í dag var ég á aldeilis fínu og stóru bernhöftsniðjamóti. semsagt fullt af afkomendum bakara frá danmörku sem komu saman og átu bakkelsi, hvað annað?
búist var víst við einum tvöhundruð manns sem urðu nær þrjúhundruð þegar allt kom til alls. einhver snirlingurinn hafði pantað ljósmyndara fyrir hópmyndatöku og hafist var handa við að troða þrjúhundruð manns saman á 10 fermetra, á stólum, pöllum og stólum á pöllum. plássið var fullt áður en helmingur fólksins var kominn á sinn stað. þjappið ykkur aðeins meira sagði ljósmyndarinn og ég fann hvernig naflinn á konunni fyrir aftan mig var í laginu þar sem hún þrýstist inní bakið á mér. og það varð heitt. og það varð heitara. og við þjöppuðum okkur betur saman.
að lokum á einhvern óútskýranlegan máta tókst okkur öllum að koma okkur fyrir, ég stóð á einni löpp með mjöðmina í kleinu og konu í bakinu. ég er ekki ennþá viss hvort það hafi verið svitinn af mér eða svitinn af henni sem bleytti á mér hrygginn. vonandi var það bara minn.
eftir að liðið var orðið svo þétt að sardínur hefðu vorkennt okkur fór ljósmyndarinn að vera fyndinn. auðvelt að vera fyndinn þegar maður stendur laus og liðugur með nóg pláss. jújú. við systurnar komumst í nöldurstuð þar sem við þrýstumst saman og muldruðum bölv og ragn ofaní hárið á manninum í næstu röð fyrir neðan. en svo brostum við öll og eftir einar sjö mínútur í helvíti var ljósmyndatökunni lokið og hópurinn sprakk í sundur eins og graftarbóla sem sleppur undan húð..... hahahahaha... graftarbóla...hahaha.....
úff, ég held að ég hafi orðið fyrir súrefnisskorti í dag. eða kannski frekar sykurlosti af kökuáti. eða kannski bara blöndu af bæði. fjúff... stórhættulegar þessar ljósmyndatökur og fjölskylduveislur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli