miðvikudagur, september 19, 2007

maðurinn með hattinn stendur upp við staur. borgar ekki skattinn því hann á engan aur. hausinn oní maga. maginn oní skó. reima svo fyrir og hendonum útí sjó.

mexíkanar eru svolítið eins og kínverjar. þeir eru rosalega margir, þeir eru lang flestir svarthærðir og þeir eru duglegir við að búa til sjóræningjaeintök af öllum fjáranum.
einu sinni voru til íslenskir skór sem hétu x-18. mexíkani nokkur fór til íslands að heimsækja framleiðandann, fékk prufur af skónum til að skipuleggja sölu í mexíkó, fór með prufurnar í ódýra verksmiðju og hóf að selja alveg eins skó á flóamörkuðum. hér eru til ódýrar eftirhermur af dýrum úrum (ég gaf föður mínum til dæmis mjög lélegt rolex úr einusinni í jólagjöf), dýrum töskum, skartgripum, ilmvötnum og allskyns merkjavöru. á hverju götuhorni er hægt að kaupa ólöglegar útgáfur af geisladiskum og bíómyndum (reyndar oftar en ekki með hilarioso þýðingum sem koma myndinni nákvæmlega ekkert við), meira að segja ólöglegir tölvuleikir eru allstaðar til sölu. margir götusalar selja ólögleg eintök af bókum. maður verður bara að passa sig að tékka hvort þetta sé ekki örugglega réttur texti innan í kápunni. ef þú t.d. kaupir harry potter er ágætt að kíkja hvort það stendur einhverstaðar harry potter í textanum. svo eru líka veitingastaðir og barir sem nota nöfn sem hljóma eins og enska útgáfan þegar þau eru lesin á spænsku og lógóin eru næstum því alveg eins og frumútgáfan. hér eru t.d. jarro café (lesið harrocafé), taco beil, starbus café og ýmislegt fleira.
það sem mér þykir þó einna fyndnast er verslun sem er frekar nýleg, stór og vinsæl. hún heitir idea. í idea getur þú keypt nákvæmar eftirlíkingar af hinum ýmsustu vörum sem fást í ikea, nema bara aðeins dýrari. ikea þykir fínt hér á landi en sumir senda meira að segja eftir vörum þaðan frá bandaríkjunum því að í mexíkó er ekki til ikea. bara idea. ætli búðin sé ólögleg? það er alveg spurning...
svona sjóræningjastarfsemi er alveg ólögleg hérna í mexíkó. hún er bara svo algeng og svo orðin svo rótgróin að engum dettur í hug að það sé hægt að uppræta hana. af og til er stormað inní geisladiska og bíómyndaframleiðslur og tonn af diskum gerð upptæk. þrátt fyrir það er enginn skortur af vörum á markaðnum. þetta eru sterk öfl.

einu sinni gekk ég eftir svona ólöglegri markaðsgötu þegar gaur kom hlaupandi sem blístraði á alla að löggan væri að koma. á augnabliki hvarf markaðurinn eins og hendi væri veifað. um leið og hann hvarf kom lögreglubíll á hægagangi eftir götunni. salarnir hölluðu sér blístrandi uppað vegg og horfðu uppí loftið. jafnóðum og löggubíllin fór framhjá birtust básarnir aftur, eins og þeir vissu að löggurnar myndu ekkert vera að hafa fyrir því að líta aftur fyrir sig. um leið og bíllinn hvarf fyrir horn var götulífið komið í sama horf eins og ekkert hefði í skorist.

það versta og kaldhæðnasta er að kínverjarnir eru komnir og þeir eru víst að fara illa með mexíkanska sjóræningjamarkaðinn með því að bjóða skranið enn ódýrara.

Engin ummæli: