þriðjudagur, júní 01, 2004

í gær hljóp ég í hringi á meðan frumburðurinn synti um, eiginmaðurinn réðst á girðingu og síðburðurinn át bílastæði. á sama tíma var faðir minn mállaus, móðir mín lystarlaus og afi minn tannlaus. systir mín eignaðist skipulagðan hest og amma stakk af á svipuðum tíma og nágranninn talaði, píparinn varð batteríslaus og snakkið brann. sem minnir mig á að ég þarf að tékka á reikskynjurunum því þeir gáfu ekki frá sér eitt einasta píp.

ef ofangreindir atburðir eru settir í annað samhengi má sjá að ég er að reyna að notfæra mér orð í þeim tilgangi að láta gærdaginn hljóma meira spennandi en hann myndi hljóma á annars venjulegu frásagnarmáli. skoðum muninn:

í gær fór frumburðurinn í sund með sigga vini sínum. nágranninn bað makann um að hjálpa sér að rífa niður grindverkið sem er á milli húsanna, og var það gert með kúbeini. síðburðurinn, sem er á ansi erfiðum aldri rottaðist um bílastæðið í þeim tilgangi að troða munninn á sér fullan af steinum, en ég hafði ekki undan við að elta hana og tæma á henni túlann.
pabbi er í grikklandi og talar ekki grísku. hann ætti þó að bjarga sér á enskunni. svo talar hann sænsku ef í hart fer. mömmu var boðið í mat en hún var ekkert alltof spennt fyrir því. afi svaf vært með góminn í glasi þar sem hann jafnaði sig eftir veikindi. systir mín keypti sér skipulagningarbók með mynd af hesti (geri ég ráð fyrir) sem hún er mjög ánægð með, og amma er á leið til útlanda. nágranninn hefur verið eitthvað úrillur undanfarið, en í gær heilsaði hann og spjallaði aðeins um orkuveituna og annað spennandi. ég hafði beðið vin okkar sem er pípulagningamaður um að koma við og kíkja á ofn sem er að stríða okkur, en hann komst því miður ekki og um leið og hann tilkynnti mér það varð gemsinn hans batteríslaus. makinn ákvað eftir girðingarniðurrifið að gæða sér á einhverju nýju snakki sem honum hafði verið gefið, hann last 3 mínútúr á pakkanum (þetta er sko örbylgjusnakk) og skellti því inn. svo fór minn og pissaði, skellti sér í náttbuxur og settist inn í stofu til mín að spjalla. eftir einhverja stund sagði hann ,,hefurðu tekið eftir því hvað 3 mínútur eru lengi að líða?". eftir nokkrar heimspekilegar vangaveltur um upplifun hans á tímanum heyrðist bíp í örbylgjuofninum. hann rölti rólegur inn í eldhús en svo heyrðist hóst og púff og öhh og ðaahhh og úbb og æ. mikill reykmökkur breiddist um íbúðina en við rukum til og opnuðum alla glugga og dyr til að lofta út. reykskynjaraskrattinn sagði ekki múkk.
að dramanu loknu (og eftir að makinn fór og sótti snakkpokann sem hann hafði hent í örvinglan út um gluggann og datt næstum því á hausinn á nágrannanum sem er rétt nýhættur að vera í fýlu útí okkur), þá tók ég mig til og las leiðbeiningarnar á pakkanum. þar stóð:
unaðslegt snakk á innan við 3 mínútum!! stingið pokanum í örbylgjuofn og stillið tímann (svo kom listi yfir nauðsynlegan tíma miðað við styrk ofnsins). takið pokann út, hristið hann, snúið honum við og stingið aftur inn í jafn langan tíma.
makinn las ...bla bla bla... 3 mínútur!!!... bla bla...

þetta snakk á ekki eftir að slá í gegn.

Engin ummæli: