föstudagur, nóvember 20, 2009

í dag fer ég snemma heim úr vinnunni, enda búin snemma á föstudögum. þá bara dæli ég upplýsingum í liðið og þar sem ég er enn að flytja mun ég svo drífa mig heim og heim til að pakka niður og mála meira og allt þetta sem ég þarf að gera til að geta hætt á búa á tveimur stöðum í einu. sem er leiðigjarnt til lengdar.
en þess vegna geri ég ekkert fleira í dag. ekkert nema flytja á ég við. engin rólegheit til að spila á gítarinn minn, dunda mér við að skrifa tölvupósta eða neitt svona skemmtilegt. enginn friður.
en í staðin verð ég stolt af sjálfri mér á morgun þegar ég skála við vini og vandavini á karömbu fyrir sjötugsafmæli mínu og makans. þá mun ég eiga slíka pásu skilið. skilna. skilaða. skilurðu?

en semsagt... ég er farin heim. tíminn er á þrotum. ég er að niðurlotum - komin. heima við krotum og okkur dauðrotum á meðan við potum húsinu í stand. frjáls undan votum skotum.

góða helgi essgan.

föstudagur, nóvember 13, 2009

eftir helgi verð ég hálf sjötug. í dag er ég bara hálf sextíu og átta. gasalega fljótt að tikka eitthvað.
ég er að reyna að hætta að drekka svona mikið kók áður en ég verð þrjátíuogfimm. það er barnalegt að drekka kók...hehe... eða eitthvað. ég verð samt að hætta þessu. jisús minn almáttugur. áður en ég missi allar tennurnar eða eitthvað. áður en innyflin í mér leysast upp. áður en ég verð græn og með blettaskalla. áður en eyrun á mér bráðna af og ég byrja að slefa blóðkögglum.... og svo framvegis.
það er samt eitthvað við þennan skratta. helvíti hressandi alltaf að fá sér smá kók með aspartami. þeir sem segja að aspartam sé slæmt ættu að kíkja á mig, fír og flamme. ha. ennþá allaveganna.

svo er önnin í skólanum að renna sitt skeið á enda. svo kemur jólafrí. afmæli og jólafrí... mér sýnist ég eiga eftir að eiga erfitt með að hætta kókdrykkju fyrr en eftir áramótin. þegar mexíkanarnir eru farnir. þegar rútínan byrjar aftur. þegar það er ekkert eftir til að halda uppá. þegar gleðinni verður lokið.
eða hvað? þá þarf ég kannski kók til að lyfta mér upp í grámanum. aldrei að vita.

en fyrst ætla ég að fara til ofnæmislæknis til að fá að vita hvort ég megi eignast kettling eða svo.