hananú
við erum komin í hús. og ferðalagið var svona:
þegar við keyrðum útúr borginni lentum við í því sem virtist endalaus röð af bílum sem voru stopp. þar eyddum við rúmum klukkutíma þangað til við komumst áfram. það reyndist hafa orðið slys þar sem vörubíll hafði runnið yfir allan veginn, misst tvo gáma sem hann flutti og þeir slengdu til nokkrum minni bílum sem voru allir í steik. dapurlegt. en svo loksins komumst við til tlacotalpan sem er lítið mjög fallegt þorp sem liggur við vatn. þar gistum við á eina hótelinu í bænum sem hafði sundlaug, en dóttirin heimtaði að komast í sund. daginn eftir fórum við í siglingu um vatnið og fengum okkur að borða áður en við keyrðum áfram til villahermosa. þar fundum við líka hótel með sundlaug og dóttirin synti. um kvöldið fórum við foreldrarnir niður á hótelbarinn þar sem við fengum okkur bjór. áður en leið á löngu vorum við komin í hörkusamræður við tvo karla og annar þeirra reyndist vera eigandi hótelsins. hann var voða ánægður með að hafa talað í fyrsta sinn á æfinni við íslending. sem er svosem alveg merkilegt, miðað við höfðatölu.
frá villahermosa keyrðum við til palenque. og fundum hótel með sundlaug. í palenque vorum við í tvær nætur. á degi tvö fórum við að skoða pýramídana sem eru mjög merkilegir og urðu enn merkilegri við að hlusta á frásögn hans victors sem er gamall leiðsögumaður á svæðinu. hann hefur stúderað hvert einasta grjót í palenque og hann útskýrði fyrir okkur kenningar sínar um að þarna hafi ekki bara verið maya indíánar heldur indverjar, arabar, gyðingar og kínverjar. og honum tókst að sannfæra okkur, enda mjög lærður og lesinn um efnið.
núnú, svo fórum við að synda í fossum sem voru svolítið kaldir, en það var bara þægilegt af því að okkur var orðið ansi heitt. í palenque sáum við risastóra tarantúlu rölta yfir veg og svo sáum við þrjá apa uppí tré. það sem ég sá ekki voru allar helv... moskítóflugurnar sem héldu veislu á kálfunum á mér. en ég fyrirgef þeim af því að ég skil þær. ég er svo góð á bragðið...hehe...
frá palenque ætluðum við svo til coatzacoalcos en þegar við nálguðumst sáum við að það er ljót iðnaðarborg og ekkert nema strompar og sullumall svo að við héldum áfram og alla leið til veracruz. þar fundum við hótel með sundlaug á þakinu. það var vinsælt. og dóttirin fór að synda. í veracruz skoðuðum við fiskadýragarðinn...eða hvað það nú heitir, svona acuario, þar sem við sáum hákarla, humar, risaskjaldbökur og allskonar stærðir og gerðir af fiskum. og svo keyrðum við heim.
núna erum við að þvo þvott og slaka á.
þetta var mikil keyrsla og við hefðum alveg getað hugsað okkur að vera lengur og fara lengra, en afkvæmin höfðu einhverra hluta vegna ekki þolinmæði í meira í bili. þrátt fyrir allar sundlaugarnar.
núna er ég of löt, en á morgun ætla ég að setja myndir á myndasíðuna mína.
hasta la vista baby
Engin ummæli:
Skrifa ummæli