laugardagur, júní 28, 2008

hana. þar dró fyrir sólu.
ég var að horfa á dálítið áhugaverða heimildamynd. zeitgeist heitir hún. vantrúaður stærðfræðikennari nokkur sem ég þekkti var búinn að segja mér að horfa á hana fyrir löngu. ég hlýddi ekki fyrr en í gær. ég er hlýðin þó ég sé stundum seinhlýðin. hann lofaði mér í staðin að lesa draumalandið. ég vona að hann hlýði því einhverntíman.
ég horfði á aðra áhugaverða heimildamynd um daginn. 11th hour heitir hún. um náttúruna og svona. í henni kom margt áhugavert fram en það var þó ein lítil smá staðreynd sem settist í mig og situr enn í mér. þetta var eiginlega bara áminning frekar en nýjar upplýsingar. ég vissi þetta allan tímann. hafði bara ekki alveg hugsað málið almennilega. ekkert velt mér uppúr því. en þar sem ég lá og glápti á imbann kviknaði á einhverjum löngu sprungnum perum og ég hef varla getað hætt að hugsa síðan.
það sem rifjaðist svona eftirminnilega upp fyrir mér yfir bíómyndinni var staðreyndin að ég er dýr. þú ert líka dýr. en við erum sennilega ónáttúrulegasta dýrategundin af því að við erum svo mörg búin að múra okkur útúr náttúrunni, eða eiginlega frekar múra yfir hana og við erum búin að telja okkur trú um að við séum eitthvað annað. sumum finnst meira að segja ógnvænleg eða ógeðsleg tilhugsunin um að sofa úti í náttúrunni.
ekki myndi ég lifa af ein í skógi með ekkert annað en sjálfa mig berrassaða eins og dýrið sem ég er. ég er háð fylgihlutum og ó-náttúru. annars dey ég bara.
það mætti eiginlega segja að við værum dýr sem væru svo vitlaus að hafa lokað sig sjálf inni í dýragörðum og búið svo hnútana um að við getum ekkert lifað utan hans.
svo má ekki gleyma siðareglunum. það er ekkert lítið af þeim í gangi. og við hlýðum stillt og góð. þeir sem hætta að hlýða reglunum, skráðu og óskráðu, eru skrýtnir, hættulegir eða varla í húsum hæfir. restin af okkur er rosalega vel tamin.
ekkert dýrslegt í gangi. ekkert villt. ekkert verið að stelast út fyrir dýragarðinn. stelast til að brjóta reglurnar, vera dýr eins og dýr eiga að vera. þeir sem stelast út fyrir reglurnar lenda bara í vandræðum, eru jafnvel lokaðir inni af okkur hinum.
auðvitað er margt gott samt en ef ég ætla að fara lengra með það sem er að velkjast um í skallakorninu á mér myndi ég halda áfram aaaallt of lengi.
þannig að....
búið.

mánudagur, júní 23, 2008

komst að því í dag að ég er víst eitthvað slæm í c-5-inu og þar í kring. komst líka að því að c-5 er eitthvað í sambandi við hálsliðina. ég fór nefnilega til sjúkraþjálfara til að reyna að losna við króníska hálsríginn sem ég hef verið haldin síðan ég fékk yarisinn í rassinn. indæli sjúkraþjálfaradrengurinn lofaði að gera sitt besta til að hjálpa mér og sagði mér svo að ég væri langt frá því versta tilfellið sem hann hefði séð. sem er gott. það væri sennilega ekki gott ef ég væri týpan sem fær kikk útúr því að eiga bágt og safna sem lengstri sjúkrasögu.

sem minnir mig á það. einu sinni þegar ég var um 7 ára plataði ég augnlækni til þess að skrifa uppá gleraugu fyrir mig. greta vinkona mín var nefnilega með gleraugu og mér þótti það ansi svalt svo að mig langaði líka í svoleiðis. ég man nú ekki alveg hvernig ég fór að því að kría út ferð til læknisins en gleraugun fékk ég. gott ef það voru ekki gömlu glerin hennar gretu í nýjum umgjörðum. ætli ég hafi nokkuð notað þau, man amk ekki eftir því.
ég fékk svo aftur gleraugu þegar ég var í háskólanum og var alltaf að fá hausverk. gleraugun atarna liggja ansi lítið notuð inni í skáp og mig er farið að gruna að hausverkurinn hafi frekar stafað af þreytu og lestri þunglamalegra texta. og jafnvel stressi. ég sé nefnilega alveg skítvel.

sunnudagur, júní 22, 2008

meiri helgin sem þetta hefur nú verið. meiri helgin. svei mér þá.
byrjum á byrjuninni...
á föstudaginn gerði ég ekki neitt sérstakt. hann er þar með úr leik.
en í gær hinsvegar. í gær já. förum nánar útí það.
ég var semsagt vakin snemma af síðburði sem heimtaði að fara til vinkonu sinnar, vegna þess að vinkonur eru í dag algerlega málið. nú nú svo ég rölti auðvitað með barnið, því hver vill ekki fá frí frá börnunum sínum? frumburðurinn svaf vel framundir hádegi og bróðursyni makans, þessum 19 ára, var ruslað af stað í vinnu. bretti mín þá upp ermar og skálmar og hófst handa við að ráðast á ruslahaug þann sem heimilið var orðið sökum vanrækslu og almenns aulaskapar.
og svo þreif ég mig til blóðs. ég endurinnréttaði eldhúsið mitt, færði húsgögn fram og tilbaka og breytti hlutverkum þeirra. nú og svo henti ég drasli og rusli í tonnatali og setti svo punktinn yfir i-ið með því að skúra. í fyrsta sinn síðan við fluttum hingað. ekki segja nokkrum manni frá þessu.
þar sem við eigum engar skúringagræjur fóru skúringarnar þannig fram að ég skellti sápubleyttu handklæði á gólfið (ónýtu handklæði semsagt), og svo skellti ég mér úr sokkunum og skautaði á handklæðinu um öll skúmaskot heimilisins. ljúfur ilmur hefur leikið um vit mín alla tíð síðan.
þegar ég var búin að gera alveg skúffufínt heima hjá mér var ég komin með illa svíðandi sár á löngutöng hægri. og úr henni vætlaði blóð. og mig svíður ennþá. svo að það má semsagt segja að ég hafi þrifið mig til blóðs.
nema hvað. líður nú og bíður og ekkert kemst yfir mig nema fuglinn fljúgandi.
svo kom kveld og ég og bergur vinkona mín ákváðum í tilefni dagsins að fara á fyllerí. ekki út að djamma eða út á lífið eða á pöbbarölt eða í bæinn. nei. á fyllerí. gamalt og gott orð sem má ekki detta úr notkun.
við skulum alveg sleppa hlutanum um hvað við penu húsmæðurnar köllum fyllerí, en sá skratti er varla uppí nös á hamstri. en við þóttumst samt vera voðalegar töffurur.
nema hvað. við semsagt fórum í mannfræði-vettvangsrannsókn á dubliners á meðan við vorum að bíða eftir að uppáhalds hljómsveitin mín, fm belfast, stigi á svið á organ. þegar tónleikastundin loksins rann upp var fyllerísfélagi minn sprunginn á limminu og tiplaði heim. þar sem ég er harðnagli hélt ég áfram og fór og hoppaði og dansaði og skrækti á meðan systir vor kær söng og slammaði sem væri hún vitfirrt. mikið assgoti var gaman.
núnú... eftir tónleikana röltum við systur heim til mín þar sem ég helti rúmlega hálfri hvítvínsflösku í eitt glas (galdraglas), fyrir þá litlu og fékk mér sjálf öl. svo sátum við bara og spjölluðum eins og systrum einum er lagið og er það ekki í frásögur færandi svosem. kemur þá ekki makinn heim eftir skemmtistaðaferð með félögum sínum, rýkur inn á bað og heyrist svo ekki sagan meir. mig grunaði að hann væri að gubba. sagðirðu gubb?.....
en við nánari athugun kom í ljós að kauði hafði á einhvern óskiljanlegan hátt endað í miðjum hópslagsmálum og svo veit hann ekki neitt meir nema það að vinir hans segja að þar sem hann var að reyna að aðskilja einhverja tvo gaura hafi sá þriðji komið aftanað honum og kýlt hann niður og svo hafi einhver dundað við að sparka í hann.
hann er með brotið bein í höndinni, krambúleraðan olnboga, sár á skallanum og nefinu, og svo fáum við að vita eftir 10 daga þegar bólgan er hjöðnuð hvort hann sé með brotið nef.
ég er rosalega fegin að hann var ekki að gubba. hann hefði alveg rústað hreingerningarsítrónuilminum!

fimmtudagur, júní 19, 2008

við lalli jóns erum orðin mestu mátar. ég er alltaf að rekast á kauða út um allan bæ og alltaf heilsumst við. enda næstum nágrannar.
í dag sagði hann mér að lesa stjörnuspána sína. hann er meyja. börnin mín líka.

annars er ég búin að vera óvenjulega lítið klaufaleg undanfarið. hef alveg farið í fötin á réttunni og fátt misst útúr höndunum. svo hef ég lítið sem ekkert rekið mig í. sem er óvenjulegt. ætli ég sé eitthvað að þroskast?
vonandi ekki.

kannski er ég með athyglisbrest.
ég rek veitingastað, vinn á honum, er að undirbúa kennslu fyrir haustið, er með 5 manna heimili þessa dagana og var að fá tilboð um aukakennslu næsta vetur.
samt langar mig í smá krydd í tilveruna...

miðvikudagur, júní 18, 2008

þessa dagana dreymir mig og dreymir. mig dreymir bæði á daginn og á næturnar. það er langt síðan mig hefur dreymt eitthvað að ráði, en núna er eins og það hafi verið kveikt á einhverjum draumafrumum sem voru steinsofandi (afsakið pönnið).
þetta er svosem allt í fínu, þetta eru engar martraðir, ósköp ljúfir og fínir draumar. en mig er alltaf að dreyma það sama. sama fólkið.
eini gallinn er að ég virðist enga stjórn hafa á þessu.

sunnudagur, júní 15, 2008

tók mig til og las hverja einu og einustu færslu sem ég hef ritað í bloggið mitt frá fyrsta degi. hef aldrei gert það áður. það var svolítið eins og að lesa skrif eftir einhvern annan þar sem ég mundi fátt eftir flestu.en mér fannst eiginlega 22. júní2004 vera bestur.
skrýtið samt að mér fannst voða gaman að lesa þetta og ýmislegt rifjaðist upp en þegar nær dró deginum í dag, þeas því sem ég man eftir að hafa skrifað, því minna spennandi þótti mér lesturinn. sennilega lógískt.
eitthvað hef ég nú verið að endurtaka mig í gegnum tíðina. það er á hreinu. og mikið hef ég kvartað yfir því að vita ekki hvað ég á að skrifa um, hvað líf mitt er óspennandi eða öðrum asnalegum hlutum. samt hef ég einhvernvegin alltaf haldið áfram. mér sýnist ég þó hafa verið duglegri þegar ég var að vinna á skrifstofunni. sem segir kannski eitthvað um mig og skrifstofustörf.
en ef ég tek þessi ár saman eru þau í grófum dráttum svona:
ég hef keypt slatta af húsnæði.
ég hef skipt slatta um vinnu.
börnin mín hafa verið slatta oft veik.
mér hefur verið slatta oft illt í bakinu.
jaxlinn minn hefur slatta mikið verið að stríða mér.
mér hefur leiðst slatta oft.
ég hef samt gert slatta margt skemmtilegt líka.

en á morgun kemur semsagt bróðursonur makans sem er 19 ára til þess að vera hjá okkur í rúma tvo mánuði. ég drakk áfengi í gærkveld og er þar af leiðandi löt og þreytt en samviska mín leyfir mér ekki að sitja lengur aðgerðarlaus. ég hreinlega verð að taka til. verð. djöfuls rugl. eins og 19 ára strákum sé ekki sama hvort það er drasl í kringum þá eða ekki. en samt. ég var alin upp við að taka aldrei á móti fólki í annað en tandurhrein hús. og að fara í bað á þorláksmessu.

sem minnir mig á það. frumburðurinn er þessa dagana yfir sig hissa, undrandi og smeykur. hann var nefnilega að komast að því að allir, og þá meina ég allir, fá á endanum hár í rassinn. ekki á rassinn heldur í rassinn. þetta þykir kauða hrikalega óhugnaleg tilfinning og hann á bágt með að trúa að fallegar konur fái í alvörunni hár á milli rasskinnanna.
hah! segi ég nú bara. rassahár verða mjög líklega það síðasta sem þú hefur áhyggjur af þegar þú verður kominn með þau.

hvað segið þið annars gott?

föstudagur, júní 13, 2008

þetta var nú aldeilis fín vika. hún var svona:

dagur 1 - keyrt að laugarvatni og farið í sund. keyrt að geysi og tjaldað. grillað og bjór. skordýr veidd í glös og sleppt aftur nokkru síðar. flest lifðu af.
dagur 2 - tjaldið tekið saman og lítill kofi leigður af hótel geysi. siglt niður hvítá í fyndnum göllum. hoppað í ána sem var köld. etið og slappað af. leikið við bull dog nágranna okkar með krumpuð andlit.
dagur 3 - hestaferð inn í haukadalinn. er enn sár í rassi og þreytt í baki. keyrt í reykholt og legið í sundi. labbað í kringum hveri og inní skóg. álfar heimsóttir. grillað og bjór. leikið við hundana.
nótt 3 - lítið sofið vegna fluguskratta sem vildi endilega suða nálægt eyranu á mér. var of þreytt til að standa upp og buffa hana. hún lifði af. ég varla.
dagur 4 - morgunmatur etinn í sól og blíðu, pakkað niður, leikið við hundana og keyrt heim.

og nú lítur mín út eins og leðurjakki í framan vegna ofnotkunar á sól. þannig að ég er eiginlega rasssár leðurjakki í dag. en þetta var rosa gaman. útlönd hvað?
já og svo er ég víst að fara að útskrifast á morgun. var eiginlega búin að gleyma því þar sem skólanum lauk í desember. en jæja, alltaf gaman að útskrifast.

þriðjudagur, júní 10, 2008

mér sýnist við vera að fara í litla óundirbúna útilegu á morgun. stundum er allt eitthvað svo óundirbúið heima hjá mér. það er annað en hún litla ég. alltaf svo undirbúin.
en þá er bara að hafa það gaman. pakka niður einnota grillinu sem ég er búin að eiga...hmmm... í 4 ár og skella sundfötum og snjógalla í skottið á bláa bílnum sem var búinn til í mexíkó. honum er ennþá kalt enda vanur um 30 gráðum blessaður.

einhver sagði að suðurland væri málið þessa vikuna. en ef ég keyri í suður enda ég í sjónum. haaa... nú er ég áttavillt. er ég þá ekki að fara að keyra í austur? eða til hægri? miðað við landakortið er ég að fara til hægri.

sjáumst þá þegar ég kem aftur til vinstri.

laugardagur, júní 07, 2008

djöfull lenti ég í ógeðslegum árekstri áðan....
nei djók.

djöfull var ég næstum því drukknuð í sundi áðan....
nei djók.

djöfull flaug fugl innum gluggann hjá mér áðan og ætlaði aldrei að rata út....
nei djók.

djöfull missti ég heilan bakka af kaffi yfir kerlingu í pels áðan og núna er hún skaðbrennd á slysó....
nei djók.

mikið er dagurinn í dag viðburðalítill...

miðvikudagur, júní 04, 2008

heima hjá mér er parkett. svosem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir það að parkettið er einhverra hluta vegna orðið að skautasvelli.
þá á ég ekki við að það sé frosið eða að við séum á skautum heima. ekki aldeilis. ó nei. held nú síður.
af óskiljanlegum ástæðum gerðist eitthvað í fyrradag og nú er gólfið heima hjá mér orðið svo sleipt að ég er oftar en ekki við það að renna á rassinn þegar ég til dæmis á leið á klósettið eða hvert sem er annað.
við vorum ekki að skúra með nýju bónefni. við vorum ekki að olíubera viðinn eða neitt. þetta varð bara svona. ég er alveg bit og pass.
góðu hliðarnar eru þær að ég er svakalega fljót til dyra og svo er ég að verða ansi góð í þrefaldri skrúfu með hælkrók og axlabeygju. ég er að hugsa um að fara að splæsa í glimmerbryddaðan spandexbúning með litlu pilsi.

mánudagur, júní 02, 2008

það er til fólk sem er með ljótar hárgreiðslur.
það er til fólk sem er með of stóra eyrnasnepla.
það er til fólk sem þyrfti að nota hárnæringu.
það er til fólk sem talar of mikið.
það er til fólk sem drepur mann úr leiðindum.
en það er fólk þrátt fyrir það.

sunnudagur, júní 01, 2008

sjitt hvað það var gaman.

ég er of þreytt fyrir löngu útgáfuna núna. tek bara þá stuttu:
bjór, hlátur, bjór, rútuferðir, bjór, hommabarir, bjór, sendiráð, bjór, lítill svefn, bjór og gaman. já og smá bjór.
ekki minnti mig að ég hefði þetta svakalega úthald í svona mikla vöku og bjórdrykkju.
en sjitt hvað það var gaman.
ef einhver slysast hingað inn af þeim sem voru memm þá þakka ég bara kærlega fyrir samveruna og sendi stórt knús.