ekkert fútt í júróvisjón, stjórnin heldur velli (skv. þeim tölum sem eru í gangi núna klukkan rúmlega eitt).... óskaplega óspennandi alltsaman.
annars fór ég út á lífið í gær. mamma var svo væn að passa síðburðinn til þess að ég gæti límt mig á systur mína og vini hennar sem eru einstaklega skemmtilegt fólk.
við byrjuðum á því að fara á tónleika á nasa þar sem við drukkum bjór og eitthvað svona. á einum tímapunkti vatt sér upp að mér ung kona og spurði mig hvort ég væri að fara að flytja til mexíkó. ha, jú, sagði ég eða eitthvað svoleiðis og þá kynnti hún sig sem þórdísi. ég fattaði ekki alveg hvernig hún vissi hver ég var, enda þóttist ég aldrei hafa séð hana áður. en á einhvern hátt, sem ég er ekki alveg viss um hver var ennþá, kveikti hún á perunni held ég þegar systir mín sagði óvart hæ við hana fyrir utan nasa en hló svo þegar hún fattaði að þetta var ókunnug kona og afsakaði sig með því að vera ansi nærsýn. sem hún er.
nema hvað, þórdís er semsagt meðlimur hérna í tenglalistanum mínum, meðal annars, og ég verð að segja að það var mjög gaman að hitta manneskjuna á bakvið síðuna. magnað hvernig hægt er að ,,þekkja" fólk í gegnum svona síður án þess þó beint að þekkja það. er hægt að þekkja fólk án þess að hitta það? er hægt að eiga vini sem þú hefur aldrei talað við? mér fannst að minnsta kosti eins og ég þekkti hana þórdísi á einhvern skrýtinn hátt þó svo að andlit hennar væri mér algerlega nýtt.
í gamla daga átti ég helling af pennavinum sem ég hafði aldrei hitt. strákur frá costa rica sendi mér lyklakippu með nafninu mínu, peter frá bandaríkjunum skrifaði mér oft í viku (reyndar hitti ég hann), strákur frá japan sendi mér spólu með tónlist og strákur frá ísrael sendi mér kasettu sem hann talaði sjálfur inná þar sem hann sat í einhverju svona öruggu herbergi ásamt fjölskyldunni sinni á meðan sprengjur féllu fyrir utan húsið.
fyrsta pennavinkona mín var sænsk, litla systir au-pair stelpu frænku minnar sem passaði okkur systur líka stundum. sú sænska skrifaði mér á sænsku (enda vorum við bara 9 ára og óskrifandi á ensku), mamma þýddi bréfin og ég svaraði á íslensku og systir hennar þýddi þeimmegin.
á einhverjum tímapunkti duttu bréfaskriftir uppfyrir, sennilega á einhverju kúlista-unglingatímabili, en ég átti heilan kistil fullan af bréfum þegar best lét.
bloggsíður bloggfélaga minna eru einhverskonar staðgengill gömlu pennavinanna. pennar eru dottnir útúr menginu en skrifin eru til staðar þó svo að þau séu kannski orðin opinber og ætluð öllum.
ókey, á meðan formaður framsóknarflokksins talar ætla ég að slengja fram kenningu. það er undir ykkur komið að sanna hana eða afsanna hér og nú.
kenningin hljómar svona:
Allt fólk sem bloggar átti pennavini sem börn og/eða unglingar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli