á laugardaginn komu karlar til að setja upp hjá okkur símakerfið og internettengingu. á meðan hliðlöggan hljóp til að sækja mig fóru þeir og komu ekki aftur. ég er hvorki komin með síma né internet. nú sit ég í húsi númer níu og skoða netið en á mig horfir rangeygur köttur.
makinn er nýkominn heim eftir að hafa verið alla helgina að ljósmynda einhvern hóp sem heitir high school musical, eitthvað disney eitthvað, en hann tók myndir af þeim frá því að þau komu þangað til tónleikum þeirra lauk í gærkveld. svo fór hann og drakk bjór með shakiru sem hélt víst líka tónleika í gær. á meðan var ég heima að læra um fagmennsku kennara. arg.
einn af nágrönnunum sem ég gleymdi að telja upp vinnur hjá símanum - telmex (obvious nafn). makinn hringdi í hann og símafíflin verða send innan skamms aftur.
nema hvað... nágranni þessi heitir tómas. hann og kona hans sem ég man ekki hvað heitir eru barnlaus en sennilega bæði um 38 ára. tómas er gaur sem öllum finnst fyndinn og skemmtilegur nema mér. hann er eins og froskur í framan með óhemju stóran munn. einhverntíman á lífsleiðinni lærði hann söng og nú er varla hægt að koma saman án þess að ofvaxni froskurinn syngi út í eitt. og hann er ekkert að raula mannandskotinn. hann syngur eins hátt og hann getur, sveiflar og geiflar stóra munninum á sér og passar sig að allir heyri hvað hann syngur vel og hvað hann er klár að kunna öll möguleg lög. aðþrengda eiginkonan hans situr stillt með hendur í kjöltu og svip sem segir mér að hún telji sig varla þess verða að eiga svona flottan og kláran frosk...nei, ég meina mann.
spænski eiginmaður konunnar sem uppgötvaði framhjáhaldið á rauðan hummer. í gær stóð rauði hummerinn í bílastæðinu og ég fylgdist með nágrannakonunum þykjast eiga erindi hver heim til hinnar til þess að geta kíkt laumulega inn um gluggana hjá þeim, enda ekkert vit í öðru en að komast að því hvort hún taki við honum aftur eða ekki. svo hittust þær í einu eldhúsinu og blótuðu honum í sand og ösku og vonuðu heitt að hún myndi ekki gefast upp. þær segja henni samt ekkert um það, brosa bara og heilsa glaðar.
nema hvað... rangeygi kötturinn er búinn að gefast upp á mér, það er farið að rigna og dóttirin orðin svöng. best að gera eitthvað í því.
ps. lóa, við skulum endilega setja upp eitthvað voða dularfullt í kringum komu þína um jólin... og þið hin sem ætlið að heimsækja mig, búið ykkur til spennandi karaktera sem þið getið leikið hérna svo að gellurnar í hverfinu hafi nóg að gera við að njósna um alla undarlegu íslendingana...hehehe
Engin ummæli:
Skrifa ummæli