hananú. flugvélin frá njúv jork flutti mig suður yfir landamærin á methraða. flugið kom klukkutíma of snemma í hús sökum einhverra vinda og strauma og vindstrauma svo að ég stóð ein með kerru undir töskufjalli og barn eins og kirsuber ofaná efstu töskunni og beið eftir að vera sótt. svo komu nokkrir mexíkanar hlaupandi að sækja mig, kyssa mig og knúsa mig og þá var ég keyrð í nýja heimið mitt. svo var haldið partý. reyndar var það tvöföld afmælisveisla en ekki velkominpartý.
þar var etið og drukkið og á milli klukkan ellefu og tólf að staðartíma (þegar ég var orðin ansi slompuð úr þreytu og ferðarugli), stóðu 7 stuttir menn með yfirvaraskegg og stóra hatta og spiluðu mariachitónlist fyrir afmælisbörnin. það var þá sem það sló mig.....
ég er komin til mexíkó.
núna er fyrsti heili dagurinn að renna upp (hér erum við sko 5 klukkutímum á eftir íslandi klukkulega séð) og ég er að hugsa um að byrja á því að fara í sturtu, reyna að finna eitthvað af nothæfum fötum í ferðatöskunum, fá mér morgunmat (ef það er eitthvað til í ísskápnum) og horfa í kringum mig.
svo tölum við saman...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli