laugardagur, október 20, 2007

heimferðin hefst daginn eftir morgundaginn. ferðatöskurnar eru að verða til og það er aðallega eftir að þvo föt og kveðja. það er alltaf leiðinlegt að kveðja. kveðjustundir eru ekki minn tebolli. en maður lifir það af eins og alltaf.

deginum var eytt við göngu og skoðun þar sem chopo markaðurinn er staðsettur. hann er bara laugardagsmarkaður. chopo er eldgamall og þekktur fyrir að vera samsafn af allskonar furðufuglum. þar er mikið um pönkara, lið með skrautlegt litað höfuðleður, undarlegar greiðslur, eyrnalokkahelling um allt höfuðið og þungarokkara. einnig er skemmtilega mikið af svokölluðu goth liði sem er svart kringum augun, með svartar varir og neglur og er klætt svörtu flaueli niður að ökklum og undarlegum risa leðurbomsum. hægt er að kaupa gaddabelti og allskonar frekar drungalega hluti, beinagrindarboli, beinagrindahringa og allskonar svona. það sem okkur fannst samt merkilegra en allt annað voru miðar um allt þar sem boðaður var fundur. sem er svosem ekki merkilegt ef ekki væri fyrir það að fundurinn var einungis ætlaður þeim sem telja sig vera þessir sem vaka um nætur, drekka rauða vökvann sem er innan æðakerfis okkar og nafnið hefst með vamp og endar með rur. þið vitið... það skemmtilegasta er að það er virkilega til lið sem telur sig tilheyra þeim. gott ef við börðum ekki nokkrar augum.

gærkveldinu var eytt við glaum og gleði innan heimilis frænku makans og maka hennar. þar var borðað margt gott og drukkið margt skemmtilegt og frændsystkinin og við hin dönsuðum og skemmtum okkur konunglega. glatt lið eins og flestir samlandar þeirra.

munið þið eftir konunni sem sofnar þegar eitthvað er fyndið? konan atarna skilst okkur er hætt að hlæja og þessa dagana gerir greyið ekki annað en að væla, grenja... er ekki til fallegra kommulaust orð yfir þetta?
nema hvað... aumingja konan er orðin þung og leið, enda ekki auðvelt að eiga barn sem mun sennilega ekki verða mjög fullorðinn. það er örugglega það erfiðasta sem mannskepnan þarf að eiga við.

nema hvað... ef við heyrumst ekki fyrr en við leggjum af stað heyrumst við bara þegar heim er komið.
hasta la vista amigos!

Engin ummæli: