fimmtudagur, október 14, 2004

hreint út sagt óþolandi. alltaf þegar ég er nýkomin úr baði þá gerist hvað? jú, þá þarf ég að kúka. alltaf þegar ég er nýlögst í rúmið þá gerist hvað? jú, þá þarf ég að pissa. svo virðist allur taugatrekkingur fara beint í iðrin á mér og ég fæ illt í magann. einu sinni í mánuði fæ ég líka bumbu og bólur og þá fer sjálfsálitið alveg niður úr öllum hellum. mikið er ég eitthvað félagsmótuð.
líkamsstarfsemin hefur gríðarleg áhrif á sálartetrið og væs versa. eins og tildæmis áðan þegar ég komst að því að kaup á einbýlishúsinu jafngiltu því að smeygja stórri feitri skuldasnöru um hálsinn á mér og ég ákvað að leggja ekki útí slíkar raunir. eftir ákvörðunartöku og símtöl fékk ég svo heiftarlega í magann að ég held hreinlega að ég hafi svitnað köldu.
kannski eru þessi líkamlegu einkenni ventillinn fyrir fólk eins og mig sem er haldið krónískri stóískri ró. sumir tappa af með því að öskra og reiðast. aðrir tappa af í einrúmi inni á klósetti.
það er flókið að vera tilfinningaleg lífvera. nú efast ég um að ánamaðkar fái ræpu af stressi eða leggist í þunglyndi þegar fer að hausta. reyndar gruna ég þá um að vera suicidal vegna þeirrar áráttu að skríða upp á gangstéttir þegar bleytan leyfir og verða svo fyrir ofþurrki og fótgangendum og hjólum og bifreiðum og svo framvegis.
ég gef þeim þó hagnað efans (benefit of a doubt) og vona að þeir séu bara of vitlausir til að vita betur. hver veit nema ánamaðkar í sjálfsmorðshugleiðingum hugsi mér þegjandi þörfina þegar risastóra ég plokka þá upp með priki og skutla út í gras.
hver veit...

Engin ummæli: