þriðjudagur, júní 27, 2006

mikið er ég löt þessa dagana. er þó að kenna og kenni þar engri um nema mér sjálfri kenni ég mér meins. kenni þeim að leita kennileita.
það er annars blessuð blíðan. skýjað og kalt. ætli það væri mikill bransi í því að flytja inn sól og heita vinda? sum lönd hafa offramleiðslu af slíku og við gætum vel skipt á sól og hita fyrir til dæmis vatn. við eigum vatn.
ég á tvo norska frændur sem eru íslenskir. þeir tala litla íslensku en eru þó skemmtilegir mjög. þeir segja bara jedúddamía og setja puttana upp eins og ítalir. bráðum mun ég eiga norskt frændsystkini sem er rétt tæplega íslenskt í gegnum ömmu sína. svo gæti vel farið í framtíð að ég eignaðist rétt tæplega íslenskt mexíkanskt barnabarn fari svo að afkvæmi mín velji sér þarlenda maka. innst inni við beinið vona ég þó að svo verði ekki. það er sjálfselskan í mér. sú hin sama vildi helst að heimurinn snérist í kringum sjálfa mig, en svo er víst ekki.
ég er með sautján armbönd á handleggjunum. mömmu minni þykir þau ekki sparileg. ég fæ einu sinni á ári skrýtna tilfinningu í úlnliðina og þá tek ég þau af mér í tvo daga. þá finnst mér ég vera berrössuð.
nú langar mig mest til að leggja mig en ég verð víst að halda áfram að taka þátt í samfélaginu aðeins lengur.
svo koma norsku frændurnir með óléttu norsku konuna og íslensku frænkuna sem talar eiginlega bara norsku og norska manninn hennar og dótturina sem er sú eina sem talar eitthvað af viti í íslensku í mat til móður minnar í kveld. þar bý ég í augnablikinu svo ég er að fara í mat líka. það er fínt því mamma er góður kokkur og norska liðið er hinn fínasti félagskapur. gott ef ég get ekki skilið líka hrafl í því sem þau segja á norsku. ef þau tala hægt.

fimmtudagur, júní 22, 2006

rölti í gær niður á gauk á stöng til þess að horfa á mexíkó keppa við portúgal í fótbolta. þar héldu allir með portúgal nema ég sem æpti og gólaði yfir leiknum og var sú eina sem drakk bjór. hinir drukku kaffi og héldu sig á mottunni.
mexíkó tapaði en komst samt áfram í næstu lotu.
ég er ekki mikil fótboltamanneskja en á svona stundum verð ég spennt. mér þykir líka sérstaklega gaman þegar mér líður eins og ég þekki leikmennina persónulega. sú tilfinning kemur til af því að úti í mexíkó snýst öll tilveran um fótbolta þessa dagana og miklar upplýsingar hafa síast inn í minn annars fótboltasnauða heila.
til dæmis veit ég að kvenfólki í mexíkó þykir rafael marquez vera sætastur þó svo að hann hafi orðið óvinsæll í gær eftir að slá hendinni í boltann og verða þar af leiðandi valdur að víti. nú og svo er fonseca kallaður kinkin og er mjög vinsæll svona eins og stórstjarna og hann spilar með liði sem heitir chivas sem er uppáhalds lið allra í minni tengdafjölskyldu. þjálfarinn er frá argentínu og ekki eru allir sáttir við að hann sé útlendingur, hann reykir mikið og hefur verið gagnrýndur af fjölmiðlum fyrir að blóta og vera dónalegur. svo fylgdist ég með tárin í augunum með fréttum þegar faðir markmannsins osvaldo sanchez lést úr hjartaáfalli tveimur dögum fyrir fyrsta leik mexíkó, osvaldo var flogið heim í jarðaför í skyndi og svo aftur út ásamt fullri flugvél af fjölskyldu rétt fyrir fyrsta leikinn. áður en sá leikur hófst færði markmaður íran honum blómvönd og þá fékk öll mexíkanska þjóðin tár í augun.
þá daga sem landsliðið keppir eru allar götur í mexíkóborg fullar af fólki í grænum landsliðsbolum. fánar standa útum glugga á húsum og bílum og þegar liðinu hefur gengið vel heilsast ókunnugir glaðlega og margir bílar flauta til heiðurs landsliðinu. þá er gaman.
þessa dagana snýst eins og áður sagði allt um fótbolta í mexíkó. kókdósir skarta myndum af leikmönnum, þemað í barnaboxum hamborgarastaða er fótbolti, ef þú kaupir brauð eru límmiðar af fótboltakörlum í pakkanum, í töppum á bjórflöskum gætir þú unnið ferð til þýskalands til að sjá liðið keppa, sjampóbrúsar hafa verið framleiddir með fótboltatappa, ef þú kaupir þvottavél gætir þú unnið ferð út, hin ýmsu fyrirtæki auglýsa þjónustu og vörur sínar með tilvitnunum í heimsmeistarakeppnina, símafyrirtæki gefur þér landsliðsboli ef þú kaupir gemsa og forsetaframbjóðendur keppast við að senda leikmönnum velgengniskveðjur.
semsagt, þessir fáu menn sem skipa liðið þurfa að standa undir miklum væntingum.
ekki vildi ég vera þeir.

miðvikudagur, júní 21, 2006

hananú. þá er ég komin til íslands. lenti í morgun en hoppaði yfir eina nótt og er því enn stödd í gær. ringlið farið að segja ansi vel til sín. samt er ég komin á vinnustað og reyni að halda gáfulegum svip.
þegar vélin tókst á loft yfir mexíkóborg og ég sá hana undir mér sem endaleysu varð mér hugsað til þess að þarna niðri einhverstaðar væru börnin mín. það er skrýtin tilfinning. þó svo að ég sé nú frjáls sem fuglinn í tvær vikur líður mér hálf tómlega, mig vantar öll lætin sem fylgja fjölskyldumeðlimunum mínum. kannski er það líka þreytan sem gerir mig meyra og væmna að innan, en svo er nú bara það. núna er nótt í mexíkó og þau eru sofandi. mig dauðlangar að hringja en vil ekki vekja neinn. úff.... mig langar aftur út....

í öðrum óspurðum fréttum langar mig að nefna hvursu gaman ég hef af því að bíða í löngum röðum í loftlausum sal eftir því að komast í vegabréfaskoðun á joð eff ká flugvelli. þegar ég lenti í gærmorgun var eins og ein vél frá hverju einasta heimshorni hefði lent á sama tíma og þarna stóð ég og svitnaði innanum hin ótrúlegustu sýnishorn af fólki í svona eins og einn klukkutíma. þarna var að sjálfsögðu samferðafólk mitt frá mexíkó, hellingur af gyðingum með lítil pottlok eða stóra hatta og tvær krullur, góður slatti af kínverjum, nokkur sólbrennd evrópuungmenni með dredda og bakpoka, arabískar fjölskyldur með huldar konur, indverskar konur í sari með gimsteina á enninu, afrískar konur í svakalega skrautlegum og miklum kjólum og með höfuðvafning í stíl og börn hangandi í slæðum á bakinu, einhverjir ítalskir gígolóar með opið niðrá bringu og gullkeðju í hárunum og svo auðvitað hún ég.
einhverra hluta vegna tók ég mér það hlutverk að benda öllum fjölskyldum með ungabörn á að láta flugvallarstarfsfólk vita af sér til að sleppa við röðina og svo fylgdist ég stolt með þar sem þau stungu sér framfyrir himinlifandi og fegin. fékk ég svo tilbaka falleg þakklætisbros frá viðkomandi. marokkósku konunni sem stóð fyrir aftan mig í röðinni þótti ég samt ekki skemmtileg og sá ég hvar brún hennar þyngdist í minn garð í hvert sinn sem einhver fór framfyrir okkur öll. en ég var samt stolt. sveitt en stolt.

mánudagur, júní 19, 2006

gleðilegan stelpudag.

um daginn fórum við í verslanaklasa og ég stakk mér inn að kaupa flugmiða. á meðan væflaðist makinn með afkvæmin fyrir utan. mér seinkaði aðeins. þegar ég kom út héldu afkvæmin á plastpokum. í þeim voru tveir litlir fiskar og tvær litlar skjaldbökur. andskotans vitleysa.
fiskarnir voru skírðir kinkin og tómas en skjaldbökurnar taketsi og patricia. guð má vita hvaðan afkvæmin fengu þessi nöfn en svo var nú það.
í gærkveldi fundum við patriciu uppi í litla plastbonzaitrénu sem er í búrinu. makinn tók hana niður en hrökk við þar sem hún hreyfðist ekkert og lá sem dauð. makinn úrræðagóður skutlaði henni í klósettið og sturtaði niður. þar sem vatnið sogaði hana nær gatinu sá hann að .... hún hreyfðist víst!
nú er patricia ein einhverstaðar úti í sjó og við með samviskuna í molum.

í fyrramálið legg ég ein af stað heim í smá frí frá fríinu.

miðvikudagur, júní 14, 2006


herra r og lýtalæknaða konan

kona mannsins sem við vorum hjá um síðustu helgi er tuttugu og fimm ára. hann er tuttugu árum eldri. hann á skrjálæðislega mikinn pening eftir að hafa verið spillt og háttsett lögga við landamærin þar sem eiturlyfjum er smyglað til kanans.
nema hvað, hann á villu í acapulco (við hliðina á luis miguel sem er uppáhalds söngvarinn hans elfars), penthouse íbúð í höfuðborginni og risastóran búgarð í queretaro þar sem við eyddum einmitt helginni eins og áður hefur komið fram.
hann (við skulum bara kalla hann herra r.)er lágvaxinn, mjög mörgum kílóum of þungur og á engan hátt aðlaðandi í útliti. gott ef hann var ekki smámæltur í ofanálag.
hún er með litað ljóst hár, gerfineglur, uppskorið nef, uppskorin brjóst, uppskorinn rass (hér þykir nefnilega flottara að hafa stóran og lögulegan rass) og grænar linsur. karlmönnum þykir hún yndisfögur og þeim er nett sama hvort útlitið er náttúrulegt eður ei. hið sama get ég ekki sagt, en hún má eiga það að hún er besta skinn. fordómar mínir höfðu stimplað hana fyrirfram sem gálu og vitleysing, en í eftir allt urðum við hinir mestu mátar eða réttar sagt hinar mestu mætur.
nema hvað, á búgarðinum eru ræktaðar paprikur í öllum litum, risastórar og safaríkar, þar eru líka tré í stórum garði. þangað fórum við að tína ferskjur, plómur, epli, perur, appelsínur, mandarínur og lime. unaðurinn einsamall.
svona garð langar mig í.
núnú, á sunnudaginn keyrðum við svo heim en enduðum á miðri leið í metepec þar sem elsti mágurinn býr í óskaplega vinalegu smáhverfi, eða frekar en hverfi eru þetta 13 hús lokuð af með garði og opnu sameiginlegu svæði. nema hvað, mexíkó átti að keppa við íran í heimsmeistarakeppninni og af því tilefni var kastað upp risatjaldi í garðinum, stórt sjónvarp sett upp, allir fengu landsliðsboli og svo var öskrað og gólað í tvisvar sinnum fjörutíu og fimm mínútur á meðan liðið sigraði 3-1.
eftir leikinn var vippað upp grilli og bjór flæddi uppúr kæliboxum. ansi skemmtileg stemming, enda mikill fótboltaáhugi hér á bæ.
í dag heimsóttum við tengdaafann. makinn minn fann hjá honum gamalt fallegt málverk sem afinn málaði þegar móðir hans dó og hengdi í grafhýsinu hennar. tæpum fimmtíu árum síðar fór hann í kirkjugarðinn og sá að allt hafði verið brotið og mörgu stolið og þá tók hann litla málverkið af maríu mey aftur með sér heim.
nú er málverkið í minni vörslu og mun koma til íslands innan skamms þar sem það mun hljóta sérstakan sess í málverkasafni litlu fjölskyldunnar.

ps. læt fylgja með mynd úr tjaldinu í metepec þegar mexíkó komst yfir 2-1.

mánudagur, júní 12, 2006

ég var að enda við að skrifa langan póst um helgina, búgarðinn með ávaxtatrjánum, ríka svindlarann og lýtalæknuðu konuna hans, fótboltann og fótboltaáhuga landsmanna, en svo gerði ég eitthvað vitlaust og hann dó.
nú ér ég í fýlu.

mánudagur, júní 05, 2006


þetta er hljómsveitin sem lék undir á nautaatinu (þar sem ekkert naut var drepið eða meitt).

þessi með hattinn er leobardo. blindur á hægra auga. góður knapi og góð sál.

þetta er sólarpýramídinn í teotihuacan, borg hinna dauðu.

við fórum semsagt í fullorðinsferð til huamantla, tlaxcala um helgina. börnin urðu eftir hjá ömmu og afa. tíu pör fóru af stað á föstudagsmorgunn. keyrðum með leiðsögumann á milli gamalla búgarða þar sem við fengum að skoða hvar naut til ata eru alin, við sáum gamla hestvagna frá 18. öld og gengum um herbergi með gömlum málverkum af fyrrum eigendum sem horfðu niður á okkur á frekar draugalegan hátt. draugalegheitin mögnuðust svo með braki í gólffjölum og marri í dyrum. litla myrkfælna ég átti bágt, en ég hélt mér dauðahaldi í makann alla leið.
eftir að heimsækja búgarðana fórum við til huamantla þar sem við gistum á búgarði sem hefur verið breytt í hótel. þar var fyllerí og karókí frameftir nóttu.
á laugardaginn eftir morgunmat var farið í útreiðatúr, sem var stjórnað af leo og hinum knöpunum á efstu myndinni. eftir útreiðatúrinn fórum við í lítinn nautaatshring þar sem hljómsveitin á neðstu myndinni spilaði undir, við drukkum bjór og átum meðlæti og allir sem vildu fengu að spreyta sig sem nautabanar (án þess þó að bana neinum). nautið var lítið en þó nóg til að fá hjartað mitt litla hlustaðu á til að reyna að brjótast útúr brjóstinu þegar ég fór niður í hringinn og horfði í augu á nautinu.
nú og svo fór nautið bara heim og við fórum að borða. svo var fyllerí og ruglumbull framundir sunnudagsmorgun. og í gær komum við aftur heim þreytt og ánægð.
ole!!!!