á morgun fer frumburðurinn í körfuboltakeppnisferð til stykkishólms, seyðisfjarðar, skagastrandar, sauðárkróks eða stokkhólms. einhvert útí rassgat sem byrjar á ess. einhverra hluta vegna er mér lífsins ómögulegt að muna nafnið. það segir kannski ýmislegt um landsbyggðarheimsku mína. ef það er ekki hólmavík, keflavík eða hveragerði er ég pass. ætli ég gæti sosum ekki reddað mér á selfoss ef ég er í stuði en þó gæti ég villst á leiðinni. eiginlega er aðal vandinn að rata réttu megin útúr reykjavík. þegar mér tekst það redda ég mér á vegaskiltunum. annars er gaman að segja frá því að ég er orðin mjög góð í að keyra í mk og smáralind. allt annað í kópavogi, garðabæ eða hafnarfirði sem er ekki leiðin til keflavíkur er mér hulið. ekki get ég sagt að ég sé skárri í sveitaþorpum einsog grafarvogi, grafarholti, árbæ eða vatnsendahverfinu. auðvitað er ég góð í breiðholti,en það er líka geirvarta alheimsins.
nema hvað, í tilefni tilvonandi ferðar frumburðarins pakkaði litla fjölskyldan sér inní úlpur, húfur, vettlinga, sokkabuxur, trefla, þykkar peysur og kuldaskó og rölti í átt að heimili ömmu minnar þar sem svefnpoki heimilisins var grafinn inni í bílskúr. á leiðinni upp laugaveginn sáum við tvo ólukkans menn (ábyggilega vini lalla jóns), koma öskrandi og æpandi útaf eðalstaðnum mónakó og svo fóru þeir að slást. við gripum fyrir augu barnanna og flýttum okkur áfram. mér var þó ekki alveg sama þegar ég sá annan slagsmálahundinn strunsa inní bíl og keyra af stað eins og bavíani. (reyndar viðurkenni ég að vera ekki alveg með á hreinu hvernig bavíanar aka, en ég ímynda mér að það sé ekki falleg sjón). það fyrsta sem mér datt í hug voru skólabörn á rölti um hverfið og um leið vissi ég hvað ég yrði að gera, samviskunnar vegna. reif ekki hinn samviskusami borgari sem ég er upp gemsann, hringdi í 112 og tilkynnti þeim að grár bens merktur kp678 væri á leið niður á hverfisgötu og að mér litist hreint ekki á bílstjórann. hvað gerðist svo veit ég ekki nema það að við fengum vöfflur og heitt súkkulaði með rjóma hjá henni ömmu minni.
vonandi náðist kauði. frumburðinum þótti ég samt ekki kúl að klagann. mér er slétt sama.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli