föstudagur, apríl 15, 2005

hananú, nú hafði ég á tilfinningunni að ég hefði verið rosa dugleg að blogga í morgun og væri með þessa fínu færslu á síðu vorri. en þá mundi ég að ég hafði bara skrifað hana í tölvupóstsbréfi. skrambakornið.

sem minnir mig á það að ég er all hrottalega stífluð í hægri nös. makinn tjáði mér í gærkvöldi að legðist ég á vinstri vanga myndi stíflan jafnast út sökum þyngdarafls og þar af leiðandi yrði hún mér til helmingi minni ama. eyddi ég nóttu síðastliðinni á vinstri vanga í von um horstíflujöfnun. vaknaði ég í morgun með sömu stíflu sömu megin í sömu nös sömuleiðis. nú er ég með rauða nös eftir klósettpappírsnudd (því ekki er mjúka pappírnum fyrir að fara hér á vinnustað), og hef nýlokið við tvær klukkustundir við snýtingar rauðu nasarinnar fyrir framan 10 ungmenna hóp. eftir tíu mínútur mun ég hefja aðra tveggja tíma lotu en í þetta skiptið fyrir framan umþaðbil tuttuguogátta ungmenna hóp. sá hópur er all-krítískari og þyngri í vöfum, góður til að létta lund svona rétt undir helgina, og get ég því eigi beðið óspennt eftir að verða þess heiðurs aðnjótandi að reyna að halda horinu inní andlitinu á mér í heila tvo tíma. eða ég gæti náttúrulega snýtt mér í þeirri veiku von að sviðinn hverfi og nefið á mér rifni ekki af í sársauka og húðþurrki af bréfþurrki.

helbítis.
sniff...

Engin ummæli: