ég man ekki hvað ég hef kysst marga karlmenn um ævina. ætli ég hafi ekki kysst þá flesta á aldursbilinu 16-18 en þá var ég samkvæmt sjálfri mér svakaleg pía, makalaus og vinnandi á bar. magnað hvað ég man lítið af þessum kossum. ég man eftir einum sem fór fram inni í einhverjum kústaskáp í hollywood, þeim blessaða skemmtistað. ætli það hafi ekki verið fb-ball. svo man ég í grófum dráttum útlínurnar á nokkrum öðrum kossum en sá sem ég man best er sá fyrsti, en hann fékk ég þegar ég var þrettán ára.
ég man hvernig við vorum skilin ein eftir inni í herbergi heima hjá strák úr skólanum okkar því það hafði verið ákveðið að við skyldum byrja saman. svo sátum við í sitthvorum endanum á rúminu og þögðum. lengi. eftir stund sem í minninguni var ábyggilega einir tveir eða þrír klukkutímar gat ég ekki meir og spurði hann ,,vilt þú það?". já sagði hann og þar með vorum við frjáls úr svefnherbergisprísundinni. svo fórum við fram að horfa á vídeó.
eftir að hafa verið kærustupar í tvo mánuði átti vinurinn fimmtán ára afmæli og við fórum saman í bíó. ég var búin að ákveða að það væri eiginlega við hæfi að ég kyssti hann í tilefni dagsins, en við höfðum varla svo mikið sem snert hvort annað fram að því. í bíóinu langaði mig til að halda í höndina á honum en fannst það eitthvað vandræðalegt. ég held að það hafi tekið mig fram að hléi og rúmlega það að mjaka litla putta í áttina að litla putta á honum, allan tímann með öndina í hálsinum og hnút í maganum af stressi og spenningi. loksins tókst mér að krækja í höndina á honum og eftir að þeim áfanga hafði verið náð með svo mikilli fyrirhöfn tímdi ég sko ekki að sleppa. gott ef við héldumst ekki í hendur alla leið í strætó upp í breiðholt og frá strætóskýlinu að þeim stað þar sem leiðir skildu, enda bjuggum við í sitthvorum enda hverfisins.
þarna stóðum við í malbikaðri brekku undir ljósastaur og vissum bæði að nú myndum við kyssast. hvorugt þorði að taka af skarið svo að eins og í bíóinu varð þetta svakalega langt mjak í áttina þangað til eftir dúk og disk að varir okkar mættust og þá varð ekki aftur snúið. hvorugt okkar tímdi að hætta, enda hafði fyrirhöfnin verið mikil. þarna kysstumst við ábyggilega í fjörutíu og fimm mínútur, eða þangað til að við vorum bæði komin með sviða í hökuna af núningi og dofa í varirnar.
að lokum fór ég heim, einu skrefinu nær því að verða fullorðin og rosalega ánægð. svo hætti ég með honum nokkrum dögum síðar, enda spennan farin...
síðan þá hef ég fundið magnaða kossa en þessi mun samt alltaf standa uppúr í minningunni, enda sá fyrsti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli