miðvikudagur, júní 21, 2006

hananú. þá er ég komin til íslands. lenti í morgun en hoppaði yfir eina nótt og er því enn stödd í gær. ringlið farið að segja ansi vel til sín. samt er ég komin á vinnustað og reyni að halda gáfulegum svip.
þegar vélin tókst á loft yfir mexíkóborg og ég sá hana undir mér sem endaleysu varð mér hugsað til þess að þarna niðri einhverstaðar væru börnin mín. það er skrýtin tilfinning. þó svo að ég sé nú frjáls sem fuglinn í tvær vikur líður mér hálf tómlega, mig vantar öll lætin sem fylgja fjölskyldumeðlimunum mínum. kannski er það líka þreytan sem gerir mig meyra og væmna að innan, en svo er nú bara það. núna er nótt í mexíkó og þau eru sofandi. mig dauðlangar að hringja en vil ekki vekja neinn. úff.... mig langar aftur út....

í öðrum óspurðum fréttum langar mig að nefna hvursu gaman ég hef af því að bíða í löngum röðum í loftlausum sal eftir því að komast í vegabréfaskoðun á joð eff ká flugvelli. þegar ég lenti í gærmorgun var eins og ein vél frá hverju einasta heimshorni hefði lent á sama tíma og þarna stóð ég og svitnaði innanum hin ótrúlegustu sýnishorn af fólki í svona eins og einn klukkutíma. þarna var að sjálfsögðu samferðafólk mitt frá mexíkó, hellingur af gyðingum með lítil pottlok eða stóra hatta og tvær krullur, góður slatti af kínverjum, nokkur sólbrennd evrópuungmenni með dredda og bakpoka, arabískar fjölskyldur með huldar konur, indverskar konur í sari með gimsteina á enninu, afrískar konur í svakalega skrautlegum og miklum kjólum og með höfuðvafning í stíl og börn hangandi í slæðum á bakinu, einhverjir ítalskir gígolóar með opið niðrá bringu og gullkeðju í hárunum og svo auðvitað hún ég.
einhverra hluta vegna tók ég mér það hlutverk að benda öllum fjölskyldum með ungabörn á að láta flugvallarstarfsfólk vita af sér til að sleppa við röðina og svo fylgdist ég stolt með þar sem þau stungu sér framfyrir himinlifandi og fegin. fékk ég svo tilbaka falleg þakklætisbros frá viðkomandi. marokkósku konunni sem stóð fyrir aftan mig í röðinni þótti ég samt ekki skemmtileg og sá ég hvar brún hennar þyngdist í minn garð í hvert sinn sem einhver fór framfyrir okkur öll. en ég var samt stolt. sveitt en stolt.

Engin ummæli: