fimmtudagur, desember 15, 2005

einhverra hluta vegna var ég að hugsa um aldur í gærkveld þar sem ég lá og reyndi að sofna. hvimleiður vani að hugsa þegar líkaminn er að reyna að sofna... nema hvað, ætli ég hafi ekki verið að hugsa um aldur sökum þess að í gær gerðist sá merkisatburður að karl faðir minn gerðist sextugur. þá var ég semsagt að velta því fyrir mér að hann væri kominn samkvæmt íslensku tímatali á sjötugsaldur en það þykir mér einhverra hluta vegna hljóma of gamalt miðað við hvað hann er alls ekki gamall maður. svo hélt ég áfram að hugsa og mundi að ég sjálf telst núna vera á fertugsaldri, sem er líka alltof mikið hugtak fyrir svona litla stúlku eins og mig. nú og enn héldu þankagangar mínir áfram og eftir mikil brot í heila reiknaðist mér svo til að ég eigi son á tvítugsaldri og dóttur á tugsaldri.
sonur minn er nú hreinskilnislega sagt ekki með þroska til að teljast til tvítugsaldurs frekar en ég er með þroska til að vera á fertugsaldri frekar en pabbi er lítur út fyrir að vera á sjötugsaldri. hann er sennilega þroskaðri en ég en ég tel mig semsagt ekki hafa þroska til að segja til um þroska þeirra sem eru ofar mér í aldri þar sem ég hef engan samanburð innan þess aldurshóps við sjálfa mig.
nema hvað.... niðurstaða mín er eiginlega sú að ég tel aldurstímatal íslendinga vera niðurdrepandi og sjálfsmyndartruflandi og frekar svona glasið er hálf tómt eitthvað heldur en hitt.
leyfist mér hér með að leggja til að tugirnir verði taldir eftir því sem þeim er lokið og þar með á ég dóttur sem er barn, son sem hefur nýverið fyllt sinn fyrsta tug, er sjálf á þrítugsaldri og á móður á fimmtugsaldri og föður á sextugsaldri.
það hljómar einhvernvegin réttara.

Engin ummæli: