mánudagur, júní 28, 2004

hananú. ég toppaði allt draslið um helgina. það hlaut eitthvað að vera. bölvaðar hormónasveiflur.
frumburðurinn er nýskriðinn í hús eftir eyjaferðina miklu. ég er ekki búin að hitta hann, en get ímyndað mér svitastorknu fótboltasokkana og annað sem ég á eftir að draga uppúr töskunni hans. ég sá nefnilega á myndum frá mótinu að blessaðir drengirnir voru í sama gallanum alla ferðina. (vissi að ég hefði ekki þurft að pakka svona miklu niður)
annars er það að frétta að við makinn sátum inni alla helgina yfir síðburðinum sem fékk sér hita og einhverja bölvaða vellu. þá var um lítið annað að ræða en vídeó og nammi á allt heila klabbið. svo var lítið sofið vegna þess að þessi kríli eru einhverra hluta vegna alltaf verst þegar ég hef mesta þörf fyrir ró og frið. í dag er ég þessvegna með fagurbláa bauga undir augum og frekar slappt augnaráð. er samt í assgoti fínu skapi. gæti haft með það að gera hvað það er ágætt að sleppa útúr húsi eftir svona veikindatarnir.
nema hvað, í gær var mótmælaganga í mexíkó. gengið var um allt land, en í höfuðborginni mættu víst vel ríflega 2 milljónir og allir hvítklæddir. Þetta var borgaraleg hreyfing sem er að mótmæla aumingjaskap yfirvalda í baráttunni gegn mannránum, morðum og almennu óöryggi landsmanna. það er vonandi að eitthvað verði gert.

ef ég ætti 10 óskir myndi ég óska mér eftirfarandi:

1. að ég og makinn gætum unnið við það sem okkur þykir skemmtilegt að gera og haft ágætlega uppúr því.

2. að glæpum myndi fækka og engin óöryggistilfinning fylgdi því að vera í öðrum löndum.

3. að flugmiðar yrðu muuun ódýrari.

4. að enginn sem ég þekki (including myself) verði nokkurntíman veikur eða þyrfti að deyja.

5. að ég ynni í víkingalottó.

6. að ég gæti lært ein 10 tungumál í viðbót.

7. að ég dytti allt í einu í ofsalega gott líkamlegt form (alveg áreynslulaust) og festist þannig það sem eftir er.

8. að ég fengi tilboð um að skrifa kvikmyndahandrit, bók eða handrit að sápuóperu, og gæti gert það vandkvæðalaust með góðum árangri.

9. að bíllinn minn væri sjálfskiptur að því leyti að hann skipti sjálfur um allt sem hann vantaði. bensín, olíu, dekk, kúplingu...osfrv.

10. að bandaríkin og allt sem þeim fylgir myndu læra hógværð og hættu að bossast með okkur hin.

ef þessar óskir rætast, allar, sumar eða jafnvel bara ein, verð ég með kátari manneskjum allra tíma.

óskir óskast...

Engin ummæli: