þriðjudagur, apríl 29, 2008

eitthvað var ég óvenju fersk í morgun þar sem ég vippaði mér í sokkabuxur og kjól. vappaði svo létt í spori úr húsi og í bíl og úr bíl í hús. vipp, vapp og vupp.
hér á vinnustaðnum flaksaðist kjólfaldurinn þar sem ég spígsporaði um langa ganga og mér þótti ég svaka sumarleg og fín.
það var samt alltaf eitthvað að naga mig. ég gat engan veginn áttað mig á hvað það var en það var eitthvað.... einhver óskýranlegur ferskleiki. frelsi. ég var eitthvað svo náttúruleg.
þangað til ég fattaði hvað það var. ég gleymdi brjóstahaldaranum á rúminu heima. það hlaut eitthvað að vera. og nú er ég svo hrikalega meðvituð að ég þori varla að hreyfa mig.
kannski væri bara hollt að venja sig af þessu. vera stundum au natural. og vera skít sama. sumum er sama. ekki mér. bölvaðri menningunni hefur tekist að troða brjóstaþvingunartólum sínum uppá mig og ég er hreint ekki eins frjáls og ég þykist vera.
svo hlógu dönskukennararnir að mér... ég tala nefnilega stundum of mikið og það sem hefði getað verið algerlega ósýnilegt er nú á allra vitorði. ég er nefnilega gaurinn sem kemur inná kennarastofu og segir ,,vitiði hvað kom fyrir mig?..."

sunnudagur, apríl 27, 2008

eitthvað er skammtímaminnið farið að stríða mér. um daginn hringdi ég í systur mína til að segja henni eitthvað sem mig hafði langað að spjalla við hana um en loksins þegar ég náði í hana gat ég ekki fyrir mitt litla líf munað hvað það var sem ég ætlaði að segja. og núna rétt áðan opnaði ég blorgsíðuna mína til að segja frá einhverju gasalega skemmtilegu, svo ákvað ég fyrst að klára að semja prófið sem ég var að gera. og núna man ég engan veginn hvað var svona merkilegt.
reynum að rifja upp... það var örugglega ekki um að tvo daga í röð höfum við mæðgur þurft að veiða risavaxnar randaflugur í stofunni okkar og skutla þeim út um gluggann. það var ekki heldur um að ég er alveg að verða komin í sumarfrí. ekki ætlaði ég að skrifa um konuna sem fór á veitingastaðinn um daginn og þakkaði makanum fyrir að opna þennan stað þar sem hann hefði sál og að hún sjálf sæi lengra en annað fólk. hvað sem það þýðir nú. ég þykist alveg viss um að ég ætlaði ekkert að rausa um viljastyrksleysi mitt sem gerir mér lífsins ómögulegt að hætta að sulla í nammi og gosi þó að skynsemi mín segi mér að stunda heilsusamlegt líferni. ég hefði kannski ætlað að nefna að amma mín átti afmæli í gær, en það var samt ekki aðalmálið.
a jú, nú man ég það. það var brunalyktin...
semsagt... í morgun, eldsnemma, svo snemma að barnatíminn var ekki einu sinni byrjaður, vakti dóttir mín mig. þar sem ég staulaðist úfin og óskýr fram fann ég ógeðslega kúkalega brunalykt sem lá yfir öllu. ég opnaði glugga í stað þess að verða stressuð, hlaupa út og vekja alla. sem er sennilega það sem skynsamt fólk veit að það á að gera þegar það finnur megna brunalykt.
nema hvað... svo fór ég bara aftur að sofa enda ansi úfin og óskýr.
einhverju síðar þegar ég vaknaði fyrir alvöru fann ég að lyktin lá enn yfir öllu og opnu gluggarnir höfðu ekki skipt miklu máli. fjúff sagði ég og opnaði svaladyrnar.
svo fórum við bara í sund og höfðum það fínt.
nokkru löngu síðar komum við heim og viti menn. þarna var súra brunafýlan og í stigaganginum var hún sérstaklega slæm. og við bönkuðum á dyr sem engar opnuðust.
þá datt okkur í hug að bjalla í hundraðogtólf til að fá að vita hvað væri best að gera í stöðunni.
núnú, stuttu síðar birtist lögreglan sem bankaði uppá hjá undarlega einfaranum á neðri hæðinni. hann opnaði og þegar hann var spurður hvort hann vissi um upptök fýlunnar viðurkenndi hann kæruleysislega að hafa brennt hafragrautinn sinn.
jedúddamía segi ég. hvusslags eiginlega hafragrautur. hvusslags eiginlega bruni hvusslags eiginlega tími til að vera að sjóða hafragraut fyrir klukkan sjö á sunnudagsmorgni. hvusslags eiginlega vitleysisgangur erðetta?

hugmyndir að menningarnæturviðburði á sólpalli söntu maríu óskast.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

í gær skrifaði ég langan pistil og þann pólitískasta sem ég hef nokkurntíman gert. svo strokaðist hann óvart út. í pistlinum atarna sagðist ég vera algerlega á móti því að nemendur hafi aðgang að internetinu á meðan þau eru í kennslustundum. þeir sem eru ósammála mér segja að netið gagnist við verkefnavinnu og að unglingar hafi alltaf verið latir og utanviðsig hvort eð er. ég get alveg kvittað undir það að einhverju leyti en mér er samt skít sama. ég held að núna fari ástandið bara versnandi og margir sem annars hefðu hlustað og amk gert eitthvað í kennslustundum eru núna fastir á myspace, msn, facebook og í tölvuleikjum. ég hef horft uppá heilan bekk þar sem ein manneskja var að hlusta á kennsluna og hinir voru staddir í öðrum heimsálfum - andlega. ég hef horft uppá krakka falla í fögum og úr skóla af því að þeir áttu einfaldlega ekkert í aðdráttarafl netheima þar sem allir eru geggt kúl og ógsla spennó. ég hef horft uppá krakka verða brjálæðislega fúla yfir að mega ekki vera á netinu í kennslustundum þegar engin þörf var fyrir netið í tengslum við efni tímans. ég hef horft uppá kennara eyða ómældum tíma í að berjast við að allir loki tölvunum í tímum hjá þeim. ég hef horft uppá krakkana nota netið til að redda sér í gegnum fög án þess að læra eða skilja hvað þeir eru að gera (sbr. þýðingarvélar þar sem öllu er skutlað inn á ensku og svo er útkomunni skilað og hún er oftar en ekki tóm steypa). ég hef horft uppá ritgerðir sem eru stolnar í heilu og hálfu lagi og verkefni þar sem ekkert er gert nema koppí peista.
ég veit að svindl í skóla hefur verið til áður og verður alltaf til. ég er bara að segja að það virðist hafa aukist.
semsagt. á þeim fjórum vetrum sem ég hef kennt í framhaldsskóla hef ég komist að þeirri niðurstöðu að krakkarnir ættu ekki að hafa netaðgang í kennslustundum. fyrirgefðu stína en þetta finnst mér bara. framtíðin minn rass. hormónahlaðnir áttavillingar hafa ekki sjálfsaga í að nota þetta rétt og netið er að mínu mati bara að skemma námsárangurinn fyrir of mörgum.
og hananú.

föstudagur, apríl 18, 2008

vinnueftirlitið, ráðningarsamningar, skattkort, lífeyrissjóðsgreiðslur, staðgreiðsla skatta, rekstrarleyfi, dvalar- og atvinnuleyfi, virðisaukaskattur og launaseðlar.
þetta var skemmtilestur dagsins.

annars er bara allt í gúddí. skólaárið brátt á enda og tilheyrandi próf, verkefnaskil og gætirðu reddað mér fyrir horn - gráturinn, í fullu fjöri. sumarið nálgast og ég farin að þora að hætta mér út úr húsi meira að segja stundum á peysunni. ekki þó einni fata, en úlpulaus og trefilslaus og húfulaus og vettlingalaus. stundum jafnvel vitlaus. ekkert er fegurra en vorkvöld í reykjavík.
svífur ýmislegt yfir esjunni og gott ef akrafjall og skarðsheiðin eru ekki eins og fjólubláir draumar.
svei mér þá.

hana. nú dettur mér ekkert fleira í hug. ég sem ætlaði að slá um mig með hnyttnum frásögnum, einstakri orðheppni og fádæma skemmtilegheitum. en varð svo bara alveg pass. einn tveir þrír fjórir fimm dimmalimm. hollí hú. bimbamm bimbamm bimbirimbirimbamm. vínk vínk. eitur í flösku. sto. yfir. eina króna. brennó. stórfiskaleikur. teigjó. snúsnú. löggu og bófa. sannleikann eða kontor.
eigum við að koma út að leika?

miðvikudagur, apríl 16, 2008

ég skal nú bara segja ykkur það. þjóðernunum fjölgar eins og óð fluga á söntu maríu. í dag eru þarna fyrir utan brasilísku systurnar, kólumbíumanninn, mexíkanann, litháensku stelpuna og þá bandarísku, spænsk stúlka, ítalskur strákur, pólsk stelpa, ein frá uganda sem er að prófa í dag og annar frá guatemala sem ætlar að prófa eftir helgi. nú og svo auðvitað hún ég. einn kúbanskur vann í smá tíma, gekk reyndar ekki alveg upp, og tyrkneska konan treysti sér ekki í hamaganginn í eldhúsinu frekar en sú sænska í vinnutímann.
ég er búin að koma mér upp svona einkabrandara sem ég stunda þarna á staðnum. hann er sko þannig að ég hleyp inn eða niður í eldhús alvarleg á svip og helst með roð í kinnum og öskra: útlendingaeftirlitið, löggan er að koma! svo hlæ ég alveg ógurlega og slæ mér á lær þar sem ég fylgist með liðinu hlaupa og fela sig undir borðum og inní skápum. svo segi ég: djók men, æm djöst djóking....hahahaha.... good on you gæjs...hahaha...jú þot ðe pólís vos komming end jor feis vos só fönní ......... hahahaha.......... æm prótekting jú fromm ðe pólís es long es jú pei mí ðe próteksjon monní. nó vörrís men.
og þá róast liðið og svo hlæja þau með mér því þau vita hvað ég er mikill djókari.
rosa gaman að þessum útlendingum maður.

sunnudagur, apríl 13, 2008

stundum þegar ég hitti sumar gerðir af fólki fæ ég á tilfinninguna að ég sé að gera eitthvað vitlaust. þá finnst mér ég fara alltof sjaldan á hárgreiðslustofu (fer að meðaltali einu sinni á ári), eiga alltof gömul föt (á t.d. blússu sem lillý frænka gaf mér þegar ég var 12 ára) og fara alltof sjaldan í utanlandsferðir með vinnunni eða í skvísu-verslunarferðir (hef reyndar farið í hvorugt). mér finnst ég líka lifa alltof óheilbrigðu lífi, borða of mikið og of óhollt og í þokkabót finnst mér ég vera algjör eymingi og letingi. í ofanálag upplifi ég mig sem kærulausa móður, lúða í heimilishaldi og matargerð og algjöran fávita þegar kemur að innanhúshönnun. já og svo held ég að heimilið mitt sé kaotískur ruslahaugur. ekki má gleyma að ég veit voða lítið hverjir eru hverjir sem voru hvar og fer afar sjaldan á skemmtistaði bæjarins.
í panikkkasti eftir smá sjálfsálitshrap um daginn rauk ég á hárgreiðslustofu á föstudaginn og lét sparsla í gráu hárin og gera mig aðeins gellulegri um hausinn. í gær tók ég til heima hjá mér og í dag rölti ég svo um kringluna og gerðist svo djörf að splæsa í rauða skó og eitthvað annað smotterí. keypti reyndar eins og alltaf föt sem bera vinstrisinnun mína utaná sér, held ég. ég myndi amk sennilega ekki fá vinnu í fjárfestingafyrirtæki svona klædd. ekki það að ég sé nokkuð að leita að vinnu í fjárfestingafyrirtæki...
nema hvað.... það er fokdýrt að vera að bera sig svona saman við rangan hóp.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

drífur nú ýmislegt á drifhvíta daga mína. dreif ég mig heim úr vinnu í gær og hugðist drífa upp brekku þá er leiðir ökufólk af kópavogsbraut uppá bústaðaveg. dreifði þá eitthvað athygli minni eitt stundarkorn þar til gerði ég mér grein fyrir þeim ósköpum að bifreið sú er fyrir framan mig var reyndist kyrrstæð fyrir aftan bilaðan bíl sem var verið að laga en hún gerði á engan hátt grein fyrir stöðu sinni sem slík. ég sá ekki merkingar bilaða bílsins vegna þess að hinn var fyrir. dreif ég mig þá að hemla og náði því í tæka tíð áður en framendi bifreiðar minnar rækist á afturenda kyrrstæðu konunnar. vildi þó ekki betur en svo en konan er að baki mér ók reyndist síður hröð í hemlunarhreifingum sínum og krumpaðist þá litli yarisinn saman á afturendanum á mexíkönsku hondunni minni. sá bíll hefur greinilega verið smíðaður til að þola álag. annað en hálsliðirnir á mér sem eru hálf krambúleraðir eftir höggið.
fylgja má sögunni að kyrrstæða konan hvarf á braut í skyndi er hún sá slysið og sýndist mér hún hálf flóttaleg til augnanna. sú er á afturenda minn rakst reyndist aka um á bílaleigubíl sem hún var einmitt á leiðinni að skila er hún krumpaði hann saman á mexíkönsku hondunni.
svona fór nú um bílferð þá.
ég spyr: hver er hin seka? sú sem var á kyrrstæða bílnum á miðri kópavogsbraut? ég sem kom á ferð og stoppaði skyndilega? eða sú sem náði ekki að stoppa og klessti á?
einhverra hluta vegna veldur þessi spurning mér vissu hugarangri...

mánudagur, apríl 07, 2008

jasso. er ekki hún svilkona að beina fólki hingað inn. hananú.
eitthvað grunar gvend að þeir fáu sem rambi hingað inn af síðunni hennar eigi eftir að verða fyrir vonbrigðum eftir lofið og prísið hinumegin. en hvað um það....
kannski er hugmynd að byrja að koma athugasemdakerfinu á flug með því að fjalla um femínisma á jákvæðum nótum, kannski efnahagsástandið, nú eða bubba morthens. en æi, mí nó nenn itt. ég er of sjálfhverf fyrir þjóðfélagsumfjallanir.
sem minnir mig á það... í litla raðhúsahverfinu þar sem við familían bjuggum í le mexique er nú allt í volli ala sápuópera. ákveðinn aðili elti semsagt ákveðinn aðila (sem tengist eldri frásögnum mínum um púsluspil), í laumi á mótel þar sem ákveðinn aðili mætti líka og svo fóru þau saman upp á herbergi. ákveðinn aðili hringdi þá í ákveðinn aðila sem laug því að hann væri í innkaupaferð áður en ákveðinn aðili sagðist vita að símasvarandinn væri á móteli að gera ósiðsamlega hluti með ákveðnum aðila (sem tengist eldri frásögnum mínum um púsluspil í gegnum eiginkonu sína). endaði málið með því að ákveðinn aðili lamdi hinn aðilann, eiginkona hins barða lamdi púslarann og fylginautinn og fyrstnefndi ákveðni aðilinn lamdi bíla ákveðins aðila í spað með hafnarboltakylfu. það voru audi og hummer sem lentu í spaðinu á barðinu.
eins og gefur að skilja eru ákveðnir aðilar að skilja og ákveðnir aðilar skilja ekki hvað ákveðnum aðilum gekk til með framhjáhaldinu. sérstaklega af því að allt voru þetta miklir og góðir vinir fram að þessum degi.
já, og femínistar eru kúl.
ég held að við séum búin að fatta trikkið. ástæðan fyrir trikkleitinni var sú að við virtumst ekki ráða við fullan veitingastað. eldhúsið er svo lítið að það fór allt í steik (afsakið pönnið) þegar staðurinn fylltist. og sumir þurftu að bíða lengi. og sumir fóru í fýlu af því að þeir þurftu að bíða lengi. og ég verð svakalega stressuð þegar fólk verður fúlt. var farin að fela mig á bakvið barinn og þykjast vera að raða í ísskápana niðri við gólf.
á laugardaginn prófuðum við að fækka borðum. hafa bara slatta færra fólk, láta þá sem komu vita sirka hversu lengi þyrfti að bíða eftir mat og svoleis og þetta gekk bara svona þrusuvel. í lokin var annar þjónninn farinn að spila á gítar og gestirnir að syngja og stemmingin skrambi fín. og allir brostu.
þannig að.... þetta er allt að koma krakkar mínir. allt að koma....

fimmtudagur, apríl 03, 2008

tengdamóðirin farin. leitt er það og ógagnlegt. nú verður enginn búinn að búa um rúmið mitt og þvo þvottinn og ryksuga þegar ég kem heim....hehe... mikið hljóma ég dekruð þarna. auðvitað hefur nærvera hennar verið okkur öllum mikill yndisauki og gleði og ekkert smá hjálpleg líka. fjarvera hennar sparkar þó rassinum á mér heim í meira magni að sinna börnum og buru í stað þess að hanga eins og rotta á veitingahúsinu. mér þykir erfitt að slíta mig þaðan, enda skemmtilegur staður. fyrir utan hvað nískuna í mér svíður yfir því að vera ekki að vinna sjálf til að spara launakostnað. laun eru dýr. dýri sé laun. í maí reddast þetta þegar ég tek morgunvaktirnar sjálf eftir að framhaldskólakennarasumarfríið skellur á. þá verður sko sparað.
já og svo er ég alveg sammála bróður mínum honum louie. áfram vörubílstjórar. við eigum að gera miklu meira af þessu. rífum okkur upp á rassgatinu og kvörtum. það má alveg vera leiðinlegi gaurinn sem setur útá hluti. ég er kannski ekki best til þess að segja þetta enda mjög léleg í að kvarta, en ég þarf að þjálfa mig í því. og það þurfa fleiri að gera. ég væri til dæmis alveg til í allsherjar bojkött á okrara. prentum út okursíðuna hans dr. gunna og bojköttum. verum reið. það er víst hollt.
allir á santa maría. þar er sko ekki okrað....hehe....

miðvikudagur, apríl 02, 2008

sem minnir mig á það. mér sýnist hraðbrautarpósturinn minn vera látinn. sem er skítt. þannig að ég er núna emm há att emm ká punktur is. eða gamli hottmeilinn minn. ef einhver hefur áhuga.....

þriðjudagur, apríl 01, 2008

fyrsti útborgunardagurinn minn sem vinnuveitandi. það er hausverkur. og svo er ég að verða orðin góð í litháensku. laba diena. keip du giveni. seisei...
hurrðu já og svo allt í sápuóperu í mexíkó maður. tengdamóðirin hér að fara heim á fimmtudaginn grunlaus um allt það havarí sem þar hefur gengið á. havaríið atarna felur í sér tvo hjónaskilnaði, framhjáhald, brotna bíla, vatnslaus hús og vinaslit.
eins gott að ég bý ekki þar lengur.