sunnudagur, mars 25, 2007

mér var boðið á gusgus tónleika í gær. fínn félagsskapur og ágætis ástæða til að bregða undir mig betri fætinum og bregða á mig betri snyrtivörunum og bregða útaf vananum og bregða mér á ball og bregða þar með þeim sem höfðu efasemdir um félagsfærni mína.
fékk mér bjór. fékk mér annan. fékk mér nokkra í viðbót. það mætti segja að ég hafi verið komin í ansi gott skap þegar ég þjappaði mér í röð og þjappaðist að lokum inn. ég er ekki frá því að þetta hafi verið í fyrsta skipti í mínu lífi sem ég fer í víæpí röð sem er semsagt styttri en sú lengri. hafði sú staðreynd eitthvað með fjölskyldutengsl á gera. ekki mín fjölskyldutengsl heldur tengsl annars fólks við hvort annað sem ég fékk að njóta ávaxta af. semsagt í þessari styttri röð.
nema hvað, ég komst semsagt inn í heilu lagi og óskrámuð.
við fundum okkur fínan stað með góðu útsýni og ágætis persónulegu rými á mann. ég skaust á barinn til að bæta á bjórforðann en á leiðinni á barinn hitti ég nemanda mína. spjallaði aðeins við hana og allt gott með það. nú þar sem ég mjakaðist nær barnum rakst ég á tvær fyrrverandi nemendur mínar. spjallaði aðeins við þær og allt gott með það. loksins kom röðin að mér á barnum en þegar ég leit upp til að yrða á barþjóninn var þá ekki þar kominn einn nemandi minn. spjallaði sama og ekkert við hann, enda upptekinn drengur, og allt gott með það. svo fór ég aftur til míns fólks og dillaði mér með bjór í hönd.
eftir að hafa komið bjórnum á sinn stað var kominn tími á að skila síðasta bjór út og ég rölti í átt að klósettinu. þar var röð. fyrir framan mig í röðinni var fyrrverandi nemandi mín. fyrir aftan mig í röðina bættist önnur fyrrverandi nemandi mín. spjallaði aðeins við þær og allt gott með það. á leiðinni tilbaka rakst ég á enn eina fyrrverandi nemanda mína og ég verð að segja að það voru farnar að renna á mig tvær grímur á þessum tímapunkti. þrátt fyrir grímurnar tvær var ég óttalega hress, enda með nokkra bjóra innanborðs, en svei mér þá ef það er hreinlega hægt að fara út að skemmta sér í þessum litla bæ, enda nemendur á hverju strái.
ég hélt þó alveg stílnum og hef litlar áhyggjur.
ætli það verði samt ekki glott á barþjóninum þegar ég byrja að kenna honum í fyrramálið...

Engin ummæli: