fimmtudagur, júlí 19, 2007

ég skil ekki hvernig konurnar hérna nenna að vera svona mikið heima hjá sér. þær eru hér um bil alltaf heima. nema þegar þær fara einstaka sinnum saman að borða morgunmat á kaffihúsi. eða fara saman í innkaupaleiðangur. eða fara saman að sækja börnin í skólann eða á sumarnámskeiðin. núna eru öll börnin á sumarnámskeiðum því að þær nenna ekki að hafa þau heima í fríinu. ekki af því að þær eru ekki heima. þær eru víst heima, bara uppteknar við að láta þrífa húsin fyrir sig og púsla og reykja. eftir að ég kom hingað og þær heyrðu allt um hvað ég er vön því að vinna byrjuðu þær að tala voða mikið um að fara nú að gera eitthvað annað. breyta til.
fyrst ætluðu þær að vera brúðkaupsskipuleggjendur. svo sögðu þær að það væri of mikið vesen. svo ætluðu þær að búa til tímarit. það datt uppfyrir. síðast ætluðu þær að verða innanhúshönnuðir. ég held að þær séu búnar að gleyma því líka. þær gleymdu sér nefnilega þegar tvö risastór púsluspil blönduðust saman. núna er aðal stemmingin í því að reyna að skilja þau sundur, fatta hvaða púsl eiga heima hvoru megin. og til þess þarf næði.
þær fáu sem hafa lært eitthvað umfram grunnskóla/framhaldsskóla eru löngu búnar að gleyma því sem þær lærðu. orðnar staðnaðar.
eins gott að passa sig.

Engin ummæli: