sunnudagur, apríl 13, 2008

stundum þegar ég hitti sumar gerðir af fólki fæ ég á tilfinninguna að ég sé að gera eitthvað vitlaust. þá finnst mér ég fara alltof sjaldan á hárgreiðslustofu (fer að meðaltali einu sinni á ári), eiga alltof gömul föt (á t.d. blússu sem lillý frænka gaf mér þegar ég var 12 ára) og fara alltof sjaldan í utanlandsferðir með vinnunni eða í skvísu-verslunarferðir (hef reyndar farið í hvorugt). mér finnst ég líka lifa alltof óheilbrigðu lífi, borða of mikið og of óhollt og í þokkabót finnst mér ég vera algjör eymingi og letingi. í ofanálag upplifi ég mig sem kærulausa móður, lúða í heimilishaldi og matargerð og algjöran fávita þegar kemur að innanhúshönnun. já og svo held ég að heimilið mitt sé kaotískur ruslahaugur. ekki má gleyma að ég veit voða lítið hverjir eru hverjir sem voru hvar og fer afar sjaldan á skemmtistaði bæjarins.
í panikkkasti eftir smá sjálfsálitshrap um daginn rauk ég á hárgreiðslustofu á föstudaginn og lét sparsla í gráu hárin og gera mig aðeins gellulegri um hausinn. í gær tók ég til heima hjá mér og í dag rölti ég svo um kringluna og gerðist svo djörf að splæsa í rauða skó og eitthvað annað smotterí. keypti reyndar eins og alltaf föt sem bera vinstrisinnun mína utaná sér, held ég. ég myndi amk sennilega ekki fá vinnu í fjárfestingafyrirtæki svona klædd. ekki það að ég sé nokkuð að leita að vinnu í fjárfestingafyrirtæki...
nema hvað.... það er fokdýrt að vera að bera sig svona saman við rangan hóp.

Engin ummæli: