í gær var einn af lengri dögum ævi minnar. hann byrjaði klukkan 4 um morguninn eftir tæpra 4ra tíma svefn. þá var góssinu okkar staflað uppí flutningabíl og þegar húsið var tómt var keyrt af stað. fyrst keyrðum við til mexíkóborgar, en þá má bæta því við að deginum áður höfðum við keyrt til borgarinnar og aftur tilbaka um kvöldið. í borginni skildum við eitthvað af dóti og tvö börn eftir hjá tengdaforeldrunum (börnin höfðum við reyndar skilið eftir kveldinu áður). svo keyrðum við hinumegin útúr borginni og alla leið niðrað sjó, eða til hafnarborgarinnar veracruz. það tók okkur eina 4-5 tíma og ég var komin með góðan massívan nálasting í rassinn þegar á áfangastað var komið. í veracruz borðuðum við á hinum fræga stað la parroquia, sem þið ættuð að kannast við ef þið hafið komið til veracruz. veracruz er nokkuð karabísk í útliti, milljón manna bær, og þangað fara ameríkanar að taka upp bíómyndir sem eiga að gerast á kúbu. þetta er víst það næsta sem þeir komast og bærinn er mjög kúbulegur í útliti. líka svolítið puerto ricolegur en fólk er víst almennt betur að sér í kúbu.
nema hvað, eftir að hafa borðað mat með flutningaköllunum tveimur kom rafael, tengiliðurinn okkar og kunningi síðan við bjuggum í cancun (fyrir löööngu síðan), og tveir félagar hans sem eru tollarar og skipaeitthvað. þeir tóku við peningunum okkar og pappírum og hoppuðu svo uppí bíl með okkur og sögðu flutningagaurunum að fylgja sér. og svo keyrðum við af stað.
og við keyrðum
og keyrðum
og keyrðum
allt í einu komum við að litlu vatni þar sem nokkrum húsum hafði verið klambrað saman í einni götu. þar í gegn keyrðum við þangað til við komum að enda götunnar. þar stóð nokkuð stórt skýli. í skýlinu voru þrír ungir mjög sólarlitaðir og skítugir drengir sem hjálpuðu flutningagaurunum að raða dótinu okkar í eitt horn skýlisins. okkur var sagt að leggja bílnum við hliðina á dótinu og takk fyrir takk. svo máttum við bara fara. tollgaurinn bauðst til að skutla okkur á flugvöllinn og þar sem við keyrðum í burtu frá skýlinu horfðum við útum afturglugga litlu druslunnar á dótið okkar og bílinn. svo litum við á hvort annað og hvísluðum að vonandi myndum við sjá það aftur. þetta var allavega dúbíus staður til að skilja allt þitt hafurtask eftir, og svooo mikið af moskítóflugum. maður minn, ég er eins og gatasigti fyrir neðan hné.
nema hvað, þreyttum en upptrekktum var okkur skutlað á flugvöllinn þar sem við keyptum miða með næstu vél til mexíkóborgar. sveitt, skítug og rakaklístruð settumst við svo í kaffiteríuna þar sem við drukkum bjór í þrjár klukkustundir. svo þurftum við að bíða í aukaklukkutíma í troðfullum biðsal þangað til okkur var hleypt í vélina. það var svolítið kósí stund að labba yfir völlinn í hlýrri hafgolunni og horfa á stjörnurnar á leiðinni uppí vélina. langt síðan ég hef farið uppí flugvél öðruvísi en í gegnum ljót göng.
núnú, svo fékk ég mér annan bjór í vélinni og við lentum í mexíkóborg um tíuleytið. þegar út var komið af flugvellinum þar blasti við okkur kílómeters löng röð í leigubíla. þar sem við höfðum enga krafta til að standa þolinmóð tímunum saman ákváðum við að rölta út á götu. það gerðum við og veiddum leigubíl fljótlega. og hann keyrði okkur heim. um leið og ég lagði höfuðið á koddann féll ég í þann dýpsta svefn sem ég hef nokkurntíman sofið. mig dreymdi að ég væri fljótandi í sundlaug og það var svo afslappandi að ég hef sjaldan vitað annað eins.
svo vaknaði ég núna áðan klukkan hálf ellefu eins og nýsleginn túskildingur.
og í kveld erum við að fara í bíómyndaþemað grímuafmæli. ég er að hugsa um að vera litla stelpan í grinch myndinni.
hananú.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli