föstudagur, ágúst 03, 2007

til er fólk sem er duglegt við að rækta sinn innri mann (gefandi okkur að konur séu líka menn eins og þar stendur).
svo er til fólk sem eru duglegt við að rækta sinn ytri mann.
á íslandi þekki ég góðan slatta af fólki sem er duglegt við bæði. hérna þekki ég líka þannig fólk en þó aðallega fólk sem ræktar sinn ytri mann eða hvorugt.
við hliðina á okkur býr t.d. fjögurra manna fjölskylda sem stolt segir okkur frá því að enginn meðlimur hennar lyftir nokkurntíman bók. hafa ekki áhuga. til hvers að hafa fyrir því þegar það er hægt að sjá myndina?
ég hef ekki enn heyrt samræður um annað en það sem þessi sagði við þessa eftir að hinn sagði hitt útaf því að einhver annar gerði eitthvað voðalega asnalegt/vitlaust/fyndið. konurnar hérna í húsunum eru allar heimavinnandi og lifa ansi passívu lífi. þær eru margar hættar að klæðast öðru en jogginggöllum og sjást gífurlega sjaldan tilhafðar. kannski þegar einhver á afmæli. engin þeirra sem ég þekki stundar nokkurskonar hreyfingu aðra en að ýta kerrum um verslanir. reyndar eru þær langflestar duglegar við að mæta í laser-tímana sína þar sem hárvextinum á fótleggjum, bikinísvæði, handakrikum og yfirvaraskeggi er eytt endanlega. og svo fara þær í jogginggallana yfir hárleysið. karlarnir eru að heiman frá 9-9 því þeir þurfa að vinna svo mikið til að halda herlegheitunum á floti. svo eru þeir í stanslausu stressi yfir því að halda vinnunni því að það eru svo margir um hituna í svona fjölmennu landi.
þetta er millistéttin.

hérna í mexíkó er rosalega mikil stéttskipting. á botninum eru indíánarnir. hér ríkir eiginlega reglan, ,,því meiri mexíkani, því lægri í þjóðfélagsstiganum". indíánarnir vinna flestir frá barnæsku við líkamlegu störfin, að búa til og bera múrsteina, sjá um uppskeru á ökrum og hirða rusl. næst fyrir ofan indíánana eru þeir sem mexíkanar kalla ,,nacos" (nakos). Það er fólk sem býr í borgum, á eitthvað af pening, oft fyrir að keyra leigubíla, strætóa, selja ósmekklegt dót eða ólöglega geisladiska. s.k. nacos hafa litla sem enga menntun, hrikalega klunnalegan smekk (sbr. gaurinn sem ég sá við sundlaug íklæddan níðþröngri bleikri hlébarða sundskýlu). Þeir eru líka subbur sem henda rusli útum bílgluggann og eru alltaf til í að rífast af því að þeir eru í stöðugri vörn gegn öllu og öllum.
svo kemur millistéttin. fólk flest með menntun, margar konur heimavinnandi eftir að börnin fæðast og enda í jogginggöllum. karlarnir vinna mikið. flestir hafa ferðast eitthvað og börnin fara í einkaskóla.
einhverstaðar þarna í kringum millistéttina er ákveðinn hópur fólks sem eru bóhemarnir. fólk sem gefur lítið fyrir efnisleg gæði, les mikið og skapar list. reykir gras og ræðir heimspekileg málefni.
annar hópur fólks sem er ágætlega statt efnahagslega, sennilega efri millistétt, eru svokölluð jarðarber (fresas). það er fólk sem finnst það vera yfir restina hafið, fer í dýrustu skólana, á flottustu bílana og fer bara á staði fyrir fólk sem er ,,nice" eða ,,de la high". þau sletta mikið á ensku því þau eru næstum því of fín til að vera mexíkanar. klæða þjónustustúlkurnar á heimilinu í einkennisbúning og jarðarberjakvenfólkið lætur aldrei sjá sig öðruvísi en óaðfinnanlegar. margir úr þessum hópi vinna við sjónvarp og popptónlist og þessháttar. mikið um brjóstaígræðslur og annarskonar lýtaaðgerðir.
svo er það ríka fólkið. það skiptist í nýríka sem eru yfirleitt nacos sem hafa verið heppnir í viðskiptum, og ríkar fjölskyldur sem muna varla eftir öðru en að vera ríkar, eigendur stórra fyrirtækja eða pólitíkusar. það er fólk sem lítur út eins og frakkar, spánverjar eða eitthvað frá evrópu. jafnvel gyðingar eða frá líbanon. en þau líta ekki út einsog orgínal mexíkanar.
stíllinn í húsum þeirra nýríku er mjög ólíkur stíl þeirra gamalríku.
og svo eru það þeir langríkustu. það eru eiturlyfjabarónarnir. þeir eru ósýnilegir.

Engin ummæli: