miðvikudagur, júlí 14, 2004

þegar ég var lítil átti ég plötu með míní-pops. ég kunni ekki ensku en kunni samt textann þannig að ég gat sungið með. skildi ekki baun í því sem ég var að syngja en var samt alveg viss um að þetta væri nokkuð rétt hjá mér. ,,æ ló wokenwol, sjugganoðadæm ina tjúbos beibí.." ég klæddi mig í gallajakkann með marglitaða stjörnumynstrinu, bretti upp jakkaermarnar, tróð skálmunum ofaní sokkana (til að ná fram stretch-buxna-effektinum) og túberaði hárið með vatni. svo notaði ég hárburstann sem hljóðnema og með hann í hönd dansaði ég og söng fyrir framan stóra spegilinn í stofunni (bara þegar enginn sá til). þá var ég aðal gellan í míní-pops. ég átti mér endalausa dagdrauma um hvernig það yrði þegar ég yrði loks uppgötvuð og fengin til að syngja inn á næstu plötu.

ég man líka eftir því að hafa horft á miss world keppnirnar. þegar þær voru í gangi fór ég stundum í sundbolinn minn og vínrauðu háhæluðu skóna hennar mömmu. ég togaði sundbolinn vel upp á hliðunum svona eins og þær voru með í keppninni og svo labbaði ég og stillti mér upp, óskaplega fegurðardrottningalega fyrir framan stóra spegilinn í stofunni. þetta var ekki spurning um ef, heldur hvenær ég yrði nógu stór til að verða beðin um að taka þátt og sigra miss world. ég ætlaði sko ekki að grenja þegar nafnið mitt yrði lesið upp.

ég var á tímabili að æfa sund. á þeim tíma voru einmitt ólympíuleikar í gangi. ég horfði á leikana og dáðist að glamúrnum sem fylgir því að fá að vera í skrilljónmanna skrúðgöngu og á opnunarhátíðinni. ég sá mig fyrir mér þar sem ég gengi inn á leikvöllinn, fremst í flokki, með íslenska fánann og allir myndu veifa mér á móti þegar ég veifaði. svo ætlaði ég nottlega að sigra allar mínar keppnir og verða þjóðhetja. ég átti það til að æfa fyrir framan stóra spegilinn í stofunni, hvernig ég myndi stíga upp á verðlaunapallinn og beygja mig niður til að taka á móti gullmedalíunni. mig minnir að ég hafi reiknað út að ég yrði nógu gömul til að taka þátt í ólympíuleikunum árið 1992, nema ef ég yrði svo rosalega góð að ég fengi undanþágu og gæti tekið þátt árið 1988.

fyrir framan stóra spegilinn í stofunni hef ég líka æft mig í því að ganga eftir rauða dreglinum á óskarsverðlaunaafhendingunni sem ég ætlaði að koma á, sjá og sigra eftir óviðjafnanlegan leik minn í fallegustu bíómynd allra tíma. gott ef ég var ekki búin að velja dress (og vínrauðu háhæluðu skóna hennar mömmu).

í dag er enginn spegill í stofunni minni. ég fékk aldrei tilboð um að syngja inn á plötu, mér var aldrei boðið að taka þátt í fegurðarsamkeppnum eða fyrirsætubransanum, ég náði engum frama í sundinu og það eina sem ég hef leikið í bíómynd mætti skrá á spjöld sögunnar sem ein sú versta frammistaða í lélegustu mynd allra tíma. (já, ég hef leikið í bíómynd...believe it or not... hahahaha.....þeir sem ekki vita mega giska)

spurning um að sætta mig við orðinn hlut og vera ánægð með að vera ágætis manneskja í ágætis starfi,
eða fara að æfa mig í að ávarpa þjóðina...
ég þarf að fara að redda mér spegli.

Engin ummæli: