þriðjudagur, febrúar 28, 2006

jamm...þið segið það....
nú er ég nett að panikka á því að eiga hvergi heima. ég á sko alveg heima en tíminn líður svo hratt að bráðum veit ég ekki hvar ég á heima. þá verð ég flækingur og börnin mín götubörn og búslóðin mín mun skemmast úti í rigningunni og ljósmyndirnar mínar munu verða bleikar og gular og krullast upp á meðan andlit minninganna gufa upp og hverfa út í íslenska vor-vetrar-veðráttu. ég mun faðma börnin mín að mér undir stóru úlpunni minni til að veita þeim hlýju og falska öryggiskennd, en glöggir munu geta séð hvar einmana tár rennur niður blauta og veðurbarða kinn mína þar sem ég horfi stolt og staðföst upp í himnana á meðan þeir hrynja yfir mig.
eða kannski fæ ég frekar bara að gista hjá mömmu í nokkra daga...

saltkjöt og baunir... túkall.

mánudagur, febrúar 27, 2006

ég segi nú bara jedúddamía. hvaðan kom allt þetta fólk inná mína litlu hógværu og ómerkilegu síðu? já og hæ sóley, gaman að sjá þig hér, langur tími engin sjá!

nema hvað... ef þú ert nemandi í spænsku hjá mér og situr núna í kennslustund og ert einhverra hluta vegna að lesa þessa síðu þá ertu vinsamlegast beðin/n um að fylgjast með í tíma og hætta að hanga á netinu. (andskotans óhlýðni alltafhreint, ég sem geri ekki annað en að rífast og skammast, andsk..djöh..skramb...helv...)

ykkur hinum sem eruð ekki upptekin við að læra þáliðna tíð get ég sagt frá því að það er ósköp fátt að frétta.
fór á árshátíð með samstarfsfólkinu á laugardaginn. át góðan mat og dansaði polka. fólk þarf ekki að vera gamalt til að hafa gaman af að dansa polka. ég er allavega ekki gömul (ef þú ert nemandi hjá mér og glottir þegar þú lest þetta þá ertu fallin/n í spænsku!), og mér finnst gaman að dansa polka og hananú.
svo get ég víst ekki sagt neinar krassandi sögur af árshátíðinni hér á þessum vettvangi þar sem virðist hafa verið gerð innrás af fólki sem hefur ekkert gott af því að vita hvað ég og mitt samstarfsfólk gerum á árshátíðum. og hananú.
muahahaha....

núnú og svo leið helgin bara eins og helgar líða ansi oft. nammi, gos, vídeóspólur og útivera með afkvæmunum.
í dag er svo kominn mánudagur. eina ferðina enn. ótrúlegt hvað það koma oft mánudagar. reyndar kemur oftar kvöld, alveg magnað hvað það kemur oft kvöld. en ég er líka orðin hálf ringluð á þessu með mánudagana. í raun væri ekkert svo vitlaust að stokka svolítið upp þannig að það kæmi sumar jafn oft og það kemur kvöld, kvöld jafn oft og það kemur mánudagur og mánudagur jafn oft og það koma jól. nú og svo mættu jólin koma jafn oft og ættarmót ennisættarinnar sem er mín ætt sko.
legg þessar breytingar hér með til.

og farðu svo að læra krakkaskratti!

föstudagur, febrúar 24, 2006

nú er ég að verða uppiskroppa með ferskar hugmyndir.
vinsamlegast aðstoðið uppiskroppa kroppa sem vilja ekki floppa eða stoppa á miðri leið.
hver er besta leiðin til að troða nýju tungumáli inn í höfuðið á fólki?
er það að láta þau hlusta, tala, lesa, skrifa eða læra reglur utanbókar? ég veit að allt skiptir þetta máli, en hvað er það sem skilur mest eftir sig fyrir utan auðvitað að flytja til útlanda?

sunnudagur, febrúar 19, 2006

nú þurfum við víst að rýma húsið fyrir 15.apríl. úff hvað ég nenni ekki að flytja aftur. það góða er að með stanslausum flutningum safnast síður fyrir endalaust drasl sem enginn notar og þannig líður mér aðeins meira eins og búddista. svona feng shui eitthvað...án þess að ég hafi stúderað þau fræði. reyndar skil ég ósköp lítið í þessari greinilega vinsælu pælingu og mér virðist ganga ágætlega án þess að hafa fjólublátt eitthvað gegnt innganginum og spegla í einhverjar ákveðnar áttir og svoleiðis. ætli það sé ekki bara óvart svona feng shuilegt heima hjá mér...eða eitthvað.
nema hvað, nú er tilboð í gangi. okkur langar að kaupa lítinn grænan kofa sem foreldrum mínum líst víst ansi lítið á. við höfum verið þekkt fyrir að kaupa áásjáleg hýbýli sem einhverra hluta vegna enda með því að vera hálfgerðar gullnámur. það er vonandi að happadísirnar séu enn með okkur í liði því þetta hús er vissulega ekki mikið fyrir augað.
spennandi þó. það er eitthvað spennandi við að kaupa heimili þar sem þarf að henda öllu út og raða inn aftur eftir eigin höfði. ég er eiginlega hrifnari af eigin höfði en margra annarra. svo virðist ég ekki finna neitt sem mér líkar sem hefur verið byggt eftir árið 1910. ætli ég sé ekki bara svona gömul húsasál. svo er líka svo kósí að búa í húsum sem brakar í og þar sem boltar rúlla af stað ef þeir eru lagðir á gólfið (sökum ójafns gólfs, ekki draugagangs).
úy, sem minnir mig á það. hvað þarf fólk að verða gamalt til að hætta að vera myrkfælið? ég er enn að bíða eftir að losna við bölvaða myrkfælnina.

allaveganna... ég bíð spennt eftir svari við tilboði frá kofaeigandanum því ég er í stuði til að rífa niður veggfóður, tæta upp teppi, brjóta niður veggi og púsla.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

djöfull. ætlaði að setja inn mynd en fékk bara rugl svo ég hætti við. mér er nefnileg illt í hausnum og beinunum og mér er heitt á bakvið augun og mér er kalt og heitt.
hvað í andskotanum er ég eiginlega að gera í vinnunni?...

þriðjudagur, febrúar 14, 2006


hér er önnur mynd. ég keypti mér nefnilega litla stafræna myndavél síðasta daginn úti og gekk nett af göflunum.
hefði þó viljað hafa myndavél alla dagana til að hafa fleiri gafla til að ganga af, en það verður sennilega ekki á allt kosið aftur í tímann.

annars gaman að segja frá því að ef mig misminnir ekki þá var dagur forseti nemendaráðs í árbæjarskóla á sama tíma og gísli marteinn var forseti nemendaráðs í hólabrekkuskóla og ákveðinn rígur var á milli skólanna um hvor væri betri. svo fór sá fyrrnefndi í mr og hinn í versló og þar þarf ég varla að nefna ríginn.
nú og svo eru þeir í dag þar sem þeir eru í dag.
samsæriskenningar einhver?

mánudagur, febrúar 13, 2006



hey, ég held að ég sé loksins búin að fatta (ehemm)hvernig á að setja myndir hérna inn. ef það hefur tekist þá á hér semsagt að birtast mynd sem ég tók semsagt úti í mexíkó og hún er semsagt af tveimur konum sem mér þóttu semsagt svo skemmtilega útlítandi þar sem þær sátu semsagt við litlu sölustandana sína og voru semsagt að kjafta saman.
ef vel tekst til og mínir kæru lesendur verða hrifnir af myndinni mun ég án efa verða duglegri við að notfæra mér þessa nýfundnu tækni og leyfa ykkur að sjá sýnishorn af því sem fyrir augu mín ber og hefur borið. semsagt.
voilá

föstudagur, febrúar 10, 2006

jæja, mín komin í hús. brann aðeins einn dag en ber þess engin merki lengur. og nú er málið að snúa sólarhringnum aftur framávið. það er hægara sagt en gert skal ég segja ykkur.
nema hvað, það var gaman að koma aftur til mexíkóborgar. hún hefur fátt annað gert en að stækka blessunin og þegar flogið er yfir hana má sjá hús eins langt og augað eygir í allar áttir, enda heimili einhverra tuttugu milljóna.
við vorum heima hjá tengdó á næturnar en eyddum dögunum í að þvælast á mörkuðum, í miðbænum og í heimsóknum hjá vinum og vandamönnum. keyptum slatta af skrani og bíómyndum á spænsku sem er gott að eiga fyrir afkvæmin til að láta þau hlusta.
á sunnudaginn síðasta skelltum við okkur á tónleika með sjálfum luis miguel. þeir sem þekkja til kappans munu öfunda mig, en það verða sennilega fáir á íslandi..ehe.. áhugasömum bendi ég á síðuna http://www.luismiguelsite.com/ þar sem má sjá hvernig tónleikarnir sem ég fór á hófust með honum hoppandi inná sviðið. þess má geta að ég fór á tónleika nr. 15 af tuttuguogeitthvað sem haldnir eru í borginni og hverjir einustu eru stútfullir og uppseldir í risastórri tónleikahöll. ójá.

í raun er magnað hvað mexíkó og ísland eru ólíkir staðir og ég þykist rík af því að eiga fólk og heimili á báðum stöðum. (ég á ekki hús í mexíkó en eins og þeir segja, su casa es mi casa).

og nú þarf ég að fara að vinna með mauk á milli eyrnanna sökum svefnruglings.

föstudagur, febrúar 03, 2006

aetli eg skrifi ekki minna en mig langar vegna thess ad mer skilst ad folki thyki ekki gaman ad lesa svona utlandaskrift...jæja nú er ég búin að laga það og gott mál en þá þarf ég víst að rjúka.
skrifa síðar.

ps allt gott að frétta, sól og mengun og mikið gaman...