mánudagur, febrúar 23, 2004

þegar maður vinnur í lífeyrissjóði kemst maður (mig langar að segja kona, en nenni ekki að standa í ismum núna), ekki hjá því að velta lífeyrissparnaðinum fyrir sér. það tekur vissulega á sálina í mér því þessa dagana er ég haldin einhverri óstjórnlegri dauðaangist, mér finnst lífið vera svo stutt, ég svo lítil og máttlaus gagnvart endalokunum, tíminn svo fljótur að líða. þetta hrjáir mig og liggur eins og blýsjal yfir öxlunum á mér. einmitt núna þegar allt er samt svo gott og fínt, ungt fólk á rólegri uppleið og tilveran brosmild. ég er í orðsins fyllstu merkingu með tvo púka á öxlunum þessa dagana. annar þeirra brosir og sýnir mér hvað ég hef það gott, en svo líður að kvöldi, ég ligg ein í myrkri og þá potar hinn púkinn í eyrað á mér og hvíslar að mér að ég hafi enga stjórn á því hvernig ég muni enda og að ég muni svo sannarlega taka enda. þetta truflar mig því ég veit fullkomlega að ég get ekki eytt tímanum í svona rugl, ég græði ekkert á því að lifa í eilífum áhyggjum af því að deyja. ég verð bara að taka mig saman í andlitinu, get a grip og komast yfir það. vona að þetta tengist bara alvegaðverðaþrítugkrísunni og líði svo bara hjá. spurning hvort það tengist eitthvað líka þessari eilífu æskudýrkun sem herjar á mann allstaðar að. nú er ég sko á aldri við konurnar sem leika þroskaðar eiginkonur fimmtugra karla í bíómyndum. catherine z jones er yngri en ég og er gift manni sem er eldri en pabbi, penelope cruz er yngri en ég og er að deita rúmlega fertugan tom cruise, þær eru orðnar virtar leikkonur með flottan feril að baki og farnar að teljast til elítunnar í skrollývúdd. hvað er ég? endalaus afleysingastarfsmaður í bráðabirgðadjobbi, á bara húsgögn sem var skutlað í mig á leið á haugana, föt sem voru á leið í flóttamannabúðir og bíl sem ég er hrædd um að loka því hann gæti molnað í sundur. hver mánaðarmót eru kvöl og pína andrésína því kaupið er búið um leið og það byrjar, eyðsla er sársaukafull og kvöldin slepjast hjá í eilífu sjónvarpsglápi.
ég sem hélt að ég væri bjartsýn og jákvæð manneskja... greinilega eitthvað illa útsofin í dag litla mín.
ég hef það fínt og mun deyja eftir marga marga áratugi úr hárri elli. takk fyrir mig.

Engin ummæli: