sunnudagur, júní 22, 2008

meiri helgin sem þetta hefur nú verið. meiri helgin. svei mér þá.
byrjum á byrjuninni...
á föstudaginn gerði ég ekki neitt sérstakt. hann er þar með úr leik.
en í gær hinsvegar. í gær já. förum nánar útí það.
ég var semsagt vakin snemma af síðburði sem heimtaði að fara til vinkonu sinnar, vegna þess að vinkonur eru í dag algerlega málið. nú nú svo ég rölti auðvitað með barnið, því hver vill ekki fá frí frá börnunum sínum? frumburðurinn svaf vel framundir hádegi og bróðursyni makans, þessum 19 ára, var ruslað af stað í vinnu. bretti mín þá upp ermar og skálmar og hófst handa við að ráðast á ruslahaug þann sem heimilið var orðið sökum vanrækslu og almenns aulaskapar.
og svo þreif ég mig til blóðs. ég endurinnréttaði eldhúsið mitt, færði húsgögn fram og tilbaka og breytti hlutverkum þeirra. nú og svo henti ég drasli og rusli í tonnatali og setti svo punktinn yfir i-ið með því að skúra. í fyrsta sinn síðan við fluttum hingað. ekki segja nokkrum manni frá þessu.
þar sem við eigum engar skúringagræjur fóru skúringarnar þannig fram að ég skellti sápubleyttu handklæði á gólfið (ónýtu handklæði semsagt), og svo skellti ég mér úr sokkunum og skautaði á handklæðinu um öll skúmaskot heimilisins. ljúfur ilmur hefur leikið um vit mín alla tíð síðan.
þegar ég var búin að gera alveg skúffufínt heima hjá mér var ég komin með illa svíðandi sár á löngutöng hægri. og úr henni vætlaði blóð. og mig svíður ennþá. svo að það má semsagt segja að ég hafi þrifið mig til blóðs.
nema hvað. líður nú og bíður og ekkert kemst yfir mig nema fuglinn fljúgandi.
svo kom kveld og ég og bergur vinkona mín ákváðum í tilefni dagsins að fara á fyllerí. ekki út að djamma eða út á lífið eða á pöbbarölt eða í bæinn. nei. á fyllerí. gamalt og gott orð sem má ekki detta úr notkun.
við skulum alveg sleppa hlutanum um hvað við penu húsmæðurnar köllum fyllerí, en sá skratti er varla uppí nös á hamstri. en við þóttumst samt vera voðalegar töffurur.
nema hvað. við semsagt fórum í mannfræði-vettvangsrannsókn á dubliners á meðan við vorum að bíða eftir að uppáhalds hljómsveitin mín, fm belfast, stigi á svið á organ. þegar tónleikastundin loksins rann upp var fyllerísfélagi minn sprunginn á limminu og tiplaði heim. þar sem ég er harðnagli hélt ég áfram og fór og hoppaði og dansaði og skrækti á meðan systir vor kær söng og slammaði sem væri hún vitfirrt. mikið assgoti var gaman.
núnú... eftir tónleikana röltum við systur heim til mín þar sem ég helti rúmlega hálfri hvítvínsflösku í eitt glas (galdraglas), fyrir þá litlu og fékk mér sjálf öl. svo sátum við bara og spjölluðum eins og systrum einum er lagið og er það ekki í frásögur færandi svosem. kemur þá ekki makinn heim eftir skemmtistaðaferð með félögum sínum, rýkur inn á bað og heyrist svo ekki sagan meir. mig grunaði að hann væri að gubba. sagðirðu gubb?.....
en við nánari athugun kom í ljós að kauði hafði á einhvern óskiljanlegan hátt endað í miðjum hópslagsmálum og svo veit hann ekki neitt meir nema það að vinir hans segja að þar sem hann var að reyna að aðskilja einhverja tvo gaura hafi sá þriðji komið aftanað honum og kýlt hann niður og svo hafi einhver dundað við að sparka í hann.
hann er með brotið bein í höndinni, krambúleraðan olnboga, sár á skallanum og nefinu, og svo fáum við að vita eftir 10 daga þegar bólgan er hjöðnuð hvort hann sé með brotið nef.
ég er rosalega fegin að hann var ekki að gubba. hann hefði alveg rústað hreingerningarsítrónuilminum!

Engin ummæli: