mánudagur, maí 21, 2007

móðir mín hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði að ég væri að ofkeyra mig. ég raða of mörgum hlutum á of lítinn tíma. mér finnst mjög gaman að vera upptekin. ég vil helst vera að gera eitthvað allan daginn. en ég á börn. núna á ég til dæmis lasið barn sem þarf bara að ég setjist niður og sé. ég hef oft bara verið. ég er samt betri í því að gera. stundum tóma vitleysu reyndar.
í dag ætlaði ég að gera voða margt og mikið. síðburðurinn sá til þess að ég er heima. þegar ég fór að hringja út upplýsingar um fjarveru mína og leiðbeiningar gerði ég mér grein fyrir því að það að ég færi ekki af stað í dag er bara alls ekkert svo slæmt. fólk bjargar sér alveg fullkomlega án mín og ég hef fullkomlega gott af því að vera heima með litlu lösnu skessuna mína. mamma var meira að segja svo væn að splæsa á mig manneskju til að þrífa íbúðirnar sem ég ætla að skila á morgun.
í gær tæmdi ég þær um leið og ég pakkaði ofaní töskur og gerði rannsóknaráætlun í gegnum fund á netinu. smáhlutir eins og að borða gleymdust í hamaganginum, en þá kom hún móðir mín enn eina ferðina mér til bjargar með samloku í poka.
en núna er ég semsagt heima hjá foreldrum mínum, farangurinn bíður í töskum og íbúðirnar standa tómar. það sem ég á eftir að gera eru salthnetur. (eru peanuts ekki annars salthnetur?)

nema hvað, á laugardagskveld fór ég út að borða með mastersvinkonu minni til að halda uppá að hún er búin að losa sig við risastóra tímamótaritgerð af bakinu. einu stóru fargi létt þar af bæ. við áttum mjög kósí kvöldstund yfir mat og drykk og fórum svo að kíkja á skemmtistaði borgarinnar þar sem okkur leist í grófum dráttum ekki á neitt. við höfum samt gaman af því að vera litlu fýlupúkarnir í horninu og það er gamanið sem gildir.

á föstudagskveld (svo ég fikri mig nú aftur á bak í tíma), fór ég í hið alræmda kveðjupartý/sumarhátíð með samstarfsfólkinu mínu. þar var skræpótt fólk innanum skræpóttar skreytingar til dæmis að húlla. það var mikið sungið og hlegið og talað og hlegið og brosað og hlegið. sumir borðuðu orma úr flöskum og sumir voru ekki eins góðir og sumir með húllahringinn. sumir elduðu ógeðslega góðan mexíkanskan mat sem sumir borðuðu með bestu lyst á meðan sumir drukku áfenga drykki. sumir spiluðu á gítar með hárkollu og sumir spiluðu á píanó en sumir aðrir spiluðu bara á myndavélar.
þegar sumir voru farnir heim að sofa langaði suma að skella sér í pottinn og sumir fylltu hann af vatni á meðan sumir þurftu að sannfæra suma um að koma með útí. sumir töluðu um að fara á spottanum í pottinn en stungu svo af en að lokum enduðu sumir í hálfgerðri súpu ofaní pottinum þangað til sumir fóru uppúr og létu suma aðra vita að klukkan væri orðin fáránlega margt.
svo fóru sumir í leigubíl heim til sumra til að halda aðeins áfram en þegar þangað var komið héldu sumir áfram að spjalla en sumir sofnuðu. svo man ég ekki meir því ég var þessi sem sofnaði. kom heim þegar laugardagur var löngu kominn.

en djöfull eru sumir skemmtilegt fólk!

Engin ummæli: