ég er eitthvað voðalega löt og þreytt á að skrifa. skil samt ekki alveg þreytuna því að það er asnalegt að vera þreytt á einhverju sem ég er ekki að gera hvort eð er. hvaðan kemur þreytan? ég er alveg á nippinu með að hætta að ætla að verða rithöfundur þegar ég verð stór. finn það einhvernvegin ekki gerast...
nema hvað, við erum nýskriðin í hús eftir tæpra tveggja vikna ferð um norður-héruð landsins. komum meðal annars við í kirkjugarði í pínulitlu þorpi sem heitir jiquilpan (lesist híkílpan), þar sem við lagfærðum gröf langalangalangafa barnanna minna, en hann kom hingað frá frakklandi fyrir löngu síðan og settist hér að eftir að flýja stríð í evrópu. í gegnum internetkraftaverkið voru franskir ættingjar þessa manns að komast að afdrifum hans í fyrsta skipti síðan hann gufaði upp á tvítugsaldri. fjölskyldan hélt alltaf að hann hefði verið drepinn en veit semsagt fyrst núna að hann skildi eftir sig risastóran ættlegg í mexíkó. magnaður andskoti.
nú og svo borðuðum við mikið af góðum mat og svei mér þá ef ég hef ekki bætt einhverju utaná mig af öllu þessu áti. ég er að hugsa um að skella sökinni á hann fidel. fidel er sko þjónninn sem afgreiddi okkur alltaf í morgunmatnum á hótelinu í guadalajara. svaka duglegur við að dæla í okkur eggjum og tortillum og ávöxtum og djús og kókómalti og chilaquiles (lesist tsjílakíles), sem eru nokkurskonar nachos í rauðri sósu með sýrðum rjóma og rifnum osti og er oft borðað með eggjum í morgunmat hér á bæ. nema hvað... fyrir utan hvað maðurinn var duglegur við að dæla þá má ég til með að skrásetja tilveru hans hér með vegna þess að hann var ein af þessum ókunnugu mannverum í veröldinni sem vekja hjá mér óútskýranlega væntumþykju, ef ekki hálfgerða móðurtilfinningu. (skítt að ég skuli ekki hafa tekið mynd...)
fidel er semsagt maður, tja...á fimmtugsaldri. lágvaxinn og hokinn með stutt sleikt svart hár og við þau tækifæri sem ég sá hann (semsagt í vinnunni), klæddur í svartar buxur, hvíta skyrtu og svart vesti. fidel er með lítil svört gleraugu sem eru ábyggilega 4 sentimetra þykk, enda sýndist mér hann vera hokinn af því að reyna að sjá. hann er alveg eins og teiknimyndamoldvarpa í framan og er haldinn einhverju óræðu en um leið indælu krónísku brosi. það er ekki stórt bros en það glampar á eitthvað í augunum á honum og hann er allt annað en alvarlegur á svip. svona svolítið eins og kotroskin moldvarpa í vesti. mig langaði hreinlega að knúsa hann, stinga honum í vasann og fara með hann heim sem minjagrip.
en allavega, ef þið eigið einhverntíman leið hjá carlton misión hótelinu í guadalajara í mexíkó skulið þið endilega skreppa í morgunmat og setjast innst í salinn. þá munið þið hljóta þann heiður að kynnast einum af okkar yndislegu sam-jarðarbúum, honum fidel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli