa mig.
kannski væri bara hollt að venja sig af þessu. vera stundum au natural. og vera skít sama. sumum er sama. ekki mér. bölvaðri menningunni hefur tekist að troða brjóstaþvingunartólum sínum uppá mig og ég er hreint ekki eins frjáls og ég þykist vera.
svo hlógu dönskukennararnir að mér... ég tala nefnilega stundum of mikið og það sem hefði getað verið algerlega ósýnilegt er nú á allra vitorði. ég er nefnilega gaurinn sem kemur inná kennarastofu og segir ,,vitiði hvað kom fyrir mig?..."

sunnudagur, apríl 27, 2008

eitthvað er skammtímaminnið farið að stríða mér. um daginn hringdi ég í systur mína til að segja henni eitthvað sem mig hafði langað að spjalla við hana um en loksins þegar ég náði í hana gat ég ekki fyrir mitt litla líf munað hvað það var sem ég ætlaði að segja. og núna rétt áðan opnaði ég blorgsíðuna mína til að segja frá einhverju gasalega skemmtilegu, svo ákvað ég fyrst að klára að semja prófið sem ég var að gera. og núna man ég engan veginn hvað var svona merkilegt.
reynum að rifja upp... það var örugglega ekki um að tvo daga í röð höfum við mæðgur þurft að veiða risavaxnar randaflugur í stofunni okkar og skutla þeim út um gluggann. það var ekki heldur um að ég er alveg að verða komin í sumarfrí. ekki ætlaði ég að skrifa um konuna sem fór á veitingastaðinn um daginn og þakkaði makanum fyrir að opna þennan stað þar sem hann hefði sál og að hún sjálf sæi lengra en annað fólk. hvað sem það þýðir nú. ég þykist alveg viss um að ég ætlaði ekkert að rausa um viljastyrksleysi mitt sem gerir mér lífsins ómögulegt að hætta að sulla í nammi og gosi þó að skynsemi mín segi mér að stunda heilsusamlegt líferni. ég hefði kannski ætlað að nefna að amma mín átti afmæli í gær, en það var samt ekki aðalmálið.
a jú, nú man ég það. það var brunalyktin...
semsagt... í morgun, eldsnemma, svo snemma að barnatíminn var ekki einu sinni byrjaður, vakti dóttir mín mig. þar sem ég staulaðist úfin og óskýr fram fann ég ógeðslega kúkalega brunalykt sem lá yfir öllu. ég opnaði glugga í stað þess að verða stressuð, hlaupa út og vekja alla. sem er sennilega það sem skynsamt fólk veit að það á að gera þegar það finnur megna brunalykt.
nema hvað... svo fór ég bara aftur að sofa enda ansi úfin og óskýr.
einhverju síðar þegar ég vaknaði fyrir alvöru fann ég að lyktin lá enn yfir öllu og opnu gluggarnir höfðu ekki skipt miklu máli. fjúff sagði ég og opnaði svaladyrnar.
svo fórum við bara í sund og höfðum það fínt.
nokkru löngu síðar komum við heim og viti menn. þarna var súra brunafýlan og í stigaganginum var hún sérstaklega slæm. og við bönkuðum á dyr sem engar opnuðust.
þá datt okkur í hug að bjalla í hundraðogtólf til að fá að vita hvað væri best að gera í stöðunni.
núnú, stuttu síðar birtist lögreglan sem bankaði uppá hjá undarlega einfaranum á neðri hæðinni. hann opnaði og þegar hann var spurður hvort hann vissi um upptök fýlunnar viðurkenndi hann kæruleysislega að hafa brennt hafragrautinn sinn.
jedúddamía segi ég. hvusslags eiginlega hafragrautur. hvusslags eiginlega bruni hvusslags eiginlega tími til að vera að sjóða hafragraut fyrir klukkan sjö á sunnudagsmorgni. hvusslags eiginlega vitleysisgangur erðetta?

hugmyndir að menningarnæturviðburði á sólpalli söntu maríu óskast.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

í gær skrifaði ég langan pistil og þann pólitískasta sem ég hef nokkurntíman gert. svo strokaðist hann óvart út. í pistlinum atarna sagðist ég vera algerlega á móti því að nemendur hafi aðgang að internetinu á meðan þau eru í kennslustundum. þeir sem eru ósammála mér segja að netið gagnist við verkefnavinnu og að unglingar hafi alltaf verið latir og utanviðsig hvort eð er. ég get alveg kvittað undir það að einhverju leyti en mér er samt skít sama. ég held að núna fari ástandið bara versnandi og margir sem annars hefðu hlustað og amk gert eitthvað í kennslustundum eru núna fastir á myspace, msn, facebook og í tölvuleikjum. ég hef horft uppá heilan bekk þar sem ein manneskja var að hlusta á kennsluna og hinir voru staddir í öðrum heimsálfum - andlega. ég hef horft uppá krakka falla í fögum og úr skóla af því að þeir áttu einfaldlega ekkert í aðdráttarafl netheima þar sem allir eru geggt kúl og ógsla spennó. ég hef horft uppá krakka verða brjálæðislega fúla yfir að mega ekki vera á netinu í kennslustundum þegar engin þörf var fyrir netið í tengslum við efni tímans. ég hef horft uppá kennara eyða ómældum tíma í að berjast við að allir loki tölvunum í tímum hjá þeim. ég hef horft uppá krakkana nota netið til að redda sér í gegnum fög án þess að læra eða skilja hvað þeir eru að gera (sbr. þýðingarvélar þar sem öllu er skutlað inn á ensku og svo er útkomunni skilað og hún er oftar en ekki tóm steypa). ég hef horft uppá ritgerðir sem eru stolnar í heilu og hálfu lagi og verkefni þar sem ekkert er gert nema koppí peista.
ég veit að svindl í skóla hefur verið til áður og verður alltaf til. ég er bara að segja að það virðist hafa aukist.
semsagt. á þeim fjórum vetrum sem ég hef kennt í framhaldsskóla hef ég komist að þeirri niðurstöðu að krakkarnir ættu ekki að hafa netaðgang í kennslustundum. fyrirgefðu stína en þetta finnst mér bara. framtíðin minn rass. hormónahlaðnir áttavillingar hafa ekki sjálfsaga í að nota þetta rétt og netið er að mínu mati bara að skemma námsárangurinn fyrir of mörgum.
og hananú.

föstudagur, apríl 18, 2008

vinnueftirlitið, ráðningarsamningar, skattkort, lífeyrissjóðsgreiðslur, staðgreiðsla skatta, rekstrarleyfi, dvalar- og atvinnuleyfi, virðisaukaskattur og launaseðlar.
þetta var skemmtilestur dagsins.

annars er bara allt í gúddí. skólaárið brátt á enda og tilheyrandi próf, verkefnaskil og gætirðu reddað mér fyrir horn - gráturinn, í fullu fjöri. sumarið nálgast og ég farin að þora að hætta mér út úr húsi meira að segja stundum á peysunni. ekki þó einni fata, en úlpulaus og trefilslaus og húfulaus og vettlingalaus. stundum jafnvel vitlaus. ekkert er fegurra en vorkvöld í reykjavík.
svífur ýmislegt yfir esjunni og gott ef akrafjall og skarðsheiðin eru ekki eins og fjólubláir draumar.
svei mér þá.

hana. nú dettur mér ekkert fleira í hug. ég sem ætlaði að slá um mig með hnyttnum frásögnum, einstakri orðheppni og fádæma skemmtilegheitum. en varð svo bara alveg pass. einn tveir þrír fjórir fimm dimmalimm. hollí hú. bimbamm bimbamm bimbirimbirimbamm. vínk vínk. eitur í flösku. sto. yfir. eina króna. brennó. stórfiskaleikur. teigjó. snúsnú. löggu og bófa. sannleikann eða kontor.
eigum við að koma út að leika?