miðvikudagur, júní 14, 2006
kona mannsins sem við vorum hjá um síðustu helgi er tuttugu og fimm ára. hann er tuttugu árum eldri. hann á skrjálæðislega mikinn pening eftir að hafa verið spillt og háttsett lögga við landamærin þar sem eiturlyfjum er smyglað til kanans.
nema hvað, hann á villu í acapulco (við hliðina á luis miguel sem er uppáhalds söngvarinn hans elfars), penthouse íbúð í höfuðborginni og risastóran búgarð í queretaro þar sem við eyddum einmitt helginni eins og áður hefur komið fram.
hann (við skulum bara kalla hann herra r.)er lágvaxinn, mjög mörgum kílóum of þungur og á engan hátt aðlaðandi í útliti. gott ef hann var ekki smámæltur í ofanálag.
hún er með litað ljóst hár, gerfineglur, uppskorið nef, uppskorin brjóst, uppskorinn rass (hér þykir nefnilega flottara að hafa stóran og lögulegan rass) og grænar linsur. karlmönnum þykir hún yndisfögur og þeim er nett sama hvort útlitið er náttúrulegt eður ei. hið sama get ég ekki sagt, en hún má eiga það að hún er besta skinn. fordómar mínir höfðu stimplað hana fyrirfram sem gálu og vitleysing, en í eftir allt urðum við hinir mestu mátar eða réttar sagt hinar mestu mætur.
nema hvað, á búgarðinum eru ræktaðar paprikur í öllum litum, risastórar og safaríkar, þar eru líka tré í stórum garði. þangað fórum við að tína ferskjur, plómur, epli, perur, appelsínur, mandarínur og lime. unaðurinn einsamall.
svona garð langar mig í.
núnú, á sunnudaginn keyrðum við svo heim en enduðum á miðri leið í metepec þar sem elsti mágurinn býr í óskaplega vinalegu smáhverfi, eða frekar en hverfi eru þetta 13 hús lokuð af með garði og opnu sameiginlegu svæði. nema hvað, mexíkó átti að keppa við íran í heimsmeistarakeppninni og af því tilefni var kastað upp risatjaldi í garðinum, stórt sjónvarp sett upp, allir fengu landsliðsboli og svo var öskrað og gólað í tvisvar sinnum fjörutíu og fimm mínútur á meðan liðið sigraði 3-1.
eftir leikinn var vippað upp grilli og bjór flæddi uppúr kæliboxum. ansi skemmtileg stemming, enda mikill fótboltaáhugi hér á bæ.
í dag heimsóttum við tengdaafann. makinn minn fann hjá honum gamalt fallegt málverk sem afinn málaði þegar móðir hans dó og hengdi í grafhýsinu hennar. tæpum fimmtíu árum síðar fór hann í kirkjugarðinn og sá að allt hafði verið brotið og mörgu stolið og þá tók hann litla málverkið af maríu mey aftur með sér heim.
nú er málverkið í minni vörslu og mun koma til íslands innan skamms þar sem það mun hljóta sérstakan sess í málverkasafni litlu fjölskyldunnar.
ps. læt fylgja með mynd úr tjaldinu í metepec þegar mexíkó komst yfir 2-1.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli