föstudagur, apríl 28, 2006

horfði á tvo tíma af samsæriskenningum um ellefta september í gær. samsæriskenningasmiðir virka yfirleitt frekar klikkaðir, svona svipað og ofsatrúarfólk, að mínu mati.
ég er samt svo meðvirk að lendi ég í ágætlega vel rökfærðum samsæriskenningum gæti ég alveg fallið fyrir þeim. skipti svo um skoðun um leið og ég heyri góð rök gegn kenningunni. og snúa sér í hring.

hvernig er hægt að hætta að vera meðvirkur? eða er nauðsynlegt að hafa meðvirkt fólk í heiminum og á ég bara að vera áfram svona?

fimmtudagur, apríl 27, 2006





What type of Fae are you?
enn styttist í brottför og ég er búin að velja efnisminnstu fötin mín ofaní ferðatösku sem liggur bara og bíður. við erum öll orðin spennt, enda langt síðan börnin hittu hina fjölskylduna sína og það verður víst ýmislegt á dagskrá við komu okkar út. meðal annars er nánasta fjölskyldan (tengdaforeldrar, 3 stk. mágar, 3 stk. svilkonur og 4 stk. börn) á leið ásamt okkur í vikuferð til acapulco. going loco down in acapulco. skildi reyndar aldrei hvernig þeim tókst að láta þetta ríma, en hvað um það... þetta verður ansi fínt, flott hótel og piña colada og soleis.
merkilegur andskoti hvað þessi vika virðist annars ætla að vera lengi að líða...

annars er munnlegt próf á dagskrá í dag. merkilegt nokk þá er ég farin að skilja hvað þau segja og þau virðast meira að segja vera farin að skilja mig og umræðuefnin eru komin á mun hærra plan en þau voru í upphafi. og allt þetta á aðeins 4 mánuðum. gjöri aðrir betur.
blessaðir snillingarnir.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

í gær bloggaði ég eins og ég ætti lífið að leysa. svo fékk ég villumeldingu og allar mínar hugsanir hurfu eins og dögg fyrir sólu. það tók mig þónokkra stund að ná heilli hugsun aftur inn í höfuðið á mér.
já ég veit að ég hefði átt að gera þetta í word fyrst. fyrr má nú um kenna en af læra segi ég nú bara.
hér í vinnunni er allt að verða vitlaust, nema auðvitað nemendurnir sem verða gáfaðri með degi hverjum. við hömumst við að fylla þau af fróðleik ýmiskonar og þau hamast við að kvarta yfir því hvað er mikið að gera. hnuss segi ég nú bara. þetta á að heita undirbúningur undir háskóla þar sem hver og einn fær að hanga í lausu lofti algerlega á eigin forsendum og hluti þjálfunar þeirrar sem ég þykist vera að veita felst í því að brúa bilið á milli grunnskóla og háskóla. fólk þarf að kunna að bera sig eftir björginni.
ólafur reið með björgum fram.

rétt rúm vika í brottför. sjiiiiiiiiit hvað ég hlakka til.

mánudagur, apríl 24, 2006

bloggerinn eitthvað að stríða mér í dag...
hvað felst í því að gifta sig?
á hvaða tímapunkti ,,á" að gifta sig?
breytist eitthvað?
verður allt í sambandi við giftinguna að vera óhemju rómantískt?

arg!

miðvikudagur, apríl 19, 2006

það er eitthvað við prump og kúk.... átta mig ekki almennilega á hvað það er sem gerir fyrirbærin svona óendanlega fyndin. það væri nú sennilega hið skemmtilegasta mál að rannsaka rætur rassaboruhúmors. eða kannski ekki. ætli það myndi ekki bara drepa fyndnina niður. tjah... maður spyr sig...
ég var sko að lesa kúkasögu eftir nýjasta meðlim tenglalistans míns sem heitir hugi og ég neita því ekki að tár runnu niður kinnar mínar tvær (andlitskinnarnar).

annars er ég að dunda mér við að lesa draumalandið, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð.
ansi skemmtilegar pælingar og röksemdafærslan er alveg að virka fyrir mig. ætli allir séu sammála?
mín komin aftur á vinnustað. já og ég skrifa viljandi allt með lágstöfum, það er sko stíll. svona halldórslaxnesstælarnir mínir.
nema hvað... styttist í langa sumarið og mér hlakkar svog til að komast úr landi eins og eitt ögnarblik. það eru víst einar þrjátíu gráður á áfangastað. áætlað er að keyra um landið, líklega niður til guatemala, en mér skilst að í chiapas héraði sé hitinn um og yfir fjörutíu gráðurnar.
púff segi ég og svitna í handarkrikunum.

frímínútur búnar. farin að vinna.

fimmtudagur, apríl 13, 2006

nú er litla gula húsið ekki lengur mitt. búin að afhenda lykla og alles. þar fór það.
litla familían flutt inná innlendu foreldrana. það er alltaf ákveðið rask þrátt fyrir að í þessu tilfelli séu foreldrarnir hreint ágætis eintök. það er bara alltaf eitthvað við að flytja inná aðra....þið vitið hvað ég á við.
en jæja, ferðatöskuástandið á sosum ekki eftir að vara lengi, ekki nema fram í ágúst (upphrópunarmerki).
djöfull á ég eftir að vera orðin þreytt á að eiga ekki fastan samastað. en þó er ekki svo illu aflokið að ekki fáist eitthvað eigi svo alslæmt, en við munum semsagt eyða sumrinu í föðurlandi föður barna minna og föðurfjölskyldu þeirra og þar verður nú engin þörf á föðurlandi enda hitinn þetta í kringum þrjátíu stigin (gef og tak).
nema hvað. nú er ég á leið í bíó.
góðar stundir.

föstudagur, apríl 07, 2006

fimmtudagur, apríl 06, 2006

fór í fyrsta skipti í jógatíma um daginn. komst að því að ég er stirð, þunglamaleg og hef mjög takmarkað jafnvægi. fékk svo harðsperrur af öllu draslinu.
tíminn sjálfur var reyndar ósköp fínn. enginn svona hamagangur eins og sá sem verður alltaf til þess að ég forðast líkamsræktartíma. svo var líka skemmtilegt að heyra konuna í fremstu röð prumpa með reglulegu millibili.
varð reyndar sjálf að halda aftur af mér á köflum, enda ýmiskonar óvenjulegt álag í gangi þegar legið er á bakinu með hnén á enninu og hendurnar undir rassinum.
er að hugsa um að skreppa í nokkra tíma í viðbót, en ef ég finn engan mun á stirðleika, þunglamalegheitum og jafnvægi eftir....skulum við segja....mánuð, þá er ég hætt.

kynskiptingar eru meiri konur en konur. (sem kemur málinu sosum ekkert við en ég er bara að hugsa....)

þriðjudagur, apríl 04, 2006

hann fór í veiðiferð í gær, hann wolfgang bóndi
hann skildi húsið eftir autt og okkur hér
við erum glöð á góðri stund og syngjum saman
vísuna sem (lala) kenndi mér.
köttur klukka hreindýr svín og endur
fyrir löngu
hófu saman búskap hér og sjaaaaaá
jorolorolúhúhú, jorolorolúhúhú, mjá mjá mjá mjá ahaha
-ll-


ég er með vöðvabólgu og ætla í nudd.
skyldi vöðvabólgan vera tengd niðurstöðum færslunnar hér á undan?
ég spyr

sunnudagur, apríl 02, 2006

það eru til ýmsar gerðir af fólki.
sumir eru alltaf í vörn og upplifa stanslaust að verið sé að traðka á rétti þeirra. það fólk rífst oft og á til að blokkerast á röksemdir og sjónarhorn annarra. vill líka helst tala um sitt og sína frekar en að hlusta á aðra.
önnur gerð fólks reynir að vera ósýnileg. það er fólk sem brosir oft litlu svona ,,allt er fínt, ekki taka eftir mér" brosi. fær fjólubláa flekki um allan líkamann sé athygli beint að þeim en hefur oftar en ekki fjandi gáfulega hluti fram að færa og semur dúndurgóð ljóð.
ein týpan er þessi svali sem höndlar athyglina vel, sækist eftir henni, er alltaf kaldur sem klaki og er haldinn óbugandi vissu um eigið ágæti og góðar gáfur. þessi týpa á oft til hnyttin tilsvör við öllum fjandanum en á til að rugla orðatiltækjum og málsháttum a'la bibba á brávallagötunni. gæti verið lélegur í stafsetningu
grúskarinn er týpa sem á í ástarsambandi við bækur og upplýsingabrunna ýmiskonar. hann veit margt um fáránlegustu hluti og er mjög vinsæll í spurningalið. hann er góður spjallari þegar rætt er um hans áhugasvið, en kann oft á tíðum betur við sig í fortíðinni en nútíðinni.
enn önnur gerð fólks er þessi sem er alltaf að reyna að þóknast öðrum. þessi týpa segir yfirleitt aldrei nei við neinu og fer stundum útí hinar undarlegustu aðgerðir í þeim tilgangi að hjálpa, geðjast og redda öðrum. þessi týpa er heldur ekki góð í að sækjast eftir hjálp og henni þykir óþægilegt að láta hafa fyrir sér. fólki í þessum flokki þykir erfitt að lenda í deilum og hún er vís með að láta vaða yfir sig til þess að forðast vandræði og vesen. hún fær líka sting í hjartað þegar hún upplifir eða hana grunar að einhverjum líki ekki við hana og þann sting getur verið erfitt að losna við.
hún þarf að læra að brynja sig og hleypa ekki hvaða rugli sem er inná sig.
einhverra hluta vegna held ég að ég tilheyri þessari síðastnefndu týpu. hreint út sagt ekki auðveld staða.