ég hef aldrei horft á þættina um aðþrengdar eiginkonur. einhverra hluta vegna held ég að ég sé flutt þangað.
hér eru þrettán hús í þremur raðhúsalengjum sem eru lokaðar af með stóru hliði. í hverju húsi býr fólk á aldrinum 30-40 með eitt eða tvö börn, einn til tvo bíla og eitt til tvö gæludýr.
í númer eitt býr hollenskur maður ásamt mexíkanskri konu sinni og tveimur unglingum sem eru meiri mexíkanar en hollendingar. hann heitir erik en ég man aldrei hvað konan hans heitir og hef ósköp lítið séð af henni og unglingunum.
í númer tvö býr mágur minn ásamt konu og tveimur unglingum. sá eldri er fótboltastrákur, 18 ára og sá yngri er ansi frekur og leiðinlegur 13 ára. svilkona mín í númer tvö er drottning kjaftasagnanna og veit allt um alla. hún er víst hætt að tala við nokkrar af nágrannakonunum sökum rifrilda og rugls...en það þýðir ekki að hún sé hætt að fylgjast með þeim og þeirra lífi.
í númer þrjú býr 28 ára stelpa með tveimur ungum sonum. hún er víst að skilja við spænska manninn sinn eftir að hafa uppgötvað framhjáhald og umræður um það virðist vera heitasta efnið hjá svilkonunni og þeim sem eru enn vinkonur hennar.
ég veit ekkert um fólkið í fjögur og fimm.
í númer sex búa fabiola og pepe ásamt spastískum syni og fjögurra ára dóttur. fabiola og svilkonan tala ekki saman eins og er en þær voru vinkonur.
í númer sjö búa veronica og luis ásamt lítilli dóttur. veronica og svilkonan eru miklar slúðurvinkonur og áfengisdrykkjufélagar. hinar tala í laumi um að eiginmaðurinn sé of eftirlátssamur við hana þar sem hann svæfir stundum dótturina og lætur hana alveg í friði þegar hún vill fá sér í glas og vaka frameftir.
ég bý í númer átta.
í númer níu búa loreto og fefu (loreto er konan), ásamt tveimur sonum, 12 og 14 ára. sá 14 ára er pínulítill og er að bíða eftir að fá ný nýru en þau sem hann fékk fyrir 12 árum er víst að gefa sig. þeir bræður eru góðir vinir frumburðar míns enda skemmtilegir strákar. loreto og svilkonan eru óaðskiljanlegar og svakalegar í slúðrinu. ég sat með þeim í gærkveldi og hlustaði á konu sem heitir frakkland (francia) lesa stjörnukortin þeirra sem þær úuðu og andvörpuðu yfir. í dag eru þær að reyna að átta sig á því hvernig þær geta lifað eftir spádómunum.
í númer tíu býr trúaða parið með litlu stelpuna. þau eru kölluð flanders fjölskyldan af slúðurkerlingunum.
um restina veit ég ekkert ennþá.
hér eru börnin úti að leika allan liðlangan daginn, hlaupandi úr húsi í hús, karlarnir vinna og konurnar rölta á milli heimila til að skiptast á skoðunum um hvaða ísskáp sé best að kaupa, hvaða fötum sé best að fara í í jógatíma og síðast en ekki síst til að skiptast á upplýsingum um nýjasta slúðrið.
ég er eiginlega of kaldhæðin fyrir svona samskipti... en ég læt mér nægja að glotta innra með mér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli