fimmtudagur, ágúst 30, 2007

konurnar hérna tala mikið um þær sem þrífa hjá þeim. það er ýmislegt sem þeim líkar ekki, og líki þeim ekki eitthvað eru þær yfirleitt snöggar að losa sig við þrifurnar. sumar vilja að þær búi hjá sér. í flestum húsum er vinnukonuherbergi sem þær útbúa með rúmi, skúffum og litlu sjónvarpi. og eigin baðherbergi.
þrifurnar mega ekki þvælast fyrir. þær mega ekki tala mikið. þær eiga helst að vita fyrirfram hvað þær eiga að gera svo að húsmóðirin þurfi ekki að vera á eftir henni að útskýra eða biðja um hitt og þetta. þær mega ekki vera með fjölskyldumeðlimi á svæðinu, nema í sérstökum tilfellum lítil börn. þær mega ekki fara í burtu nema á sunnudögum. þær mega ekki segja nei. þær mega ekki nota önnur baðherbergi eða sjónvörp en sín eigin. þær verða að þrífa vel. þær verða að elda vel. þær verða að nenna börnunum á heimilinu. þær verða að gera það sem þær eiga að gera þegar þær eiga að gera það. helst áður en einhverjum dettur í hug að þær þurfi að gera það. þær mega ekki koma með gesti og þær strauja mikið. og þær fá 600-900 krónur á dag í laun. 900 þær sem koma og fara. 600 þær sem búa á heimilinu af því að þær fá húsnæði og mat og afnot af þvottabretti til að þvo fötin sín. þvottavélin og þurrkarinn eru fyrir fjölskyldumeðlimi.
ég er með hálfgert allsherjar samviskubit gagnvart þessum konum. eða stelpum, sumar eru ekki nema um 16-17 ára. þessar ungu eru víst góðar af því að þær hlýða vel og eru ekki með fyrirframgefnar hugmyndir...og eiga ekki börn. samviskubitið stafar af því að þetta er hálfgert þrælahald. mér er sagt að þetta sé það eina sem þær geta gert, þær hafi enga menntun og fái hvergi annarstaðar vinnu. nema eitthvað sem er hvort eð er skít-illa borgað. og að þetta sé mannlegra og öruggara en margt annað sem þær gætu lent í. það er samt eitthvað sem stingur mig.
ég ætlaði alltaf að neita aðstoð. svo kom nieves sem sagði mér að þetta væri það eina sem hún kann að gera, að hún þurfi að sjá fyrir börnunum sínum fimm og hvort ég væri svo væn að leyfa henni að vinna fyrir mig. fyrir utan hvað það er gott að fá hana leið mér betur þegar ég sá hvað hún var þakklát fyrir að fá að vinna heima hjá mér. ég borga henni 900 kall svo að ég skemmi ekki harmóníuna í hverfinu með því að vera sú sem spillir vinnukonunum. en ég bið hana ekki um neitt. ég myndi ekki einu sinni kunna við það. hún gerir bara það sem henni finnst hún eiga að gera, stundum stoppa ég hana af þegar mér finnst hún hafa gert of mikið, og ég sendi hana heim með mat sem á hvort eð er eftir að fara til spillis í ísskápnum mínum, föt sem passa ekki lengur á börnin mín og tréliti og dótarí sem flæða útúr barnaherbergjunum hérna en koma sér vel fyrir börnin hennar í skólanum. hún straujar ekki, eldar ekki og kemur með börnin sín með sér þegar hún hefur engan stað fyrir þau. þau eru orðin góðir vinir dóttur minnar og hún verður fúl ef krakkarnir koma ekki með.
mér dettur heldur ekki í hug að kvarta þegar kerlurnar sitja og kvabba yfir ,,sínum" konum. þannig held ég samviskunni minni rólegri. það er samt alltaf eitthvað inni í mér.

Engin ummæli: