laugardagur, júní 09, 2007

ég er komin í betra skap. það er ennþá föstudagur hjá mér en komið yfir miðnætti hjá ykkur. á eftir verður afmæliskvöldmatur þeirrar fráskildu og allar kerlurnar í húsunum mæta, nema þær sem vilja ekki tala við hinar. ætli við verðum ekki um 8-9.
í dag eyddi ég öllum deginum í að gera eftirrétti. gulrótarköku og þennan þarna með rjómanum og ávöxtunum. gerði marens sem fór allur í klessu, en það sést ekkert því hann er á botninum. kerlurnar voru hérna að hjálpa mér að rífa gulrætur og svoleiðis og spjalla. þær spjalla um karlana sína og börnin og hinar konurnar og kærasta þeirrar fráskildu (þegar hún er ekki), en hún er jafn gömul og litla systir mín. kaupóða svilkonan kom hingað líka með mági mínum og hún er með í farteskinu gegnsæja verkfæratösku fulla af gerfinaglagræjum. á meðan ég kláraði að gera eftirréttina gekk hún frá öllum hinum konunum með langar plastneglur. nú er ég sú eina sem er með stuttar neglur.
þær töluðu líka um hjálpartæki ástarlífsins, klámblöð og aðlaðandi karlmenn. eiginlega svona aðþrengdar eiginkonur hitta beðmál í borginni. og svo drakk ég bjór eins og elva og lóa stungu svo viturlega uppá.
hér er eiginlega hálfgerð kommúnustemming hjá kvenpeningnum. þær vinna ekki úti og eru með indíánakonur til að þrífa og elda svo að það mætti segja að þær séu í krónísku fríi. á morgnana fara þær saman að fá sér morgunmat á kaffihúsi og slúðra. svo fara þær saman að útrétta, kaupa inn og stússast og slúðra. eftir hádegi fara þær saman að sækja börnin í skólann og slúðra. svo borðar hver í sínu húsi, stundum. stundum borða börnin mín heima hjá einhverjum öðrum og stundum borða ég hér og stundum annarstaðar. á kvöldin safnast þær saman í einhverju eldhúsinu og slúðra.
ég rottast með. samt nenni ég því ekki alltaf þó svo að þær séu ósköp indælar blessaðar. þá þykist ég þurfa að læra. eða fer að læra í alvörunni.

í höfuðborginni eru allir að deyja úr hita. þrjátíu og eitthvað gráður. fólk sefur með viftur í botni til að drukkna ekki í svita.
hérna er svalt og fínt. mæli meððí.

á morgun fer ég heim með kaupóðu svilkonunni, þessari sem á áttatíu og eitthvað gallabuxur, hundrað og eitthvað kjóla og þar frameftir götunum. hún ætlar að gefa mér öll þau föt sem mig langar í. verst að það verða bara efrihlutar því hún er svo lítil. en samt... hún kaupir bara dýr og fín föt svo að á sunnudaginn verð ég örugglega tilbúin til tískusýningar.

ég er farin að fá mér annan bjór.

Engin ummæli: