föstudagur, maí 28, 2004

já, og þar sem ég kann greinilega ekki alveg að gera linka, þá þarf sko að fara undir lyrics, some b-side & non album tracks og þar er caravan of love efst. það er sko það sem ég átti við
hey vá! nú þegar ég fór að gramsa fann ég þessa síðu og hér er textinn frekar klikk. tíhíhí... (þetta er reyndar aðeins fyndið fyrir þá sem kunna textann og hafa svipaðan málvísindanördalegan áhuga á svona og ég) aðrir geta bara skippað þessari færslu.
kominn föstudagur eina ferðina enn. þegar slíkt gerist á ég til að syngja ,,gracias a dios es viernes", man ekki hvort ég var búin að segja frá því fyrr. það er sosum lítið í frásögur færandi ef ekki væri fyrir það að ég kann ekki neitt meira í laginu. ég kann ofsalega mikið af svoleiðis lögum, sem ég get bara sungið eina setningu úr og svo ekki söguna meir. hér koma nokkur dæmi sem mér detta í hug: tralalalalalalalalalala, tralalalalalalallalalala, tralalalalalalalalalala vornóttin löng. ave maria, gratzia plena. sail away sail away sail away. oh what a beautiful morning, oh what a beautiful day, I´ve got a wonderful feeling, everything´s going my way. ég fer á puttanum, ég fer á puttanum, nanalaladaradadadeeeee ég fer á puttanum.
eins og glöggir geta eflaust séð mætti halda á þessu lagavali mínu að ég væri komin vel yfir fimmtugt. sú er þó ekki raunin, en ég er alveg farin að gútera að ég er gömul sál svona tónlistarlega séð. á það tildæmis til að söngla ,,það er draumur að vera með dáta og dansa fram á nótt", en það lag hefur ekki verið á vinsældalistum þjóðarinnar síðan löngu áður en ég fæddist. þegar ég var 13 ára safnaði ég plötum (og svo geisladiskum stuttu síðar þegar þeir bárust til landsins), með kónginum elvis presley. hélt því áhugamáli þó nokkuð útafyrir mig til þess að verða ekki strítt eða lögð í einelti (sem var ekki til þá svo að í raun hafði ég engar áhyggjur af því). þess vegna eru þau fá elvis-lögin sem ég get ekki sungið með af fullum krafti, og kann gott ef ekki heljarins slatta af textanum. ,,number 47 said to number 3, you´re the cutes jailbird I ever did see, sure would be delighted with your company, so come and do the jailhouse rock with me, let´s rock..." eee??? (með spænskum montrassahreim).
svo var ég voða stolt þegar ég loksins skildi textann í laginu með housemartins sem honum bþ enskukennara hafði ekki tekist að fatta þegar við báðum hann um að hlusta og þýða þennan hluta fyrir okkur fyrir hæfileikakeppni hólabrekkuskóla 1988. ,,the place in which we were born, so neglected and torn apart..." þegar við skrifuðum textann niður sjálfar eftir að hafa gefist upp á enskukennaranum, leit hann einhvernvegin svona út:,,the place en which we were born, zona glectica torn apart".
svo sungum við það bara svona og sigruðum hæfileikakeppnina ef ég man rétt (vorum amk í 2. eða 3. sæti, en minningin vill segja mér að það ég hafi einhverntíman unnið eitthvað).
hey hey wait a minute mister postman...weieieieit mister postman... (kann ekki meir)
góða langa helgi.

fimmtudagur, maí 27, 2004

tabula raza, ergo og status quo. orð sem hafa alltaf þvælst fyrir mér og ég hef ekki enn náð að graspa almennilega. ég veit hvað þau þýða, en finnst þau samt ennþá asnaleg. það er eitthvað kjánalegt við latínu (eða er þetta ekki annars latína?). ég var einu sinni með asnalegan latínukennara og hef í raun aldrei borið þess bætur. það gæti verið ástæðan fyrir ónota-kjánatilfinningunni sem ég upplifi þegar fólk slær um sig með svona orðum. ég tel latínu vera fyrirbæri sem einhverra sagnfræðihluta vegna er snobbað fyrir og uppskrúfað, og ég er með fóbíu fyrir uppskrúfun. ég er eiginlega frekar niðurskrúfari. ég á afskaplega erfitt með að höndla formlegheit, sbr. tungumál háttvirtra fundarmanna oþh. ég fæ hláturskast í kirkjum (eins og áður hefur komið fram) og get engan veginn skilið þau alvarlegheit sem grípa fólk við formfastar seremóníur. úff hvað ég yrði lélegur forseti. ég yrði þó kannski ágæt í stjórnmálum í bendewrikjen (lesist með gringo-hreim). þar þarf fólk greinilega ekki að hafa margt á milli eyrnanna til að komast langt. hmmm... nú var ég að fá hugmynd.
vote mawria chialmties

miðvikudagur, maí 26, 2004

nú er ég spennt. segi ykkur eftir helgi af hverju ég er spennt. þá verð ég annað hvort kát eða græt. annað hvort eða, já eða nei, af eða á, of eða van (sem er reyndar aðeins annað) en þið fattið hvað ég á við, skiljið hvað ég meina, sjáið hvað ég er að fara, grípið um skaftið á mér og semsagt... já. mín öll í samheitaorðabókinni í dag. svei mér þá.
jebbelí.
svolítið fúlt þegar það er gaman hjá einum og ekki eins gaman hjá hinum. sérstaklega þegar einn býr með hinum og hinum gengur ekki eins vel og einum og hinn er ekki alveg jafn heppinn og einn. þannig er ástandið núna hjá mér, en ég er einn. hinn hefur fullt af orku og löngun til að gera alla skapaða hluti en einhvernvegin er erfitt að fóta sig á markaði og verða eftirsóttur. svo er lýjandi að vera fátækur, ég er nett lýjuð en ber meira jafnaðargeð, enda jafnaðargeðug mjög. hinn er ekki alveg jafn ligeglad, minni pollýönnublóð í æðum og sýnin aðeins dekkri en mín bjarta. það hefur allt áhrif.
en semsagt, ef einhver hefur uppástungur um starf, vinnu, verkefni og fleira fyrir alltmuligtmann með ljósmyndavél að vopni, endilega sendið mér línu á bleikar síður gestabókar minnar.
hjálpum atvinnuhungruðum.

þriðjudagur, maí 25, 2004

ég sé ekkert blogg í dag. blogspot kerfið er eitthvað að klikka. djöh.
en hvað um það.
ég fór með síðburðinn á bókasafnið í gær. hún er sko rúmlega eins og hálfs og mikill traktor. ég var voða pen mamma og sagði uss, við skulum hvísla núna, sjáðu bókina! viltu setjast niður og skoða bókina? vaaaá hvað þetta er flott kisa í bókinni... sestu hérna elskan, sittu kyrr, usss... hvísla. en nei nei, hún hafði eirð í sér til að skoða hverja bók í uþb. 11 sekúndur og þegar ég gafst upp á að dæla í hana bókum fór hún að rölta um. entist aðeins við að skoða sig í spegli, en ég dró hana í burtu eftir að ég fékk frekar áberandi augnaráð frá starfskonu þarna (væntanlega þeirri sem sér um að pússa speglana). þá ákvað ég að prófa að leyfa dótturinni bara að ráfa um og sjá til hvort hún yrði ekki róleg við það. ég snéri mér aðeins að bókunum, en augnabliki síðar sá ég hana þar sem hún kom brunandi á móti mér með kerru í eigu safnsins. hún var voða stolt með kerruna, en manninum í afgreiðslunni fannst þetta greinilega ekkert fyndið eða krúttílegt svo ég reyndi hvíslandi að sannfæra hana um að kerran væri ekki spennandi. keððan keððan! æpti hún og ég dreif mig með hana að einhverskonar ljósmyndasýningu á vegg þar sem var mynd af litlu barni. sjáðu litla barnið! hvíslaði ég og hún gleymdi kerrunni. svo þegar allt virtist vera fallið í ljúfa löð og hún farin að einbeita sér að því að endurraða bæklingum frá tryggingastofnun sem lágu þarna í rekka, snéri ég mér við og reyndi að einbeita mér að bókunum sem voru ástæða þess að ég var stödd á bókasafni á annað borð. mér telst svo til að friðurinn hafi enst í tæpa mínútu, en þá heyrði ég litla (en kraftmikla) rödd sem undirmeðvitund mín þekkti svo vel þrátt fyrir tilraun meðvitundarinnar til afneitunar. þessi rödd var greinilega að prófa sig áfram með bergmál borgarbókasafnsins við tryggvagötu, en þá gafst ég upp. ég greip hana með öðrum handleggnum og dró kerruna hennar á eftir mér beinustu leið út á götu. öskrin í henni yfir því að vera rifin svona út af þessum skemmtilega stað lokuðust loksins úti þegar rennihurðin small saman fyrir aftan mig. ég var orðin sveitt.ég sá ekki betur en að öðrum gestum safnsins hefði létt við skyndilega brottför okkar mæðgna.
við sumar aðstæður er ég eina manneskjan sem þykir barnið mitt vera fyndið og krúttlegt.
og ég hef ekkert að lesa....

mánudagur, maí 24, 2004

ég biðst innilegrar afsökunar. þetta var allt mér að kenna. ég fann ástæðuna í gærmorgun í garðinum mínum og var ekki lengi að bjarga því sem bjargað varð. það slapp fyrir horn eins og sjá má í dag. ég vil þó enn og aftur biðjast fyrirgefningar og vona að þetta hafi ekki valdið ykkur of miklum óþægindum. ég veit að sjálf blótaði ég í sand og ösku áður en ég gerði mér grein fyrir því að ég gæti sjálfri mér um kennt og hefði engan annan til að skella skuldinni á. ég hreinlega blygðast mín og skammast fyrir að hafa ekki tekið eftir þessu fyrr en þá hefði ég getað lagað málið strax og það hefði sparað ýmsum pirring og vonbrigði. ég vona bara að ég hafi ekki alveg rústað helginni fyrir ykkur. mikið þætti mér leiðinlegt ef ég hefði gert það, ég lofa að passa mig á því að svona lagað komi ekki fyrir aftur, amk. ekki heima hjá mér. kannski og vonandi hafa einhver ykkar getað gert gott úr öllu saman og haft það gott þrátt fyrir allt, ég veit að mörgum börnum fannst þetta bara fínt, en ef mér hefur tekist með þessari ófyrirgefanlegu yfirsjón að skemma ferðaplön og veisluhöld, þá á ég mér engar málsbætur.
en nú er ég sem betur fer búin að snúa skrattans hrífunni við og það er hætt að rigna.
afsakið

föstudagur, maí 21, 2004

ársfundur nr.1 var haldinn í morgun. þangað mættu stjórnin, nokkrir starfsmenn sjóðsins og einn fulltrúi aðildarfélaga. nokkuð sorglegt miðað við að ég var búin að búa til heljarinar helling af fundargögnum, stóð sveitt við ljósritunarvélina alla vikuna og raðaði þangað til að enginn rúmmillimeter á lófum mínum var bréfaskurðarlaus. þetta ber bara vott um vanhæfni mannskepnunnar til að læra af reynslunni. ég hugsa að samanlagðir gestir á slíka ársfundi síðastliðin 5 ár, fyrir utan stjórn og starfsfólk, séu teljandi á fingrum annarar handar. samt bý ég alltaf til tugi af möppum uppfull bjartsýni um að Í ÁR verði allt breytt, áhugasamir sjóðfélagar muni standa í röðum og bíða eftir að fá að komast að. ég er meira að segja svo bjartsýn að ég tók með mér sérstakt eintak til þess að ljósrita eftir ef ekki væri til nóg. dios mio.
eina manneskjan sem er greinilega farin að leggja saman tvo og tvo er sú sem sér um veitingarnar. í fyrra var víst svakalegt hlaðborð sem ekkert sást á eftir hinn fámenna fund. í ár voru nokkrir bananar skornir niður og epla- og appelsínubátar. svona eins og í leikskólunum. á þeim bænum er attitudið komið úr miklum metnaði yfir í "ó crap, það mætir hvort eð er enginn, skellum bara ávöxtunum sem myndu annars skemmast um helgina í skál fyrir þetta lið...".
mér tókst að halda mér vakandi í gegnum upplestur ársskýrslu, tryggingafræðilegrar athugunar og fjárfestingastefnu. er ég væri spurð myndi ég þó eflaust fáu geta svarað öðru en því að öryrkjum hefur vissulega fjölgað því nú eru andlegir kvillar taldir með.
sem er raunar hin áhugaverðasta stúdía ef út í það er farið.
annað sem ég væri til í að stúdera er pósan sem fólk snappar inní þegar það er orðið að háttvirtum fundarmönnum. hvað er málið með þetta málfar? ég hef bókstaflega horft uppá fólk sem hefur verið hlægjandi og flissandi með sígó úti á svölum, umturnast og breytast í spítukalla með pókerfés sem tala hálfgerða klingónsku.
"...ef mér leyfist með leyfi fundarstjóra að yrða á viðstadda aðila með tilvísun í 3. málsgrein áðurnefndra skjala sem undirrituð hafa verið með gefnu samþykki meðlima stjórnarinnar, og í framhaldi af því væri við hæfi að koma á framfæri þakklæti og velvild í garð títt ræddra nálgana."
gesundheit.
jæja nú er bréfasulta í prentaranum... tíhíhí... alltaf góður þessi.
besta að hrista af sér fundarslenið og fara að leita að hinu krumpaða blaði sem veldur óvelkomnum töfum í útprentunum nauðsynlegra fylgiskjala. ef ÞETTA er ekki spennandi þá skal ég hundur heita.

góða helgi
hundur

miðvikudagur, maí 19, 2004

I AM 36% TORTURED ARTIST!
36% TORTURED ARTIST
I have some artistic ability, but it is probably a hobby and doesn't drive my life into a dark abysmal hole were I am alone and against the world.
frumburðurinn hringdi í mig í gær og tilkynnti mér að hann þyrfti ekki að mæta í fleiri tíma í tónfræði. ,,nú, hvernig veistu það?" spurði ég. ,,ég fór bara í tónlistarskólann og spurði hana þarna konuna sem veit allt og hún sagði mér það."
ég er að hugsa um að láta hann kynna mig fyrir konunni sem veit allt. hún mun þurfa að svara ansi mörgum spurningum, ó já. skrýtið að enginn skuli hafa auglýst þetta fyrirbæri áður, hún gæti orðið forrík blessuð konan. ,,spyrjið konuna sem veit allt, aðeins 1000 krónur spurningin!!"
Ég myndi amk. splæsa á einar þrjár. Reyndar þyrfti ég að hugsa þær ofsalega vel áður til þess að nýta þær sem best og fá sem mest útúr svörunum. Það krefst útsjónarsemi.

annars er allt gott að frétta. fundargögn fyrir ársfundi 1 og 2 eru tilbúin, blaðabunkinn á vinstri hönd hefur minnkað, gulu miðunum á tölvunni hefur fækkað og það eru glæný hefti í heftaranum. merkilegur assgoti hvað mánuðurinn hefur annars liðið hratt miðað við að ég hef sosum ekki gert neitt merkilegt (ef bílþjófnaður er ekki talinn með).
síðburðurinn er að losna við hóstann, horið og eyrnabólguna og frumburðurinn fer fljótlega í sumarfrí. úff, enn eitt sumarið til að púsla saman. einhvernvegin bögglast þetta nú samt alltaf allt. eða eins og argentínumaðurinn sagði á hard rock í london: úr einhverju rassgati mun koma blóð.

þriðjudagur, maí 18, 2004

mæ ó mæ hvað þessi dagur leið hratt. ég sem lá í gærkvöldi gersamlega upptjúnnuð af kókakóla og hugsaði allskonar ruglumbull sem ég ætlaði svo samviskusamlega að skrifa niður hérna. og nú hef ég hvorki tíma né get munað hvað í skrattanum það var sem ég ætlaði að skrifa. það var samt örugglega skemmtilegt.
ætli það segi ekki ýmislegt um mig og mitt líf að ég skuli virkilega liggja og reyna að láta mér detta í hug hlutir til að skrifa um á blogginu mínu... he he..
en jæja, gefst upp á að þykjast vera eitthvað töff týpa.
ég hef verið að pæla svolítið í því hvernig ég er í samanburði við fólk (þá skoðað útfrá því hvernig aðrir skrifa á sambærilegum síðum). niðurstöður þeirra pælinga eru eftirfarandi: ég er ekki súrrealísk, hlaðin ótrúlegu ímyndunarafli, orðheppin og hnyttin með eindemum. ég er ekki pólitísk, uppfull af skoðunum um menn og málefni, drífandi eða fræg. ég er ekki vinamörg og hvorki svo óheppin né heppin að vera endalaust að lenda í skrýtnum og skemmtilegum uppákomum. ég er hvorki ráðagóð, rómantísk né krúttíleg og ég kann ómögulega að ljúga.
ja hérna.... mikið er frískandi að pilla svona utanaf sér það sem ég hélt/vildi/reyndi vera en er eftir alltsamant bara ekki neitt. ding! nýju þroskastigi er náð hér með í beinni á blogginu.
ég er bara svona og það er fjandans nóg fyrir mig. engin minnimáttarkennd hér. take it or leave it.

mánudagur, maí 17, 2004

já og það er i í skilst. ég biðst afsökunar á þessum gersamlega óviðunandi mistökum.
ég hef mikið velt því fyrir mér hvort ég ætti að blogga um júróvisjón. nenni því eiginlega ekki lengur. ég er með helv...djö...andsk... gríska viðlagið svo fast á heilanum á mér að ég er alvarlega farin að íhuga að verða mér úti um hamar og nagla til að negla einhverju í hausinn á mér í von um að lagið hætti. þetta er ekki einu sinni gott lag for crying out loud. og ég ætla ekki að gera sykurpopparanum það til geðs að eyða bloggplássi dagsins í hann. reyndar var hann óttalegt augnakonfekt. mér sýndist þó ekki betur en að hann væri með skarð í vör (eða hefði verið með við fæðingu) þegar hann var sýndur í close-up úr græna herberginu (sem ég sá ekkert grænt við).
en nóg um það... bölvað nöldur alltaf hreint í manni...
þá held ég að það verði skömminni skárra að lesa mig ef ég færi að skrifa um eitthvað sem skiptir máli. svo er það að skipta máli auðvitað afstætt eins og svo margt annað... hættu nú alveg.
eftir doltla hugsun síðan ég setti punktinn aftan við síðustu setningu á undan þessari hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér dettur ekkert annað í hug til að skrifa um í dag en júróvisjón og sjónvarpið. best að leyfa vindum hins takmarkaða hugflæðis að fjúka þá bara örlítið.... (með þessu áframhaldi mun ég aldrei geta skrifað bók)
eníhú
ég horfði á kveðjuþátt kynlífs og borgarinnar fyrir helgi. bölvaður kaninn, alltaf þarf þetta lið að skrúfa frá slómóinu, fiðlunum og tárunum til að fá mann til að tárast. ég hef ekki einu sinni fylgst með þessum þáttum nema endrum og eins þegar ekkert annað er í kassanum, en samt sat ég og táraðist með þessum ungu konum sem áttu svo bágt með að hætta í vinnunni. ég myndi reyndar verða svekkt yfir því að þurfa að hætta í djobbi þar sem ég fengi sprillföld launin mín í dag, en það er nú ekki eins og þær þurfi að gerast ræstitæknar eftir að þáttunum lauk.
svo tárast ég stundum yfir ópru, hversu leim er ég eiginlega??! mig grunar sterklega að ég sé enn með nettan hormónakokteil í blóðinu eftir meðgöngu nr 2. svo gæti þetta líka verið ættgengt. mér skylst að konur úr föðurætt minni gráti mikið. þegar það er gaman á fjölskyldusamkundum er hlegið svo hátt að rúður bresta, en þegar komið er saman td. við jarðarfarir, þá er eins gott að hafa vatnsheldan maskara, heila klósettrúllu og sólgleraugun tiltæk.
ég er ættgeng grenjuskjóða.
góð leið til að hefja nýja viku.....

föstudagur, maí 14, 2004

Mystery
You are Barbamama. You spend most of your time
alone, developing your subtle talents. No one
really knows you.


Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by Quizilla
Ég hef verið að prófarkalesa ritgerðir undanfarið. Nú fer að verða hægt að sannfæra mig um að íslenskan sé tungumál í útrýmingarhættu. Hún er að minnsta kosti í mikilli breytingarhættu. Reyndar er fólk misjafnt, en þegar á heildina er litið má segja að ótrúlega stór hluti hálf-fullorðins fólks sem er að skríða útúr háskólum, sé íslensku-fatlað að einhverju leyti. Stafsetningafötlunin er reyndar ekki sú versta, þó eru n og y að þvælast fyrir mörgum (það er svosem bara klassík), en verst þykir mér sú staðreynd að fólk er að skrifa lokaritgerðir sínar á talmáli. Oftar en ekki eru setningar greinilega íslenskufærðar enskuslettur sem er mjög auðvelt að sjá í gegnum og fæstir virðast hafa vald á því að skrifa bókmenntamál (reyndar hef ég ekki lesið yfir fyrir neinn úr íslensku- eða bókmenntadeild, og geri ráð fyrir því að það fólk hífi þetta upp á annað plan). og já, ég er sko dóttir föður míns (fyrir þá sem skilja)
(glöggir lesendur taka kannski eftir því að ég notast við hástafi og lágstafi í þessum pistli í þeim tilgangi að sýna framá eigið skriftarvit ehemm...)
en yfir í aðra sálma... júróvisjón á morgun. ruslana... algjör snilld. ég horfði reyndar á keppnina í fyrra þar sem ég var stödd í mexíkóborg. mexíkanska sjónvarpið sýnir hana þó ekki (sem er sosum ekkert skrýtið ef út í það er farið). en semsagt var ég í húsi þar sem television española var í boði, en það er sko spænska ríkissjónvarpið. spánverjarnir klikkuðu auðvitað ekki á júró og ég eyddi heilum eftirmiðdegi í herlegheitin (tímamismunurinn gerði það að verkum að þetta var ekki kvöldstund). úti var um 30 stiga hiti og ég var með opna glugga og sjónvarpið í botni. á neðri hæðinni var fjölskyldusamkunda tengdafjölskyldunnar en mér hafði ekki tekist að fá þau með mér í gott júróvisjón-partý, sem var reyndar synd því þetta er hresst fólk og skemmtilegt og þau voru þar að auki að staupa sig og svona... en well, ekki verður á allt kosið. þarna var ég semsagt ein dansandi og voða hress við opinn gluggann þegar ég tók eftir því að samkundan á neðri hæðinni var þögnuð. skvaldur og hlátur og latino-tónlistin voru þögnuð. hvað kom fyrir? hugsaði ég þar sem ég ýtti á mute-takkann á fjarstýringunni og lagði við hlustir. þá datt mér í hug að líta út um gluggann og niður á neðri hæðina (get eiginlega ekki alveg útskýrt arkítektúrinn í þessu húsi í stuttu máli), en allavega... þar stóð öll stórfjölskyldan í hnapp, grafalvarleg, horfðu upp til mín, og þegar ég setti upp andlit sem var eitt spurningarmerki þá hristi Leonardo frændi hausinn og spurði fyrir hönd hópsins HVURN ANDSKOTANN ÉG VÆRI EIGINLEGA AÐ HLUSTA Á!
þá höfðu þau staðið þarna niðri í svolítinn tíma og fylgst með mér dilla mjöðmunum yfir einhverju júrópoppi frá fyrrverandi sovétríkjunum og áttu ekki til orð yfir því hvað þetta væri hræðileg sjón og heyrn. síðan þá hefur mannorð mitt ekki orðið samt, en þau eru öll sannfærð um að ég hafi ömurlegasta tónlistarsmekk í heimi.
ætli þetta sé ekki spurning um að vera alinn upp við það að þetta sé skemmtileg keppni...
svo var spænski gísli-marteinninn nottlega frábær þar sem hann gólaði AY AY AY...! þegar þeir fengu ekki stig og svo OLÉ!! þegar þeir fengu stig.
legg hér með til að gísli öskri ÓLI þegar ísland fær stig á morgun.
Leonardo og félagar hafa ekki hugmynd um hverju þau eru að missa af...

fimmtudagur, maí 13, 2004

ég er að fara í fyrsta þrítugsafmælið í vinkonuhópnum í kvöld. ég er ekki í krýsu fyrir hönd annarra þannig að mér finnst eiginlega barasta ekkert mál að hún skuli vera orðin. sé enga breytingu. það er samt eitthvað við að verða það sjálf... get ekki útskýrt.
nú glotta sennilega þeir (ef það eru einhverjir) sem lesa þetta og eru komnir yfir í að vera þrjátíuogeitthvað eða meira. þetta verður ábyggilega ekki nokkur skapaður hlutur eftir alltsamant þegar að því kemur. mér verður örugglega slétt sama, skiptir engu máli og ég yngist upp ef eitthvað er (af því að hætta að hafa áhyggjur af því að verða þrítug). en svona verður fólk stundum að fá að velta sér uppúr ómerkilegum hlutum, blása þá svolítið upp fyrir sjálfum sér, gera þá merkilega og hafa fyrir því að hafa áhyggjur af rugli. ég tek svoleiðis syrpur af og til, finn mér bitastætt áhyggjuefni sem ég get bitið í mig og þjáðst yfir í svolítinn tíma. reyndar ætti þetta svo að stigmagnast þangað til allt springur og heimurinn verður ekki samur á eftir, en í raunveruleikanum líður tíminn bara og jafnvel hinar stærstu áhyggjur dofna, rofna og sofna (rím sko), þangað til ekkert verður eftir. hlutirnir leysast bara, ef þeir leysast ekki þá gleymast þeir, ef þeir gleymast ekki þá hætta þeir að skipta máli.
ergo: áhyggjur eru tímasóun.
annars finnst mér best að konan þarna í júróvisjón heiti ruslana.

miðvikudagur, maí 12, 2004

þriðjudagur, maí 11, 2004

vúff. mikið að gera. gott og blessað sosum.
nú dettur mér ekkert í hug. heilinn búinn í dag.
best að vera ekkert að rembast enda mun það þá bara hljóma eins og eitthvað nöldur og bull og ekki ætla ég nú að fara að vera leiðinleg á blogginu mínu. ég ætla alltaf að vera skemmtileg, hnyttin og hugmyndarík á blogginu mínu. ekkert að kvarta eða nöldra. þess vegna er best að halda sér bara saman á svona dögum eins og í dag þegar ekkert er á seyði í skallanum og það eina sem mér dettur í hug að skrifa um væri þá helst hvað ég er hugmyndasnauð. það er ekkert skemmtilegt lesefni fyrir aðra og kemur hvorki að gagni né hefur skemmtanagildi. þess vegna hef ég ákveðið að sleppa þessu bara í dag og vera ekkert að eyða orku minni né þeirra sem gætu mögulega farið að eyða tíma sínum um að líta yfir þetta krot mitt í vitleysu. oft er betur heima setið en af stað farið segi ég nú bara og það á við hér og nú um þessa ákvörðun mína. þannig verður þá með daginn í dag, hann verður vita blogglaus af minni hálfu og verður ekkert hægt að ræða það neitt nánar. ég hef svosem áður sleppt því að blogga og ég gat ekki séð að það skipti neinn máli, þannig að ég býst ekki við því að það muni valda mikilli sorg hjá neinum. engin þjóðarsorg vegna þess að hún maja var of þreytt til að blogga. enginn að velta því neitt fyrir sér af hverju ég er svona þreytt eða hugmyndalaus. og þar sem enginn mun spyrja mig, nú þá kemst fólk ekki heldur að því að ég svaf andskotann ekkert í nótt. enginn hefur áhuga á því að vita að annað afkvæmið vaknaði á klukkutíma fresti, og hvað þá síður hefur fólk áhuga á því að vita að makinn át einhverja fjandans svefnpillu og hraut svo svakalega að mér tókst ekki að sofna í þessar fáu mínútur sem liðu á milli þess sem afkvæmið vaknaði. og þar sem enginn mun spyrja mig útí þetta og þá ekki komast að ástæðum þreytu minnar, verður sennilega enginn sem samhryggist mér, segist skilja mig eða minnist amk á að það hafi verið leitt að ég hafi verið of þreytt til að blogga.
en ég verð bara að lifa með því.
svona er þetta oft þegar fólk er þreytt og dettur hreinlega ekkert í hug. þá er óþarfi að vera að velta sér uppúr því og best bara að sleppa því að skrifa nokkuð yfir höfuð.
það er það sem ég ætla að gera í dag.
ekkert blogg.

mánudagur, maí 10, 2004

það er nú bara aldeilis mikið að gera þessa dagana með alla þessa ársfundi yfirvofandi. tíminn líður á undraverðum hraða og slíkt gleður mitt litla hjarta. auk þess eru sumarlyktin, fuglasöngurinn og allir skrilljón íslendingarnir sem poppa upp og hrúgast í miðbæinn þegar sólin skín, ákveðnir gleðigjafar sem fá mig til að brosa. það þarf lítið til að gleðja mig.
ég er búin að komast að því að ég á ósköp erfitt með að hætta að brosa. ég geri slatta af því á dag. svo koma reyndar nokkrir dagar í mánuði, í kringum mánaðarmót, sem ég á erfiðara með að brosa. þá fæ ég áhyggjur af peningum, finnst allt ómögulegt, frussa yfir laununum mínum og get ekki sofið. svo einhvernvegin beyglast þetta allt í gegn, reikningarnir hverfa einn af öðrum og ég get byrjað að brosa aftur. það er stundum svekkjandi að vera meðaljóna. ég hef gaman af að skrifa, en hef aldrei getað drullast til að klára eitt né neitt. ég hef ágætis menntun, en hún er samt aldrei nóg eða rétt fyrir það sem ég vil. ég hef ýmiskonar reynslu, en aldrei á réttu sviði. ég get alveg hugsað mér að taka þátt í þjóðmálum, en hef ekki alveg nógu mikinn áhuga til að fara að djöflast í pólitík. ég hef mikinn áhuga á ýmsum starfsgreinum, en kemst ekki að vegna reynsluleysis og fæ ekki reynslu vegna starfsleysis. arg spark og barf. meðalkvennskan í hámarki.
en einhverra hluta vegna er ég samt aftur farin að brosa eftir síðustu mánaðarmót svo þetta getur hreinlega ekki verið svo slæmt... eða hvað? er ég búin að gefast upp? á ég ekki betra skilið?
(best að hætta núna og draga sig aftur inn í glerkúluna þar sem allt er gott og fínt)
bros

föstudagur, maí 07, 2004

ég varð vitni að klassík í gærkvöldi þar sem ég stóð í röð í 10-11 á hverfisgötunni. klassíkin átti sér stað á milli unga mannsins sem var verið að afgreiða og ungu konunnar sem stóð fyrir framan mig í röðinni.
hún: nei hæ!
hann: já, hæ!
hún: hvað segir hann?
hann: allt gott bara en þú?
hún: bara allt fínt, langt síðan maður hefur séððig.
hann: já sömuleiðis
(smá þögn)
hún: hvað er annars að frétta?
hann: bara allt fínt svona, ert þú ekki bara hress alltaf?
hún: jújú, alltaf í stuði (hlær aðeins of stutt til að vera trúverðug í hlátri)
hann: býrðu hérna nálægt?
hún: já bara hérna beint á móti á barónsstígnum, en þú, býrðu nálægt?
hann: já, bara hérna uppi á grettisgötunni
(smá þögn)
hún: minn bara alltaf í búðinni og svona...
hann: jújú maður er að versla fyrir konuna bara
hún: já hvað er að frétta?
hann: bara allt fínt, en þú, hvað er að frétta af ****?
hún: svaka hress, var að spila um helgina og svona
hann: núúú, gengur ekki bara vel?
hún: rosalega alveg, en hjá þér?
hann: jújú, maður er bara alltaf í sama gamla
hún: einmitt, sama hér
(smá þögn)
hann: jæja best að drífa sig, konan að bíða og svona
hún: heyrðu ég labba meððér yfir götuna
hann: gott mál
(þau gengu af stað út úr búðinni)
hún: hvað er annars að frétta?........

og eftir stóð ég í röðinni og glotti.

góða helgi

fimmtudagur, maí 06, 2004

það eru ársfundir á næstunni. því fylgir mikil ljósritun, heftun, bréfaklemmun, innbinding í möppur og plastvasa, röðun og flokkun. fundargögn verða afhent viðstöddum á fundarstað.
ég get þó ekki neitað því að ljósritunarvélin er tilbreyting frá tölvunni og kennitölubunkanum mínum. mér þykir líka spennandi að fylgjast með hvaða stærð af bréfaklemmu kemur upp þegar ég sting vísi- og þumalfingri saman ofaní bréfaklemmuboxið. stundum eru þær of stórar en svo kemur fyrir að ég fæ þessar minnstu sem ná ekki utanum nema þunna bunka og þá verð ég að gera aftur. ég fæ að telja svartar möppur og ef ég er heppin eru þær ekki nógu margar og ég fæ að fara alla leið út í pennann. þá hoppar litla skrifstofuhjartað mitt af gleði og ég skokka hýr og kát út í hallarmúla.
ljósritunarvélin á til að flækja blöðin, þá segi ég ,,bréfasulta" og brosi í milljónasta skipti að þessum annars frábæra orðaleik. svo finnst mér gaman að reyna að komast að því hvort blaðið er flækt í hólfi A, B, C eða D. eða jafnvel E, en ég hef ekki enn getað fundið út hvar það er. (sem er spennandi útafyrir sig)
nú einnig þarf að ljósrita í lit með haus. alveg er það merkilegt hvað hægt er að skemmta sér yfir því hvernig bréfsefnið á að snúa í skúffunni til að textinn lendi á réttum stað.
já, það er gaman að vinna í lífeyrissjóði. ég skil hreinlega ekki hvað ég hef verið að hugsa undanfarið þegar ég hef verið að sækja um vinnu og nám út um hvippinn og hvappinn.
vanþakkláta ég.

miðvikudagur, maí 05, 2004

ég sá blindan mann ganga á vegg. ég sem hélt að blindir væru svo klókir við einmitt að fatta þegar það eru veggir fyrir framan þá. hann var ennþá með prikið undir handleggnum, sennilega ekki tilbúinn ennþá til að labba af stað, en var samt ekki alveg stopp. ég stóð inni í lyftunni sem hann var nýkominn útúr og fylgdist með honum aftanfrá. sá hann stefna á vegginn en gerði ráð fyrir þessu hindrana-skilningarviti blindra og vildi ekkert vera að móðga manninn með því að góla á hann að hann ætti að beygja til hægri. það hefði sennilega ekki verið móðgun, svona í retrospect, en hann mun sennilega aldrei komast að því hvort ég hafi snúið inn eða út í lyftunni, og þá því hvort ég hafi séð hann eða ekki. hún lokaðist áður en mér gafst ráðrúm til að hugsa, tala eða bregðast við. ég hugsa að ég hafi verið eins og spurningamerki í framan amk upp að 3ju hæð.

þriðjudagur, maí 04, 2004

semsagt... bílnum hafði verið stolið! maría og makinn ráfuðu út án þess að vita að hverju þau væru að leita. skyndilega sáu þau glitta í eitthvað í mölinni þar sem bíllinn hafði staðið. það var debetkort merkt lilju dís, fæddri þegar maría og makinn voru orðin 9 ára. varla gat hún hafa tengst stuldinum...
maría stakk debetkortinu í vasann og fór aftur inn. hún hringdi í lögregluna og var beðin um að koma á næstu stöð til þess að gefa skýrslu. sem betur fer bjó hún í næsta nágrenni við aðalstöðvar lögreglunnar því að þrátt fyrir að hafa fengið leiðbeiningar um að koma á næstu stöð, komst hún síðan að því að þar sem það var sunnudagur var engin önnur stöð opin nema aðalstöðin.
þegar hún kom á aðalstöðina voru þar fyrir tveir menn, ljóshærðir, rúmlega þrítugir og greinilega ekki enn farnir heim eftir næturskrallið. annar þeirra var greinilega danskur og þar sem maría stóð og hleraði sökum einlægrar forvitni, komst hún að því að hann var danskur sjóari sem hafði ætlað að snúa til baka til skips í morgunsárið, en komst þá að því að þar var ekkert skip. lögreglumaðurinn í afgreiðslunni hringdi nokkur símtöl og tjáði unga dananum í gegnum íslenska túlkinn að þeir hefðu orðið að fara, en hefðu skilið tvo eftir sem hefðu ekki skilað sér. maría komst síðar að því að danska skipið hefði flýtt brottför til að hjálpa báti í neyð. eftir að daninn og fylgisveinninn hurfu af braut var röðin komin að maríu. henni var vísað á bak við í herbergi varðstjóra. þar tók á móti henni miðaldra vinalegur maður í lögreglubúningi. maría var látin lýsa atburðum morgunsins, því sem hafði verið inni í bílnum og fleiru. á meðan á skýrslutöku stóð hringdi síminn. lögregluvarðstjórinn svaraði einhverju í símann og sagði svo ,,hún situr einmitt hérna hjá mér konan". maríu varð hverft við en hún átti það til að verða hissa þegar fólk kallaði hana konu. samkvæmt sjálfri sér var hún nefnilega ennþá stelpa.
þegar lögregluvarðstjórinn hafði lokið sér af í símanum snéri hann sér aftur að maríu og tjáði henni að bíllin væri fundinn. ,,en fúlt" hugsaði maría með sér ,,aldrei geta sakamál orðið spennandi í þessu smáþorpi". en hún var skyndilega rifin útúr þessum hugsunum sínum þegar lögregluvarðstjórinn hélt áfram; ,,hann fannst á innbrotsstað og þú verður að koma með okkur til að gefa skýrslu". úlala, þetta hljómaði betur í eyrum maríu. eftir stutta stund hafði hún lokið við að gefa skýrslu númer 1 og þá birtust í dyrunum tveir ungir svartklæddir lögregluþjónar, þeir voru ekki ómyndarlegir (tvær neitanir gera pósitífu), en alls ekki týpur sem maría gæti hrifist af.
hún fylgdi þeim út á bílastæðið og var vísað í aftursæti hvítfágaðrar lögreglubifreiðar. þar stakk hún upp á því við lögregluþjónana að hún myndi setja á sig bílbelti. það kom fát á drengina og játtu því að það væri sennilega góð hugmynd. maría glotti í aftursætinu þar sem hún smellti á sig beltinu.
þau brunuðu sem leið lá á bjargarstíg 5. þar var enginn á ferð og ekkert sem benti til þess að innbrot hefði verið framið. því síður var bíll maríu fyrir utan. lögregluþjónarnir ungu urðu hálf kjánalegir þegar þeir hringdu aftur niður á stöð til þess að fá að vita að þeir ættu að vera á bjarnarstíg 5. maría glotti enn í aftursætinu. þegar þau komu að bjarnarstíg 5 voru þar lögregluþjónar á stangli ásamt eiganda húsnæðisins. það kom maríu á óvart þegar hann kynnti sig sem fórnarlamb innbrotsins, en hann reyndist vera þjóðþekktur maður sem heitir óskar og er oft kenndur við skrípalæti. maría kynnti sig sem eiganda bílsins. eftir viðkynningar ákvað hún að snúa sér að farartækinu sínu. það fyrsta sem hún sá var risastór svartur einkennisklæddur afturendi sem stóð útúr bílstjóradyrum bílsins. afturendinn bakkaði út og í ljós kom risastór og rauðbirkinn lögreglumaður sem hafði verið að þefa eftir vísbendingum í bílnum. maríu var tjáð að þar hefðu fundist sígarettustubbar og blóðblettir ásamt fleiru sem hún yrði nú að bera kennsl á hvort hún ætti sjálf eða væri komið frá ræningjanum/unum. maría tók strax eftir því að allt var á rúi og stúi í bílnum, hátalararnir úr skottinu komnir frammí, geisladiskarnir hennar lágu eins og hráviði um allt og ýmiskonar rusl var hingað og þangað um bílinn. maría saknaði nokkurra geisladiska og úlpu sem höfðu verið í bílnum, en á meðal þess sem hún kannaðist ekki við var farsími, bleikur með glimmeri, dönskuritgerð með einkuninni 8, merkt sömu stúlku og átti debetkortið sem maría og makinn höfðu fundið á bílastæðinu og svo samviskusamlega afhent lögreglu, bréfsnifsi, boðskort í 21 árs afmæli dönskuritarans, lyklar og fleiri sígarettustubbar. að nánari skýrslutöku lokinni fékk maría að fara heim á bílnum sínum. hún var því fegin, en blótaði þjófnum í sand og ösku þegar hún komst að því að allt bensínið sem hún hafði varla tímt að kaupa deginum áður var uppurið. ,,skítalabbar" muldraði maría í gaupnir sér þar sem hún keyrði heim, þó fegin því að hafa fengið bílinn til baka með barnabílstólnum og kerruvagninum enn innanborðs.
tveimur dögum síðar frétti maría í gegnum utanaðkomandi aðlia að ræningjarnir hefðu náðst og að þeir væru, eins og flesta hafði víst grunað, gamlir góðkunningjar lögreglunnar.
framhald ef framhald verður.
Fozzie jpeg
You are Fozzie Bear.
You are caring and love your friends as if they
were family. For only they will put up with
your stupid jokes.

FAVORITE EXPRESSION:
"Wocka! Wocka!"
FAVORITE AUTHOR:
Gags Beasley, comedy writer

HOBBIES:
Telling jokes, dodging tomatoes

QUOTE:
"Why did the chicken cross the road?"

NEVER LEAVES HOME WITHOUT:
His joybuzzer, his whoopee cushion and Clyde, the
rubber chicken.


What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

mánudagur, maí 03, 2004

hasar á hverfisgötunni. 1.kafli.
maría vaknaði á sunnudagsmorgni. úff... hugsaði hún, skítlegt að þurfa að fara í vinnuna... en jæja, það gerist svosem ekki oft um helgar... hún lét sig leka undan sænginni niður á kalt gólfið, en stökk svo á ógnar hraða aftur undir sæng þegar bakspikið snerti ískalt plastparketið. snöggar hreyfingarnar komu blóðinu af stað svo hún stóð upp og gerði sig tilbúna til að fara í bað. hún hefði viljað fara í sturtu, en enginn á heimilinu hafði hingað til verið nógu framtakssamur til þess að hengja sturtuhengið upp eða festingu fyrir sturtuhausinn því baðkarið var undir súð og það tók örlítið meira á heilafrumurnar að hengja þetta upp undir slíkum kringumstæðum. á heimili maríu var sjaldan reynt meira á heilann en brýnasta þörf var á.
María var ekki lengi í baði. hún þvoði á sér hárið og húðina, og var ekkert að hafa fyrir því að raka á sér leggina því slíkt pjatt var löngu hætt að skipta hana máli (réttara sagt nennti hún því ekki á meðan hún hafði ekki aðgang að sturtu því henni þótti ekki fýsilegur kostur að baða sig í eigin fótleggjahárastubbum).
Að baðinu loknu setti hún ólívukrem á andlitið, ilmvatn í hálsakotið og greiddi flókana úr síðu hárinu. svo klæddi hún sig í buxur og peysu, óskaplega kasjúalt á annars heimilislegum sunnudegi. þegar hún var tilbúin til þess að leggja af stað í vinnuna varð henni á að líta út um baðherbergisgluggann sem er sá eini í íbúðinni sem snýr út að bílastæðinu og garðinum. á bílastæðinu voru bílar nágrannans en ekki litla ryðgaða toyotan sem hún og makinn höfðu keypt sér fyrir 150.000 kall í fyrra. maría gólaði á makann að hringja strax í þann sem hefði fengið bílinn lánaðan, en makinn kannaðist ekkert við að hafa lánað bílinn. eftir nokkur símtöl komust þau að því að bíllin var hreinlega ekki í láni. honum hafði verið stolið!
(til að fá framhald af þessari sönnu glæpasögu, vinsamlegast skrifið í gestabókina mína að þið hafið áhuga og þá skal ég halda áfram... og þetta kallast gestabókarskrifamútur... he he)