fimmtudagur, september 02, 2004

júllírú. þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem mánaðarmót hafa runnið upp og heimabankinn minn lýsist ekki upp eins og rauð jólakúla. í dag eru tölurnar grænar og það er fallegt á að líta. hugur og hjarta halda takti, andardrátturinn er ekkert þyngri en venjulega og mig langar ekki til að gráta.
samt var ég næstum því farin að gráta áðan. ég var sko að þvælast yfir bílastæði hagkaupa í skeifunni þegar ég sá hann. labbandi um áttaviltur og ringlaður með annan vænginn lafandi niðurmeð líkamanum. hann var kannski ekki engill en hann var samt hvítur og vængjaður. þessi týpa sem fer í taugarnar á mér þegar ég er að reyna að gefa öndunum brauð og þeir koma í hópum fljúgandi og gargandi og stela brauðinu af andarkrílunum. en þessi mávur átti bágt (er ekki annars v í mávur?).
vængbrotnir fuglar og önnur lasin dýr og ósjálfbjarga verur valda þjáningu í mínum hjartarótum.
nema hvað,
þarna stóð ég eins og kjáni á bílastæðinu og reyndi að láta mér detta í hug ráð til að bjarga vængbrotna greyinu. ekki gat ég vafið honum inn í peysuna mína og tekið hann heim til hjúkrunar vegna þess að í fyrsta lagi hefði hann ekki treyst mér og hefði örugglega barist um á hæl og hnakka, í öðru lagi er ég hrædd við dýr (þó svo að ég vorkenni þeim), í þriðja lagi veit ég ekkert hvernig maður læknar vængbrotna máva og í fjórða lagi treysti ég fuglum ekki fyrir því að vera ekki með lús.
já og svo skíta þeir út um allt.
þar sem ég gat ekki hugsað mér að taka hann til fanga sá ég ekki hvernig ég ætti að fara að því að koma honum til dýralæknis, og svo veit ég hvort eð er ekki hvernig dýralæknir hefði tekið heimsókninni...og hvert yrði svo framhaldið á þeirri heimsókn?
ég var eiginlega skák og mát.
yfirkomin af vorkunn og hryggð, en algerlega hugmyndasnauð með lausnamálin.
loks fékk ég hugmynd. ég varpaði ábyrgðinni (sem ég hafði gert að minni eigin) yfir á yfirvaldið. ég hringdi í 112, fékk samband við lögregluna og tilkynnti þeim að það væri óskaplega dapurlegur vængbrotinn mávur á bílastæðinu við hagkaup í skeifunni.
manninum fannst ég hvorki fyndin né krúttleg en lofaði þó að senda bíl ef hann sæi sér það mögulega fært. það hljómaði þó ansi hæpið enda lögreglur bæjarins uppteknar við að leysa glæpi, elta þjófa og ræningja og góma róna við hlemm.
ég þakkaði pent fyrir hönd veika fuglsins og skellti á.
svo leit ég í eitt síðasta skipti á litla greyið og hugsaði ,,ég vona að þér gangi vel litli minn...ég gerði þó að minnsta kosti ekki ekki neitt fyrir þig".
svo snéri ég mér við og hélt áfram leið minni.
nokkrum skrefum síðar fékk ég sting af dapurleika.

spurning hvort vegi þyngra, gleðin yfir að geta borgað alla reikningana eða sorgin yfir óráðnum örlögum vængbrotna fuglsins.

spurning...

Engin ummæli: