nú lentum við í pípurum.
eins og sumir vita búum við í tveimur litlum íbúðum (löng saga) en þannig var mál með vexti að í annarri þeirra voru allir ofnar ískaldir. þá hringdi ég í pípara sem mætti á réttum tíma og allt, en stóð sig ekki betur en svo að hann vissi ekkert hvað hann ætti að gera. minn vinur hringir í félaga sinn, eitthvað hærra settan í fyrirtækinu og við biðum. og biðum. loksins kom hann, skrúfaði eitthvað í einum ofni í íbúðinni sem var ekki köld og þvældist svo um húsið í leit að vitleysunni. að lokum komust þeir að þeirri niðurstöðu að þeir skildu kerfið ekki og ráðlögðu okkur að finna pípara sem hefði eitthvað meira vit á þessu skrýtna húsi.
núnú, og við gerðum það. hann mætti blessaður og þvældist hér upp og niður þangað til hann fann útúr vandamálinu sem hann hafði í raun ekki meira vit á en hinir í upphafi, og lagaði allt. fyrir það rukkaði hann okkur tæpan tíuþúsundkall.
nokkrum dögum síðar fékk ég reikning frá fyrirtækinu með ringluðu píparana uppá rúmar átjánþúsundkrónur. að sjálfsögðu gleypti ég bara loft og munnvatn og fékk hálfgerðan svima yfir upphæðinni sem mér var gert að greiða fyrir nákvæmlega ekki neitt. svo hringdi ég í fyrirtækið og spurði en þeir sögðu mér þar að hann hefði víst skrúfað í einn ofn og að þetta hefði verið unninn tími. ég tjáði honum að mestur tíminn hefði reyndar farið í að sitja og bíða eftir öðrum þeirra sökum lítils sjálfstrausts hins fyrri, og svo í að heyra frá þeim að þetta væri ómögulegt, að við þyrftum sennilega að láta skipta um allt kerfi í húsinu sem myndi kosta hátt í milljón.
bla bla bla sögðu þeir og það var ekki fyrr en makinn minn spjallaði við yfirmann fyrirtækisins og skammaði hann að þeir beygðu sig og ,,leyfðu" okkur að borga bara rúmar tólfþúsund krónur. sem ég og gerði til að losna við hausverkinn.
ég get þó ekki að því gert að mér þykir þetta hafa verið ansi blóðugur peningur og hefði glöð viljað eyða honum í eitthvað allt annað.
hér með mæli ég ekki með fyrirtæki sem heitir faglagnir.
þó svo að það sé rétt að kerfið í húsinu sé ruglað og píparinn sem setti upp mælana hafi greinilega verið óttalegur þöngulhaus, þá sýndi þolinmóði píparinn sem á eftir kom að það var hreint ekki ómögulegt að komast til botns í vandanum og leysa hann.
hann heitir guðmundur og er héðanífrá sá sem ég mun alltaf hringja í.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli