nú er ég semsagt stödd á milli jóla og nýárs.
þetta hefur allt gengið skrambi vel. pakkaflóðið kæfði börnin á aðfangadag og til að bæta bleiku ofaná rautt mætti mexíkanski jólasveinninn með pakka á aðfaranótt jóladags. börnin mín heppin að græða eitt stykki jólasvein bara af því að ég valdi mér svoleiðis maka. sem er gott og blessað.
við erum búin að fara með gestina okkar í nokkrar sundlaugar og í augnablikinu eru þau í sinni annari ferð í lónið bláa sem þeim þykir svo unaðslegt og æði. ég sjálf er ekki eins hrifin, enda enn að reyna að lagfæra á mér hárið eftir síðustu ferð.
nú og við bökuðum og skreyttum piparkökur og eyddum um sex klukkustundum í smáralind og öðru eins í kringlunni og á laugavegi. mig langar ekki aftur í smáralind í heilt ár eftir þennan skammt.
venjulega þegar ég hef átt leið í verslunarklasa þesskonar hef ég einbeitt mér að því að klára þau verkefni sem ég hef einsett mér að leysa í þeim búðum sem ég þykist þurfa að heimsækja. svo er ég farin heim. tekur yfirleitt ekki meira en rúman klukkutíma í mesta lagi.
sagan er önnur þegar ferðast er með kaupóðri lítilli útlendingu sem þykir allt æðislegt og frábært og spennandi og fallegt sem hægt er að kaupa, enda hvíld frá þreyttu búðunum heima í mexíkó. þegar þessi litla kona er á landinu drattast ég inní búðir sem ég hef aldrei á ævinni heimsótt og skoða hluti sem ég hefði annars aldrei séð, enda fullt af tíma til að drepa á meðan beðið er eftir kaupakonunni. það var ekki fyrr en undanfarna daga sem ég hef í raun séð allt það sem verslunarmiðstöðvarnar og laugavegurinn hafa uppá að bjóða. og þá meina ég allt.
hún er hörku búst fyrir efnahag þjóðarinnar, sérstaklega þar sem hún gleymir stundum að fá tax-free miðann eða hefur týnt kvittununum áður en hún dregur mig með sér aftur í búðirnar til að fá endurgreiðslumiða sem hún gleymdi.
maðurinn hennar og mágur minn ætti skilið þolinmæðiverðlaun nóbels.
það góða við þetta alltsamant er þó skemmtilegur félagsskapur og það hvað hún er fjári gjafmild...hehehe.... börnin mín og við höfum verið að eignast hluti sem ég persónulega hefði aldrei tímt að kaupa, en ég er eins og skrooge gamli við hliðina á blessaðri stúlkunni. samt er ég bara hagsýn að eigin mati, ekki nízk. (með zetu)
eins gott að hún les ekki íslensku....muahahahahahaha......
Engin ummæli:
Skrifa ummæli