þriðjudagur, maí 25, 2004

ég sé ekkert blogg í dag. blogspot kerfið er eitthvað að klikka. djöh.
en hvað um það.
ég fór með síðburðinn á bókasafnið í gær. hún er sko rúmlega eins og hálfs og mikill traktor. ég var voða pen mamma og sagði uss, við skulum hvísla núna, sjáðu bókina! viltu setjast niður og skoða bókina? vaaaá hvað þetta er flott kisa í bókinni... sestu hérna elskan, sittu kyrr, usss... hvísla. en nei nei, hún hafði eirð í sér til að skoða hverja bók í uþb. 11 sekúndur og þegar ég gafst upp á að dæla í hana bókum fór hún að rölta um. entist aðeins við að skoða sig í spegli, en ég dró hana í burtu eftir að ég fékk frekar áberandi augnaráð frá starfskonu þarna (væntanlega þeirri sem sér um að pússa speglana). þá ákvað ég að prófa að leyfa dótturinni bara að ráfa um og sjá til hvort hún yrði ekki róleg við það. ég snéri mér aðeins að bókunum, en augnabliki síðar sá ég hana þar sem hún kom brunandi á móti mér með kerru í eigu safnsins. hún var voða stolt með kerruna, en manninum í afgreiðslunni fannst þetta greinilega ekkert fyndið eða krúttílegt svo ég reyndi hvíslandi að sannfæra hana um að kerran væri ekki spennandi. keððan keððan! æpti hún og ég dreif mig með hana að einhverskonar ljósmyndasýningu á vegg þar sem var mynd af litlu barni. sjáðu litla barnið! hvíslaði ég og hún gleymdi kerrunni. svo þegar allt virtist vera fallið í ljúfa löð og hún farin að einbeita sér að því að endurraða bæklingum frá tryggingastofnun sem lágu þarna í rekka, snéri ég mér við og reyndi að einbeita mér að bókunum sem voru ástæða þess að ég var stödd á bókasafni á annað borð. mér telst svo til að friðurinn hafi enst í tæpa mínútu, en þá heyrði ég litla (en kraftmikla) rödd sem undirmeðvitund mín þekkti svo vel þrátt fyrir tilraun meðvitundarinnar til afneitunar. þessi rödd var greinilega að prófa sig áfram með bergmál borgarbókasafnsins við tryggvagötu, en þá gafst ég upp. ég greip hana með öðrum handleggnum og dró kerruna hennar á eftir mér beinustu leið út á götu. öskrin í henni yfir því að vera rifin svona út af þessum skemmtilega stað lokuðust loksins úti þegar rennihurðin small saman fyrir aftan mig. ég var orðin sveitt.ég sá ekki betur en að öðrum gestum safnsins hefði létt við skyndilega brottför okkar mæðgna.
við sumar aðstæður er ég eina manneskjan sem þykir barnið mitt vera fyndið og krúttlegt.
og ég hef ekkert að lesa....

Engin ummæli: