þriðjudagur, maí 24, 2005

æskuvinkonufundur í gærkvöldi.
gerði mér grein fyrir ósameiginlegheitum sumra ef ekki flestra okkar þegar sú ameríkuskotna spurði ,,hver er che guevara?". ég og hinn hippinn reyndum eitthvað að útskýra ,,sko hann var í byltingunni á kúbu með kastró" ,,með kastró?!, er þetta þá einhver helvítis kommúnisti?" gólaði sú strípulagða með gullúrið og plokkuðu augabrúnirnar. ,,æi hann var þarna í bíómyndinni um mótorhjóladagbækurnar" upplýsti flugfreyjan. ,,núúú...jaaaá, ætli ég verði ekki bara að sjá þá mynd" sögðu strípurnar (með fullri virðingu fyrir strípum).
ég og hinn hippinn horfðumst í ranghvolfd augu þvert yfir stílhreina og lekkera stofu innanhússhönnuðarins sem var fljót að snúa umræðuefninu aftur yfir í fæðingar og barnauppeldi, enda ólétt sjálf í augnablikinu.
kvöldið leið áfram inn um eitt og út um hitt án þess að spennandi umræðuefni kæmu fyrir nema í þá stuttu stund sem ég gat skemmt mér yfir spjalli um þá kúkafýlu sem gýs uppúr sérstökum amerískum kúkableyjuruslatunnum, séu þær ekki tæmdar daglega.
svo eru víst til bleyjur í amríkunni sem gefa frá sér góða lykt sem yfirgnæfir kúkafýluna.

svona hafa sumir öðruvísi áhugamál en aðrir. o sei sei...

Engin ummæli: