þegar ég sofna sofna ég fast. ég er yfirleitt gaurinn sem vaknar ekki við neitt, amk er ég ávallt betur sofin en makinn sem er aðeins stressaðri týpa en ég og grynnri í honum svefninn.
ég vakna samt alveg við vekjarasímann minn, klöngrast fram og vek frumburðinn og sofna svo vært aftur eftir að hafa fullvissað mig um að hann sé nægilega vaknaður til að koma sér í skólann á réttum tíma (og smyrja handa honum samloku í nesti).
um það leyti sem frumburðurinn lokar útidyrunum á eftir sér er yfirleitt kominn tími á síðburðinn að rumska. hún rumskar samt voða lítið. er meira svona..opna augun...komin í stuð. ég hinsvegar er oft mjög þreytt á milli vekjaraklukku og brottfarartíma eigins. þá verð ég að finna leiðir til að láta síðburðinn dunda sér í einsog hálftíma. það virkar yfirleitt með litum og blöðum, barnatíma um helgar. undanfarið hefur hún fengið leyfi til að myndskreyta veggi svefnherbergis okkar, enda verður það tekið í gegn og málað fljótlega. við það hefur sú litla skemmt sér marga blundina mína.
í morgun fór allt af stað eins og venjulega, ég hnoðaði frumburðinn til meðvitundar og smurði brauð. kvaddi hann og skreið upp í rúm. opnaði aftur augun við síðburðinn sem sat með tússlit á koddanum mínum og teiknaði kalla á vegginn. mig minnir að ég hafi brosað til hennar og að henni áður en ég datt aftur út.
einhverjum hálftímanum síðar rankaði ég aftur við mér til þess að hefja daginn loksins. sat þá sú litla til fóta. mér var kalt á hægri fótlegg sem stóð undan sænginni. ég stakk honum undir til að hlýja mér aðeins áður en ég fór framúr. svo fór ég framúr. þá sá ég afrakstur síðasta hálftíma.
fótleggurinn á mér frá læri og niður að tám er þakinn grænu fólki, grænum sólum og blómum og utanum allt er risastór ílangur hringur með geislum, svona eins og sól.
ég hætti við að fara í líkamsrækt í morgun og fór í þykkustu sokkabuxurnar mínar. þetta sést samt í gegn og fer ekki auðveldlega af.
fórnarkostnaður morgunsvefnsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli