miðvikudagur, apríl 01, 2009

ofsalega er allt dramatískt um þessar mundir. það er dramatík heima, það er dramatík á kennarastofunni, það er dramatík í sjónvarpinu, það er dramatík úti í bæ og það er dramatískt veður. af allri dramatíkinni er ég orðin dofin. haldin dramatíkurdoða. þetta er allt orðið að risastórum hnútum sem sitja pikkfastir í öxlunum á mér og valda verkjum.
dramatískum verkjum.

ég er ekki mikið fyrir dramatík. ég kýs frekar að ræða hlutina, útskýra og fá útskýringar, fyrirgefa og vera fyrirgefið. mér er illa við að velta mér uppúr vandamálum og mér er illa við að vera gerð að vandamáli þegar ég leita einmitt statt og stöðugt að andstæðu vandamálanna. mér finnst gott að hreinsa andrúmsloftið, ræða málin, hafa allt á hreinu og fá loks tækifæri til að hlæja að sjálfri mér og því sem þótti svo alvarlegt. hlutirnir eru nefnilega lang oftast ekki eins alvarlegir og þeir virka og hljóma þegar þeim er skellt framaní mann. sé tímanum gefið færi á að gera sýnina skýra á ný sést yfirleitt að þetta hefði sennilega ekki þurft að vera svona mikið mál. það hefði kannski verið hægt að glotta að þessu. jafnvel hlæja.

nú myndi ég hlæja væri ég ekki dauð.

Engin ummæli: